Dómsmálaráðuneyti

242/2018

Reglugerð um rétt lögmanna frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita tímabundna þjónustu hér á landi.

1. gr.

Með lögmanni er í reglugerð þessari átt við þann sem er ríkisborgari í öðru ríki á Evrópska efna­hags­svæðinu (EES) og rétt hefur til að starfa undir einhverju eftirtalinna starfsheita:

  í Austurríki Rechtsanwalt
  í Belgíu Avocat/Advocaat/Rechtsanwalt
  í Búlgaríu Aдвокат
  í Danmörku Advokat
  í Eistlandi Vandeadvokaat
  í Finnlandi Asianajaja/Advocat
  í Frakklandi Avocat
  í Grikklandi Dikhgoroq (Dikigoros)
  í Hollandi Advocaat
  á Írlandi Barrister/Solicitor
  á Ítalíu Avvocato
  í Króatíu Odvjetnik/Odvjetnica
  á Kýpur Δικηγόροç
  í Lettlandi Zverinats advokats
  í Liechtenstein Rechtsanwalt
  í Litháen Advokatas
  í Luxembourg Avocat
  á Möltu Avukat/Prokuratur Legali
  í Noregi Advokat
  í Portúgal Advogado
  í Póllandi Adwokat/Radca prawny
  í Rúmeníu Avocat
  í Slóveníu Odvetnik/Odvetnica
  í Slóvakíu Advokát/Komerčný právnik
  á Spáni Abogado/Advocat/Avogado/Abokatu
  á Stóra-Bretlandi Advocate/Barrister/Solicitor
  í Sviss Avocat/Advokat, Rechtsanwalt, Anwalt, Fürsprecher, Fürsprech/Avvocato
  í Svíþjóð Advokat
  í Tékklandi Adokát
  í Ungverjalandi Ügyvéd
  í Þýskalandi Rechtsanwalt

Með heimalandi er í reglugerð þessari átt við það EES-ríki þar sem lögmaðurinn hefur rétt til að starfa sem sérfræðingur undir einhverju þeirra starfsheita sem talin eru upp í 1. mgr.

2. gr.

Lögmaður sem hyggst starfa hér á landi samkvæmt reglugerð þessari skal tilkynna það sýslu­manninum á Norðurlandi eystra.

Tilkynningunni skulu fylgja gögn er sanna að hann hafi í heimalandi sínu rétt til að starfa undir ein­hverju af þeim starfsheitum sem greinir í 1. mgr. 1. gr. Einnig skal lögmaður sýna fram á að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu, annaðhvort tryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfs­leyfi hér á landi eða ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi í heimalandi sínu sem veitir a.m.k. samsvarandi tryggingarvernd og sú ábyrgðartrygging sem íslenskum lögmönnum ber að hafa skv. reglugerð um starfsábyrgðartryggingar lögmanna. Lögmanni er ekki heimilt að veita þjón­ustu hér á landi fyrr en hann hefur lagt fram tilskilin gögn.

Sýslumaður tilkynnir Lögmannafélagi Íslands um þær tilkynningar sem berast skv. 1. mgr.

3. gr.

Lögmaður skal við störf sín hér á landi tilgreina á greinilegan hátt starfsheiti sitt í heimalandi sínu á opinberu tungumáli heimalandsins. Hann skal einnig tilgreina í hvaða fagfélagi hann er félagi í heimalandi sínu eða þann dómstól sem hann hefur rétt til að mæta fyrir samkvæmt lögum heima­lands síns.

4. gr.

Lögmaður sem veitir þjónustu hér á landi samkvæmt reglugerð þessari getur gætt hagsmuna málsaðila fyrir dómstóli hér á landi sem svarar til dómstóls þess sem hann hefur réttindi fyrir í heimalandi sínu.

5. gr.

Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með þeim lögmönnum sem veita þjónustu hér á landi sam­kvæmt reglugerð þessari. Ber þeim að starfa í samræmi við siðareglur íslenskra lögmanna og lög um lögmenn að undanskildum skilyrðum um starfsstöð og aðild að Lögmannafélagi Íslands.

Um niðurfellingu heimildar EES-lögmanns til að veita þjónustu hér á landi gilda ákvæði 13.-17. gr. laga um lögmenn eftir því sem við á.

6. gr.

Úrskurðarnefnd lögmanna leysir úr ágreiningsmálum er varða störf lögmanna sem veita þjónustu hér á landi samkvæmt reglugerð þessari.

Lögmannafélag Íslands skal tilkynna sýslumanni um ákvarðanir úrskurðarnefndar félagsins í kjölfar kvartana um störf lögmanna sem starfa hér á landi samkvæmt reglugerð þessari. Sýslumaður skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í heimalandi lögmannsins um slíkar ákvarðanir úrskurðarnefndarinnar.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 1. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, til innleiðingar á tilskipun nr. 77/249/EB, sem vísað er til í 2. tl. VII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 648/2005 um rétt lögmanna frá öðru EES-ríki til að veita tímabundna þjónustu hér á landi.

Dómsmálaráðuneytinu, 26. febrúar 2018.

Sigríður Á. Andersen.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica