REGLUGERÐ
um hleðslu, frágang og merkingu á farmi.
Skilgreining.
1. gr.
Farmur í skilningi reglugerðar þessarar er það sem ökutæki er lestað með og ekki er varanlega fest við það. Þegar farmur hefur verið losaður af ökutæki er þyngd þess hin sama og eigin þyngd.
Hleðsla og frágangur á farmi.
2. gr.
Á eða í ökutæki má eigi flytja eldfimt efni, t.d. eldsneyti eða efni sem hætta er á að springi, nema efnið eða umbúðir þess sé merkt sem slíkt, að það sé í umbúðum sem ætlaðar eru til að flytja slíka vöru og að frá því sé gengið þannig að ekki stafi hætta af flutningnum.
3. gr.
Farm má því aðeins flytja á þaki ökutækis að hann sé festur tryggilega á þakgrind eða annars konar þakfestingar.
4. gr.
Farmi skal þannig fyrir komið að hann hvíli hlutfallslega sem réttast á ásum ökutækis og sem jafnast á hjólum sama áss. Á ökutæki með stýrð hjól skal a.m.k. 20% af heildarþyngd ökutækisins hvíla á stýrðu hjólunum og a.m.k. 25% á drifhjólum.
Tímabundin lenging á yfirbyggingu ökutækis vegna fjárflutninga má aldrei vera meiri en 1,3 m aftur fyrir samþykktan vöruflutningapall.
5. gr.
Farmur skal vera tryggilega festur og þakinn ef með þarf. Gámur skal festur með þar til gerðum festingum. Keðjur, tó og annar búnaður til að festa með farm skal vera traustur og má ekki hanga laus utan á ökutækinu eða dragast eftir vegi.
6. gr.
Þegar fluttur er laus farmur, t.d. jarðefni eða grjót, skal farmi þannig fyrir komið og um hann búið að ekki sé hætta á að hann falli af ökutækinu við snögga hraða- eða stefnubreytingu.
Merking á farmi.
7. gr.
Farmur sem nær meira en 100 sm aftur fyrir ökutæki skal aftast á ystu brúnum auðkenndur með a.m.k. einu merki sem er a.m.k. 50 sm á hæð og a.m.k. 25 sm á breidd með u.þ.b. 5 sm breiðum gulum og rauðum röndum með endurskini. Í myrkri og skertu skyggni skal farmur auk þess á sama hátt auðkenndur með a.m.k. einu rauðu ljósi sem sést aftan frá og frá báðum hliðum.
Farmur sem nær meira en 100 sm fram fyrir ökutæki skal fremst á ystu brúnum auðkenndur með a.m.k. einu merki, sbr. 1. mgr. Í myrkri og skertu skyggni skal farmur auk þess á sama hátt auðkenndur með a.m.k. einu hvítu ljósi sem sést framan frá og frá báðum hliðum.
Farmur sem nær meira en 20 sm til hliðar út fyrir ökutæki og farmur sem er breiðari en 2,55 m skal auðkenndur með a.m.k. einu merki, sbr. 1. mgr. Í myrkri eða skertu skyggni skal farmur auk þess auðkenndur með a.m.k. einu hvítu ljósi sem lýsir fram og a.m.k. einu rauðu ljósi sem lýsir aftur. Merki og ljósker skulu vera yst á farminum og beggja megin ef hann stendur út af báðum hliðum ökutækisins. Merking skal alltaf vera vel sýnileg, bæði framan frá og aftan frá.
Lýsandi flötur hvers ljóskers skal vera a.m.k. 30 sm2. Ljósið má ekki valda glýju, en það skal sjást í a.m.k. 150 m fjarlægð. Hæð frá akbraut að neðri brún lýsandi flatar ljóskers skal ekki vera meiri en 2 m.
Lenging á palli fjárflutningabifreiðar skal búin samskonar ljóskerum og glitaugum og krafist er aftan á vörubifreið.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 73. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, og öðlast gildi 1. desember 1992. Jafnframt fellur úr gildi 22. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja o.fl., nr. 51 15. maí 1964.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 30. október 1992.
Þorsteinn Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.