Ákvæði reglugerðar þessarar taka til úthlutunar aflahlutdeildar á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum, hvort sem er innan eða utan íslenskrar lögsögu.
Á árinu 2002 er íslenskum skipum heimilt að veiða 132.080 lestir af síld og skal Fiskistofa skipta því heildarmagni milli þeirra á grundvelli aflahlutdeildar, sbr. 2. gr.
Hverju íslensku fiskiskipi skal úthlutað aflahlutdeild í síld og skal hún reiknuð í hlutfalli við aflareynslu þeirra við veiðar á norsk-íslenskri síld á almanaksárunum 1994-2001, að báðum árum meðtöldum. Við útreikning á aflahlutdeild hvers fiskiskips skal leggja til grundvallar upplýsingar úr aflaupplýsingakerfinu Lóðs. Hafi skip komið í stað skips sem áunnið hefur sér aflareynslu, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 38, 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum skal það skip er í staðinn kemur njóta þeirrar aflareynslu. Hafi skip sem aflareynsla er bundin við horfið úr rekstri þegar úthlutun á sér stað, er síðasta eiganda skipsins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip sú aflahlutdeild skuli skráð.
Fiskistofa skal við útgáfu reglugerðar þessarar úthluta 80% af leyfilegum heildarafla, sbr. 2. mgr. 1. gr. Jafnframt skulu útgerðum skipanna kynntar forsendur úthlutunarinnar og skulu þær hafa frest til 15. maí 2002 til að koma athugasemdum sínum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa skal hafa lokið endanlegri úthlutun aflahlutdeilda og aflamarks eigi síðar en 24. maí 2002.
Um veiðar á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerða um veiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum og um veiðieftirlit á samningsvæði NEAFC.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.