1.gr.
Allar veiðar á ígulkerum í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.
2. gr.
Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiðar í atvinnuskyni með aflamarki eiga kost á leyfi til ígulkeraveiða.
Einungis koma til greina við úthlutun veiðileyfa þeir bátar, sem hafa tryggt sér fyrirfram sölu aflans til ígulkeravinnslustöðvar, sem hefur gilt vinnsluleyfi frá Fiskistofu. Heimilt er að binda útgáfu leyfa til ígulkeraveiða þeim skilyrðum ,sem þurfa þykir, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.
3. gr.
Hvert veiðileyfi skal bundið við ákveðið veiðisvæði og skal óheimilt að úthluta báti leyfi á öðru veiðisvæði á sama leyfistímabili. Veiðisvæði skulu skiptast með eftirgreindum hætti.
Ráðuneytinu er þó heimilt að breyta veiðisvæði er þörf krefur:
A. Fyrir Vesturlandi, frá línu réttvísandi suður frá Selvogsvita að línu réttvísandi vestur frá
Öndverðarnesi.
B. Á Breiðafirði, frá línu réttvísandi vestur frá Öndverðarnesi að línu réttvísandi vestur frá
Bjargtöngum.
C. Fyrir Vestfjörðum, frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum að línu réttvísandi norður
frá Horni.
D. Á Húnaflóa, frá línu réttvísandi norður frá Horni að línu réttvísandi norður frá Skagatá.
E. Fyrir Norðurlandi, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá að línu réttvísandi austur frá
Fonti á Langanesi.
F. Fyrir Austurlandi, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi að línu, sem dregin er
réttvísandi suður frá Ingólfshöfða.
G. Fyrir Suðurlandi, frá línu réttvísandi suður frá Ingólfshöfða að línu, sem dregin er
réttvísandi suður frá Selvogsvita.
4. gr.
Allir þeir sem ígulkeraveiðar stunda, skulu senda Fiskistofu mánðarlega skýrslur um veiðarnar.
5. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15,maí 1990, um stjórn fiskveiða. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Jafnframt er heimilt að svipta báta heimild til ígulkeraveiða í tiltekinn tíma, að mati ráðuneytisins, vegna brota á ákvæðum reglugerðar þessarar eða leyfisbréfa til ígulkeraveiða.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða og laga nr. 81, 31. Maí 1076, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. er til 15. júní 1994 heimilt að veita bátum, sem fengið hafa útgefið leyfi til veiða með línu og handfærum með dagatakmörkunum leyfi til ígulkeraveiða. Veiðar þeirra falla undir ákvæði reglugerðar þessara.
Sjávarútvegsráðuneytið, 13. desember 1993.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.