1. gr.
Reglugerð þessi tekur til loðnuveiða grænlenskra, norskra og færeyskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, á loðnuvertíðinni 20. júní 2000 til 30. apríl 2001.
2. gr.
Aðeins þeim skipum sem fengið hafa sérstakt leyfi frá Fiskistofu er heimilt að stunda loðnuveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Leyfi til loðnuveiða eða afrit af því skal vera um borð í veiðiskipi.
Skip, sem óska eftir leyfi til loðnuveiða skulu sækja um það til Fiskistofu. Í umsókninni komi fram upplýsingar um nafn skips, skráningarnúmer, kallmerki, stærð í brt., burðargetu og upplýsingar um fjarskiptatæki. Skip sem afsala sér veiðileyfi skulu tilkynna það Fiskistofu, og komi sömu upplýsingar fram og í umsókninni.
3. gr.
Norskum skipum er heimilt að veiða samtals 41.200 lestir í efnahagslögsögu Íslands og er þeim aðeins heimilt stunda loðnuveiðar í efnahagslögsögu Íslands til 15. febrúar 2001 og norðan við 64°30'N.
Grænlenskum skipum er heimilt að veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands það magn sem þeim er úthlutað af grænlenskum stjórnvöldum, þó með þeirri takmörkun að eftir 15. febrúar 2001 og sunnan 64°30'N er þeim aðeins heimilt að veiða 23.000 lestir til 30. apríl 2001.
Færeyskum skipum er heimilt að veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands samtals 30.000 lestir á loðnuvertíðinni 2000/2001.
Allar veiðar eru bannaðar í fiskveiðilandhelgi Íslands tímabilið 16. ágúst - 15. september 2000. Erlend veiðiskip skulu hlíta þeim verndaraðgerðum sem stjórnvöld og Hafrannsóknastofnunin kunna að grípa til.
4. gr.
Færeyskum, norskum og grænlenskum skipum er heimilt að landa afla sínum í íslenskum höfnum og gilda um vigtun afla sömu reglur og gilda fyrir íslensk skip. Óheimilt er að umskipa afla í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Grænlenskum og færeyskum skipum sem stunda loðnuveiðar eftir 15. febrúar 2001 er óheimilt að landa loðnuafla utan Íslands nema til bræðslu.
5. gr.
Á tímabilinu 20. júní til 30. nóvember 2000 skulu ekki fleiri en 35 norsk skip stunda loðnuveiðar í fiskveiðilandhelginni samtímis. Á tímabilinu 1. desember 2000 til 15. febrúar 2001 skulu ekki fleiri en 25 norsk skip stunda loðnuveiðar í lögsögunni samtímis.
Ekki skulu fleiri en 10 færeysk skip stunda loðnuveiðar samtímis.
Óheimilt er að hefja veiðar í fiskveiðilandhelginni nema fyrir liggi staðfesting frá Landhelgisgæslu Íslands um að fjöldi skipa sé innan tilskilinna marka.
Ekki skulu fleiri loðnuveiðiskip frá hvorri þjóð vera í fiskveiðilandhelgi Íslands hverju sinni en hlotið hafa staðfestingu frá Landhelgisgæslunni, sbr. þó 11. gr.
6. gr.
Skip skulu, á leið til veiðisvæðis áður en veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilandhelgi Íslands, sigla um einn af eftirfarandi athugunarstöðum:
a) 65°00'N - 10°00'V
b) 66°15'N - 09°00'V
c) 67°30'N - 10°00'V
d) 68°30'N - 11°00'V
Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að ákveða í hvaða athugunarstað veiðiskip fer í gegnum.
7. gr.
Áður en skip kemur inn í fiskveiðilandhelgi Íslands skal tilkynna Landhelgisgæslunni um fyrirhugaðar veiðar og komutíma í athugunarstað með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara.
Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „komutilkynning“ (entry report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð.
Athugunarstaður sem siglt verður um, sbr. 6. gr., og fyrirhugaður komutími á staðinn.
Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er í 1. mgr. Þó þarf ekki að tilgreina athugunarstað sbr. síðasta lið.
8. gr.
Skip sem stundar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 00-08 að íslenskum tíma senda Landhelgisgæslunni tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram í þessari röð:
Orðið „aflatilkynning“ (catch report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð.
Afli síðasta sólarhrings eða afli frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands sé um skemmri tíma að ræða.
9. gr.
Þegar skip lýkur veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands skal það tilkynnt Landhelgisgæslunni. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „lokatilkynning“ (exit report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð.
Afli síðan síðasta aflatilkynning var send.
10. gr.
Áður en skip heldur út úr fiskveiðilandhelgi Íslands skal senda Landhelgisgæslunni tilkynningu um það og komutíma í athugunarstað með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „athugunartilkynning“ (control report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð.
Athugunarstaður sem siglt verður um, sbr. 6. gr. og fyrirhugaður komutími á staðinn.
Landi skip afla sínum í íslenskri höfn skal tilkynna það Landhelgisgæslunni á sama hátt og greint er frá í 1. mgr. en í stað athugunarstaðar í síðasta lið verði greint frá löndunarhöfn.
11. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er skipum sem ekki hafa staðfestingu Landhelgisgæslunnar sbr. 3. mgr. 5. gr. heimil óslitin sigling um fiskveiðilandhelgina, enda tilkynni þau til Landhelgisgæslunnar um komu sína í fiskveiðilandhelgina, eða brottför úr íslenskri höfn, með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „In“.
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar sigling út úr lögsögunni er áætluð.
Á 12 klukkustunda fresti skal síðan senda tilkynningu um staðsetningu skipsins til Landhelgisgæslunnar. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „Staðsetningartilkynning“ (position report).
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími, stefna, hraði og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
Þegar skip siglir út úr íslenskri fiskveiðilandhelgi skal það tilkynnt til Landhelgisgæslunnar. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið „Out“.
Nafn skips.
Skráningarnúmer.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
12. gr.
Í afladagbók, sem skal vera innbundin, með númeruðum síðum og í tvíriti, skal skipstjóri skrá eftirfarandi upplýsingar: Nafn skips, skráningarnúmer og kallmerki. Fyrir hvert kast skal skrá staðsetningu, dagsetningu og tíma þegar nótinni er kastað og afla í hverju kasti í lestum, áður en nótinni er kastað á ný. Einnig skal skrá heildarafla á sólarhring í fiskveiðilandhelgi Íslands, stærð nótar og möskvastærð. Þá skal skipstjóri undirrita hverja síðu.
Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og Veiðieftirlits Fiskistofu skal sýnd afladagbók sé þess óskað.
Um borð í hverju skipi skulu vera teikningar af lestum þess þar sem fram kemur heildarrúmmál hverrar lestar. Þá skulu teikningar eða gögn sýna hvert rúmmál lestanna er miðað við 10 sentímetra millibil frá ákveðnum og merktum viðmiðunarstað.
13. gr.
Óheimilt er að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum en nót.
14. gr.
Skipum ber að fylgja banni ráðuneytisins við veiðum vegna verndunarsjónarmiða og skyndilokunum Hafrannsóknastofnunarinnar, sbr. 8. - 11. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
15. gr.
Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæðum 6., 7. og 10. gr. hafi aðilar gert samkomulag þar um.
16. gr.
Tilkynningar skv. 7.-10. gr. skal senda á íslensku eða ensku, og skulu tímasetningar vera miðaðar við íslenskan tíma.
Skipum er óheimilt að yfirgefa athugunarstaði fyrir áætlaðan komutíma, sbr. 7. og 10. gr.
Skip sem hafa veiðileyfi skv. reglugerð þessari skulu að öðru leyti fylgja ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
17. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.
Jafnframt getur Fiskistofa svipt skip leyfi til loðnuveiða innan fiskveiðilandhelginnar brjóti útgerð eða áhöfn skips eða aðrir sem í þágu útgerðar starfa gegn reglugerð þessari.
18. gr.
Reglugerð þessi er sett skv. ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 5. júní 2000.
Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.