1. gr.
Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast eftirfarandi hugtök:
Kynkirtlavísitala: Líffræðilega hugtakið kynkirtlavísitala (e. gonadosomatic index) hér eftir tilgreint sem (GSI) er útreikningur sem hlutfall massa kynkirtla af heildar líkamsmassa fisks. Það er táknað með jöfnunni GSI = [kynkirtlaþyngd / heildarþyngd vefja] × 100.
Kynþroski: Mat á kynþroska krefst ákvörðunar á kynkirtlavísitölu í byrjun júlí. Sé kynkirtlavísitalan GSI < 0,3 er ekki gert ráð fyrir að fiskur nái kynþroska að hausti. Þetta gildir fyrir bæði kyn.
2. gr.
Við 38. gr. reglugerðarinnar bætast eftirfarandi málsgreinar:
Við eldi frjórra laxa í sjókvíaeldi ber rekstrarleyfishafa skylda til að halda hlutfalli kynþroska í lágmarki á eldistíma.
Til að hindra að eldisfiskar hefji þroskun kynkerfa skal viðhafa ljósastýringu á tímabilinu 15. nóvember til 30. apríl.
Matvælastofnun er heimilt, að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun, að setja nánari skilyrði um ljósastýringu. Matvælastofnun er heimilt að hafa eftirlit með kynþroska laxa í kvíum og í sláturhúsum.
3. gr.
Á eftir 46. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein sem verður 46. gr. a, svohljóðandi:
Neðansjávareftirlit.
Rekstrarleyfishafa ber skylda til þess að viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á a.m.k. 30 daga fresti. Ef meðalþyngd laxa í sjókvíum er hærri en 4 kg á tímabilinu 1. júlí til 30. nóvember skal viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á 14 daga fresti. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá ákvæðum 2. málsl. enda sýni þjónustudýralæknir rekstrarleyfishafa fram á með fullnægjandi hætti að undir 1% af öllum fiski á viðkomandi eldissvæði muni ná kynþroska að hausti.
Eftirlit samkvæmt grein þessari má framkvæma með köfun eða með neðansjávarmyndavélum.
Matvælastofnun hefur heimild til þess að setja nánari reglur um framkvæmd neðansjávareftirlits og skýrslugerð rekstrarleyfishafa. Skýrslu með niðurstöðum eftirlits skal skila til Matvælastofnunar eigi síðar en 7 dögum eftir að síðasta kví á eldissvæði hefur verið skoðuð. Leiði neðansjávareftirlit í ljós frávik skulu þau tilkynnt samdægurs til Matvælastofnunar.
4. gr.
Liðurinn "Talning" í viðauka VI orðist með eftirfarandi hætti:
Tímabil, tíðni og umfang talningar.
Tímabil talningar: Þegar hitastig sjávar er lægra en 4°C skal ekki telja. Þegar lofthiti fer undir −5°C skal ekki telja.
Tíðni talningar: Telja skal einu sinni á tveggja vikna fresti þegar hitastig sjávar er á bilinu 4°C til 8°C. Telja skal einu sinni í viku þegar hitastig sjávar er yfir 8°C.
Umfang: Telja skal úr öllum kvíum á kvíastæði. Telja skal lús á að minnsta kosti tuttugu fiskum í hverri kví.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi og öðlast gildi 1. maí 2024.
Matvælaráðuneytinu, 4. mars 2024.
Katrín Jakobsdóttir.
Kolbeinn Árnason.