I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Rafknúnum uppþvottavélum til heimilisnota, sem nefnd eru tæki hér á eftir, skulu við markaðssetningu og tilboð um sölu eða leigu fylgja upplýsingar um orkunotkun samkvæmt reglugerð þessari.
Reglugerðin gildir ekki um tæki sem nota aðra orkugjafa en raforku og hún nær ekki til endursölu notaðra tækja eða tækja sem hætt er að framleiða við gildistöku hennar.
II. KAFLI
Skilgreiningar.
2. gr.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Birgðasali: Framleiðandi tækja, viðurkenndur fulltrúi framleiðanda á Evrópska efnahagssvæðinu, innflytjandi tækja eða sá sem markaðssetur tækin á efnahagssvæðinu.
Seljandi: Smásöluaðili eða annar sem selur, leigir eða sýnir notendum tæki.
III. KAFLI
Merkingar og upplýsingar.
3. gr.
Tæki skal merkt með merkimiða sem sýnir orkunotkun þess o.fl. Merkimiðinn skal vera með þeim hætti sem tilgreint er í I. viðauka við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EBE. Skal miðanum komið fyrir utanvert á framhlið eða ofan á tæki sem boðið er til sölu eða leigu eða er til sýnis þannig að hann sjáist greinilega og ekkert skyggi á hann.
Á þeim tækjum, sem dreift er á Íslandi, skulu merkimiðarnir vera á íslensku.
Aðra merkimiða, merki, tákn eða áletranir en skv. 1. mgr. má ekki setja á tæki ef slíkt kann að vera villandi.
4. gr.
Birgðasali skal sjá til þess að tækjum fylgi upplýsingablað sem veiti staðlaðar upplýsingar um viðkomandi tæki. Blaðið skal setja inn í kynningarrit frá birgðasala. Séu slík rit ekki fyrir hendi hjá birgðasala skal upplýsingablaðið vera sérstakt skjal. Blaðið skal vera í samræmi við II. viðauka við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EBE.
Upplýsingablöð um tæki, sem dreift er á Íslandi, skulu vera á íslensku.
5. gr.
Upplýsingar á merkimiðum skv. 3. gr. og upplýsingablöðum skv. 4. gr. skulu byggðar á tæknilegum gögnum um viðkomandi tæki.
Tæknilegu gögnin skulu hafa að geyma:
1. nafn og heimilisfang birgðasala;
2. almenna lýsingu á tækinu sem nægir til að bera kennsl á það;
3. upplýsingar, þar með talið teikningar eftir þörfum, um helstu hönnunareinkenni gerðar, einkum atriði sem hafa afgerandi áhrif á orkunotkun hennar;
4. skýrslur um viðeigandi mælingarpróf sem gerð hafa verið á grundvelli staðla skv. 1. gr. tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EBE;
5. leiðbeiningar um notkun ef þær eru fyrir hendi.
6. gr.
Upplýsingar um hávaða, sem berst frá tæki, ber að meta í samræmi við reglugerð nr. 524/1994 um hávaða sem berst í lofti frá heimilistækjum.
IV. KAFLI
Skyldur birgðasala og seljanda.
7. gr.
Birgðasali skal sjá til þess að merkimiðar, upplýsingablöð og tæknileg gögn skv. 3.-6. gr. séu fyrir hendi.
Birgðasali skal hafa til reiðu öll tæknileg gögn sem nægja til að leggja mat á nákvæmni upplýsinga vegna hugsanlegrar skoðunar á tæki næstu fimm árin eftir að það var síðast framleitt.
8. gr.
Birgðasali skal láta seljanda í té merkimiða á íslensku án endurgjalds.
9. gr.
Seljandi, sem stillir tæki út til sýnis, skal festa merkmiða skv. 3. gr. við tækið.
Seljandinn skal gefa kaupanda kost á að kynna sér upplýsingablað um tækið skv. 4. gr.
10. gr.
Séu tæki boðin til sölu eða leigu og þeim komið á framfæri með prentaðri orðsendingu, svo sem póstpöntunarlista, verðlista eða öðrum hætti þar sem hugsanlegur kaupandi getur ekki séð tækið útstillt og neytendur eru hvattir til að panta tækið til afhendingar beint, skal orðsending hafa að geyma allar þær upplýsingar sem tilgreindar eru í III. viðauka (póstverslun og önnur fjarsala) við tilskipun 97/17/EBE, sbr. 16. gr. reglugerðar þessarar.
V. KAFLI
Eftirlit.
11. gr.
Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd reglugerðar þessarar. Ráðherra getur falið öðrum aðilum að annast eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé fylgt. Kallast þeir aðilar eftirlitsaðilar.
12. gr.
Eftirlitsaðilar geta farið fram á að birgðasalar afhendi þeim merkimiða skv. 3. gr., upplýsingablöð skv. 4. gr. og orðsendingar skv. 10. gr. varðandi tæki.
Seljandi skal gefa eftirlitsaðilum upplýsingar um það frá hvaða birgðasala tækið sé ef þess er óskað.
13. gr.
Telji eftirlitsaðilar að upplýsingar þær sem veittar hafa verið séu rangar er þeim heimilt að krefja birgðasala og seljanda um öll gögn, m.a. tæknileg gögn, sem nauðsynleg eru við eftirlit.
Ef upplýsingar þær sem veittar hafa verið eru ekki taldar byggjast á fyrirliggjandi gögnum getur eftirlitsaðilinn krafist þess að birgðasalinn endurskoði merkimiðann, upplýsingablaðið og önnur gögn innan ákveðins frests.
14. gr.
Verði birgðasali ekki við kröfu eftirlitsaðila skv. 2. mgr. 13. gr. er eftirlitsaðilum heimilt að krefjast þess að birgðasali leggi án endurgjalds fram tæki til skoðunar. Skal birgðasalinn greiða kostnað við skoðunina nema upplýsingar hans hafi reynst réttar.
Birgðasali skal bera kostnað af eftirliti.
15. gr.
Hafi iðnaðarráðuneytið falið öðrum aðila eftirlit með ákvæðum reglugerðar þessarar getur birgðasali kært ákvörðun þess eftirlitsaðila til ráðuneytisins. Kæran skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin var tilkynnt. Að öðru leyti gildir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kærufresti.
VI. KAFLI
Gildistaka.
16. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 8. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.
Reglugerðin er sett á grundvelli eftirfarandi ákvæða EES-samningsins, sbr. IV. kafla II. viðauka við samninginn:
1. tilskipun ráðsins 92/75/EBE frá 22. september 1992 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum sem greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (tilskipunin er birt í 3. bók sérstakrar útgáfu EES-viðbætis við Stjórnartíðindi EB á árinu 1994);
2. tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EB frá 16. apríl 1997 um framkvæmd tilskipunar ráðsins 92/75/EBE að því er varðar orkumerkingar uppþvottavéla (tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB);
3. tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 99/9/EB frá 26. febrúar 1999 um breytingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/17/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 92/75/EBE að því er varðar orkumerkingar uppþvottavéla (tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB);
4. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/1999 frá 26. mars 1999 um breytingar á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB).
Um framkvæmd reglugerðarinnar vísast að öðru leyti í viðkomandi gerðir sem framkvæma skal hér á landi í samræmi við ákvæði EES-samningsins, m.a. bókun 1 við samninginn um altæka aðlögun.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Iðnaðarráðuneytinu, 7. september 1999.
Finnur Ingólfsson.
Þorgeir Örlygsson.