Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

59/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 850/2020 um umsóknir og skráningu vörumerkja, félagamerkja og ábyrgðar- og gæðamerkja.

1. gr.

17. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Skráningardagur: fyrir þau merki sem sótt var um eða þau skráð fyrir 1. september 2020, er skráningardagur hinn eiginlegi skráningardagur hér á landi en fyrir merki sem sótt var um eða þau skráð eftir 1. september 2020, er skráningardagur sá dagur sem skráningarferli merkis lýkur endan­­lega, hvort sem um er að ræða landsbundna umsókn eða alþjóðlega skráningu, þ.e.:

  1. að tveimur mánuðum liðnum frá birtingu ákvörðunar Hugverkastofunnar um skráningu merkis ef skráningu er ekki andmælt,
  2. dagsetning úrskurðar í andmælamáli,
  3. dagsetning úrskurðar í áfrýjunarmáli eða
  4. dagsetning dóms.

 

2. gr.

Í stað orðanna "12. gr." í 3. tölul. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar komi: 11.gr.

 

3. gr.

Á eftir 9. gr. reglugerðarinnar komi ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Forgangur síðar tilkominnar umsóknar.

Þegar merki hefur verið skráð en fram kemur landsbundin umsókn eða beiðni um gildistöku alþjóð­legrar skráningar hér á landi með eldri viðmiðunardag, sbr. 23. gr. vml., kannar Hugverka­stofan hvort sú umsókn eða skráning hefði staðið í vegi fyrir skráningunni. Telji Hugverkastofan að svo sé er eiganda merkisins send tilkynning þess efnis og honum veittur tveggja mánaða frestur til þess að tjá sig um málið. Heimilt er að framlengja frestinn einu sinni um tvo mánuði nema fram komi haldbær rök fyrir því að fresta skuli málinu frekar.

Hugverkastofan synjar síðar til kominni umsókn eða alþjóðlegri skráningu að svo stöddu, ef við á, með vísan til viðeigandi lagaákvæða en afgreiðslu hennar er að öðru leyti frestað með rökstuddu erindi þar um. Hugverkastofan tekur afstöðu til skráningarhæfis hennar að nýju þegar sjónarmið eiganda hins skráða merkis liggja fyrir.

Komi ekki fram sjónarmið sem leiða til þess að skráningin haldi gildi sínu skal hún ógilt í heild eða að hluta. Réttaráhrif miðast við umsóknardag. Eiganda er tilkynnt um ógildingu skráningar sem og um frest til áfrýjunar.

Áfrýjun frestar réttaráhrifum ákvörðunar um skráningarhæfi hinnar síðar tilkomnu umsóknar.

 

4. gr.

2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Að 6 mánuðum liðnum getur Hugverkastofan óskað eftir skýringum ef frekari fresta er óskað. Að 12 mánuðum liðnum verður mál tekið til áframhaldandi meðferðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafi umsækjandi eða umboðsmaður hans látið hjá líða að sinna frestum.

 

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
      Hugverkastofunni er heimilt, án samráðs við umsækjanda, að lagfæra augljósar villur í umsókn eða skráningu, svo sem vöru- og/eða þjónustulista eða lýsingu, svo fremi sem lag­færingarnar hafa ekki áhrif á umsóknina efnislega. Hugverkastofan skal þó upplýsa umsækj­anda um að slíkar lagfæringar hafi verið gerðar.
  2. Á eftir orðunum "á grundvelli fyrirliggjandi gagna" í 5. mgr. komi: hafi umsækjandi eða umboðs­maður hans látið hjá líða að sinna frestum.

 

6. gr.

Í stað orðanna "11. tl. 1. mgr. 2. gr." í 18. gr. og 3. mgr. 39. gr. reglugerðarinnar komi: 17. tölul. 1. mgr. 2. gr.

 

7. gr.

Í stað orðsins "ógildingu" í 2. mgr. 43. gr. reglugerðarinnar komi: niðurfellingu.

 

8. gr.

Við 47. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Tilgreining vöru- og/eða þjónustu skal við endurnýjun vera á íslensku hafi umsókn um skrán­ingu merkis verið lögð inn fyrir 1. apríl 2021 eða merki verið skráð og birt með tilgreiningu vöru og/eða þjónustu á íslensku.

 

9. gr.

2. tölul. 1. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar orðist svo: númer merkis.

 

10. gr.

1. tölul. 2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar orðist svo: merkið sem um ræðir ásamt númeri.

 

11. gr.

2. málsl. 1. mgr. 58. gr. reglugerðarinnar orðist svo: Gögn er sýna fram á breytinguna þurfa ekki að fylgja en Hugverkastofan getur ávallt kallað eftir nánari skýringum eða gögnum ef þess gerist þörf.

 

12. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. reglugerðarinnar:

  1. 7. tölul. orðist svo: lýsingu í samræmi við 3. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar þegar við á. Texti í lýsingu sem ekki varðar framsetningu merkis er ekki færður í vörumerkjaskrá.
  2. Á eftir orðunum "samkvæmt 33. gr." í 11. tölul. komi: eða 34. gr.

 

13. gr.

Við 63. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður, svohljóðandi: lýsing í samræmi við 3. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar þegar við á. Texti í lýsingu sem ekki varðar framsetningu merkis er ekki færður í vörumerkjaskrá.

 

14. gr.

2. mgr. 64. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

15. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. reglugerðarinnar:

  1. 3. mgr. orðist svo:
      Ef umboðsmaður er ekki tilnefndur, sbr. 1. mgr. 35. gr. vml. eða segi umboðmaður sig frá umboðsmennsku, sbr. 2. mgr. 35. gr. vml., veitir Hugverkastofan eiganda merkis, sem skylt er að tilnefna umboðsmann skv. 1. mgr. 35. gr. vml., tveggja mánaða frest til að tilnefna umboðsmann til þess að koma fram fyrir sína hönd. Ef heimilisfang eiganda er óþekkt er tilkynning um frestinn birt í Hugverkatíðindum ásamt upplýsingum um afleiðingar þess að tilnefningu er ekki sinnt.
  2. Á eftir 3. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Bregðist eigandi umsóknar ekki við tilkynningu skv. 3. mgr. er merkið afmáð úr vöru­merkja­skrá að liðnum fresti.
      Bregðist eigandi skráningar ekki við tilkynningu skv. 3. mgr. er Hugverkastofunni heimilt, í stað þess að afmá hin skráðu réttindi þegar í stað, að leyfa merkinu að standa án umboðs­manns þar til næstu aðgerða varðandi merkið er þörf, svo sem endurnýjun eða ef fram kemur beiðni um ógildingu eða niðurfellingu sem bregðast þarf við. Er eiganda þá send ný áskorun í samræmi við 3. mgr.
      Eiganda merkis sem skylt er skv. 1. mgr. 35. gr. vml. að tilnefna umboðsmann er ekki heimilt að endurnýja skráningu, óska eftir öðrum breytingum á merkinu í vörumerkjaskrá eða bregðast við kröfum varðandi merkið hafi umboðsmaður ekki verið tilnefndur og er skrán­ing merkis felld úr gildi bregðist eigandi ekki við áskorun um að tilnefna umboðs­mann.

 

16. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 62. og 65. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki o.fl., með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. janúar 2023.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica