Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

9/1994

Reglugerð um greiðslu útfararkostnaðar o.fl. - Brottfallin

Reglugerð

um greiðslu útfararkostnaðar o.fl.

1. gr.

Kirkjugörðum eða kirkjugarðasjóði ber að greiða kostnað vegna prestsþjónustu við útfarir, gjafartöku og árlegt viðhald legstaða.

Greiðsluskyldur útfararkostnaður er:

  1. Þóknun til prests og annar kostnaður samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma fyrir aukaverk presta.
  2. Eðlilegur kostnaður við grafartöku.

Kirkjugarði ber að greiða eðlilegan kostnað við árlegt viðhald legstaðar, svo sem hreinsun hans, hirðingu trjáa og annars gróðurs og smávægilegar lagfæringar á leiði, minnismerki eða öðru, eftir því sem nauðsyn krefur.

2. gr.

Greiðsluskylda samkvæmt a lið 2. málsgr. 1. gr. hvílir á kirkjugarði þeim sem kirkjugarðgjöld hins látna runnu til á dánardægri hans, en á kirkjugarðasjóði hafi kirkjugarðsgjöld hins látna runnið þangað. Greiðsluskylda vegna andláts barns sem eigi hefur greitt kirkjugarðsgjöld hvílir á kirkjugarði þeirrar sóknar þar sem barnið átti lögheimili á dánardægri.

Skylda til greiðslu annars kostnaðar vegna prestsþjónustu en þóknunar til prests, sbr. a lið 2. málsgr. 1. gr., ef honum er til að dreifa, takmarkast að jafnaði við fjárhæð sem nemur 1/3 af þóknun til prests fyrir kistulagningu og greftrun með ræðu.

Kostnaður samkvæmt b lið 2. málsgr. 1. gr. og 3. málsgr. 1. gr., greiðist af kirkjugarði þeim er hinn látni er jarðsettur í.

Ef jarðsett er í löglegan heimagrafreit greiðir kirkjugarður sóknar kostnað þann er greinir í b lið 2. málsgr. 1 gr. en þó eigi meira en nemur eðlilegum kostnaði við viðhald legstaða í heimagrafreit.

3. gr.

Ef telja má að greiðsla útfararkostnaðar samkvæmt reglugerð þessari sé fjárhag kirkjugarðs ofviða ber kirkjugarðasjóði að greiða nefndan kostnað, að ósk viðkomandi kirkjugarðsstjórnar.

Kirkjugarðsstjórn ber að leggja fullnægjandi gögn um fjárhag kirkjugarðs fyrir stjórn kirkjugarðasjóðs ef þess er farið á leit.

Fari stjórn kirkjugarðs þess á leit er stjórn kirkjugarðasjóðs heimilt að ákveða að greiða útfararkostnað samkvæmt 1. gr. reglugerðar þessarar sem falla kann á kirkjugarðinn um tveggja ára skeið í senn, án undangenginnar umsóknar hverju sinni.

4. gr.

Biskup sker úr ágreiningu um greiðsluskyldu og fjárhæð greiðslna samkvæmt reglugerð þessari. Skjóta má úrlausn hans til dóms- og kirkjumálaráðherra.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 50. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4 maí 1993, öðlast þegar gildi.

Dóms og kirkjumálaráðuneytinu, 7. janúar 1994.

Þorsteinn Pálsson.

Guðmundur Þór Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica