Sjávarútvegsráðuneyti

504/2006

Reglugerð um úthlutun aflahlutdeilda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 41/2006, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Fiskistofa skal úthluta aflahlutdeild í þorski þeim fiskiskipum sem réttur skv. 9. gr. a í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, var bundinn við þegar lög nr. 41/2006 tóku gildi. Reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar skal vera hvort sem hærra reynist: aflamark sem úthlutun á grundvelli viðkomandi réttar gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips eða aflamark sem er meðaltal þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000 - 2005/2006, að báðum árum meðtöldum. Þó skal skerða reiknigrunn hvers úthlutunarréttar hlutfallslega þannig að heildarreiknigrunnurinn verði ekki hærri en meðaltal úthlutana fyrrgreindra fiskveiðiára að teknu tilliti til lækkunar leyfilegs heildarafla þorsks milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Aflahlutdeild hvers fiskiskips skal síðan reiknuð út frá reiknigrunni sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski. Að lokinni þessari úthlutun skal aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun leiða.

2. gr.

Fiskistofa skal fyrir 1. júlí 2006 senda eigendum hlutaðeigandi fiskiskipa upplýsingar um reikniforsendur sem lagðar verða til grundvallar við úthlutun aflahlutdeildar til skipa þeirra samkvæmt 1. gr. og skulu þeir hafa frest til 14. júlí 2006 til að gera skriflegar athugasemdir við forsendurnar. Athugasemdir sem gerðar eru að loknum þeim fresti skulu ekki teknar til greina.

Hafi fiskiskip, sem réttur var bundinn við, sbr. 1. málsl. 1. gr., verið tekið af skipaskrá hjá Siglingastofnun Íslands fyrir gildistöku laga nr. 41/2006 skal þeim, sem skráðir voru eigendur þess þegar það var tekið af skrá, veittur frestur til og með 14. júlí 2006 til að óska eftir því við Fiskistofu að aflahlutdeild verði úthlutað til annars skips, enda hafi það skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þá skal eigendum fiskiskipa sem réttur var bundinn við, sbr. 1. málsl. 1. gr., en ekki hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni veittur sami frestur til að fá slíkt leyfi eða, að uppfylltum skilyrðum 3. gr., að óska eftir því við Fiskistofu að aflahlutdeild verði úthlutað til annars skips sem slíkt leyfi hefur.

3. gr.

Um flutning réttar til úthlutunar aflahlutdeildar samkvæmt 1. gr. á milli fiskiskipa fer samkvæmt ákvæðum 11. gr. reglugerðar nr. 724/2005, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2005/2006, eftir því sem við getur átt.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 41/2006, um breytingu á lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 20. júní 2006.

F. h. r.

Árni Múli Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica