Innanríkisráðuneyti

911/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð um för yfir landamæri nr. 1212/2007. - Brottfallin

1. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 29. gr., svohljóðandi:

Tímabundið eftirlit á innri landamærum.

Innanríkisráðherra er heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum, sem síðasta úrræði, vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu eða þjóðaröryggi í samræmi við ákvæði 30. og 31. gr. Umfang og tímalengd eftirlits á innri landamærum skal ekki vera meira en nauðsynlegt er til að bregðast við ógninni.

Ákvörðun um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum skal tekin á grundvelli áhættumats frá ríkislögreglustjóra. Meðal þess sem meta þarf er:

  1. að hvaða marki tímabundin upptaka eftirlits á innri landamærum kemur til með að treysta allsherjarreglu og þjóðaröryggi,
  2. mat á ógn og áhrifum á allsherjarreglu og þjóðaröryggi,
  3. mat á áhrifum aðgerða á frjálsa för fólks á Schengen-svæðinu.

Ákvörðun skal tekin í samráði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Samráðið skal eiga sér stað eigi síðar en 10 dögum fyrir fyrirhugaða upptöku eftirlits á innri landamærum.

Tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna fyrirsjáanlegra atburða í samræmi við 30. gr. má vara í allt að 30 daga. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 30 daga í senn ef upphaflegar ástæður eftirlits eru enn til staðar. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 6 mánuði. Heimilt er að taka tillit til nýrra atriða við mat á því hvort ástæða sé til fram­lengingar. 

Tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna ófyrirsjáanlegra atburða í samræmi við 31. gr. má vara í allt að 10 daga. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 20 daga á grundvelli uppfærðs áhættumats. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 2 mánuði. Heimilt er að taka tillit til nýrra atriða við mat á því hvort ástæða sé til framlengingar.

Tímabundin landamærastjórn á innri landamærum skal fara fram í samræmi við ákvæði II. kafla reglugerðar þessarar.

Senda skal framkvæmdastjórn og ráðherraráði Evrópusambandsins skýrslu um aðgerðina að henni lokinni. Í skýrslunni skal m.a. heimila ráðherraráðinu að upplýsa Evrópuþingið um aðgerðina.

2. gr.

Ný 1. mgr. 30. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Málsmeðferð vegna fyrirsjáanlegra atburða.

Þegar fyrirhugað er að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins skal tilkynna um það til annarra Schengen-ríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eigi síðar en fjórum vikum fyrir upphaf fyrirhugaðra aðgerða. Ef atburður er ekki fyrirsjáanlegur fjórar vikur fram í tímann skal senda tilkynninguna við fyrsta tækifæri. Í tilkynningunni skulu koma fram upp­lýsingar um ástæður tímabundins eftirlits, þ. á m. upplýsingar um þá ógn sem stafar af fyrir­sjáan­lega atburðinum fyrir allsherjarreglu eða þjóðaröryggi, umfang og fyrirhugaða tímalengd eftir­litsins, nöfn landamærastöðva og aðgerðir sem nauðsynlegt er að önnur Schengen-ríki grípi til. Sama á við um framlengingu á eftirliti skv. 4. mgr. 29. gr.

3. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 31. gr. a., svohljóðandi:

Skýrsla um aðgerð.

Innan fjögurra vikna frá lokum aðgerða um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum í samræmi við 30. og 31. gr. skal senda Evrópuþinginu, ráði Evrópusambandsins og fram­kvæmda­stjórn Evrópusambandsins skýrslu um aðgerðina. Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir upphaf­legu áhættumati, faglegu samstarfi við nágrannalönd, endanlegum áhrifum aðgerða á frjálsa för fólks og mati á áhrifum aðgerða með tilliti til meðalhófs.

4. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 31. gr. b., svohljóðandi:

Heimild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Ráði Evrópusambandsins er heimilt, við sérstakar aðstæður sem ógna Schengen-svæðinu öllu og sem síðasta úrræði, að fenginni tillögu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að gefa út tilmæli um að tímabundið verði tekið upp eftirlit á innri landamærum Schengen-ríkis í allt að 6 mánuði. Heimilt er að framlengja eftirlit á innri landamærum um allt að 6 mánuði í senn ef upphaf­legar ástæður eftirlits eru enn til staðar. Þó má hið tímabundna eftirlit aldrei vara lengur en 12 mánuði. Framkvæmdastjórninni er heimilt að gera tillögu um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum umrædds Schengen-ríkis, í kjölfar úttekta sem leitt hafa í ljós alvarlega veikleika á landa­mærastjórn ríkisins, sem ríkið hefur ekki bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar um og eru þannig viðvarandi, alvarlegar og ógna almannareglu og öryggi svæðisins í heild.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á viðauka 1:

Úr liðnum: "Hafnir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar" fellur orðið "Fjarðabyggð" brott.

Eftirtaldir staðir bætast við undir liðnum "Hafnir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar": Eski­fjörður, Mjóifjörður, Norðfjörður, Reyðarfjörður.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 4. gr. og 58. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 28. september 2015.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica