Fiskistofa skal á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthluta 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, miðað við óslægðan afla, til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum, sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
1. | Að hlutur krókaaflamarksbáta í viðkomandi byggðarlagi nemi 15% eða meira af því heildaraflamarki í þorskígildum talið, þ.m.t. í loðnu, sem úthlutað hefur verið á fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskiskipa, sem skráð voru á úthlutunardegi í byggðarlaginu. |
2. | Að þorskaflahámarks- og krókaaflamarksbátar hafi landað a.m.k. 15% af þeim heildarafla, í þorskígildum talið, sem fiskiskip, sem skráð voru í viðkomandi byggðarlagi á löndunardegi, lönduðu á fiskveiðiárinu 2000/2001. |
Hlutur einstakra byggðarlaga, sem til greina koma skv. 1. gr., skal miðast við að heildaraflamark krókaaflamarksbáta úr hverju byggðarlagi á fiskveiðiárinu 2001/2002 verði ekki lægra en tiltekið hlutfall af lönduðum afla þorskaflahámarks- og krókaaflamarksbáta á fiskveiðiárinu 2000/2001, sem skráðir voru í viðkomandi byggðarlagi.
Sá hlutur sem kemur í hlut einstakra byggðarlaga, skv. 2. gr., skal skiptast milli einstakra krókaaflamarksbáta, sem skráðir voru í viðkomandi byggðarlagi 21. desember 2001 og eru enn skráðir þar 9. apríl 2002. Skal úthlutun til krókaaflamarksbáta innan einstaks byggðarlags miðast við að heildaraflamark hvers krókaaflamarksbáts á fiskveiðiárinu 2001/2002 verði, að lokinni úthlutun samkvæmt þessari reglugerð, ekki lægra en tiltekið hlutfall af lönduðum afla viðkomandi báts á fiskveiðiárinu 2000/2001 í þorskígildum talið. Við útreikning samkvæmt þessari grein skal aflareynsla fylgja við flutning veiðileyfa milli báta.
Við útreikninga á afla, aflamarki og úthlutun samkvæmt reglugerð þessari skal miða við eftirfarandi forsendur:
1. | Afli og aflamark í eftirgreindum tegundum skal ekki reiknast með: þorskur í Barentshafi eða afli fenginn þar, úthafskarfi, rækja á Flæmingjagrunni, síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunni. |
2. | Ekkert byggðarlag fái meira en 400 þorskígildistonn í sinn hlut miðað við slægðan fisk skv. 2. gr. |
3. | Enginn bátur fái meira en 50 þorskígildistonn í sinn hlut miðað við slægðan fisk skv. 3. gr. |
4. | Í stað úthlutaðs aflamarks í þorski á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal miðað við óbreyttan þorskafla krókaaflamarksbáta á fiskveiðiárinu 2000/2001 skv. 2. og 3. gr. |
5. | Miða skal við almenna úthlutun aflamarks á grundvelli aflahlutdeilda á fiskveiðiárinu 2001/2002 auk úthlutunar Fiskistofu samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, 7. gr. laga nr. 129/2001 og ákvæði til bráðbirgða XXV og XXVI við lög nr. 38/1990. |
6. | Miða skal við þorskígildi samkvæmt stuðlum reglugerðar nr. 631/2001 bæði varðandi úthlutun og landaðan afla. |
7. | Um afla og aflaúthlutanir skal leggja til grundvallar upplýsingar úr aflaupplýsingakerfinu Lóðs. |
Fiskistofa skal við útgáfu reglugerðar þessarar úthluta hverjum báti 70% af áætluðum hlut hans. Jafnframt skulu forsendur úthlutunarinnar kynntar útgerðum bátanna og skulu þær hafa frest til 29. apríl 2002 til að koma athugasemdum sínum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa skal hafa lokið endanlegri úthlutun aflamarks eigi síðar en 13. maí 2002.
Reglugerð þessi er gefin út á grundvelli lokamálsgreinar 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, sbr. 4. gr. laga nr. 129, 20. desember 2001, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.