Dómsmálaráðuneyti

660/2017

Reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

1. gr.

Rannsókn refsiverðra brota er í höndum lögreglu í því umdæmi þar sem þau eru framin, að því undan­skildu:

  1. að kynferðisbrot og manndráp og tilraun til slíkra brota sem framin eru í umdæmi lögreglu­stjórans á Norðurlandi vestra skulu rannsökuð af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra,
  2. að brot gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skulu rannsökuð undir stjórn ríkislögreglustjóra,
  3. að brot gegn XII. kafla, alvarleg brot gegn 128.-129. gr., 179. gr., 247.-251. gr., 253.-254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, alvarleg brot gegn skatta- og tollalögum, brot gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánaviðskipti og aðra fjármálastarfsemi, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og við­skiptum skulu rannsökuð af héraðssaksóknara. Einnig er héraðssaksóknara heimilt að annast rannsókn brota sem tengjast framangreindum brotum,
  4. að brot vegna kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skal skulu rannsökuð af héraðssaksóknara, sbr. þó e-lið,
  5. að brot vegna kæru á hendur starfsmanni héraðssaksóknara fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skulu rannsökuð af ríkissaksóknara.

Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur.

2. gr.

Lögreglustjóri hefur forræði á rannsókn brota, sem framin eru í umdæmi hans, þó með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í a-d-lið 1. mgr. 1. gr.

Nú fremur maður fleiri en eitt brot í fleiri en einu lögregluumdæmi og skal þá rannsókn þeirra fara fram á vegum eins lögreglustjóra ef unnt er, enda valdi það ekki verulegum töfum á rannsókninni. Rannsókn máls skal sá lögreglustjóri að jafnaði annast, sem fyrstur hóf rannsóknina.

3. gr.

Ef rannsókn máls er umfangsmikil, flókin eða kallar á ákveðna sérþekkingu, sem ekki er til staðar hjá viðkomandi lögreglustjóra, getur hann óskað eftir aðstoð frá öðru embætti vegna rannsóknar umrædds máls. Ber þeim lögreglustjóra, sem aðstoðarbeiðni er beint til, að verða við ósk um aðstoð, ef slíkt er unnt. Synjun lögreglustjóra má skjóta til ríkislögreglustjóra.

4. gr.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að setja verklagsreglur um samvinnu og samskipti lögreglustjóranna að höfðu samráði við ríkissaksóknara.

5. gr.

Einstakar rannsóknaraðgerðir í máli, utan þess lögregluumdæmis þar sem brot er framið, annast lögreglustjóri í því umdæmi sem sá dvelst, sem yfirheyra skal, eða vettvangur sá er eða munir, sem rannsóknaraðgerð lýtur að, sbr. þó 1. mgr. 1. gr. Lögreglustjórar skulu aðstoða hver annan við rannsókn máls, með því m.a. að annast einstakar rannsóknaraðgerðir, eftir beiðni þar um.

Lögreglustjóri getur annast rannsóknaraðgerð utan umdæmis síns, ef hætta er á að dráttur á aðgerðum lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi valdi sakarspjöllum. Lögreglustjóra í því umdæmi sem aðgerðin fór fram skal gert viðvart um hana eins fljótt og kostur er.

Við meðferð tiltekins máls geta lögreglustjórar samið um að lögreglustjóri sem annast rannsókn málsins megi annast rannsóknaraðgerð í þágu þess í umdæmi hins.

6. gr.

Lögreglustjórinn á Austurlandi rannsakar mál vegna innflutnings á fíkniefnum, mansals eða annarra brota sem kunna að tengjast skipulagðri brotastarfsemi sem upp koma í tengslum við hafnir á Austurlandi eða Egilsstaðaflugvöll. Í þeim tilvikum skal hann hafa náið samráð við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórann á Suðurnesjum, vegna mögulegra tengsla við mál sem til rannsóknar eru hjá þeim embættum. Sama gildir um önnur hliðstæð mál sem upp koma í öðrum umdæmum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Suðurnesjum skulu hafa með sér náið og reglubundið samráð og samvinnu vegna rannsókna mála sem varða innflutning fíkniefna, mansal eða önnur brot sem kunna að tengjast skipulagðri brotastarfsemi.

7. gr.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu metur, að höfðu samráði við lögreglustjóra í umdæmi þar sem brot var framið, hvort nauðsynlegt sé að senda starfsmann eða starfsmenn frá tæknideild til að aðstoða við vettvangsrannsókn, samkvæmt 4. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu má skjóta til ríkislögreglustjóra.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 8. gr. og 40. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996 með áorðnum breytingum, öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir, rannsóknar­aðstoð og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála nr. 192/2008.

Dómsmálaráðuneytinu, 3. júlí 2017.

Sigríður Á. Andersen.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica