Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

914/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja, nr. 78 30. janúar 1997. - Brottfallin

914/2000
REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja, nr. 78 30. janúar 1997.

1. gr.

8. gr. orðist svo:
Umsókn um skráningu ökutækis skal senda skráningarstofu eða aðila í umboði hennar á eyðublaði sem skráningarstofa lætur í té.

Áður en ökutæki er skráð skal það hafa hlotið heildargerðarviðurkenningu, gerðarviðurkenningu eða skráningarviðurkenningu Ekki er heimilt að skrá fólksbifreið á grundvelli þjóðargerðarviðurkenningar. Um viðurkenningu skráningarskyldra ökutækja fer samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Við skráningu á viðurkenndu ökutæki skal það fært til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar þar sem gengið skal úr skugga um samræmi milli skráningarmerkja, skráningar og verksmiðjunúmers ökutækis og réttur skoðunarmiði límdur á skráningarmerkið.

Með beiðni fulltrúa um skráningu á grundvelli heildargerðarviðurkenningar eða gerðarviðurkenningar skal fylgja eftirfarandi yfirlýsing hans:

"Ökutækið er í samræmi við heildar-/gerðarviðurkenningu að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað. Ökutækið er í lögmæltu ástandi og ljós eru rétt stillt. Samræmi er milli skráningarmerkja, skráningar og verksmiðjunúmers ökutækisins og réttur skoðunarmiði hefur verið límdur á skráningarmerkið".


2. gr.

9. gr. orðist svo:
Áður en ökutæki, sem ætlað er til að flytja hættulegan farm, er skráð þannig skal það hafa hlotið viðurkenningu samkvæmt reglugerð um flutning á hættulegum farmi og reglugerð um gerð og búnað ökutækja um að það uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíks ökutækis. Skrá skal fyrir hvaða hættulegan farm ökutækið er viðurkennt.


3. gr.

Viðauki, sbr. breytingar nr. 533 31. ágúst 1998 og nr. 135 19. febrúar 1999, fellur niður.


4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 60., 64., 64.a og 67. gr. umferðarlaga nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 29. nóvember 2000.

Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica