Á fiskveiðiárinu 2002/2003 skal úthluta 2000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum reiknað til stuðnings sjávarbyggðum, sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal skipting þessa magns vera þannig:
1. | 220 lestir samtals til sjávarbyggða á Suðurlandi og Suðvesturlandi annarra en Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps. |
2. | 79 lestir samtals til sjávarbyggða frá Akranesi til Snæfellsness. |
3. | 126 lestir samtals til sjávarbyggða við syðri hluta Vestfjarða; Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. |
4. | 305 lestir samtals til sjávarbyggða við nyrðri hluta Vestfjarða; Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur. |
5. | 331 lest samtals til sjávarbyggða við Húnaflóa. |
6. | 49 lestir samtals til sjávarbyggða við Skagafjörð og Siglufjörð. |
7. | 203 lestir samtals til sjávarbyggða við Eyjafjörð og Grímseyjar. |
8. | 106 lestir samtals til sjávarbyggða við Skjálfanda og Axarfjörð. |
9. | 209 lestir samtals til sjávarbyggða á Norðausturlandi frá Raufarhöfn til Borgarfjarðar. |
10. | 148 lestir samtals til sjávarbyggða á miðfjörðum Austurlands frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar. |
11. | 183 lestir samtals til sjávarbyggða á suðurfjörðum Austurlands til Hornafjarðar. |
12. | 41 lest samtals til Vestmannaeyja. |
Ofangreindu magni skal úthlutað í eftirfarandi tegundum: Þorski, ýsu, ufsa og steinbít og skal það skipast hlutfallslega miðað við leyfilegan heildarafla í þessum tegundum og gildandi þorskígildisstuðla.
Ráðherra úthlutar aflaheimildum samkvæmt 1. gr. til einstakra aðila á grundvelli umsókna um aflaheimildir sem borist höfðu ráðuneytinu eigi síðar en 16. desember 2002 eða verið póstlagðar fyrir þann tíma. Við mat á umsóknum skal ráðherra m.a. líta til eftirfarandi atriða:
1. | Stöðu og horfa í einstökum byggðarlögum með tilliti til þróunar veiða og vinnslu. |
2. | Hvort telja megi líklegt, m.a. miðað við þær áætlanir sem fram koma í umsókn um aflaheimildir, að úthlutunin styrki sjávarbyggð til lengri tíma. |
3. | Hvort um sé að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða. |
4. | Hvort aðrar sértækar aðgerðir hafa verið gerðar til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum. |
5. | Rökstuðings sem fram kemur í umsókn. |
Þegar fyrir liggur ákvörðun ráðherra um úthlutun aflaheimilda kynnir ráðuneytið umsækjendum niðurstöðu hans. Sé aflaheimildum úthlutað til umsækjanda, sem óskað hefur eftir aflaheimildum á ákveðið fiskiskip, verður aflamarki viðkomandi fiskiskips breytt í samræmi við aukninguna. Sé aflaheimildum úthlutað til annars aðila verður hlutaðeigandi að tilkynna til Fiskistofu hvaða fiskiskip muni nýta þær aflaheimildir.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.