Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

536/1988

Reglugerð um sölu og meðferð skotelda - Brottfallin

Nr. 536

 

REGLUGERÐ

um sölu og meðferð skotelda.

 

1. gr.

Með skoteldum er í reglugerð þessari átt við flugelda, reyk-, táragas- og hvellsprengjur og  ýmiss konar skrautelda.

 

2. gr.

Enginn má flytja til landsins í söluskyni skotelda nema með leyfi lögreglustjórans í  Reykjavík, er hefur á hendi yfirumsjón af hálfu lögregluyfirvalda með innflutningi skotelda til landsins.

Í leyfisumsókn skal tilgreina framleiðslustað skotelda og eiginleika þeirra, svo sem tegund, stærð og samsetningu, þ.á.m. hvort notkun skotelda hefur í för með sér sprengingu, ásamt  upplýsingum um hvort skoteldur gefur frá sér rautt ljós eða appelsínugulan reyk við notkun.

Lögreglustjóri getur krafist þess, áður en hann tekur afstöðu til umsóknar um innflutn­ingsleyfi á skoteldum, að innflytjandi láti honum í té sýnishorn af fyrirhuguðum innflutningi,  sem lögreglustjóri rannsakar eða lætur rannsaka á kostnað innflytjanda.

Óheimilt er að tollafgreiða greindar vörur fyrr en leyfi liggur fyrir.

Synji lögreglustjóri innflytjanda um innflutningsleyfi á skoteldum, getur innflytjandi  skotið þeirri ákvörðun lögreglustjóra til dómsmálaráðherra.

 

3. gr.

Enginn má versla með skotelda í smásölu nema hann hafi til þess leyfi frá hlutaðeigandi  lögreglustjóra og uppfylli að öðru leyti skilyrði laga nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og  skotelda.

Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félögum leyfi til þess að selja skotelda í smásölu,  enda þótt þau hafi ekki verslunarleyfi.

Aðeins skal veita þeim leyfi til sölu skotelda í smásölu, sem hafa til umráða fullnægjandi  húsnæði til geymslu skoteldanna að mati hlutaðeigandi lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra.  Lögreglustjóri getur hvenær sem er og án sérstakrar heimildar krafist þess að fá aðgang

að húsnæði þar sem verslað er með skotelda eða þar sem birgðir af þessum vörum eru  geymdar. Heimilt er lögreglustjóra að taka sýnishorn af vörum þessum í sína vörslu til þess að  rannsaka eða láta rannsaka eiginleika þeirra.

Nú er húsnæði, framleiðsluháttum eða vörslu varanna ábótavant að mati lögreglustjóra,  og getur hann þá til bráðabirgða lagt hald á skotelda eða sprengiefni, enda geri hann dómsmálaráðuneytinu tafarlaust viðvart um þá framkvæmd.

 

4. gr.

Skylt er innflytjanda skotelda að sjá um að allar tegundir skotelda, sem hann flytur til  landsins og selur, séu með álímdum eða áprentuðum leiðbeiningum á íslensku, þar sem fram  komi stutt lýsing á eiginleikum skoteldanna og hvernig beri að nota þá þannig að sem minnst  hætta stafi af. Þar skal sérstaklega tekið fram ef óráðlegt þykir, að börn eða unglingar innan 16  ára meðhöndli þá. Lögreglustjóri getur heimilað að minnstu og einföldustu tegundir skotelda  verði ekki merktar, enda verði dreift vönduðum og skýrum leiðbeiningabæklingi til kaup­enda.

Bannað er að selja eða afhenda þá barni eða unglingi innan 16 ára, ef slíks er getið í  leiðbeiningunum.

Öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil.

 

5. gr.

Óheimilt er að flytja inn og selja svokallaða "kínverja", reyk- og lyktarsprengjur ýmiss  konar og sprengikúlur. Einungis skal heimilt að flytja inn og selja svonefndar "púðurkerling­ar", "tívolbombur", "stór rómversk kerti" (big roman candels), "loftsprengjur" (air bombs),  "Flower Pots" og "Air Travel", til aðila er standa fyrir flugeldasýningum og lögreglustjóri  hefur heimilað í því sambandi. Óheimilt er að flytja inn og selja alla aðra þá skotelda, hverju  nafni sem nefnast, sem er skotið eða kastað og springa á jörðu niðri og geta verið hættulegir  heilsu manna sökum sprengikrafts.

Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi, þannig að hann hljóti aðra eiginleika en  framleiðandi hans ætlaðist til.

Dómsmálaráðuneytið ákveður hverju sinni, með umburðarbréfi til allra lögreglustjóra,  hvort ástæða er til að banna frekar innflutning og sölu á tilteknum tegundum skotelda.  Árlega skal lögreglustjórinn í Reykjavík halda fund með innflytjendum og skal síðan  útbúinn listi yfir þær vörur sem bannaðar eru.

 

6. gr.

Almenn notkun og sala skotelda til almennings er óheimil, nema á tímabilinu 27.  desember til 6. janúar, að báðum dögum meðtöldum, nema með leyfi lögreglustjóra. Þó er  aðeins heimilt að skjóta upp eldri neyðarflugeldum, sé ekki um raunverulega neyð að ræða, á  gamlárskvöldi og þrettándakvöldi fram til kl. 01.00 eftir miðnætti.

Heimilt er lögreglustjórum að veita leyfi til flugeldasýninga í tengslum við hátíðahöld eða  aðra skemmtistarfsemi, þar sem almenningi er heimilaður aðgangur.

Undanþegnir hinu almenna banni um notkun skotelda á ofangreindu tímabili eru  slysavarnarfélög og önnur hjálpar- og björgunarsveitarsamtök, ef notkun skoteldanna er liður  í þjálfun meðlima þeirra eða annarra aðila, er þurfa starfa sinna vegna að kunna skil á meðferð  skotelda í neyðartilvikum. Jafnframt skal tilkynna lögreglu um slíkar æfingar.

 

7. gr.

Leyfi til að geyma skotelda veitir lögreglustjóri að fenginni umsögn slökkviliðsstjóra.  Á geymslustað eða verslunarstað er skylt að hafa við höndina handslökkvitæki eða annan  slökkvibúnað sem kveðið er á um í reglum um brunavarnir.

 

8. gr.

Brot á reglugerð þessari varðar viðurlögum samkvæmt VII. kafla laga nr. 46/1977.

 

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni  og skotelda og tekur gildi þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 258 7.  desember 1964 um sölu og meðferð á flugeldum og öðrum skoteldum.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 19. desember 1988.

 

F.h.r.Þorsteinn Geirsson.

Hjalti Zóphóníasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica