I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi er sakborningur, sem dómstóll hefur úrskurðað í gæsluvarðhald, samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
2. gr.
Gæsluvarðhaldsfangar skulu sæta þeirri meðferð sem nauðsynleg er til þess að gæslan komi að gagni og góð regla haldist í gæslunni, en varast skal að beita þá hörku eða harðýðgi. Fangelsisyfirvöld skulu, eftir því sem aðstæður leyfa, veita gæsluvarðhaldsföngum þá
aðstoð er þau geta til að takmarka það óhagræði sem af gæsluvarðhaldinu leiðir varðandi vinnu, félagsleg og persónuleg málefni.
II. KAFLI
Móttaka og skráning.
3. gr.
Rannsóknaraðili skal, ef því verður við komið, tilkynna starfsmönnum viðkomandi fangelsis í tæka tíð um væntanlegan gæsluvarðhaldsfanga.
4. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi kemur í gæsluvarðhald skal afhenda starfsmanni fangelsis staðfest endurrit af gæsluvarðhaldsúrskurði eða yfirlýsingu dómara um úrskurðinn. Jafnframt skal afhenda vistunarseðil, sem sá sem rannsókn stýrir gefur út, þar sem fram kemur nafn, kennitala og heimilisfang fanga, hvar og hvenær úrskurður var kveðinn upp og tímalengd hans, hver stýrir rannsókn og hver sé verjandi fanga og símanúmer verjandans. Á vistunarseðli skal ennfremur tilgreina fyrirkomulag gæsluvarðhalds.
5. gr.
Þegar starfsmaður fangelsis hefur staðreynt að gæsluvarðhaldsfangi skuli settur í gæsluvarðhald, skal fanginn afhenda persónulega muni og líkamsleit gerð. Líkamsleitin skal gerð með þeim hætti að mannlegri virðingu fanga sé ekki misboðið. Líkamsleit skal gerð af fangaverði sama kyns og fanginn.
Áður en gæsluvarðhaldsfangi er færður til klefa síns er heimilt að ákveða að hann fari í bað eða sturtu.
6. gr.
Persónulegir munir gæsluvarðhaldsfanga skulu skoðaðir og afhentir honum á ný, enda verði ekki talið að þeir valdi hættu eða raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.
Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að fá send föt og aðra persónulega muni sem honum eru nauðsynlegir í gæslunni. Skoða skal slíkar sendingar áður en þær eru afhentar fanga.
7. gr.
Hafi gæsluvarðhaldsfangi, við komu í fangelsi, meðferðis áfengi, önnur vímuefni eða lyf, skal slíkt tekið í vörslu fangelsis.
Áfengi skal afhent aðstandendum gæsluvarðhaldsfanga nema forstöðumaður fangelsis telji, með hliðsjón af aðstæðum, að leggja beri hald á það og eyða því.
Í lok gæslu skal afhenda gæsluvarðhaldsfanga þau lyf sem tekin voru í vörslu fangelsis og ónotuð eru, enda beri umbúðir þeirra með sér að þau hafi verið ávísuð á viðkomandi fanga eða verið seld án lyfseðils. Í öðrum tilvikum skal eyða þeim lyfjum sem tekin hafa verið af fanga.
Leggja skal hald á önnur vímuefni og afhenda þau lögreglu.
8. gr.
Ef ástæða er til að ætla að muna, sem gæsluvarðhaldsfangi hefur meðferðis við komu í fangelsi, hafi verið aflað með refsiverðum verknaði, skal þeim sem rannsókn stýrir tilkynnt um það.
Samkvæmt ákvörðun dómstóls, eða þess sem rannsókn stýrir, skal afhenda gæsluvarðhaldsfanga slíka muni, sem hann hefur með sér við komu í fangelsi, gegn kvittun.
9. gr.
Munir, sem ekki er skilað til gæsluvarðhaldsfanga eða annarra, skulu varðveittir í fangelsinu. Starfsmenn fangelsis geta þó neitað að varðveita muni vegna stærðar, fjölda eða eðlis þeirra. Fangelsisyfirvöld skulu, ef unnt er, aðstoða fanga við að finna viðunandi geymslustað fyrir munina. Fangelsið greiðir ekki kostnað við slíka vörslu.
Muni, sem fangelsi varðveitir, skal skrá. Ef þeir eru varðveittir í tösku, kassa eða öðru sambærilegu íláti er ekki skylt að skrá innihald, enda sé tryggt að varsla sé með þeim hætti að þessir hlutir ruglist ekki saman við aðra hluti í vörslu fangelsis.
Varðveitta muni skal skrá á sérstakt eyðublað fyrir hvern gæsluvarðhaldsfanga. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að fangi skuli undirrita skrána. Neiti fangi að undirrita skrána skal hún staðfest af fangaverði ásamt einum votti.
10. gr.
Muni, sem skilað er til gæsluvarðhaldsfanga, skal ekki skrá nema þeir séu verðmætir. Forstöðumaður fangelsis getur þó ákveðið að munir af ákveðinni tegund skuli ávallt skráðir. Það er forsenda fyrir því að munum sé skilað, að gæsluvarðhaldsfangi undirriti yfirlýsingu
um að honum sé ljóst að varsla muna sé á hans ábyrgð, nema að því leyti sem fangelsi er ábyrgt samkvæmt almennum skaðabótareglum.
11. gr.
Ákvæði 9. og 10. gr. gilda einnig um muni sem gæsluvarðhaldsfangi fær senda eða afhenta við heimsókn.
Við komu í fangelsi skal gæsluvarðhaldsfanga skýrt frá því að munir eða annað, sem finnst í vörslu hans meðan á gæslu stendur og hann hefur ekki heimild til að hafa í fangelsi, teljist hafa verið fluttir í heimildarleysi inn í fangelsið og þeir kunni að sæta upptöku.
Við brottför skal gæsluvarðhaldsfangi kvitta fyrir móttöku þeirra muna sem fangelsi hefur varðveitt meðan á gæslu stóð.
12. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi má ekki selja, skipta, leigja, veðsetja eða gefa hluti sem eru skráðir, nema hann tilkynni það áður starfsmanni fangelsis.
Forstöðumaður fangelsis getur bannað slíkar ráðstafanir ef hann telur að þær geti raskað góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.
Sá sem rannsókn stýrir getur takmarkað hvaða persónulega muni gæsluvarðhaldsfangi fær afhenta, ef hann telur afhendingu þeirra ekki samrýmast tilgangi gæsluvarðhalds. Fangi getur borið slíkar takmarkanir undir dómara.
Þegar munir sem gæsluvarðhaldsfangi hefur fengið afhenta eru misnotaðir getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að þeir skuli teknir í vörslu fangelsis.
13. gr.
Þegar komið er með gæsluvarðhaldsfanga í gæsluvarðhald skal það skráð í dagbók fangelsis. Jafnframt skal halda sérstaka gæsluvarðhaldsskrá, sem færð skal samkvæmt reglum settum af dómsmálaráðuneyti.
14. gr.
Við komu í fangelsi eða sem fyrst þar á eftir skal kynna gæsluvarðhaldsfanga þær reglur sem gilda um vistun hans. Honum skal m.a. gefinn kostur á að fá eintak af reglugerð þessari og evrópskum fangelsisreglum.
Gæsluvarðhaldsfanga skal gerð grein fyrir rétti hans til samskipta við verjanda, til símtala, heimsókna, bréfaskipta og læknisþjónustu og honum skulu kynntar umgengnisreglur innan fangelsisins.
Gæsluvarðhaldsfangi á rétt á að láta vandamenn sína vita um gæsluvarðhaldið. Sá sem rannsókn stýrir getur ákveðið, með tilliti til rannsóknarhagsmuna, að lögregla eða fangelsisyfirvöld sjái um slíka tilkynningu.
III. KAFLI
Tilhögun gæsluvarðhalds.
15. gr.
Gæsluvarðhaldsföngum skal, að svo miklu leyti sem unnt er, gefinn kostur á að vera í félagsskap við aðra fanga.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er í einangrun er átt við að hann sé útilokaður frá félagsskap við aðra fanga. Það hefur ekki sjálfkrafa í för með sér aðrar takmarkanir á réttindum hans. Í reglugerð þessari þýðir einangrun það þegar í lögum er talað um einangrun, einangrun frá öðrum föngum eða vistun í einrúmi.
16. gr.
Sá sem rannsókn stýrir ákveður hvort gæsluvarðhaldsfangi skuli hafður í einangrun vegna rannsóknarnauðsynja.
Gæsluvarðhaldsfangi getur borið undir dómara ákvörðun um slíka einangrun. Óski gæsluvarðhaldsfangi eftir að vera í einangrun skal orðið við slíkri beiðni.
17. gr.
Forstöðumaður fangelsis getur í öðrum tilfellum en í 16. gr. segir ákveðið að gæsluvarðhaldsfangi skuli hafður í einangrun. Skilyrði slíkrar ákvörðunar eru:
a. að það teljist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir strok,
b. að það teljist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir ofbeldi fangans,
c. að það teljist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir áframhaldandi refsiverða háttsemi, þ.m.t. notkun ávana- og fíkniefna,
d. að fangi sýni af sér grófa eða endurtekna tillitslausa eða ófyrirleitna háttsemi, sem geri áframhaldandi vistun í félagsskap bersýnilega óforsvaranlega,
e. að gæsluvarðhaldsfangi vinni gegn ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar vegna öryggis,
f. að gæsluvarðhaldsfangi vinni gegn ráðstöfunum, sem eru nauðsynlegar vegna almenns heilbrigðiseftirlits eða til að fyrirbyggja hættu á smiti.
Þegar telja má nauðsynlegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga eða með tilliti til hegðunar gæsluvarðhaldsfanga að hann verði látinn í einangrun, er heimilt til bráðabirgða og þar til ákvörðun forstöðumanns liggur fyrir, að vista hann í einangrun á meðan um málið er fjallað. Þegar ákvörðun um slíka bráðabirgðavistun er tekin af öðrum en forstöðumanni, skal honum tilkynnt um þá ákvörðun svo fljótt sem unnt er.
Gæsluvarðhaldsfanga skal svo fljótt sem verða má gerð grein fyrir ástæðum vistunar hans
í einangrun til bráðabirgða og honum gefinn kostur á að tjá sig um málið.
18. gr.
Forstöðumaður fangelsis aflar þeirra gagna sem hann telur nauðsynleg áður en hann tekur ákvörðun um einangrun samkvæmt 1. mgr. 17. gr. Hann getur í þessu skyni m.a. yfirheyrt starfsmenn fangelsisins, gæsluvarðhaldsfangann eða aðra fanga.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er settur í einangrun til bráðabirgða skal taka ákvörðun um framhald einangrunar án ástæðulauss dráttar.
Áður en tekin er ákvörðun um einangrun samkvæmt 1. mgr. 17. gr., skal að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er, kynna gæsluvarðhaldsfanga gögn málsins og gefa honum kost á að tjá sig um þau.
Gæsluvarðhaldsfanga skal ávallt gerð grein fyrir ástæðum þess að hann er vistaður í einangrun.
Ef unnt er skal vottur vera viðstaddur allar yfirheyrslur.
19. gr.
Ákvörðun um einangrun samkvæmt 1. mgr. 17. gr. skal vera skrifleg. Í ákvörðuninni skal vera lýsing á málavöxtum og rökstuðningur fyrir því að einangrun teljist nauðsynleg. Þar skal einnig koma fram á grundvelli hvaða heimildar einangrun er ákveðin.
Ákvörðun um einangrun skal birt gæsluvarðhaldsfanga með sannanlegum hætti. Þegar ákvörðun er birt skal honum jafnframt skýrt frá því að kæra megi ákvörðunina til dómsmálaráðuneytis. Í birtingarvottorði skal koma fram að kæruheimild hafi verið kynnt fanganum.
20. gr.
Samkvæmt beiðni gæsluvarðhaldsfanga skal afhenda honum endurrit af ákvörðun um einangrun. Úr endurriti er heimilt að fella brott upplýsingar, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er, vegna öryggis í fangelsinu eða af tillitssemi við einstaklinga sem gefið hafa upplýsingar gegn loforði um trúnað.
21. gr.
Einangrun gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt hans eigin ósk lýkur þegar hann óskar eftir því.
Einangrun gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt ákvörðun þess sem rannsókn stýrir lýkur þegar hann ákveður það eða þegar dómstóll fellir slíka ákvörðun úr gildi.
22. gr.
Einangrun gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt e- og f- lið 1. mgr. 17. gr. lýkur þegar fangi vinnur ekki lengur gegn nauðsynlegum ráðstöfunum.
23. gr.
Einangrun gæsluvarðhaldsfanga lýkur annars þegar forstöðumaður fangelsis telur að slíkar ráðstafanir séu ekki lengur nauðsynlegar.
Einangrun gæsluvarðhaldsfanga, samkvæmt ákvörðun forstöðumanns fangelsis, skal tekin til endurskoðunar eigi sjaldnar en þegar ein vika er liðin frá ákvörðun eða síðustu staðfestingu um að slík vistun skuli framlengd. Slík einangrun verður ekki framlengd umfram 30 daga nema að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Þegar ákvörðun er tekin til endurskoðunar samkvæmt 2. mgr. skal það gert skriflega og niðurstöður rökstuddar. Þegar einangrun er aflétt skal það jafnframt gert með skriflegri ákvörðun.
24. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi í einangrun skal vistaður í klefa út af fyrir sig. Gæsluvarðhaldsfanga í einangrun skal, ef aðstæður í fangelsi leyfa, gefinn kostur á vinnu sem hann getur sinnt þar, nema sérstakar aðstæður mæli gegn því.
25. gr.
Þótt gæsluvarðhaldsfangi sé ekki í einangrun má þó loka hann inni í klefa um skamman tíma (nokkrar klukkustundir) þegar það er talið nauðsynlegt til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu. Slík innilokun telst ekki einangrun. Ákvörðun um innilokun í klefa samkvæmt þessari grein tekur yfirmaður á vakt.
26. gr.
Endurrit af ákvörðun um einangrun samkvæmt 1. mgr. 17. gr. og framlenging hennar samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skal þegar send Fangelsismálastofnun ríkisins.
27. gr.
Leyfa má gæsluvarðhaldsfanga að hafa barn sitt, allt að 18 mánaða gamalt, hjá sér í gæsluvarðhaldi, enda sé það ekki andstætt hagsmunum barnsins.
Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun samkvæmt 1. mgr. að höfðu samráði við barnaverndaryfirvöld og að fengnu samþykki þess sem rannsókn stýrir.
IV. KAFLI
Fæði o.fl.
28. gr.
Gæsluvarðhaldsfanga skal séð fyrir fæði á venjubundnum matmálstímum. Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að útvega sér og taka við fæði. Forstöðumaður fangelsis getur takmarkað eða bannað að fangi fái sent fæði ef hætta þykir á að það raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.
Fangelsi greiðir ekki kostnað við fæði sem gæsluvarðhaldsfangi útvegar sér eða fær sérstaklega sent, nema það sé gert að ráði fangelsislæknis.
Gæsluvarðhaldsfanga er óheimilt að láta senda sér eða neyta áfengra drykkja eða annarra vímuefna.
29. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður hvar tóbaksreykingar eru leyfðar í fangelsinu og hvort þær eru heimilar í klefum.
Banna má gæsluvarðhaldsfanga að hafa í vörslu sinni eldspýtur eða önnur eldfæri ef hætta er talin á að hann misnoti þær.
V. KAFLI
Læknisþjónusta.
30. gr.
Fangelsislæknar sinna almennri læknisþjónustu fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Fangelsislæknir skal skoða gæsluvarðhaldsfanga sem fyrst eftir komu í fangelsi. Ef ástæða er til að ætla að fangi sé sjúkur við komu eða þurfi að öðru leyti á læknishjálp að halda, skal fangelsislæknir kallaður til án ástæðulauss dráttar.
Í bráðatilvikum skal almenn neyðarvakt lækna kölluð til eða farið með gæsluvarðhaldsfanga á sjúkrahús.
31. gr.
Óski gæsluvarðhaldsfangi eftir að heimilislæknir hans eða annar tiltekinn læknir sinni læknisþjónustu að því er hann varðar í gæsluvarðhaldi, skal þeim sem rannsókn stýrir skýrt frá þeirri beiðni. Verða skal við slíkri beiðni nema sá sem rannsókn stýrir banni það vegna rannsóknarhagsmuna. Ef fanga er bannað að kalla til lækni samkvæmt eigin ósk skal honum skýrt frá þeirri ákvörðun og að hægt sé að bera hana undir dómara.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi nýtur þjónustu læknis samkvæmt eigin ósk greiðir fangelsi ekki þann kostnað sem af því leiðir.
32. gr.
Hafi gæsluvarðhaldsfangi lyf meðferðis við komu í fangelsi ákveður fangelsislæknir hvort og með hvaða hætti lyfjagjöf verði haldið áfram. Það sama gildir ef fangi telur sig þurfa á lyfjum að halda í gæslunni.
Fangaverðir annast lyfjagjöf til gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt skriflegum fyrirmælum fangelsislæknis.
Að höfðu samráði við fangelsislækni mega fangaverðir gefa gæsluvarðhaldsfanga lyf sem kaupa má án lyfseðils.
Allar lyfjagjafir til gæsluvarðhaldsfanga skulu skráðar.
33. gr.
Sprautulyf skal einungis gefið af lækni eða hjúkrunarfræðingi. Fangelsislæknir getur þó heimilað gæsluvarðhaldsfanga að sprauta sig sjálfur, telji hann ekki hættu á misnotkun. Í slíkum tilvikum skulu sprautur og lyf varðveitt af fangelsinu.
34. gr.
Í fangelsi skal varðveita öll lyf í læstum lyfjaskáp og skal tryggt að fangar hafi ekki aðgang að honum.
Fangelsislæknir og lyfjafræðingur skulu hafa eftirlit með þeim lyfjum sem þar eru varðveitt.
35. gr.
Gæsluvarðhaldsfanga er skylt að hlíta ákvörðun fangelsislæknis um töku blóðsýnis eða aðrar sambærilegar ráðstafanir, sem læknirinn telur nauðsynlegar vegna heilbrigðiseftirlits. Gæsluvarðhaldsfanga er ekki skylt að taka þátt í neinum læknisfræðilegum tilraunum.
Óheimilt er að taka sýni úr honum í slíkum tilgangi nema með samþykki hans. Læknisfræðilegar tilraunir sem geta valdið fanga andlegu eða líkamlegu heilsutjóni eru óheimilar með öllu.
36. gr.
Fangelsislæknir metur hvort gæsluvarðhaldsfangi þarfnist sérfræðilegrar læknisþjónustu utan fangelsis. Í þeim tilvikum sér hann um að slík læknisþjónusta verði látin í té. Þegar ekki er um bráðatilvik að ræða, skulu starfsmenn fangelsis skýra þeim sem rannsókn stýrir frá því að fyrirhugað sé að leita slíkrar þjónustu.
Þegar fangelsislæknir telur nauðsynlegt að leggja gæsluvarðhaldsfanga inn á sjúkrahús, skulu starfsmenn fangelsis skýra þeim sem rannsókn stýrir frá því.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er vistaður á sjúkrahúsi og þörf er á sérstakri gæslu vegna rannsóknarþarfa eða öryggis, skulu fangaverðir annast hana, nema sá sem rannsókn stýrir ákveði annað.
37. gr.
Þegar dómstóll ákveður að gæsluvarðhaldsfangi skuli vistaður á sjúkrahúsi eða annarri viðeigandi stofnun, eftir að gæsluvarðhaldsvist er hafin, skal fangelsislæknir hafa milligöngu um að útvega vistun. Gilda þá ákvæði 3. mgr. 36. gr. um gæslu.
38. gr.
Fangelsislæknir skal skýra forstöðumanni fangelsis frá því ef hann telur að andlegri eða líkamlegri heilsu gæsluvarðhaldsfanga sé hætta búin af áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist eða af einhverjum aðstæðum í fangelsinu.
Forstöðumaður fangelsis skal þegar skýra þeim sem rannsókn stýrir frá slíkri tilkynningu og tekur sá aðili ákvörðun um hvort tilhögun gæsluvarðhalds skuli breytt eða gæsluvarðhaldsfangi látinn laus.
39. gr.
Verði gæsluvarðhaldsfangi alvarlega veikur í gæslunni, skal aðstandendum hans skýrt frá því, ef aðstæður leyfa.
40. gr.
Þegar dómstóll ákveður að í stað gæsluvarðhalds skuli vista sakborning á sjúkrahúsi eða annarri viðeigandi stofnun, er slík vistun ekki á vegum fangelsisyfirvalda.
V I . KAFLI
Heimsóknir.
41. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi á rétt á að fá heimsóknir á tilteknum heimsóknartímum með þeim takmörkunum er greinir í 2. og 3. mgr.
Sá sem rannsókn stýrir getur bannað að gæsluvarðhaldsfangi fái heimsókn ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar. Ef synjað er um heimsókn skal skýra gæsluvarðhaldsfanga frá því og getur hann borið synjunina undir dómara.
Forstöðumaður fangelsis getur bannað tilteknum einstaklingum að koma í heimsókn til gæsluvarðhaldsfanga, þ.m.t vandamönnum hans, ef það telst nauðsynlegt til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Forstöðumaður getur einnig bannað fyrrverandi gæsluvarðhalds- eða afplánunarfanga að koma í heimsókn.
Þegar einstaklingi er bannað að heimsækja gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt ákvæðum 3. mgr. skal ákvörðun um það skráð og ástæða tilgreind.
Verjandi gæsluvarðhaldsfanga má ávallt heimsækja hann.
42. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður hvenær heimsóknir eru leyfðar. Gæsluvarðhaldsfangi hefur heimild til að fá heimsókn eigi sjaldnar en einu sinni í viku. Forstöðumaður fangelsis getur leyft frekari heimsóknir eða heimsóknir utan reglulegs
heimsóknartíma, ef sérstakar ástæður mæla með. Hann ákveður jafnframt tímalengd og tilhögun slíkra heimsókna.
43. gr.
Ef gæsluvarðhaldsfangi óskar má heimsókn vara í allt að eina klukkustund. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að heimsóknartími sé lengri, bæði almennt og í einstökum tilvikum.
44. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi tekur á móti heimsóknum í klefa sínum.
Í sérstökum tilvikum getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að gæsluvarðhaldsfangi hitti þann er heimsækir hann í öðrum vistarverum fangelsis, en ákvörðun um það skal skráð og ástæða tilgreind.
45. gr.
Áður en gæsluvarðhaldsfangi fær heimsókn þarf hann að fá leyfi hjá forstöðumanni fangelsis til þess að viðkomandi einstaklingur megi heimsækja hann.
Heimilt er að krefja þann er heimsækir gæsluvarðhaldsfanga um persónuskilríki.
46. gr.
Til þess að hafa eftirlit með því að gæsluvarðhaldsfangi taki ekki við, né afhendi í heimsóknartíma efni, muni eða annað sem honum er óheimilt að hafa í fangelsi, er heimilt að leita á þeim er heimsækir fanga.
Þá er heimilt að leita á gæsluvarðhaldsfanga og í klefa hans eftir að hann hefur fengið heimsókn.
Leit á gæsluvarðhaldsfanga, eða þeim er heimsækir hann, skal gerð af fangaverði sama kyns og sá er, sem leitað er á.
47. gr.
Heimsóknir til gæsluvarðhaldsfanga skulu vera án eftirlits, ef óhætt þykir. Ákveða má að heimsókn fari fram undir eftirliti fangavarðar ef það er talið nauðsynlegt til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
Sá sem rannsókn stýrir getur lagt svo fyrir, ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar, að heimsókn fari fram undir eftirliti. Gæsluvarðhaldsfangi getur borið þá ákvörðun undir dómara.
Heimsókn verjanda gæsluvarðhaldsfanga skal ávallt vera án eftirlits.
48. gr.
Þegar heimsókn fer fram undir eftirliti fangavarðar er heimilt að setja það skilyrði að samtal fari fram á tungumáli er fangavörðurinn skilur. Ef nauðsyn krefur skal fá túlk til aðstoðar.
49. gr.
Heimilt er að rjúfa heimsókn ef það er talið nauðsynlegt til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
50. gr.
Forstöðumaður fangelsis getur sett reglur um hvaða hluti gestur gæsluvarðhaldsfanga má hafa með sér. Heimilt er að setja það skilyrði fyrir heimsókn, að það sé skoðað, sem farið er með til fanga. Varðveita skal tryggilega hluti, sem gestur hefur með sér en ekki er leyft að farið sé með til fanga.
51. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður hvort fleiri en einn einstaklingur megi heimsækja gæsluvarðhaldsfanga hverju sinni.
Almennt skal ekki leyfa börnum eða ungmennum yngri en 16 ára að heimsækja gæsluvarðhaldsfanga, nema í fylgd forráðamanns eða annars aðstandanda.
52. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi getur neitað að þiggja heimsókn annarra en þeirra sem eiga við hann opinber erindi eða heimsækja hann að tilmælum forstöðumanns fangelsis eða þess sem rannsókn stýrir.
53. gr.
Við komu í fangelsi skal skýra gæsluvarðhaldsfanga frá því að hann geti, ef hann óskar, fengið heimsókn prests. Komi slík ósk fram skal skýra fangapresti frá því og hefur hann heimild til að heimsækja fangann nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
Óski gæsluvarðhaldsfangi eftir að annar prestur en fangaprestur eða fulltrúi frá skráðu trúfélagi heimsæki hann, skal orðið við slíkum beiðnum ef unnt er. Áður en slíkur prestur eða fulltrúi er kallaður til, skal þeim sem rannsókn stýrir skýrt frá beiðninni. Fangelsi greiðir ekki kostnað vegna heimsóknar prests eða fulltrúa trúfélags samkvæmt þessari málsgrein.
Sá sem rannsókn stýrir getur bannað heimsóknir samkvæmt 1. og 2. mgr. ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar. Forstöðumaður fangelsis skal skýra gæsluvarðhaldsfanga frá slíku banni og að hann geti borið það undir dómara.
Heimsókn prests eða fulltrúa trúfélags skal vera án eftirlits, nema viðkomandi aðilar óski annars.
54. gr.
Forstöðumaður fangelsis setur að öðru leyti nánari reglur um fyrirkomulag heimsókna. Upplýsa skal þann sem heimsækir gæsluvarðhaldsfanga um þær reglur sem gilda um heimsóknir.
VII. KAFLI
Bréfaskipti.
55. gr.
Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að senda og taka við bréfum og öðrum skjölum. Um takmarkanir á bréfaskiptum gæsluvarðhaldsfanga gilda ákvæði 59. og 60. gr.
56. gr.
Þegar fangelsi útvegar bréfsefni eða umslög, má það ekki bera með sér stimpil eða önnur einkenni, sem af má ráða að sendandi sé í fangelsi.
57. gr.
Bréf til og frá gæsluvarðhaldsfanga skulu afhent eða send án ástæðulauss dráttar. Ef bréf viðkomandi fanga eru almennt athuguð skal honum skýrt frá því að umfangsmikil bréfaskipti geti haft í för með sér seinkun á að bréf hans verði afgreidd.
58. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi skal sjálfur bera kostnað af bréfum er hann sendir.
Ef sérstakar ástæður mæla með getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að fangelsið greiði póstkostnað.
59. gr.
Sá sem rannsókn stýrir getur látið athuga efni bréfs eða annarra skjala áður en þau eru afhent gæsluvarðhaldsfanga eða send frá honum.
Hann skal, svo fljótt sem unnt er, afhenda gæsluvarðhaldsfanga bréf eða senda það. Heimilt er að kyrrsetja bréf ef efni þess getur skaðað rannsókn á meintu broti fanga eða raskað góðri reglu eða öryggi í fangelsinu. Sendanda bréfs skal gert viðvart um kyrrsetningu bréfs, nema það skaði rannsókn málsins.
Heimilt er að bera undir dómara ákvörðun um kyrrsetningu bréfs.
60. gr.
Um þau bréf sem ekki eru athuguð vegna rannsóknarhagsmuna samkvæmt 59. gr. gilda reglur 2.-4. mgr.
Bréf til eða frá gæsluvarðhaldsfanga skal ekki lesa, nema forstöðumaður fangelsis telji það nauðsynlegt í einstökum tilvikum til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu eða til þess að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Telji forstöðumaður fangelsis nauðsynlegt að athuga efni bréfs afhendir hann bréfið þeim sem rannsókn stýrir.
Ef efni bréfs er athugað samkvæmt þessari grein skal ákvörðun um það skráð og ástæða tilgreind.
Í því skyni að koma í veg fyrir að bréf séu notuð til að fá sent eða senda efni, muni eða annað sem gæsluvarðhaldsfanga er óheimilt að hafa í fangelsi, skulu eftirfarandi reglur gilda um þau bréf sem ekki eru lesin:
a. Bréf til gæsluvarðhaldsfanga skal opna að honum viðstöddum.
b. Bréf frá gæsluvarðhaldsfanga skal afhent starfsmanni fangelsis opið og því lokað í augsýn hans, eftir að innihald umslags hefur verið athugað.
Ákveða má að gæsluvarðhaldsfangi fái ekki afhent umslag, sem bréf til hans hefur verið sent í, þegar það er talið nauðsynlegt til að hindra að munir eða efni sem óheimilt er að hafa í fangelsi berist til hans.
61. gr.
Heimilt er að skoða og kyrrsetja bréf, sem þegar hefur verið afhent gæsluvarðhaldsfanga, ef forstöðumaður fangelsis telur það nauðsynlegt í einstökum tilvikum til þess að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu eða til þess að fyrirbyggja eða upplýsa refsiverðan verknað. Þegar forstöðumaður fangelsis telur nauðsynlegt að skoða efni bréfs eða kyrrsetja bréf afhendir hann bréfið þeim sem rannsókn stýrir.
Þegar efni bréfs er athugað, eða það kyrrsett samkvæmt þessari grein, skal ákvörðun um það skráð og ástæða tilgreind.
VIII. KAFLI
Símtöl.
62. gr.
Ef sá sem rannsókn stýrir telur rannsóknarhagsmuni ekki standa því í vegi má leyfa gæsluvarðhaldsfanga, eftir því sem aðstæður í fangelsinu leyfa, að nota síma, enda sé í þeim tilvikum verulegt óhagræði af samskiptum með bréfum. Gæsluvarðhaldsfangi getur borið undir dómara bann við notkun síma.
Sá sem rannsókn stýrir eða forstöðumaður fangelsis getur sett það skilyrði fyrir símtölum að hlustað sé á þau. Í þeim tilvikum skal skýra gæsluvarðhaldsfanga og viðmælanda hans frá því.
Að svo miklu leyti sem unnt er, skal leyfa símtöl gæsluvarðhaldsfanga við verjanda sinn. Gæsluvarðhaldsfangi greiðir kostnað vegna símtala sinna.
IX. KAFLI
Leyfi.
63. gr.
Forstöðumaður fangelsis getur, að fengnu samþykki þess sem rannsókn stýrir, veitt gæsluvarðhaldsfanga leyfi úr gæslunni í eftirfarandi tilvikum:
a. til þess að heimsækja náinn vin eða vandamann, sem er alvarlega sjúkur,
b. til þess að vera viðstaddur kistulagningu eða útför náins vinar eða vandamanns,
c. til þess að gæta persónulegra hagsmuna, ef brýna nauðsyn ber til,
d. til þess að ganga í hjúskap.
Það er almenn forsenda leyfis að gæsluvarðhaldsfangi leggi fram fullnægjandi gögn um það, að þau atvik séu til staðar, að heimila megi leyfi.
64. gr.
Þegar metið er hvort leyfi verði veitt, skal höfð hliðsjón af því hvort hætta sé á misnotkun þess.
Þegar metið er hvort hætta sé á að gæsluvarðhaldsfangi misnoti leyfi, skal sérstök varfærni viðhöfð ef hann er grunaður um, eða áður dæmdur fyrir hættuleg afbrot, svo sem brennu eða önnur brot sem hafa almannahættu í för með sér, alvarleg ofbeldis- eða kynferðisbrot, auðgunarbrot framið með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, eða að öðru leyti afbrot sem er sérstaklega gróft eða framið með sérstakri útsjónarsemi.
Hafi gæsluvarðhaldsfangi gerst sekur um strok úr gæslunni eða misnotað leyfi sem hann hefur áður fengið, skal sérstök varfærni viðhöfð þegar metið er hvort honum verði veitt leyfi á ný.
Strok eða misnotkun á leyfi í fyrri gæsluvarðhaldsvist eða afplánun skal einnig hafa til hliðsjónar við mat á því hvort hætta sé á misnotkun þess.
65. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi fær leyfi skal hann ávallt vera í fylgd lögreglumanna eða fangavarða.
Þótt nokkur hætta sé á misnotkun er heimilt að samþykkja leyfi vegna þeirra tilvika er greinir í a- og b- liðum 1. mgr. 63. gr., enda sé gæsla þá aukin.
66. gr.
Samþykki fyrir leyfi af hálfu þess sem rannsókn stýrir skal vera skriflegt.
Í sérstökum undantekningartilvikum má óska eftir samþykki í síma, enda sé það síðar staðfest skriflega.
67. gr.
Leyfi má ekki veita í lengri tíma en þörf er á til þess að fullnægja markmiðum þess. Almennt má leyfi ekki vara lengur en 12 klst. að ferðatíma meðtöldum.
Ef leyfi, í undantekningartilviki, er veitt í lengri tíma en einn dag, skal gæsluvarðhaldsfangi gista næturlangt í fangelsi eða fangageymslu lögreglu. Fyrirfram skal tryggja gistingu hjá viðkomandi yfirvöldum.
68. gr.
Kostnað vegna ferðalags, uppihalds og vasapeninga greiðir gæsluvarðhaldsfangi sjálfur. Hann greiðir einnig kostnað vegna fylgdar. Setja má það sem skilyrði fyrir leyfi að áætlaður kostnaður verði greiddur fyrirfram.
Fangelsinu er heimilt að greiða kostnað að hluta eða öllu leyti ef gæsluvarðhaldsfangi fær leyfi til að vera viðstaddur kistulagningu eða útför.
X. KAFLI
Aðgangur að fjölmiðlum o.fl.
69. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi má lesa dagblöð, bækur, tímarit, hlusta á útvarp og horfa á
sjónvarp. Sá sem rannsókn stýrir getur þó takmarkað aðgang gæsluvarðhaldsfanga að fjölmiðlum ef nauðsyn krefur í þágu rannsóknar.
Þegar aðgangur að fjölmiðlum er takmarkaður getur gæsluvarðhaldsfangi borið þá takmörkun undir dómara.
70. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi skal hafa aðgang að dagblöðum sem fangelsi leggur til. Í sameiginlegu húsnæði fangelsis skal vera útvarp og sjónvarp.
Fangelsi skal útvega bækur til útlána, eftir því sem kostur er á.
71. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi má, með samþykki þess sem rannsókn stýrir, láta senda sér á eigin kostnað dagblöð, tímarit og bækur.
Það sama gildir um útvarp og sjónvarp til nota í klefa gæsluvarðhaldsfanga, ef aðstæður í fangelsinu leyfa og notkun slíkra tækja raskar ekki góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.
XI. KAFLI
Vinna.
72. gr.
Gæsluvarðhaldsfanga skal gefinn kostur á vinnu eða námi í fangelsinu, ef aðstæður leyfa. Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að útvega sér sjálfur vinnu meðan á gæsluvarðhaldi stendur, enda geti hann sinnt þeirri vinnu í fangelsinu án þess að hún raski góðri reglu eða öryggi. Forstöðumaður fangelsis getur sett það skilyrði fyrir slíkri vinnu að fangi geti sinnt henni í klefa sínum. Arð af vinnunni á fanginn sjálfur.
Ekki má skylda gæsluvarðhaldsfanga til vinnu. Þó má skylda hann til að þrífa klefa sinn og sameiginlegt húsnæði fangelsis samkvæmt reglum sem forstöðumaður fangelsis setur.
73. gr.
Þegar fangelsi útvegar gæsluvarðhaldsföngum vinnu skal vinnutími þeirra vera í samræmi við almennar reglur á vinnumarkaði.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi sinnir vinnu, sem er nauðsynleg fyrir rekstur fangelsis, má ákveða að henni sé sinnt á öðrum tíma en almennt gildir um vinnu í fangelsinu.
Ef gæsluvarðhaldsfangi vill ekki vinna á tilteknum dögum af trúarástæðum skal tekið tillit til þess, eftir því sem aðstæður leyfa.
74. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi sinnir vinnu sem fangelsi gefur kost á skulu honum greidd laun fyrir þá vinnu samkvæmt almennum reglum um laun fanga, þ.m.t. reglum um álag fyrir vinnu utan reglulegs vinnutíma o.s.frv.
Gæsluvarðhaldsfangi á ekki rétt á launum fyrir þrif á klefa sínum. Gæsluvarðhaldsfangi á ekki rétt á dagpeningum, þótt hann eigi ekki kost á vinnu í gæslunni.
XII. KAFLI
Skaðabætur.
75. gr.
Krefja má gæsluvarðhaldsfanga um skaðabætur fyrir tjón og önnur útgjöld sem hann verður ábyrgur fyrir, samkvæmt almennum skaðabótareglum, meðan hann er í gæslu, svo sem líkamstjóni, tjóni á fangelsinu eða munum sem þar eru og tilheyra rekstri þess.
Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að vinnulaun gæsluvarðhaldsfanga, fyrir vinnu sem fangelsi útvegar, gangi til greiðslu á tjóni sem hann er ábyrgur fyrir meðan á gæslu stendur.
XIII. KAFLI
Almenn ákvæði um réttindi og skyldur.
76. gr.
Forstöðumaður fangelsis setur reglur um umgengni í fangelsinu.
Gæsluvarðhaldsfangi, sem almennt má vera í félagsskap við aðra fanga, skal þó lokaður inni í klefa sínum að næturlagi. Forstöðumaður setur nánari reglur um tímamörk samkvæmt þessari málsgrein.
Gæsluvarðhaldsfangi á rétt á útivist í a.m.k. eina klukkustund á degi hverjum nema sérstakar aðstæður hamli. Það sama gildir þótt hann sé í einangrun.
77. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi nýtur almennra borgararéttinda að svo miklu leyti sem frjálsræðissviptingin kemur ekki í veg fyrir það.
Gæsluvarðhaldsfanga ber að hlíta þeim reglum sem forstöðumaður fangelsis setur til að halda góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.
Gæsluvarðhaldsfangi skal sýna starfsmönnum og öðrum föngum tillitssemi og viðhafa að öðru leyti góða umgengnishætti. Hann skal hlýða öllum lögmætum fyrirmælum starfsmanna.
78. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi skal hafa aðgang að reglum um réttarstöðu sína og öðrum upplýsingum, sem varða vistun hans í fangelsi.
Fangelsisyfirvöld mega ekki án samþykkis gæsluvarðhaldsfanga afla upplýsinga um einkahagi hans frá aðstandendum eða öðrum utan fangelsiskerfisins en lögreglu og öðrum refsivörsluaðilum.
79. gr.
Sá sem rannsókn stýrir getur takmarkað, í þágu rannsóknar eða vegna rannsóknarnauðsynja, réttindi sem gæsluvarðhaldsfangi hefur samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála eða reglugerð þessari. Gæsluvarðhaldsfangi getur borið slíkar takmarkanir undir dómara.
80. gr.
Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að fá viðtal við forstöðumann fangelsis eða staðgengil hans. Verða skal við beiðni um viðtal svo fljótt sem unnt er.
Gæsluvarðhaldsfangi getur borið undir forstöðumann málefni er varða aðstæður hans í fangelsinu.
Forstöðumaður tekur ákvarðanir um þau málefni sem varða gæsluvarðhaldsfanga og ekki heyra undir þann sem rannsókn stýrir. Slíkar ákvarðanir skulu teknar án ástæðulauss dráttar og fanga þegar tilkynnt um þær. Ef hann óskar skal honum skýrt frá forsendum ákvörðunartöku.
Þegar beiðni gæsluvarðhaldsfanga er hafnað skal honum skýrt frá því að kæra megi þá ákvörðun til dómsmálaráðuneytis.
81. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi getur kvartað yfir framkomu starfsmanns fangelsis við forstöðumann fangelsisins, Fangelsismálastofnun ríkisins eða dómsmálaráðuneyti.
Innan viku skal gæsluvarðhaldsfanga tilkynnt hvort kvörtun hans hafi verið tekin til greina. Ef ekki er fallist á sjónarmið fanga skal honum jafnframt skýrt frá því, hvernig hann geti borið málið undir æðra stjórnvald, ef því er að skipta, eða ef um refsiverðan verknað er að ræða, hvernig kæru skuli komið á framfæri.
XIV. KAFLI
Öryggisráðstafanir.
A. Líkamsleit, líkamsrannsókn, rannsókn á klefa.
82. gr.
Heimilt er að gera líkamsleit eða líkamsrannsókn á gæsluvarðhaldsfanga og rannsaka klefa hans, ef það er nauðsynlegt af öryggisástæðum eða til eftirlits með því að reglur fangelsis séu haldnar.
83. gr.
Líkamsleit má gera á gæsluvarðhaldsfanga:
a. þegar hann kemur í gæslu eða kemur aftur í fangelsi eftir dvöl utan þess,
b. áður en hann fær heimsókn og eftir hana,
c. þegar ákveðið er að hann skuli einangraður,
d. þegar grunur leikur á að hann hafi á sér hluti eða efni sem honum er óheimilt að hafa í fangelsinu,
e. þegar ástæða þykir til að gera skyndileit meðal fanga,
f. í tengslum við reglubundna rannsókn á klefa.
Líkamsleit má gera á hópi fanga, þegar grunur leikur á að einn eða fleiri hafi á sér hluti, eða efni, sem óheimilt er að hafa í fangelsi.
84. gr.
Líkamsleit er gerð af fangaverði sama kyns og gæsluvarðhaldsfanginn.
Líkamsleit skal gerð með þeim hætti að ekki sé misboðið mannlegri virðingu gæsluvarðhaldsfanga.
Áður en líkamsleit er gerð á gæsluvarðhaldsfangi rétt á að fá vitneskju um hvers vegna leit er fyrirhuguð, nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
85. gr.
Þegar grunur leikur á að gæsluvarðhaldsfangi feli innvortis efni eða hluti, sem honum er óheimilt að hafa í fangelsi, er heimilt að gera á honum rannsókn að fengnu áliti læknis. Taka má blóð- og þvagsýni úr gæsluvarðhaldsfanga þegar grunur leikur á að hann hafi
heimildarlaust neytt áfengis, vímuefna eða lyfja.
Taka blóðsýnis og leit innvortis skal gerð af lækni eða hjúkrunarfræðingi. Vitni, sama kyns og gæsluvarðhaldsfangi, skal vera viðstatt ef aðstæður leyfa.
Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um rannsókn samkvæmt þessari grein og skal hún skráð og ástæður tilgreindar.
86. gr.
Gera má rannsókn á klefa gæsluvarðhaldsfanga í tengslum við reglubundið eftirlit í fangelsinu og þegar ástæða er til að ætla, í einstökum tilvikum, að reglur fangelsis séu brotnar eða þegar það telst nauðsynlegt af öryggisástæðum.
Rannsókn má ekki vera víðtækari en tilgangur hennar gefur tilefni til.
Hafi komið í ljós við rannsókn að umgengni í klefa er ekki í samræmi við góða umgengnishætti skal hæfileg tiltekt framkvæmd.
Gæsluvarðhaldsfanga skal skýrt frá ástæðu rannsóknar ef hann óskar þess.
87. gr.
Forstöðumaður fangelsis ákveður með hvaða hætti framkvæma skuli og skrá ákvörðun um líkamsleit, líkamsrannsókn og rannsókn á klefa og í hvaða tilvikum gera skuli skýrslu. Þegar lagt er hald á muni í tengslum við leit í klefa skal það skráð sérstaklega.
Gæsluvarðhaldsfanga skal kynnt með sannanlegum hætti hvaða muni lagt hefur verið hald á.
B. Valdbeiting.
88. gr.
Beita má gæsluvarðhaldsfanga valdi ef brýn nauðsyn krefur.
Um valdbeitingu vegna neyðarvarnar gilda almennar reglur laga.
89. gr.
Beita má valdi við gæsluvarðhaldsfanga þegar nauðsyn krefur:
a. til þess að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans, koma í veg fyrir sjálfsvíg eða hindra að hann skaði sjálfan sig, eða
b. til þess að hindra flótta eða stöðva þann sem hefur flúið, þegar ástæða er til að ætla að það verði ekki gert með öðrum hætti.
Valdbeiting samkvæmt þessari grein getur, að svo miklu leyti sem það telst nauðsynlegt, falið í sér beitingu handafls, notkun kylfu eða táragass af viðurkenndri gerð.
Yfirmaður á vakt tekur ákvörðun um valdbeitingu samkvæmt þessari grein. Ef aðstæður leyfa ekki að beðið sé eftir ákvörðun hans, skal hún tekin af viðkomandi starfsmanni, en tilkynna skal hann yfirmanni um valdbeitinguna svo fljótt sem verða má.
90. gr.
Beita má valdi við gæsluvarðhaldsfanga þegar nauðsyn krefur:
a. til þess að færa hann fyrir dóm, enda hafi dómari ákveðið að það skuli gert, þótt valdbeiting sé nauðsynleg,
b. til þess að framkvæma líkamsleit eða líkamsrannsókn, þegar ástæða er til að ætla að hann muni skaða sjálfan sig eða aðra,
c. til þess að framkvæma líkamsleit eða líkamsrannsókn, þegar það telst nauðsynlegt til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða vegna öryggis í fangelsi,
d. til þess að framfylgja fyrirmælum um dvalarstað.
Valdbeiting samkvæmt þessari grein felur í sér notkun handafls.
Yfirmaður á vakt tekur ákvörðun um valdbeitingu samkvæmt þessari grein. Ef aðstæður leyfa ekki að beðið sé eftir ákvörðun hans, skal hún tekin af viðkomandi starfsmanni.
91. gr.
Það er skilyrði valdbeitingar að vægari ráðstafanir hafi áður verið reyndar og ekki komið að gagni nema þær séu bersýnilega þýðingarlausar.
Við valdbeitingu skal gæta ítrustu varfærni og má hún aldrei ganga lengra en aðstæður krefjast.
92. gr.
Áður en táragas er notað, skal gæsluvarðhaldsfanga gefin aðvörun.
Þegar táragas hefur verið notað skal Fangelsismálastofnun ríkisins og dómsmálaráðuneyti þegar skýrt frá málavöxtum.
93. gr.
Ef kylfa er notuð, skal henni beitt af varfærni og ekki má nota meiri hörku eða harðýðgi en nauðsyn krefur.
Kylfu má einungis beita gegn handleggjum, fótleggjum, brjósti og hrygg.
Kylfu má ekki beina að höfði, hálsi, hnakka, viðbeini, nýra, klofi eða hryggsúlu. Ekki má gefa rafmagnsstuð með kylfu.
Forðast skal að nota kylfu gegn hné, olnboga og öðrum liðamótum.
94. gr.
Þegar valdi hefur verið beitt við gæsluvarðhaldsfanga skal hann skoðaður af lækni, nema yfirmaður á vakt telji það bersýnilega ástæðulaust. Þegar kylfu hefur verið beitt skal læknisskoðun þó alltaf eiga sér stað eins fljótt og unnt er.
95. gr.
Þegar beitt er valdi við gæsluvarðhaldsfanga skal ætíð gera skýrslu um valdbeitinguna.
C. Notkun handjárna.
96. gr.
Setja má gæsluvarðhaldsfanga í handjárn þegar hann er fluttur til eða frá fangelsi. Setja má gæsluvarðahaldsfanga í handjárn ef nauðsyn krefur:
a. til þess að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans, koma í veg fyrir sjálfsvíg eða hindra að hann skaði sjálfan sig, eða
b. til þess að hindra flótta eða stöðva þann sem hefur flúið, þegar ástæða er til að ætla að það verði ekki gert með öðrum hætti.
Einnig má færa gæsluvarðhaldsfanga í handjárn ef hann neitar að láta gera á sér líkamsleit eða líkamsrannsókn og það verður ekki gert án verulegrar valdbeitingar.
Yfirmaður á vakt tekur ákvörðun um notkun handjárna samkvæmt þessari grein. Ef aðstæður leyfa ekki að beðið sé eftir ákvörðun hans, skal hún tekin af viðkomandi starfsmanni, en tilkynna skal hann yfirmanni um valdbeitinguna svo fljótt sem verða má. Forstöðumanni fangelsis skal jafnframt tilkynnt um notkun handjárna eins fljótt og unnt er.
97. gr.
Það er skilyrði fyrir notkun handjárna að vægari ráðstafanir hafi áður verið reyndar og ekki komið að gagni nema þær séu bersýnilega þýðingarlausar.
Þegar handjárn eru notuð samkvæmt ákvæðum í 2. og 3. mgr. 96. gr. skal ávallt gera skýrslu.
98. gr.
Gæsluvarðhaldsfangi má ekki vera í handjárnum lengur en samrýmist tilgangi með notkun þeirra.
Ef líkamsleit eða líkamsrannsókn verður ekki gerð, án verulegrar valdbeitingar, þrátt fyrir handjárnun, má hafa gæsluvarðhaldsfangann í handjárnum í allt að 3 klukkustundir. Þegar handjárn eru notuð samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 96. gr. má notkun þeirra ekki vara
lengur en í 24 klukkustundir, nema sérstakar aðstæður krefjist.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er hafður í handjárnum, skal litið eftir honum eigi sjaldnar en með 30 mínútna millibili.
D. Vistun í öryggisklefa.
99. gr.
Vista má gæsluvarðhaldsfanga í öryggisklefa ef brýn nauðsyn krefur, til þess að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans, koma í veg fyrir sjálfsvíg eða hindra að hann skaði sjálfan sig.
100. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er vistaður í öryggisklefa má nota belti, hanska, fót- og handreimar eða fót- eða handjárn.
Ef belti, hanskar, fót- og handreimar eða fót- eða handjárn eru notuð eða vistun í öryggisklefa á sér stað með valdbeitingu, skal kalla til fangelsislækni, svo fjótt sem unnt er, til að skoða gæsluvarðhaldsfangann. I öðrum tilvikum skal fangelsislækni skýrt frá vistun í öryggisklefa, svo fjótt sem aðstæður leyfa, þannig að hann geti metið hvenær lækniseftirlit sé nauðsynlegt. Ef unnt er skal fangelsislæknir skoða fanga í öryggisklefa daglega.
101. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er vistaður í öryggisklefa skal litið eftir honum eigi sjaldnar en með 20 mínútna millibili. Ef ástand hans eða aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til, skal föst vakt höfð.
102. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er vistaður í öryggisklefa nýtur hann venjulegra réttinda fanga að svo miklu leyti sem það samrýmist tilgangi vistunar þar.
Í öllum tilvikum er honum heimilt að láta tilkynna verjanda sínum um vistunina og skrifa dómsmálaráðherra, dómsmálaráðuneyti, umboðsmanni Alþingis og Fangelsismálastofnun ríkisins. Ef þörf krefur skal honum veitt nauðsynleg aðstoð við slíkar bréfaskriftir.
103. gr.
Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um vistun í öryggisklefa. Ef brýn nauðsyn krefur, getur yfirmaður á vakt tekið ákvörðun um vistun, en hann skal tilkynna hana forstöðumanni svo fljótt sem unnt er.
Ákvörðun um vistun í öryggisklefa skal vera skrifleg. Í ákvörðun skulu ástæður vistunar rökstuddar.
Ákvörðun skal birt gæsluvarðhaldsfanga með sannanlegum hætti. Þegar ákvörðun er birt, skal honum jafnframt skýrt frá því, að kæra megi ákvörðunina til dómsmálaráðuneytis. Í birtingarvottorði skal koma fram að kæruheimild hafi verið kynnt fanga.
104. gr.
Vistun í öryggisklefa og aðrar aðgerðir, sem er beitt í tengslum við hana, skulu aldrei standa lengur en samrýmist tilgangi vistunar eða beitingu aðgerða.
Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um hversu lengi vistun stendur og öðrum aðgerðum er beitt.
Vistun í öryggisklefa skal ekki vara lengur en í eina viku nema að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar ríkisins. Stofnuninni skal tilkynnt ef belti eða járn eru notuð lengur en í 24 klukkustundir.
XV. KAFLI
Agabrot og agaviðurlög.
105. gr.
Í eftirfarandi tilvikum má beita gæsluvarðhaldsfanga agaviðurlögum:
a. fyrir brot á ákvæðum þessarar reglugerðar eða óhlýðni við fyrirmæli, sem gefin eru samkvæmt ákvæðum hennar,
b. fyrir brot á sérstökum reglum sem forstöðumaður fangelsis hefur sett eða óhlýðni við fyrirmæli, sem gefin eru samkvæmt þeim,
c. fyrir strok úr gæsluvarðhaldi og tilraun til að reyna að komast hjá áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist.
106. gr.
Beita má eftirtöldum agaviðurlögum:
a. Áminningu.
b. Sviptingu réttar til heimsókna og símtala.
c. Sviptingu vinnulauna fyrir vinnu sem fangelsi útvegar.
d. Einangrun í allt að 30 daga.
Beita má fleiri en einni tegund viðurlaga samtímis.
107. gr.
Ef það telst ekki nauðsynlegt, með hliðsjón af málavöxtum, að ákvörðuð viðurlög komi þegar til framkvæmda, má ákveða að hluti þeirra eða þau öll séu skilorðsbundin, þannig að gerist gæsluvarðhaldsfangi ekki sekur um nýtt agabrot, um tiltekinn tíma, komi viðurlögin ekki til framkvæmda. Skilorðstíma má ekki ákvarða lengri en nemur eftirstöðvum gæsluvarðhalds.
108. gr.
Ef rökstuddur grunur er um að gæsluvarðhaldsfangi hafi framið agabrot sem varði einangrun, er heimilt að einangra hann meðan rannsókn málsins fer fram. Þegar einangrun er ákveðin af öðrum en forstöðumanni fangelsis, skal honum þegar tilkynnt um vistunina.
Gæsluvarðhaldsfanga skal, eins fljótt og unnt er, gerð grein fyrir ástæðum einangrunar og honum gefinn kostur á að tjá sig um málið.
Einangrun samkvæmt þessari grein kemur til frádráttar þeirri einangrun sem honum kann að verða ákvörðuð fyrir agabrotið.
109. gr.
Ákvörðun um beitingu agaviðurlaga skal tekin svo fjótt sem unnt er. Þegar gæsluvarðhaldsfangi er einangraður vegna rökstudds gruns um agabrot, skal mál til lykta leitt innan 24 klukkustunda. Sé það ekki gert skal einangrun aflétt.
110. gr.
Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um beitingu agaviðurlaga. Hann skal ganga úr skugga um hvernig broti gæsluvarðhaldsfanga var háttað með því að yfirheyra hann og með annarri rannsókn eftir atvikum. Áður en ákvörðun um agaviðurlög er tekin skal fanganum kynnt í aðalatriðum það sem fram er komið við rannsókn málsins og honum gefinn kostur á að tjá sig um það.
Gæsluvarðhaldsfanga ber ekki skylda til að tjá sig um málið og skal honum skýrt frá þeim rétti.
Ef unnt er skal vottur vera viðstaddur yfirheyrslur.
111. gr.
Akvörðun um beitingu agaviðurlaga skal vera skrifleg. I ákvörðun skal koma fram lýsing á broti, afstaða gæsluvarðhaldsfanga til þess, hafi hann tjáð sig, svo og aðrar þær upplýsingar sem ákvörðun byggist á. Ennfremur skal koma fram hvaða ákvæði eru talin brotin, hvernig það telst sannað og hvaða viðurlögum er beitt.
Ákvörðun um agaviðurlög skal birt gæsluvarðhaldsfanga með sannanlegum hætti. Þegar ákvörðun er birt skal honum jafnframt skýrt frá því að kæra megi ákvörðunina til dómsmálaráðuneytis. Í birtingarvottorði skal koma fram að kæruheimild hafi verið kynnt fanga.
112. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er látinn sæta einangrun vegna agabrots hefur það ekki sjálfkrafa í för með sér frekari takmarkanir á réttindum hans en þær að hann er útilokaður frá félagsskap við aðra fanga.
113. gr.
Samkvæmt beiðni gæsluvarðhaldsfanga skal afhenda honum endurrit af ákvörðun um beitingu agaviðurlaga. Úr endurriti er heimilt að fella brott upplýsingar, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er, vegna öryggis í fangelsinu eða af tillitssemi við einstaklinga, sem gefið hafa upplýsingar gegn loforði um trúnað.
XVI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
114. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 26. mars 1991 og samkvæmt heimild í 266. gr. almennra hegningarlaga nr. 1912. febrúar 1940 og 30. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48 19. maí 1988, öðlast gildi 1. júlí 1992.
115. gr.
Þegar gæsluvarðhaldsfangi er vistaður í fangageymslu lögreglu fer lögreglustjóri með þær heimildir eða ákvörðunarvald sem forstöðumaður fangelsis hefur samkvæmt þessari reglugerð.
Í fjarveru forstöðumanns fangelsis eða lögreglustjóra kemur staðgengill í þeirra stað eða sá yfirmaður sem næst stendur þeim í viðkomandi stofnun, ef ekki er um formlegan staðgengil að ræða eða ekki næst til hans.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 4. maí 1992.
Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn A. Jónsson.