Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

769/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 53 23. janúar 2003, með síðari breytingu. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

6. mgr. 12. gr. orðast svo:
Gildistími vegabréfs, eða annars kennivottorðs sem viðurkennt er sem ferðaskilríki,skal vera a.m.k. þrír mánuðir fram yfir áætlaða dvöl hér á landi.


2. gr.

19. gr. breytist þannig:

a. Á eftir d-lið 2. mgr. kemur nýr stafliður, er verður e-liður, er orðast svo: Þegar vegabréfsáritun eða önnur skammtímaáritun er veitt fyrir ferðamann skal framvísa sönnun þess að viðkomandi hafi gilda sjúkrakostnaðar- og heimferðartryggingu sem taki til allra útgjalda sem til falla vegna heimferðar vegna veikinda, nauðsynlegrar sjúkraþjónustu og/eða bráðaþjónustu á sjúkrahúsi.
b. Núverandi e-liður 2. mgr. verður f-liður.


3. gr.

2. málsl. 25. gr. orðast svo: Framlengd áritun gildir að jafnaði einungis fyrir Ísland.


4. gr.

Við 32. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
Útlendingur, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og átt hefur hér lögheimili í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, þarf ekki sérstakt dvalarleyfi, enda séu bæði ógift og hinn íslenski ríkisborgari hafi haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.


5. gr.

34. gr. breytist þannig:

a. 2. mgr. orðast svo:
Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skal hafa náð 18 ára aldri. Útlendingur yngri en 18 ára getur einungis fengið dvalarleyfi í tengslum við dvalarleyfi foreldris eða forsjármanns. Frá þessu má víkja ef:
a. barn hefur sérstök tengsl við landið eða þá aðila sem það hyggst búa hjá hér á landi,
b. lögformlega hefur verið gengið frá því í heimaríki barns að forsjá þess flytjist til þess aðila sem mun annast það hér á landi og
c. niðurstaða könnunar barnaverndarnefndar í því umdæmi þar sem barnið hyggst dveljast hér á landi mæli ekki gegn því.
Útlendingastofnun getur enn fremur ákveðið að víkja frá skilyrðum 1. og 2. málsliðar ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
b. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, er verður 3. mgr., er orðast svo:
Með mál barns sem er útlendingur og statt er leyfislaust hér á landi án foreldra eða forsjáraðila skal farið samkvæmt verklagsreglum sem Útlendingastofnun setur um vegalaus börn.


6. gr.

Í stað orðanna "skv. c-lið 35. gr." í 2. málsl. 4. mgr. 36. gr. kemur: skv. c-, f- og g-lið 35. gr.


7. gr.

38. gr. breytist þannig:

a. Í stað orðanna "gefið út" í 1. mgr. kemur: samþykkt.
b. 4. mgr. orðast svo:
Þegar Útlendingastofnun hefur gefið út dvalarleyfi skal það sent til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem leyfishafi hefur lögheimili og skal leyfishafi gefa sig þar fram til að fá það afhent.


8. gr.

39. gr. breytist þannig:

a. Á eftir orðinu "hjúskaparvottorð" í 3. málsl. 2. mgr. kemur: vottorð um hjúskaparstöðu.
b. Í stað orðanna "sbr. 64. gr." í 2. málsl. 4. mgr. kemur: sbr. 8. mgr. 29. gr. útlendingalaga og 64. gr. reglugerðar þessarar.


9. gr.

40. gr. breytist þannig:

a. 1. mgr. orðast svo:
Dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að víkja frá þessu ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Dvalarleyfi flóttamanna sem koma til landsins á grundvelli 51. gr. útlendingalaga skulu gefin út til þriggja ára.
b. Í stað orðsins "dvalarleyfisskírteinis" í lokamálslið 3. mgr. kemur: dvalarleyfis.
c. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
Dvalarleyfi fellur niður ef útlendingur flytur frá Íslandi eða dvelur lengur en þrjá mánuði erlendis samfellt. Þótt dvalarleyfi falli niður kemur það ekki í veg fyrir að útlendingur geti sótt um endurnýjun á grundvelli 41. gr. ef það er gert innan upphaflegs gildistíma dvalarleyfisins og sanngirnisástæður mæla með því.


10. gr.

Orðið "þinglýstan" í 3. mgr. 44. gr. fellur brott.


11. gr.

47. gr. breytist þannig:

a. 1. málsl. a-liðar 2. mgr. orðast svo: Maki, eldri en 24 ára.
b. b-liður 2. mgr. orðast svo: Samvistarmaki, eldri en 24 ára.
c. 1. málsl. c-liðar 2. mgr. orðast svo: Sambúðarmaki, eldri en 24 ára, ef aðilar geta sýnt fram á að hafa búið saman í skráðri sambúð eða sambúð sem staðfest er með öðrum hætti í að minnsta kosti tvö ár og hyggjast búa áfram saman.
d. f-liður 2. mgr. orðast svo: Ættmenni viðkomandi eða maka hans að feðgatali eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.
e. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir hann þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.


12. gr.

50. gr. breytist þannig:

a. Í stað 3. málsl. 1. mgr. 50. gr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Vottorð um þátttöku í námskeiði skal gefið út af námskeiðshaldara sem lokið hefur prófi frá skóla sem menntamálaráðuneytið hefur samið við um kennaranám vegna kennslu íslensku fyrir útlendinga. Námskeiðshaldari sem dómsmálaráðuneytið hefur samþykkt getur einnig gefið út slík vottorð.
b. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Vottorðið skal gefið út af þeim sem metinn er hæfur af skóla, sem menntamálaráðuneytið hefur samið við um kennaranám vegna kennslu íslensku fyrir útlendinga eða til að halda próf í íslensku fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um búsetuleyfi, eða prófahaldara sem dómsmálaráðuneytið hefur viðurkennt.


13. gr.

Við 55. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
Útlendingastofnun getur vísað útlendingi frá landi á grundvelli 18. gr. útlendingalaga ef meðferð málsins hefst innan níu mánaða frá komu útlendings til landsins.


14. gr.

63. gr. breytist þannig:

a. e-liður 1. mgr. orðast svo: dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem hafa verið gefin út af aðildarríki samnings milli Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins.
b. Í stað orðsins "Dyflinnarsamningnum" í 2. mgr. kemur: samningi milli Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins.


15. gr.

Á eftir 64. gr. kemur ný grein, er verður 64. gr. a., er orðast svo:
Útlendingastofnun heldur heildarskrá um útlendinga og þau erindi sem stofnuninnni berast. Skráin geymir upplýsingar um þá sem sækja um dvalarleyfi, þá sem sækja um hæli, þá sem er brottvísað eða frávísað og þá sem sækja um vegabréfsáritun. Í skránni eru, auk myndar af útlendingi, geymdar upplýsingar um:

a. nafn, fæðingardag, kennitölu og kyn,
b. ríkisfang, fæðingarstað og fæðingarland,
c. hjúskaparstöðu og fjölskyldu,
d. leyfi,
e. vegabréf og
f. vinnustað.

Hinn skráði á rétt á að fá vitneskju um hvaða upplýsingar um hann eru skráðar í heildarskrá um útlendinga. Hann á einnig rétt á að fá upplýsingar um hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann, nema slíkar upplýsingar eigi að fara leynt vegna lögreglustarfa.

Ef skráðar hafa verið persónuupplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar, eða persónuupplýsingar hafa verið skráðar án tilskilinnar heimildar, skal Útlendingastofnun sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða.

Heimilt er að veita lögreglu aðgang að upplýsingum sem Útlendingastofnun heldur í heildarskrá sinni um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er vegna lögreglustarfa.

Útlendingastofnun ber ábyrgð á öryggi við vinnslu upplýsinga samkvæmt þessari grein. Upplýsingum skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf.


16. gr.

69. gr. breytist þannig:

a. 2. mgr. orðast svo:
Útlendingur, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, sbr. 73. gr., má koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári hafi hann leyfi sem jafngildir óbundnu atvinnuleyfi í EES- eða EFTA-ríki og er ráðinn hjá aðila sem veitir þjónustu og hefur staðfestu eða starfsemi þar. Leggja má að jöfnu við óbundið atvinnuleyfi að útlendingurinn hafi starfað á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis í EES- eða EFTA-ríki í þrjú samfelld ár hið minnsta.
b. Á eftir orðinu "dvalarleyfi" í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eða búsetuleyfi.
c. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Dvalarleyfi og búsetuleyfi fyrir útlendinga sem falla undir EES-samninginn eða stofnsamning EFTA.


17. gr.

70. gr. breytist þannig:

a. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
Um skilyrði útgáfu búsetuleyfis fyrir EES-eða EFTA-útlending gilda ákvæði 15. gr. útlendingalaga og VIII. kafla reglugerðarinnar.
b. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilyrði dvalarleyfis og búsetuleyfis.


18. gr.

Við 1. mgr. 71. gr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þar til 1. maí 2006 getur launþegi sem er ríkisborgari Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands eða Ungverjalands ekki fengið dvalarleyfi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga. Til sama tíma gildir heimild til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði til atvinnuleitar og heimild til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins ekki um launþega frá þessum ríkjum.


19. gr.

89. gr. breytist þannig:

a. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Í viðtalinu skal ítarlega grafist fyrir um allar aðstæður þeirra barna sem fylgja umsækjanda, nema honum sé vísað til fyrsta griðlands eða annars ríkis á grundvelli samnings milli Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki eða norræna vegabréfaeftirlitssamningsins.
b. 4. og 5. mgr. orðast svo:
Áður en viðtal hefst skal umsækjandi hvattur til að segja satt, rétt og ítarlega frá og hann áminntur um að séu rangar upplýsingar veittar eða mikilvægum upplýsingum leynt geti það haft áhrif við ákvörðun um umsókn hans. Einnig skal umsækjanda bent á að refsivert er að veita upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi, sbr. b-lið 1. mgr. 57. gr. útlendingalaga.
Hafi umsækjandi undir 18 ára aldri komið til landsins án foreldra eða forsjármanna skal farið með málið samkvæmt aðgerðaráætlun um vegalaus börn. Útlendingastofnun setur nánari reglur um meðferð slíkra mála.


20. gr.

Í stað orðanna "frávísun skv. 56. gr." í 3. mgr. 90. gr. kemur: frávísun eða brottvísun skv. IX. kafla reglugerðarinnar.


21. gr.

2. málsl. 1. mgr. 94. gr. orðast svo: Dómsmálaráðuneytið ákveður hvaða staðir eru móttökustöðvar, í samræmi við samning Útlendingastofnunar eða ráðuneytisins og þess eða þeirra aðila sem falin hefur verið umönnun hælisumsækjenda á hverjum tíma.


22. gr.

Við 1. mgr. 95. gr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um barn flóttamanns sem fætt er eftir komu hans til landsins.


23. gr.

Við 102. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
Nú er gefið út vegabréf fyrir útlending þrátt fyrir e-lið 2. mgr. 97. gr. og útlendingurinn hefur ekki lagt fram fullnægjandi gögn til staðfestingar á því hver hann er og hvert er hans heimaríki eða upprunaríki, og skal þá tekið fram í vegabréfi fyrir útlending að ekki liggi fyrir við útgáfu þess staðfestar upplýsingar um uppruna viðkomandi útlendings eða hver hann er.


24. gr.

Á eftir orðinu "Útlendingastofnun" í 1. málsl. 1. mgr. 110. gr. kemur: a.m.k. einni viku.


25. gr.

3. tölul. 1. mgr. viðauka 2 orðast svo:
Eftirtalin kennivottorð sem gefin eru út til ríkisborgara hlutaðeigandi lands:

Austurríki: Personalausweis, útgefið til ríkisborgara Austurríkis.
Belgía: Carte d'Identité (Identiteitskaart, Personal-ausweis, Identity card), útgefið til ríkisborgara Belgíu.
Certificat d´identité útgefið til belgískra barna undir 12 ára aldri, skilyrði er þó að barnið ferðist með foreldri sem ber fullnægjandi ferðaskilríki.
Eistland: Eesti Vabariik Isikutunnistus (Republic of Estonia Identity Card), útgefið til ríkisborgara Eistlands.
Frakkland: Carte Nationale d'Identité, útgefið til ríkisborgara Frakklands.
Grikkland: Deltio Taytotitas, útgefið til ríkisborgara Grikklands.
Holland: Identiteitskaart B (Toeristenkaart), útgefið fyrir 1. janúar 1995 til ríkisborgara Hollands.
Europese identiteitskaart (European Identity Card, Carte d'Identité Européenne), útgefið eftir 31. desember 1994 til ríkisborgara Hollands.
Ítalía: Carta d'Identità, útgefið til ríkisborgara Ítalíu.
Certificate to expatriate, útgefið til ríkisborgara Ítalíu sem er yngri en 15 ára, skilyrði er þó að barnið ferðist með foreldri sem ber fullnægjandi ferðaskilríki.
Liechtenstein: Identitätskarte (Carte d'Identité, Carta d'Identità), útgefið til ríkisborgara Liechtenstein.
Litháen: Asmens tapatybés kortelé (Personal Identity Card), útgefið til ríkisborgara Litháen.
Lúxemborg: Carte d'Identité (Identitätskarte, Identity Card) og Titre d'Identité et de Voyage (Kinderausweis), útgefið til ríkisborgara Lúxemborgar.
Malta: Karta TaL- Dentitá, útgefið til ríkisborgara Möltu.
Portúgal: Bilhete de Identidade de Cidadao Nacional, útgefið til ríkisborgara Portugal.
Pólland: Rzeczpospolita Polska Dowód Osobisty, Republic of Poland/Identity Card, útgefið til ríkisborgara Póllands.
Slóvakía: Obciansky Preukaz/Identification Card, útgefið til ríkisborgara Slóvakíu.
Slóvenía: Osebna Izkaznica/Identity Card, útgefið til ríkisborgara Slóveníu.
Spánn: Documento Nacional de Identidad, útgefið til ríkisborgara Spánar.
Sviss: Carte d'Identité Citoyen Suisse (Identitätskarte Schweizerbürger, Carta d'Identità Cittadino Svizzero), útgefið til ríkisborgara Swiss.
Identitätskarte (Carte d'Identité, Carta d'Identità, Carta d'Identitad, Identity Card), útgefið eftir 30. júní 1994 til ríkisborgara Swiss.
Tékkland: Obcansky Prúkaz (Czeck Republic Identification Card), útgefið til ríkisborgara Tékklands.
Ungverjaland: Magyar Köstársaság (Személyazonosíto Igazolvány, Republic of Hungary Identity Card), útgefið til ríkisborgara Ungverjalands.
Þýskaland: Personalausweis, Kinderausweis, Behelfsmässiger Personalausweis, útgefið til ríkisborgara Þýskalands.


26. gr.

Í viðauka 5, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 546 8. júlí 2003, falla brott eftirtaldir staðir og sendistofnun:
Líbía – Tripoli - Sendiráð Finnlands.


27. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 58. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 8. gr., 5. mgr. 15. gr., 2. mgr. 36. gr., 4. mgr. 48. gr., 54. gr. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga nr. 96 15. maí 2002, sbr. lög nr. 20 30. apríl 2004, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 20. september 2004.

Björn Bjarnason.
Ragna Árnadóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica