Dómsmálaráðuneyti

1036/2024

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.

1. gr.

Við 40. gr. reglugerðarinnar bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Til að tryggja faglega og skilvirka framkvæmd aldursgreininga skal ríkislögreglustjóri skipa nefnd um aldursgreiningar. Nefndin skal skipuð þremur einstaklingum með sérþekkingu í réttar­tannlæknisfræði og skal einn þeirra gegna hlutverki formanns. Þá skal ríkislögreglustjóri enn fremur skipa varamann sem unnt er að kalla til við störf nefndarinnar og skal hann fullnægja sömu skil­yrðum um sérþekkingu og nefndarmenn. Skipunartími nefndar skal vera þrjú ár í senn. Stjórnarfars­­lega heyrir nefnd um aldursgreiningar undir ríkislögreglustjóra og getur hann gefið út nánari reglur um starfsemi hennar. Við skipun nefndarmanna skal ríkislögreglustjóri gera samning um meðal annars:

  1. Réttindi og skyldur samningsaðila vegna framkvæmdar líkamsrannsóknar.
  2. Meðferð persónuupplýsinga og vinnslu þeirra.
  3. Þá aðferðafræði sem notuð er við framkvæmd líkamsrannsóknar.
  4. Þóknun sem greiða skal fyrir hverja rannsókn.

Nefndin skal framkvæma líkamsrannsókn til aldurgreiningar, fyrir hönd ríkislögreglustjóra og að undangenginni beiðni Útlendingastofnunar, í samræmi við ákvæði laga um útlendinga og reglu­gerðar þessarar. Í hverju máli skulu tveir nefndarmenn framkvæma líkamsrannsókn fyrir hönd nefndarinnar. Líkamsrannsókn skal fara fram eins fljótt og kostur er.

Ríkislögreglustjóri skal, að undangenginni líkamsrannsókn, afhenda Útlendingastofnun greinar­gerð um aldursgreiningu. Í greinargerð um aldursgreiningu skal tilgreina á hvaða aðferðum niður­staðan sé byggð.

 

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 29. ágúst 2024.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica