Sjávarútvegsráðuneyti

366/2006

Reglugerð um karfaveiðar fiskiskipa frá Evrópusambandinu í fiskveiðilandhelgi Íslands 2006. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til karfaveiða fiskiskipa frá Evrópusambandinu í efnahagslögsögu Íslands á tímabilinu 1. júlí - 31. desember 2006.

2. gr.

Aðeins þeim fiskiskipum sem fengið hafa sérstakt leyfi Fiskistofu er heimilt að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Evrópusambandið skal sækja um leyfi fyrir hvert skip á sérstöku eyðublaði eins og gert er ráð fyrir í Viðbæti 1 við niðurstöðu fiskimálaviðræðna milli Íslands og Evrópusambandsins frá 20. febrúar 2006.

Verksmiðjuskipum verður ekki veitt leyfi til veiða. Skip sem aðeins slægja og frysta fiskinn um borð teljast ekki verksmiðjuskip.

3. gr.

Á tímabilinu 1. júlí - 31. desember 2006 er skipum Evrópusambandsins sem veiðileyfi fá samkv. 2. gr. heimilt að veiða allt að 3000 lestir af karfa. Reynist meðafli yfir tilskyldum mörkum skal brugðist við með eftirgreindum hætti:

  1. Ef þorskur er í meðafla eða ef meðafli, annar en langhali, verður meiri en 10% aflans í einstöku hali, skulu veiðar bannaðar á svæðinu og skal skipstjóri þegar í stað sigla a.m.k. í 5 sjómílur frá þeim stað er meðaflinn fékkst og á meira dýpi í því skyni að forðast meðafla. Skipstjóri skal hlýta fyrirmælum eftirlitsmanns Fiskistofu í þessum efnum. Eftirlitsmaður skal upplýsa Fiskistofu um meðafla og þær aðgerðir sem teknar hafi verið til að forðast frekari meðafla. Upplýsingum um að veiðar hafi verið bannaðar á viðkomandi svæði skal þegar komið til annarra eftirlitsmanna á svæðinu sem skulu tryggja að veiðar séu ekki stundaðar á svæðinu.
  2. Fari meðafli í þorski yfir 5% aflans í einstöku hali og annar meðafli utan langhala yfir 15% skal eftirlitsmaður afmarka svæðið og tilkynna Fiskistofu um það sem þá er heimilt að loka viðkomandi svæði strax í allt að 14 daga. Fiskistofa tilkynnir viðkomandi skipum með skeytum um lokun svæðisins, afmörkun þess og gildistíma.

Meðafli sem fæst við karfaveiðarnar reiknast til kvóta samkv. 1. mgr. Meðafli í þorski reiknast tvöfalt til kvóta.

Íslensk stjórnvöld skulu upplýsa Evrópusambandið þegar meginhluti leyfðs heildarafla hefur verið veiddur. Þegar leyfilegur heildarafli hefur verið veiddur stöðva íslensk stjórnvöld veiðarnar.

4. gr.

Skipum frá Evrópusambandinu sem leyfi fá til veiða samkvæmt 2. gr. er aðeins heimilt að veiða á tveim svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands og markast þau af línum sem dregnar eru milli eftirfarandi punkta:

I.  Suðvestur svæð

  1. 61°10,30' n - 27°59,68' v
  2. 63°12,00' n - 23°05,00' v
  3. 62°58,00' n - 22°25,00' v
  4. 63°06,00' n - 21°30,00' v
  5. 63°03,00' n - 21°00,00' v
  6. 59°58,62' n - 21°00,00' v

Að sunnan markast svæðið af mörkum fiskveiðilögsögunnar.

II. Suðaustur svæði

  1. 60°09,77' n - 17°00,00' v
  2. 63°10,00' n - 17°00,00' v
  3. 63°36,00' n - 14°30,00' v
  4. 63°53,00' n - 13°30,00' v
  5. 64°00,00' n - 12°30,00' v
  6. 63°35,00' n - 12°21,00' v
  7. 63°14,00' n - 11°23,00' v
  8. 63°14,00' n - 10°40,00' v

Að sunnan markast svæðið af mörkum fiskveiðilögsögunnar.

5. gr.

Aldrei skulu fleiri en 5 fiskiskip vera við veiðar í efnahagslögsögu Íslands samtímis. Til að tryggja framkvæmd þessarar reglu veitir Landhelgisgæsla Íslands upplýsingar um það hve mörg skip stundi veiðar hverju sinni.

6. gr.

Óheimilt er fiskiskipum að stunda veiðar í efnahagslögsögu Íslands nema eftirlitsmaður frá Fiskistofu sé um borð í skipinu.

Hyggist útgerð senda skip til veiða í efnahagslögsögu Íslands skal hún tilkynna Fiskistofu þá fyrirætlan og hvenær veiðar muni hefjast. Fiskistofa skal, svo fljótt sem mögulegt er, tilkynna hvar eftirlitsmaður muni koma um borð í skipið.

Útgerð skipsins getur óskað eftir því að eftirlitsmaðurinn komi um borð eða fari frá borði þar sem skipið leggur úr höfn eða í einhverri af þeim höfnum sem skráðar eru í viðbæti 2 við niðurstöður fiskimálaviðræðna Íslands og Evrópusambandsins frá 20. febrúar 2006. Skal ósk um eftirlitsmann komið til Fiskistofu með a.m.k. 7 daga fyrirvara.

7. gr.

Eftirlitsmaður Fiskistofu skal fylgjast með veiðum og tryggja að farið sé að öllum reglum sem í gildi eru hverju sinni um veiðar í efnahagslögsögu Íslands. Hann skal og veita íslenskum yfirvöldum upplýsingar um veiðarnar.

Eftirlitsmaður Fiskistofu skal ekki búa við lakari skilyrði um borð en yfirmenn skipsins. Hann skal hafa alla þá aðstöðu sem hann þarf til að sinna skyldum sínum, þ.m.t. ótakmarkaðan aðgang að fjarskiptatækjum til embættiserinda og öllum athafnasvæðum og skjölum um borð í skipinu. Skipstjóra er skylt án tafar að tilkynna eftirlitsmanni um skeyti eða boð sem honum berst um fjarskiptabúnað skipsins frá íslenskum stjórnvöldum.

Útgerð skipsins skal greiða eftirfarandi kostnað vegna eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í fiskiskipi: Ferðakostnað til og frá þeirri höfn þar sem eftirlitsmaður kemur um borð eða fer frá borði, uppihald og launakostnað, sem nemur 185 ECU hvern dag sem eftirlitsmaður er um borð auk tveggja daga til ferðalaga. Krefjast má bankaábyrgðar eða fyrirframgreiðslu.

8. gr.

Áður en skip kemur inn í efnahagslögsögu Íslands skal tilkynna Landhelgisgæslunni um fyrirhugaðar veiðar með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara.

Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

Orðið "komutilkynning" (entry report).

Nafn skips.

Skráningarnúmer.

Kallmerki.

Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.

Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er í 1. mgr.

9. gr.

Skip sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 10.00 til 12.00 að íslenskum tíma, senda Landhelgisgæslunni tilkynningu þar sem eftirfarandi skal koma fram í þessari röð:

Orðið "aflatilkynning" (catch report).

Nafn skips.

Skráningarnúmer.

Kallmerki.

Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.

Afli síðasta sólarhrings eða afli frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands sé um skemmri tíma að ræða, sundurliðaður eftir tegundum.

10. gr.

Þegar skip lýkur veiðum í efnahagslögsögu Íslands skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

Orðið "lokatilkynning" (exit report).

Nafn skips.

Skráningarnúmer.

Kallmerki.

Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.

Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.

Afli síðan síðasta aflatilkynning var send, sundurliðaður eftir tegundum.

11. gr.

Áður en skip heldur út úr efnahagslögsögu Íslands skal senda Landhelgisgæslunni tilkynningu um það með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

Orðið "athugunartilkynning" (control report).

Nafn skips.

Skráningarnúmer.

Kallmerki.

Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.

Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.

Landi skip afla sínum í íslenskri höfn skal tilkynna það Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er frá í 1. mgr.

12. gr.

Opinber samskipti við Landhelgisgæslu Íslands skulu fara fram á ensku. Sama gildir um samskipti eftirlitsmanns Fiskistofu við skipstjóra eða fulltrúa hans nema um annað hafi verið samið.

Tilkynningar til Landhelgisgæslunnar skulu vera í því formi, sem ákveðið er vegna tilkynninga um veiðar á samningasvæði (NEAFC) Norðaustur-Atlants­hafs­fiskveiði­nefndar­innar nema Landhelgisgæslan óski annars.

13. gr.

Sé skip með afla um borð við komu inn í efnahagslögsögu Íslands skal honum landað á Íslandi og hann vigtaður í samræmi við íslenskar reglur áður en veiðar hefjast í íslenskri lögsögu.

Þegar skip yfirgefur efnahagslögsögu Íslands eftir að hafa stundað þar veiðar og áður en það hefur veiðar á öðrum miðum skal það annað hvort landa aflanum á Íslandi og vigta hann í samræmi við íslenskar reglur eða á fiskmörkuðum sem hafa verið viðurkenndir af íslenskum yfirvöldum, sbr. viðbæti 3 við niðurstöður fiskimálaviðræðna Íslands og Evrópusambandsins frá 20. febrúar 2006.

14. gr.

Fiskiskip skulu hlíta öllum þeim ákvörðunum sem lúta að verndun fiskistofnanna, þar með töldum lokunum veiðisvæða. Hafrannsóknastofnunin mun tilkynna fiskiskipum sem eru að veiðum í efnahagslögsögu Íslands fyrirfram um lokanir veiðisvæða.

Lágmarksmöskvastærð í vörpu skal vera 135 mm. Um mælingar á möskvum, klæðningar á vörpu og styrktarnet gilda sömu reglur og gilda fyrir íslensk skip.

Í afladagbók sem skal vera innbundin með númeruðum síðum og í tvíriti skal skipstjóri skrá eftirfarandi upplýsingar: Afli skips, skráningarnúmer og kallmerki. Fyrir hvert kast skal skrá staðsetningu, dagsetningu og tíma þegar vörpunni er kastað og afla í hverju kasti í lestum. Einnig skal skrá heildarafla á sólarhring í efnahagslögsögu, stærð vörpu og möskvastærð. Skipstjóri skal undirrita hverja síðu afladagbókarinnar. Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu skal sýnd afladagbók, sé þess óskað.

15. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Jafnframt getur Fiskistofa svipt skip leyfum til veiða innan efnahagslögsögunnar brjóti útgerð skips, áhöfn eða aðrir sem í þágu útgerðar starfa gegn reglugerð þessari.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli

Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. apríl 2006.

F.h.r.

Jón B. Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica