I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um gerð og notkun einkennisbúninga, einkennismerkja og skilríkja sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.
2. gr.
Sýslumenn skulu bera einkennisfatnað eftir því sem þurfa þykir eins og mælt er fyrir um í reglugerð þessari.
Löglærðir fulltrúar sýslumanna skulu bera einkennisfatnað samkvæmt reglugerð þessari, eftir því sem þurfa þykir, eftir ákvörðun sýslumanns.
Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu bera skilríki eins og mælt er fyrir um í reglugerð þessari.
II. KAFLI
Merki og einkenni sýslumanna.
3. gr.
Merki sýslumanna.
Merki sýslumanna skal vera gylltur munstraður hringur og er hluta af sverðsblaði með hjöltum stungið niður í hringinn. Merkið skal vera 3,5 sm á hæð, breidd hjaltanna 3 sm, en hringurinn 2,5 sm í þvermál.
4. gr.
Einkennishnappar.
Einkennishnappar sýslumanna og fulltrúa þeirra skulu vera hringlaga, kúptir, gylltir með upphleyptri mynd af skjaldarmerki Íslands. Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 1,6 sm í þvermál en hin stærri 2,4 sm í þvermál.
5. gr.
Axlafetill.
Axlafetill skal fléttaður úr gylltum borða upphleyptum, þverbryddur að ofan og framan og ganga borðaendarnir felldir undan fremri bryddingunni. Fetillinn skal vera u.þ.b. 3 sm breiður að ofan og tvöfalt breiðari að framan.
III. KAFLI
Gerð einkennisfatnaðar sýslumanna og fulltrúa þeirra.
6. gr.
Einkennisfatnaður sýslumanna.
Einkennisfatnaður sýslumanna við dagleg störf skal vera sem hér segir:
7. gr.
Einkennisfatnaður löglærðra fulltrúa sýslumanna.
Einkennisfatnaður löglærðs fulltrúa skal vera sá sami og einkennisfatnaður sýslumanna að undanskildum eftirtöldum atriðum:
Húfa: Á reisn að framan skal vera skjaldarmerki Íslands, 3 sm hátt, gyllt að lit og úr málmi. Borðinn á gjörð skal vera 2,5 sm breiður.
Jakki: Jakki skal vera án kragamerkis.
8. gr.
Stóla.
Stóla skal vera úr svörtu ullarefni, um 140 sm að lengd og 14 sm breið. Innra byrði skal vera úr stömu, svörtu efni. Hvor endi skal vera með 130 gráðu útstætt horn fyrir miðju. Tveir samhliða gylltir borðar, 1,1 sm á breidd með 1,5 sm bili skulu þvera báða enda stólunnar. Neðri brún neðri borðans skal vera 5 sm frá miðhorni hennar. Efri borðarnir skulu vera tvískiptir og hver hluti um 4 sm að lengd frá ytri brún. Milli þeirra fyrir miðju skal vera ísaumað skjaldarmerki 3,5 sm á hæð og 3,5 sm á breidd úr gylltu efni. Um 33,5 sm frá miðhorni skal vera ísaumað einkennismerki sýslumanna úr gylltu efni um 3,5 sm á breidd og 4 sm á hæð.
Stóla löglærðs fulltrúa sýslumanna skal vera án neðri borða.
9. gr.
Hátíðarbúningur sýslumanna.
Hátíðarbúningur er sem segir í 6. gr. og skal hann prýddur sérstökum einkennum sem hér segir:
10. gr.
Skikkjur.
Skikkja skal vera úr lipru ullarefni, dökkblá að lit, nokkuð víð og skal ná niður fyrir hné. Kragalaus, boðungar kræktir saman að framan. Ísettar ermar, nokkuð víðar, beinar niður. Rúnnað herðastykki, úr sléttu bómullarflaueli, í bláum lit sem næst aðallit skikkjunnar. Kantur á boðungum 10 sm og framan á ermum 8 sm, úr sama efni. Lokufellingar á bakstykki undir herðastykki.
IV. KAFLI
Notkun einkennisfatnaðar.
11. gr.
Sýslumenn og löglærðir fulltrúar.
Einkennisfatnað skv. 6. og 7. gr. skal nota að jafnaði við embættisathafnir á skrifstofu eða utan hennar þegar nauðsynlegt eða æskilegt er að gefa til kynna framkvæmd opinbers valds og ef sérstakar ástæður mæla því ekki gegn. Hann skal nota við eftirfarandi athafnir:
Heimilt er að nota stólu skv. 8. gr. í stað einkennisfatnaðar skv. 6. og 7. gr. við embættisathafnir ef aðstæður mæla með því að mati sýslumanns.
Við hjónavígslur á skrifstofu er heimilt að notast við skikkjur skv. 10. gr. í stað einkennisfatnaðar.
12. gr.
Hátíðarbúningur sýslumanna.
Sýslumaður skal nota hátíðarbúning við opinber og/eða hátíðleg tækifæri. Hátíðarbúning skal nota við eftirfarandi athafnir:
Sýslumanni er heimilt að nota hátíðarbúning við hjónavígslur.
V. KAFLI
Úthlutun og meðferð einkennisfatnaðar.
13. gr.
Sýslumenn fá einkennisfatnað við upphaf starfs. Einkennisfatnað skal endurnýja eftir því sem þörf krefur. Einkennisfrakka skal þó eigi endurnýja oftar en á sex ára fresti, nema sérstaklega standi á.
Löglærðir fulltrúar er gegna starfi sem útheimtir notkun einkennisfatnaðar samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skulu fá einkennisfatnað í upphafi starfs. Þó er heimilt að fresta afhendingu um þriggja mánaða skeið, ef unnt er, uns reynslutími samkvæmt ráðningarsamningi er liðinn.
Aðrir löglærðir fulltrúar en skv. 2. mgr. skulu fá einkennisfatnað eftir því sem þurfa þykir, eftir ákvörðun sýslumanns. Einkennisfrakka skal þó endurnýja eigi oftar en á sex ára fresti, nema sérstaklega standi á.
Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar skulu sýslumenn og fulltrúar þeirra greiða sjálfir. Þeir skulu þó fá greitt fyrir eina fatahreinsun á ári. Meiri háttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfans skal bætt með nýjum einkennisklæðnaði.
14. gr.
Kaup á einkennisfatnaði.
Sýslumenn skulu annast innkaup á einkennisfatnaði fyrir sig og fulltrúa sína í samræmi við reglugerð þessa. Óheimilt er að taka út annan fatnað en einkennisfatnað á grundvelli þessarar reglugerðar.
Einkennisfatnaður skal á hverjum tíma keyptur hjá þeim söluaðila er innanríkisráðuneytið vísar á.
Þegar sýslumaður eða löglærður fulltrúi endurnýja einkennisfatnað sinn skal eldri búningi skilað til sýslumanns og leitast skal við að nota sömu einkenni og prýða eldri búning. Þetta á við um einkennishnappa, kragamerki, axlafetil og húfumerki. Einkenni skal þó ekki endurnýta ef einkennin eru 6 ára gömul eða eldri nema þau séu í þeim mun betra ásigkomulagi. Séu einkenni ónothæf ber að senda þau til innanríkisráðuneytisins til eyðingar.
Þegar einkennisfatnaður hefur verið pantaður og er tilbúinn þá skal söluaðili senda viðkomandi sýslumannsembætti einkennisfatnaðinn.
Sýslumenn skulu halda skrá yfir afhentan einkennisfatnað sem send er innanríkisráðuneytinu árlega eða gera grein fyrir þessu í ársskýrslu.
15. gr.
Eignaheimild og skil á einkennisfatnaði.
Einkennisfatnaður sem sýslumaður eða löglærður fulltrúi hefur fengið afhentan samkvæmt reglugerð þessari og notað lengur en í þrjú ár, skal teljast hans eign. Tilheyrandi einkennum ber honum þó að skila til viðkomandi sýslumanns við starfslok.
Löglærðum fulltrúum, sem starfað hafa skemur en í þrjú ár, ber við starfslok að skila öllum einkennisfatnaði og einkennum sem þeir hafa fengið afhentan vegna starfans.
Sýslumenn skulu skila öllum einkennum af einkennisfatnaði, sem ekki verða endurnýtt sbr. 12. gr., til innanríkisráðuneytisins.
Hafi sýslumaður gegnt embætti í fimm ár eða lengur er honum heimilt að halda einkennishúfu til minja með öllum einkennismerkjum. Sama gildir um fulltrúa hans, hafi hann gegnt stöðu fulltrúa í fimm ár eða lengur.
Sýslumaður sem lætur af embætti fyrir aldurs sakir skal halda einkennisfatnaði með öllum einkennum.
16. gr.
Notkun einkennisfatnaðar utan vinnutíma.
Sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra er óheimilt að nota einkennisfatnaðinn án þess að eiga í embættiserindum. Ef um er að ræða notkun erlendis skal óska heimildar innanríkisráðuneytisins.
Sýslumanni sem látið hefur af embætti fyrir aldurs sakir er heimilt að nota einkennisfatnað sinn við sérstök hátíðleg tækifæri og/eða sérstakar minningarathafnir að fengnu leyfi innanríkisráðuneytisins.
17. gr.
Lán eða leiga einkennisfatnaðar sýslumanna.
Sýslumönnum er í sérstökum undantekningartilvikum heimilt að lána einkennisbúninga endurgjaldslaust.
Um útlán einkennisbúninga gilda eftirfarandi reglur:
VI. KAFLI
Skilríki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.
18. gr.
Á skilríkjum sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra skal vera merki sýslumanna og skjaldarmerki íslenska ríkisins ásamt árituninni "Sýslumaður". Þar skal vera andlitsmynd af skilríkishafa, nafn hans, kennitala, stöðuheiti, raðnúmer og útgáfudagur skilríkisins. Þá skal skilríkið vera undirritað af viðkomandi sýslumanni og bera stimpil hans. Að öðru leyti ákveður ráðuneytið útlit skilríkjanna í verklagsreglum.
Innanríkisráðuneytið getur falið einum sýslumanni að annast útgáfu skilríkja samkvæmt 1. gr. og umsýslu vegna þeirra á landsvísu.
19. gr.
Notkun skilríkja sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.
Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu ávallt bera skilríkin á sér við embættisathafnir utan skrifstofu sinnar og geta framvísað þeim, sé þess óskað.
Óheimilt er að nota skilríkin í öðrum tilgangi en við skyldustörf.
Skilríkin eru eign þess sýslumannsembættis sem gefur það út og ber starfsmönnum að skila þeim er þeir láta af störfum.
20. gr.
Ágreiningsmál.
Innanríkisráðherra sker úr ágreiningi sem upp kann að koma svo sem um notkun einkennisfatnaðar, gerð hans og afhendingu, svo og öðrum vafaatriðum við framkvæmd reglugerðar þessarar.
21 gr.
Öðrum en sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra er óheimilt að nota skilríki, einkenni, merki og/eða einkennisfatnað sýslumanna eða fatnað sem er svo áþekkur þeim er sýslumenn nota, að hætta sé á að á verði villst.
Brot gegn reglugerðinni geta varðað refsingu skv. 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VII. KAFLI
Gildistaka.
22. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 6. gr. laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði nr. 92 1. júní 1989, sbr. 8. gr. laga nr. 24/2007, öðlast þegar gildi.
Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisfatnað og merki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra nr. 480/2008.
Innanríkisráðuneytinu, 20. september 2013.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Ragnhildur Hjaltadóttir.