1. gr.
Við 1. mgr. 3. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Heimilt er að nýta aflamark sem úthlutað er í úthafskarfa neðan 500 m dýpis til veiða á karfa ofan 500 m dýpis.
2. gr.
5. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Um tilkynningar við úthafskarfaveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 447/1999, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan lögsögunnar.
3. gr.
Við 6. gr. bætist ný mgr. sem orðast svo: Skipstjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir að veiðum lýkur og eigi síðar en 4 klukkustundum eftir að komið er til hafnar, senda Fiskistofu skýrslu um áætlaðan úthafskarfaafla í viðkomandi veiðiferð á því formi sem Fiskistofa ákveður. Í skýrslunni skal koma fram úthafskarfaafli skipsins miðað við afla upp úr sjó sundurliðaður eftir afla innan fiskveiðilandhelgi Íslands, afla á alþjóðlegu hafsvæði og afla innan fiskveiðilandhelgi Grænlands. Einnig skal koma fram hve mikill hluti aflans er fenginn neðan 500 m dýpis og hve mikill ofan 500 m dýpis.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 24. mars 2000.
Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.