Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

396/1997

Reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála. - Brottfallin

1. gr.

Rannsókn refsiverðra brota er í höndum lögreglu.

Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur. Til ákærenda teljast lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, og löglærðir fulltrúar þeirra, sem þeir fela flutning mála.

Ákærendur skulu sjá til þess að rannsókn fari fram í samræmi við lög og reglur samkvæmt þeim. Þeir geta gefið lögreglu fyrirmæli um framkvæmd rannsóknar.

2. gr.

Brot skal að jafnaði rannsaka í lögregluumdæmi, þar sem talið er að það hafi verið framið. Lögreglustjóri annast rannsókn sem fer fram í umdæmi hans.

Ríkislögreglustjóri annast rannsókn skatta- og efnahagsbrota. Um rannsókn slíkra brota fer eftir reglum um rannsókn og saksókn vegna efnahagsbrota.

Ríkislögreglustjóri annast rannsókn brota á ákvæðum X. og XI. kafla almennra hegningarlaga og kærumála á hendur lögreglumönnum vegna brota í starfi.

Rannsókn á vegum ríkislögreglustjóra fer fram þar sem hagfelldast þykir.

3. gr.

Nú fremur maður fleiri en eitt brot og skal þá rannsókn þeirra fara fram í sama umdæmi, ef unnt er, enda valdi það ekki verulegum töfum á rannsókninni. Rannsókn máls skal sá lögreglustjóri að jafnaði annast, sem fyrstur hóf rannsóknina. Nú er ástæða til að ætla að málið verði höfðað í öðru umdæmi og skal rannsókn þá fara fram í því umdæmi sem ætla má að mál verði höfðað.

Lögreglustjórinn í Reykjavík skal að jafnaði annast rannsókn mála vegna ólöglegs innflutnings ávana- og fíkniefna um Keflavíkurflugvöll. Rannsókn skal þó fara fram í öðru umdæmi, ef ætla má að málið verði höfðað þar.

4. gr.

Einstakar rannsóknaraðgerðir í máli, utan rannsóknarumdæmis, annast lögreglustjóri í því umdæmi sem sá dvelst, sem yfirheyra skal, eða vettvangur sá er eða munir, sem rannsóknaraðgerð lýtur að. Lögreglustjórar skulu aðstoða hvern annan við rannsókn máls, með því m.a. að annast einstakar rannsóknaraðgerðir, eftir beiðni þar um.

Lögreglustjóri getur annast, eða falið undirmanni sínum að annast, rannsóknaraðgerð utan umdæmis síns, ef hætta er á að dráttur á aðgerðum lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi valdi sakarspjöllum. Lögreglustjóra í því umdæmi sem aðgerðin fór fram skal gert viðvart um hana eins fljótt og kostur er.

Við meðferð tiltekins máls geta lögreglustjórar samið um að lögreglustjóri sem annast rannsókn málsins megi annast rannsóknaraðgerð í þágu þess í umdæmi hins.

5. gr.

Nú telur ríkislögreglustjóri ástæðu til að ætla að brot, sem framin hafa verið í fleiri en einu lögregluumdæmi, hafi verið framin af sama manni eða sömu mönnum, og líklegt að brotastarfsemi muni haldið áfram, og getur ríkislögreglustjóri þá ákveðið, að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra, að stjórn rannsóknar verði í höndum eins af þeim lögreglustjórum sem eiga í hlut, og þá að jafnaði í höndum lögreglustjóra í því umdæmi, þar sem flest brotin eða þau alvarlegustu hafa verið framin. Sama gildir ef ríkislögreglustjóri metur aðstæður svo, að rannsókn tiltekinna óvenjulegra brota, sem virðast tengjast, muni best hagað svo að stofnað verði til samvinnu milli lögregluumdæma. Öðrum lögreglustjórum ber að veita þeim lögreglustjóra, sem tekið hefur við stjórn rannsóknar, allar nauðsynlegar upplýsingar og aðstoða við eftirgrennslan og leit í eigin umdæmi, að því marki sem eðlilegt getur talist miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og möguleika á að málið verði upplýst.

6. gr.

Nú má ætla að rannsókn brots heyri undir fleiri en eitt umdæmi og getur ríkislögreglustjóri þá hafið rannsókn að eigin frumkvæði. Lögreglustjórar í viðkomandi umdæmum skulu fá vitneskju um framgang málsins. Þegar ljóst þykir hvaða umdæmi er aðalvettvangur málsins, flyst rannsókn þess í hendur lögreglustjóra þar.

7. gr.

Nú er grunur um að maður hafi verið sviptur lífi, eða reynt hafi verið að svipta mann lífi, og skal þá þegar kynna ríkislögreglustjóra málsatvik, ef málið telst ekki þegar að fullu upplýst og grunaði handtekinn.

Telji ríkislögreglustjóri nauðsynlegt, að höfðu samráði við lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi, sendir hann staðarlögreglu til aðstoðar lið frá rannsóknardeild samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga, eða frá lögregluumdæmi sem liggur nærri vettvangi.

Í aðstoðarliði skal að jafnaði vera yfirmaður, sem skipuleggur og stjórnar rannsókn í samvinnu við stjórnanda staðarlögreglu, en á ábyrgð lögreglustjóra í umdæmi þar sem brot var framið. Lögreglustjóri skal annast samskipti við fjölmiðla, eftir því sem frekast er unnt.

Ríkislögreglustjóri metur, að höfðu samráði við lögreglustjóra í umdæmi þar sem brot var framið, hvort nauðsynlegt sé að senda mann eða menn til að aðstoða við vettvangsrannsókn, annað hvort frá vettvangsrannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík, samkvæmt 4. mgr. 8. gr. lögreglulaga, eða tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjóra, samkvæmt e-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

8. gr.

Rannsóknardeild ríkislögreglustjóra getur, eftir beiðni þar um, aðstoðað lögreglustjóra við rannsókn umfangsmikilla og alvarlegra brota og slysa, þ.m.t. brunamála.

Ríkissaksóknari getur lagt fyrir lögreglustjóra að leita aðstoðar rannsóknardeildar í einstökum málum.

9. gr.

Rannsóknardeild ríkislögreglustjóra getur, eftir beiðni þar um, aðstoðað lögreglustjóra við rannsókn brots, þótt það sé ekki sérstaklega alvarlegt, ef lögregluumdæmi þar sem brot var framið er fáliðað, eða málið krefst sérþekkingar eða sérstakrar rannsóknarreynslu.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 5. gr., 3. mgr. 8. gr. og 40. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, öðlast gildi 1. júlí 1997.

Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð um samvinnu og starfsskiptingu milli lögreglustjóra og rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 253 29. júní 1977, sbr. reglugerð nr. 315 30. júní 1986 og reglugerð nr. 26 12. janúar 1994 og reglur um hlutverk ávana- og fíkniefnadeildar lögreglustjórans í Reykjavík, verkaskiptingu milli hennar og annarra lögregluyfirvalda svo og samstarf við aðrar stofnanir, nr. 165 6. apríl 1990.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. júní 1997.

Þorsteinn Pálsson.

________________

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica