Dómsmálaráðuneyti

1069/2024

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

1. gr.

Eftirfarandi greinar reglugerðarinnar falla brott: 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d.

 

2. gr.

Á eftir 50. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 51. gr. ásamt fyrirsögn, svohljóðandi og breytist númer annarra greina til samræmis:

51. gr.

Undanþágur frá lögboðnum biðtíma vegna umsókna um fjölskyldusameiningu.

Við beitingu undanþága 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga frá lögboðnum biðtíma vegna fjölskyldusameininga skal taka mið af eftirtöldu:

Aðkallandi umönnunarsjónarmið.

Með aðkallandi umönnunarsjónarmiðum skv. 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 69. gr. er að jafnaði aðeins átt við þau tilvik þegar sá sem rétturinn byggir á var umönnunaraðili maka síns áður en hann yfirgaf heimaríki sitt eða ef viðkomandi á barn í heimaríki sem er í bráðri hættu, ef barn er þar án forsjáraðila eða ef barn á við alvarleg veikindi að stríða. Með umsókn skal leggja fram gögn til stað­festingar á því að aðkallandi umönnunarsjónarmið séu til staðar. Þegar byggt er á heilsufari umsækj­anda er ekki nægjanlegt að veikindi fáist staðfest með fullnægjandi vottorðum heldur skal einnig liggja fyrir að umsækjanda standi ekki til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki. Verður ekki byggt á því að framboð heilbrigðisþjónustu í heimaríki sé lakara eða hvort að hún sé gjaldfrjáls eður ei. Við mat á því hvort aðstæður teljist aðkallandi skal meðal annars höfð hliðsjón af því hve lengi sá útlend­ingur sem rétturinn byggir á hafi verið aðskilinn umsækjanda og hvort umsækjandi hafi notið annars umönnunar­aðila á þeim tíma.

Virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Sá útlendingur, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, skal hafa verið virkur á vinnu­markaði í að lágmarki átta mánuði og vera virkur á þeim tíma sem umsókn er lögð fram. Með virkni á vinnumarkaði er átt við að útlendingur hafi verið í ráðningarsambandi sem launþegi eða staðið skil á reiknuðu endurgjaldi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á tímabilinu. Heimilt er að horfa til upp­safnaðra starfstímabila útlendings á gildistíma dvalarleyfis hans að öðrum skilyrðum uppfylltum. Til að sýna fram á virkni á vinnumarkaði getur útlendingur lagt fram afrit af gildum ráðningarsamningi, afrit launaseðla og staðfestingar á greiðslum reiknaðs endurgjalds frá Skattinum. Hafi útlendingur haft gilt bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. laganna er heimilt að horfa til þeirra starfa. Útlendinga­stofnun er heimilt að staðreyna framlagðar upplýsingar með vísan til 17. gr. laganna. Útlendingur skal að jafnaði vera virkur á vinnumarkaði meðan á afgreiðslu umsóknar stendur.

Skilyrði um íslenskunnáttu.

Sá útlendingur, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, skal hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá fræðsluaðila, viðurkenndum af miðstöð menntunar og skólaþjónustu, að lágmarki samtals 80 klukkustundir. Útlendingur skal leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði og um ástundun en tímasókn hans skal vera að lágmarki 85%.

Hefur til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur.

Sá útlendingur, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, skal leggja fram gildan leigu­samning vegna íbúðarhúsnæðis. Skal leigusamningurinn vera á hans nafni og tilgreina fasteignar­númer og íbúðarnúmer húsnæðis eins og það er skráð í fasteignaskrá. Sé leigusamningur tíma­bundinn skal hann gilda til að minnsta kosti tólf mánaða. Skal útlendingur sannanlega hafa umráð íbúðar­húsnæðisins a.m.k. frá og með þeim tíma sem aðstandendum er veitt dvalarleyfi, það rúma þá aðstand­endur sem þar munu verða búsettir og því ekki deilt með öðrum en nánustu aðstandendum útlendings. Hér er því ekki átt við takmörkuð afnot húsnæðis á borð við herbergjaleigu eða sam­nýtingu húsnæðis með ótengdum aðilum.

Sé sá útlendingur, sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á, skráður eigandi íbúðar­húsnæðis og hann sannanlega búsettur þar telst það fullnægjandi, enda séu ekki aðrir en hann og nánustu aðstandendur búsettir þar.

Ekki er heimilt að framvísa leigusamningi þar sem ekki er greitt endurgjald vegna afnota hús­næðis. Þá er ekki heimilt að leggja fram leigusamning vegna húsnæðis sem ekki er skráð sem íbúðar­húsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ekki er heimilt að framvísa leigusamn­ingi vegna félagslegs húsnæðis á vegum sveitarfélaga, sbr. 47. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

 

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 19. september 2024.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica