Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

406/1997

Reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota. - Brottfallin

1.gr.

            Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra annast rannsókn efnahagsbrota og saksókn þeirra í héraði.

            Deildin getur tekið við málum á sínu sviði frá staðarlögreglu, en einnig hafið rannsókn að eigin frumkvæði.

            Í fyrirsvari deildarinnar er saksóknari, sem annast meðferð mála í umboði ríkislögreglustjóra.

            Ríkissaksóknari getur gefið saksóknara fyrirmæli um einstök mál, kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd ranndóknar og fylgst með henni.

2.gr.

            Ríkislögreglustjóri höfðar opinber mál sem efnahagsbrotadeildin rannsakar, önnur en þau sem ríkissaksóknari höfðar samkvæmt 27. gr. laga um meðferð opinberra mála, og flytur þau í héraði. Ríkislögreglustjóri getur falið vararíkilögreglustjóra, saksóknara og löglærðum fulltrúum sínum flutning mála fyrir héraði.

3.gr.

            Efnahagsbrotadeildin annast rannsókn alvarlegra brota á 247. - 250. gr., 253., 254. gr. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga. Deildin annast jafnframt rannsókn brota á skattalögum, tollalögum (tollsvik), lögum sem varða gjaldeyrismál, verðlagsmál, verðbréfa- og lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd og stjórn fiskveiða, svo og rannsókn annarra refsiverðrar háttsemi í hagnaðarskyni, sem fer fram kerfisbundið og reglulega í annars löglegri atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklinga. Nú þykir mál samkvæmt 2. málsl. smávægilegt og getur ríkislögreglustjóri þá, ef hann telur það hagfelldara, ákveðið að hlutaðeigandi lögreglustjóri fari með rannsókn þess.

            Nú er vafi um hvort mál skuli rannsakað af hálfu efnahagsbrotadeildar eða lögreglustjóra og ákveður ríkislögreglustjóri þá hvernig með skuli fara. Við ákvörðunina skal sérstaklega tekið tillit til eftirfarandi atriða:

  1. umfangs rannsóknar og hversu margslungið mál er,
  2. verðmæta eða fjármuna, sem rannsókn lýtur að,
  3. hvort mál eða viðskipti, sem rannsókn lýtur að, tengist öðru landi,
  4. hvort um er að ræða brotastarfsemi í atvinnurekstri eða aðra skipulagða brotastarfsemi,
  5. hvort mál hefur grundvallarþýðingu ef tekið er mið af almannahagsmunum og hvort það hefur fordæmisgildi.       

            Ríkissaksóknari sker úr ágreiningi um hver fari með rannsókn máls.

4.gr.

            Efnahagsbrotadeildin getur, eftir beiðni lögreglustjóra, yfirtekið rannsókn efnahagsbrots, sem lögreglustjóri hefur haft með höndum.

            Lögreglustjóri skal þegar á frumstigi rannsóknar gera efnahagsbrotadeildinni viðvart um stórfelld og alvarleg efnahagsbrotamál, sem koma til rannsóknar í umdæmi hans.

            Efnahagsbrotadeildin getur hafið rannsókn máls að eigin frumkvæði. Deildin skal, ef þess er kostur, gera viðkomandi lögreglustjóra viðvart um rannsókn áður en hún hefst. Deildin getur einni ákveðið að taka í sínar hendur rannsókn sem hafin er hjá lögreglustjóra.

5.gr.

            Efnahagsbrotadeildin og viðkomandi lögreglustjóri geta, ef hagfellt þykir, gert samkomulag um að skipa rannsóknarhóp með starfsmönnum frá deildinni og viðkomandi lögregluumdæmi til að rannsaka mál sem deildin hefur yfirtekið.

6.gr.

            Komi fram í máli, sem efnahagsbrotadeildin rannsakar, upplýsingar um önnur ætluð refsiverð brot, sem ekki heyra undir verksvið deildarinnar, skal deildin allt að einu rannsaka þau, enda sé augljóslega hagfelldast að ljúka málinu í heild.

7.gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, öðlast gildi 1. júní 1997.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 27. júní 1997.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica