Landbúnaðarráðuneyti

431/1996

Reglugerð um greiðslur úr fóðursjóði. - Brottfallin

1. gr.

            Landbúnaðarráðherra greiðir innflytjendum fóðurs og hráefnis í fóður, sem fellur undir tollkafla 10, 11, 12, 17 og 23, fé úr fóðursjóði sem starfar skv. lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

2. gr.

            Greiðslan skal vera mishá eftir því hvort um er að ræða hráefni til fóðurgerðar eða fóðurblöndur. Greiðsla úr fóðursjóði skal vera eftirfarandi:

1.         Fyrir hráefni eða fullunnið fóður til loðdýraræktar eða fiskeldis, skal greiða að fullu andvirði þess tolls sem lagður var á við innflutning.

2.         Fyrir hráefni til fóðurgerðar, annarrar en fiskeldis- og loðdýraræktarfóðurs, skal greiða andvirði þess tolls sem lagður var á við innflutning, að frádregnum kr. 0,80 á kg innfluttrar vöru.

3.         Fyrir fóðurblöndur til annars en loðdýraræktar og fiskeldis, skal greiða andvirði þess tolls sem lagður var á við innflutning að frádregnum kr. 7,80 á kg innfluttrar vöru.

3. gr.

            Umsókn um greiðslur úr fóðursjóði vegna tiltekins innflutnings fóðurs og fóðurefnis skal hafa að geyma upplýsingar um álagða tolla, magn og hversu hárrar greiðslu er óskað. Umsóknin skal studd eftirfarandi gögnum:

1.         Staðfestu ljósriti af aðflutningsskýrslu.

2.         Staðfestingu aðfangaeftirlits um að varan sé ætluð til loðdýraræktar eða fiskeldis sé um fóður til þeirra nota að ræða.

3.         Yfirlýsingu umsækjanda eða notanda um að varan hafi farið til loðdýraræktar eða fiskeldis sé um fóður til þeirra nota að ræða.

4. gr.

            Landbúnaðarráðuneytið/ríkisféhirðir annast greiðslur úr fóðursjóði til innflytjenda. Umsóknir skulu sendar landbúnaðarráðuneytinu sem metur þær og afgreiðir fullgildar umsóknir til greiðslu.

            Hafi innflytjanda verið veitt heimild til útgáfu á skuldaviðurkenningu til tryggingar greiðslu fóðurtolls, gegn tryggingum sem landbúnaðarráðuneytið metur gildar, verði skuldajafnað með greiðslu úr fóðursjóði til lúkningar greiðslu skv. skuldaviðurkenningu áður en útborgun til hans á sér stað.

5. gr.

            Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 15. gr. laga nr. 87/1995 um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og öðlast gildi 1. ágúst 1996. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr 559/1995 um greiðslur úr fóðursjóði til loðdýraræktar og fiskeldis.

Landbúnaðarráðuneytinu, 31. júlí 1996.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica