223/2001
Reglugerð um landamærastöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda. - Brottfallin
223/2001
REGLUGERÐ
um landamærastöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda.
1. gr.
Þegar farið er um ytri landamæri Schengen-svæðisins skal koma til landsins og för úr landi fara fram á þeim landamærastöðvum og afgreiðslutímum sem um getur í 2. gr.
Með för skipa yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla umferð skipa til og frá landinu. Þetta gildir þó ekki um:
a. |
íslensk fiskiskip sem hvorki hafa haft viðkomu í erlendri höfn né lagst að skipi á hafi úti og áhöfn eða farþegar komið eða farið frá borði, |
b. |
farþegaferjur með síðasta viðkomustað innan Schengen-svæðisins, |
c. |
skemmtiferðaskip með síðasta viðkomustað innan Schengen-svæðisins eða ef næsti viðkomustaður þess er ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. |
Með för loftfara yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla flugumferð til og frá landinu frá yfirráðasvæði ríkis sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
Þegar sérstaklega stendur á má með leyfi hlutaðeigandi lögreglustjóra fara um ytri landamæri utan landamærastöðva og afgreiðslutíma þeirra.
2. gr.
Flugvellir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar: 1. Reykjavík, 2. Akureyri, 3. Egilsstaðir, 4. Höfn, 5. Keflavík.
Hafnir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar: 1. Reykjavík, 2. Grundartangi, 3. Akranes, 4. Grundarfjörður, 5. Patreksfjörður, 6. Bolungarvík, 7. Ísafjörður, 8. Skagaströnd, 9. Sauðárkrókur, 10. Siglufjörður, 11. Akureyri, 12. Húsavík, 13. Raufarhöfn, 14. Þórshöfn, 15. Vopnafjörður, 16. Seyðisfjörður, 17. Fjarðarbyggð, 18. Fáskrúðsfjörður, 19. Höfn, 20. Vestmannaeyjar, 21. Þorlákshöfn, 22. Grindavík, 23. Sandgerði, 24. Reykjanesbær, 25. Hafnarfjörður.
Afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli er allan sólarhringinn en á öðrum landamærastöðvum fer afgreiðslutími eftir beiðni.
3. gr.
Stjórnandi skips á leið til landsins yfir ytri landamæri skal tilkynna Landhelgisgæslu Íslands um komu minnst 12 klst. áður en siglt er inn í landhelgina. Á sama tíma skal einnig tilkynna áætlaða brottför. Staðfestingu á brottför úr höfn skal tilkynna Landhelgisgæslunni a.m.k. 6 klst. fyrir brottför.
Í tilkynningu skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um skip í þessari röð:
a. |
nafn, |
b. |
einkennisstafir, |
c. |
radíókallmerki, |
d. |
þjóðerni, |
e. |
tegund, |
f. |
dagsetning, |
g. |
tími, |
h. |
staðsetning, |
i. |
áætlaður komutími, |
j. |
áætlaður brottfarartími. |
Með tilkynningu skal fylgja skrá yfir áhöfn og farþega skips. Í skránni skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um áhöfn og farþega í þessari röð:
a. |
þjóðerni, |
b. |
kenninafn, |
c. |
eiginnafn, |
d. |
fæðingardagur, |
e. |
kyn, |
f. |
númer vegabréfs eða sjóferðabókar, |
g. |
staða áhafnarmeðlims. |
Heimilt er að senda Landhelgisgæslunni skrá yfir áhöfn og farþega skips fyrir milligöngu skipafélags eða miðlara en skipstjóri ber ábyrgð á að skránni sé skilað. Allar breytingar á skipan áhafnar eða farþega ber tafarlaust að tilkynna Landhelgisgæslunni.
Með heimild hlutaðeigandi lögregustjóra má víkja frá ákvæðum greinar þessarar.
4. gr.
Tafarlaust ber að tilkynna lögreglu um laumufarþega í skipi og áður en komið er til hafnar ef unnt er.
5. gr.
Landhelgisgæslan tekur við tilkynningum og skrám yfir áhöfn og farþega skv. 3. gr. á rafrænu formi. Senda skal á X-400 eða Immarsat C númeri Landhelgisgæslunnar. Sending upplýsinga með símbréfi eða upplestri um talstöð er einungis heimil þegar fáir eru um borð og ekki er unnt að senda gögn með rafrænum hætti.
6. gr.
Landhelgisgæslan skal staðfesta móttöku upplýsinga skv. 3. gr. Landhelgisgæslan skal framsenda upplýsingarnar til ríkislögreglustjóra sem staðfesta skal móttöku þeirra.
Að lokinni athugun í Schengen-upplýsingkerfinu skal ríkislögreglustjóri senda niðurstöður þeirrar athugunar til hlutaðeigandi lögreglustjóra.
Dómsmálaráðherra setur nánari verklagsreglur um samstarf Landhelgisgæslu, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra um persónueftirlit í höfnum.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. og 3. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, sbr. lög nr. 25 9. maí 2000, öðlast gildi 25. mars 2001.
Jafnframt fellur úr gildi auglýsing um komu- og brottfararstaði, nr. 276 18. júní 1987.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 14. mars 2001.
Sólveig Pétursdóttir.
Benedikt Bogason.