Prentað þann 28. apríl 2025
923/2021
Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 500/2021, um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum.
1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist ný orðskýring í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
Biðsvæði aðkomufjár: Aðstaða fjár eða biðsvæði fyrir aflífun sem fé á jörð hins litla sauðfjár- og geitasláturhúss hefur aldrei aðgang að.
2. gr.
Á eftir 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Með samþykki Matvælastofnunar er ábyrgðaraðila slátrunar heimilt að móttaka fé frá öðrum jörðum til framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Matvælastofnun leggur mat á sjúkdómastöðu hverju sinni og er heimilt að afturkalla heimildina ef breyting verður á sjúkdómastöðu eða brotið er gegn smitvörnum að mati stofnunarinnar. Óheimilt er að slátra fé úr öðru varnarhólfi eða frá jörðum með hærri sjúkdómastöðu en sú jörð sem hið litla sauðfjár- og geitasláturhús er staðsett á.
3. gr.
Á eftir 2. tl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar koma tveir nýir töluliðir og uppfærast töluliðanúmer ákvæðisins í samræmi við það.
- Fé sem móttekið er frá öðrum jörðum til framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum, sbr. 2. mgr. 4. gr., er skylt að koma fyrir á biðsvæði aðkomufjár.
- Óheimilt er að færa fé sem hefur verið fært á biðsvæði eða biðsvæði aðkomufjár annað en til slátrunar.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, 29. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 21. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. júlí 2021.
F. h. r.
Kristján Skarphéðinsson.
Linda Fanney Valgeirsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.