Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

989/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir Íslenskar getraunir nr. 543 13. október 1995. - Brottfallin

1. gr.

35. gr. a. reglugerðarinnar, sbr. reglugerð nr. 475, 6. júní 2006, orðast svo:

Félaginu er heimilt að starfrækja viðbótarleik við Lengjuna sem nefnist "Spilað í beinni". Leikurinn felur það í sér að hægt er að geta sér til um úrslit íþróttakappleikja á meðan viðkomandi íþróttakappleikur stendur yfir. Í þessari tegund leiksins eru stuðlar síbreytilegir eftir framgangi kappleiksins hverju sinni og ráðast af atvikum, svo sem skoruðum mörkum, gengi liðs o.s.frv. Sá stuðull, sem skráður er í aðaltölvu Íslenskrar getspár á því tímamarki sem ágiskun fer fram, gildir um leik þátttakanda.

Félagið hefur heimild til þess að stöðva getraunaleikinn tímabundið á hvaða tímamarki sem er meðan á kappleik stendur, t.d. ef svo virðist sem atvik geti orðið er áhrif getur haft að mati félagsins á útreikning stuðuls viðkomandi íþróttakappleiks, svo sem skorað mark, rautt spjald gefið, vítaspyrna tekin o.s.frv.

Í þessari tegund leiks gilda að öðru leyti sömu reglur og gilda um Lengjuna með þeirri undantekningu sem leiðir af eðli leiksins að heimilt sé að geta sér til um úrslit viðkomandi íþróttakappleiks meðan á honum stendur.

2. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 5. gr. laga um getraunir, nr. 59, 29. maí 1972, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. nóvember 2006.

Björn Bjarnason.

Fanney Óskarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica