Heimilt er íslenskum skipum á árinu 2001 að veiða samtals 5.900 lestir af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í efnahagslögsögu Noregs. Aðeins er heimilt að stunda veiðar með nót og eingöngu norðan 62°N og utan 12 sjómílna frá grunnlínum við Noreg. Hverju skipi er heimilt að veiða í efnahagslögsögu Noregs 4,7% þess aflahámarks, sem þeim var úthlutað í upphafi síldarvertíðarinnar, að teknu tilliti til flutnings milli skipa. Heimilt er að flytja sérstaklega þann hluta aflahámarks, sem hverju skipi er heimilt að veiða við Noreg, milli skipa, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 308/2001 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001.
Veiðar á síld við Noreg, sbr. 1. gr., eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Skipstjórnarmönnum ber að fylgja reglum norskra stjórnvalda við veiðar í efnahagslögsögu Noregs. Um tilkynningar til Fiskistofu og löndun afla gilda ákvæði reglugerðar nr. 308, 5. apríl 2001, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001.
Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa, gefnum út með stoð í henni, varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu til að öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi 7. gr. reglugerðar nr. 308, 5. apríl 2001, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.