1. gr.
Frá og með 25. nóvember 2000 til og með 31. desember 2000 eru allar veiðar með botn- og flotvörpu bannaðar á svæði suður af Reykjanesskaga, sem að austan markast af línu sem dregin er frá Selvogsvita í punkt 63°30'N, 21°39'V. Að sunnan markast svæðið af línu, sem dregin er úr punkti 63°30'N, 21°39'V í punkt 63°40'N, 22°32'V. Að vestan markast svæðið af línu sem dregin er úr punkti 63°40'N, 22°32'V réttvísandi norður að Staðarbergi.
2. gr.
Frá og með 25. nóvember 2000 til og með 30. apríl 2001 eru allar veiðar með botn- og flotvörpu bannaðar á svæði út af Faxaflóa, sem að sunnan markast af línu sem dregin er réttvísandi 270° frá Sandgerðisvita. Að vestan markast svæðið af 23°42'V og að norðan af 64°20'N.
3. gr.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 11. október 2000.
Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.