Prentað þann 29. mars 2025
568/2020
Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 442/2011 um uppruna og ræktun íslenska hestsins.
1. gr.
Í stað viðauka við reglugerðina kemur nýr viðauki sem birtur er með reglugerðinni.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í búnaðarlögum, nr. 70/1998, ásamt síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 26. maí 2020.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ása Þórhildur Þórðardóttir.
Ræktunarmarkmið og reglur um mat íslenskra kynbótahrossa.
Inngangur.
Kynbótastarf í hrossarækt á Íslandi byggist að stórum hluta á einstaklingssýningum kynbótahrossa og afkvæmasýningum þar sem um er að ræða árlegar héraðssýningar víðs vegar um landið auk annarra sýninga, s.s. fjórðungs- og landssýninga. Opinbert ræktunarstarf á sér lagastoð í búnaðarlögum (nr. 70/1998) en þar kemur fram að Bændasamtök Íslands hafa á hendi faglega yfirumsjón með því starfi í umboði og samkvæmt samningi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hann hefur á hendi yfirstjórn allra mála sem lögin taka til.
Í búnaðarlögunum er kveðið á um að í hverri búgrein skuli starfa landsráðunautur en hann hefur landið allt sem starfssvæði og skal hafa yfirumsjón með leiðbeiningum, kynbótum og ræktun, þar með talið kynbótadómum og kynbótamati, í viðkomandi búgrein.
Í lögunum er einnig kveðið á um að fyrir hverja búgrein skuli starfa svokallað fagráð. Fagráð móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi viðkomandi búgreinar, skilgreina ræktunarmarkmið og setja reglur um framkvæmd meginþátta ræktunarstarfsins. Enn fremur móta þau tillögur um stefnu í fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar og fjalla um önnur mál sem vísað er þangað til umsagnar og afgreiðslu. Í fagráðum skulu sitja menn úr hópi starfandi bænda og landsráðunautur í viðkomandi búgrein. Jafnframt skulu sitja í fagráðum eða starfa með þeim sérfróðir aðilar. Fagráð skulu hljóta staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands. Samkvæmt búnaðarlögum er það í verkahring fagráðs hverrar búgreinar að meta þörf fyrir kynbótadóma og sýningar búfjár í viðkomandi búgrein og gera tillögur til Bændasamtaka Íslands og viðkomandi aðildarfélaga um dómstörf og sýningahald.
Þær reglur sem hér eru birtar og gilda um sýningar á íslenskum kynbótahrossum voru fyrst settar á árinu 1990 til bráðabirgða, endanlega staðfestar af hrossaræktarnefnd Búnaðarfélags Íslands, forvera fagráðs, á árinu 1992 og birtar í ritinu Kynbótadómar og sýningar sem Búnaðarfélag Íslands gaf út árið 1992. Regluleg endurskoðun hefur síðan farið fram unnin af landsráðunaut í hrossarækt hverju sinni í samvinnu við fagráð hrossaræktar og sérfræðinga á vegum þess auk fulltrúa ræktunarmála hjá Alþjóðasamtökum Íslandshestafélaga (FEIF). Auk þess hefur eftir gildistöku reglugerðar nr. 948 frá 2002 starfað ráðgefandi nefnd um mótun, framkvæmd og breytingar á reglum þeim sem birtar eru í þessum viðauka en leiðarljós í störfum nefndarinnar skal vera að tryggja fagleg vinnubrögð og alþjóðlega sátt um reglurnar.
1. Ræktunarmarkmið fyrir íslenska hestakynið.
Almenn ræktunarmarkmið.
Heilbrigði, frjósemi, ending.
Hið opinbera ræktunartakmark miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan reiðhest – hraustan íslenskan hest.
Litir.
Hið opinbera ræktunartakmark er að viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins. Þó skal hafa í huga að vissum litaafbrigðum geta fylgt erfðagallar eða líkamlegir kvillar sem ber að varast.
Stærð.
Hið opinbera ræktunartakmark gefur færi á allmiklum breytileika hvað varðar stærð hrossanna. Almennt er talið heppilegt að stærð íslenska hestsins sé ekki undir 138 sm á hæstar herðar mælt á stöng.
Hlutverk hestsins.
Markmiðið er að rækta reiðhest sem getur sinnt fjölmörgum hlutverkum og nýtist breiðum hópi fólks. Notkun hestsins miðast fyrst og fremst við reiðhestskosti hans þar sem hann nýtist til almennra útreiða, ferðalaga og í hinar ýmsu keppnir.
Sérstök ræktunarmarkmið.
Geðslag hestsins – almennt.
Stefnt er að geðslagi sem gerir hestinum kleift að nýtast frábærlega í fjölmörg hlutverk með sérstaka áherslu á yfirvegun, þjálni og geðprýði. Hesturinn á að vera kjarkaður og öruggur í allri meðhöndlun og reið. Innan ræktunarmarkmiðsins hvað vilja og næmni varðar rúmast mismunandi hestgerðir; allt frá næmum og viljugum hrossum til rólyndari en ávallt er lögð áhersla á samstarfsvilja og yfirvegun.
Sköpulag – almennt.
Sköpulagið á að stuðla að heilbrigði hestsins og endingu þar sem burðargeta, eðlislæg ganghæfni og geta til að ganga í jafnvægi og réttri líkamsbeitingu eru í fyrirrúmi. Stefnt er að sköpulagi sem einkennist af fegurð og myndarskap með mikilli áherslu á styrk og vöðvastælta líkamsbyggingu.
Sköpulag nánar.
Vísað til einkunnarinnar 10 fyrir eiginleikana; höfuð, háls, herðar og bóga, bak og lend, samræmi, fótagerð, réttleika, hófa, prúðleika á fax og tagl.
Reiðhestskostir – almennt.
Stefnan er að rækta úrvals ganghest, sem á frá náttúrunnar hendi auðvelt með að ganga í jafnvægi, vera sjálfberandi og fara glæsilega í reið, hest sem er fimur, þrekmikill og fótviss – hinn íslenski gæðingur.
Megin markmiðið hvað gangtegundirnar varðar er að þær séu takthreinar og að hesturinn beiti sér rétt á hverri þeirra. Hrein gangtegund er sú sem býr yfir réttum takti, þar sem hreyfingin flæðir í gegnum hestinn í jöfnum hrynjanda. Hesturinn á jafnframt að búa yfir mýkt, léttleika, skreflengd og rými.
Hesturinn á að eiga auðvelt með að ganga í jafnvægi og réttri líkamsbeitingu á hverri gangtegund. Hreyfingar hestsins eiga að vera frjálsar og óþvingaðar. Hann á að hafa getu til að ganga í söfnun á hægri ferð en jafnframt að geta teygt á sér á yfirferðargangi. Hröðun á gangi á að byggja á aukningu skreflengdar umfram skreftíðni. Mikilvægir þættir í réttri líkamsbeitingu sem bygging hestsins á að auðvelda eru: Yfirlínan er löng og stífnislaus og burður er í baki og afturhluta. Hesturinn á auðvelt með að kreppa lend og stíga inn undir sig með afturfætur sem bera og spyrna hestinum fram. Hann hefur hátt frambak, gengur upp í herðar, lyftir hálsrótinni og teygir ennið fram með hnakkann sem efsta punkt. Höfuðburður er óþvingaður með nefið fyrir framan lóðlínu. Greinilegar bolhreyfingar og fjaðurmagn í baki og lend sem skapast af virkri og stífnislausri yfirlínu ásamt burði og spyrnu afturfóta eru til staðar.
Hvelfing yfirlínunnar og reising hálsins eru mismunandi eftir því á hvaða hraða er riðið, söfnun og gangtegund. Þegar riðið er í söfnun á hægri ferð er yfirlínan hvelfdari, meiri kreppa er í lend og framhluti hestsins er hærri en afturhlutinn. Hesturinn tekur styttri og hægari skref, stöðutími afturfóta er greinilega lengri en framfóta sem hafa háar, léttar og frjálsar hreyfingar. Þess skal sérstaklega gætt að söfnun sé ekki á kostnað mýktar og gegnumflæðis í hreyfingum. Þegar hesturinn eykur hraðann eykur hann um leið teygju líkamans, lengir skrefin og stöðutími aftur- og framfóta verður jafnari.
Hesturinn teygir á yfirlínunni og verður opnari í kverk en heldur jafnvægi og burði í baki.
Reiðhestskostir nánar.
Vísað til lýsingar á einkunninni 10 fyrir eiginleikana tölt, brokk, skeið, stökk, hægt stökk, samstarfsvilja, fegurð í reið, fet.
Vægi einstakra eiginleika:
Sköpulag | Reiðhestskostir | ||
Höfuð | 2% | Tölt | 16% |
Háls, herðar og bógar | 8% | Brokk | 9% |
Bak og lend | 5,5% | Skeið | 10% |
Samræmi | 7% | Greitt stökk | 3% |
Fótagerð | 4% | Hægt stökk | 4% |
Réttleiki | 2% | Samstarfsvilji | 7% |
Hófar | 5% | Fegurð í reið | 10% |
Prúðleiki | 1,5% | Fet | 6% |
Samtals: | 35% | Samtals: | 65% |
2. Reglur um kynbótasýningar.
Starfsfólk og verksvið þess:
• Kynbótadómarar á Íslandi skulu hafa lokið BS-gráðu í búvísindum, hestafræði eða dýralækningum og þurfa að hafa staðist sérstakt hæfnispróf Bændasamtaka Íslands. Hvað varðar kröfur til dómara á alþjóðavettvangi þá setur FEIF reglur þar um. Hvað varðar ráðningu dómara á kynbótasýningum á Íslandi má gera undantekningu á fyrrnefndum kröfum um menntun ef viðkomandi dómari er með alþjóðlegt leyfi frá FEIF til að starfa sem kynbótadómari sem gefið var út fyrir árið 2015 (upprunalegt leyfi).
• Á hverri kynbótasýningu starfa að jafnaði þrír dómarar og hafa samráð um einkunnir. Undantekningu frá fjölda dómara má gera ef hross eru 35 eða færri. Skipaður er formaður í hverri dómnefnd en hlutverk hans er að sjá til þess að dómstörf gangi vel fyrir sig og að niðurstaða fáist. Listi yfir formenn dómnefnda er samþykktur árlega af fagráði í hrossarækt.
• Á hverri kynbótasýningu skal starfa sýningarstjóri sem ber ábyrgð á framkvæmd sýningarinnar með dómnefnd, auk þess skulu starfa á sýningum mælingamenn, tölvarar og þulir allt eftir þörfum hverju sinni. Listi yfir formenn dómnefnda er samþykktur árlega af fagráði í hrossarækt.
Almennt verklag:
• Kynbótadómar fara þannig fram að fyrst koma hross til sköpulagsdóms en síðan til dóms á reiðhesthæfileikum. Hafi hross verið fulldæmt á almanaksárinu getur eigandi valið að láta nýjasta byggingardóm úr fullum dómi standa við endursýningu. Þegar öll hross á sýningu hafa komið til dóms er haldin sérstök yfirlitssýning þar sem öll hæfileikadæmd hross eiga þátttökurétt. Á sýningum sem standa í viku eða lengur er heimilt að skipta yfirlitssýningum upp á fleiri daga.
Vellir og önnur aðstaða:
Fyrir sköpulagsdóm:
• Þar sem aðstæður eru fyrir hendi skulu mælingar og dómar á sköpulagsþáttum fara fram innandyra (reiðhöll). Við byggingardóm skal vera fyrir hendi 20-30 m löng og 2-3 m breið afmörkuð og slétt braut.
Fyrir hæfileikadóm:
• Hæfileikar skulu sýndir á beinni braut u.þ.b. 250 m langri og 4-6 m breiðri sem er vel afmörkuð en þó opin í báða enda.
• Yfirlag brautarinnar sé sambærilegt yfirlagi góðra keppnisvalla, þess skal gætt að yfirlagið sé slétt og vel valtað. Eins skal þess gætt eins og kostur er að brautin sé í sambærilegu ástandi út alla sýninguna. Þá skal þess gætt sem frekast er unnt að utanaðkomandi umferð trufli ekki.
• Brautin skal vera afmörkuð í tíma áður en dómstörf hefjast og aðstæður yfirfarnar af mótshaldara og fulltrúa dómnefndar.
• Dómarar skulu hafa góða vinnuaðstöðu og hindrunarlausa yfirsýn fyrir miðri braut í u.þ.b. 2530 m fjarlægð.
• Við hæfileikadóm eru notaðar að hámarki 5 ferðir í hvora átt eftir brautinni til að sýna reiðhestskosti gripsins.
• Á yfirlitssýningu eru 2-4 hross í braut í einu allt eftir aðstæðum og fjölda hrossa og notaðar eru að hámarki 3 ferðir í hvora átt eftir brautinni.
Um hestinn:
• Hross sem koma til kynbótadóms skulu vera vel undirbúin, hraust og ósár, vel fóðruð og hirt. Hross sem sýnd eru í reið skulu hafa náð 4 vetra aldri miðað við almanaksárið.
• Öll hross sem koma til kynbótadóms skulu vera grunnskráð í WorldFeng og einstaklingsmerkt með örmerki. Starfsmenn sýningarinnar sjá um að samlesa einstaklingsmerkið við grunnskráningu.
• Úr öllum hryssum og geldingum sem mæta til kynbótadóms þarf að vera búið að taka DNAsýni og staðfesting á því liggi fyrir í WF.
• Úr öllum stóðhestum fimm vetra eða eldri þarf að hafa verið tekið blóðsýni við komu til dóms.
• Allir stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu vera DNA-greindir svo og foreldrar þeirra.
• Ef örmerki finnst ekki í hrossi sem mætir til dóms ber að örmerkja það á staðnum og taka stroksýni úr nös til DNA-greiningar á ætterni, með þeim kostnaði sem af því hlýst fyrir eiganda/forráðamann, þar sem örmerki og DNA-sýni þurfa ávallt að fylgjast að.
• Mælingar, þéttleikamat og skráning galla séu þeir til staðar skal fara fram á eistum stóðhesta sem til dóms koma. Upplýsingar um eistnagalla skulu birtar í WorldFeng.
• Röntgenmynda skal hækilliði allra stóðhesta sem náð hafa fimm vetra aldri og koma til dóms á kynbótasýningum. Endanlegur aflestur röntgenmyndanna er í höndum sérgreinadýralæknis hrossasjúkdóma og niðurstöður skulu birtar í WorldFeng. Röntgenmyndirnar er heimilt að taka af hestunum hvenær sem er á því ári sem fimm vetra aldri verður náð. Stóðhestar hljóta ekki dóm nema myndataka hafi farið fram og niðurstöður liggi fyrir í WorldFeng. Heimilt er að senda inn röntgenmyndir til aflesturs og birtingar í WorldFeng þó ekki sé um sýningu að ræða.
• Eftir reiðdóm skal kanna hvort áverkar séu á hrossum og skrá niðurstöður í WorldFeng. Hafi hross áverka af stigi 3 hlýtur það hvorki dómsniðurstöður fyrir hæfileika né verðlaunun. Verði áverki af stigi 3 í yfirlitssýningu hlýtur hrossið ekki mögulega hækkun einkunna né verðlaunun.
• Hestar með eistnagalla sem jafngilda rauðu T eða eru með rautt S (spatt) eru ekki verðlaunaðir á kynbótasýningum né heldur hljóta þeir þátttökurétt í einstaklingssýningum kynbótahrossa á fjórðungs- og landsmótum.
Járningar:
• Hross sem sýnd eru í reið skulu vera járnuð. Járningin skal vera svo vönduð sem kostur er, eðlilegt samræmi sé milli tálgunar fram- og afturhófa og hófhalli samsvari halla kjúkunnar.
• Hófar mega ekki vera lengri en 8,5 sm mælist hrossið lægra en 137 sm á stöng á hæstar herðar, sé hrossið 137 sm en þó lægra en 145 sm á hæstar herðar má hóflengdin vera allt að 9,0 sm og ef hæðin er 145 sm eða meiri má hóflengdin vera allt að 9,5 sm. Ekki má muna meiru en 1,5 sm á lengd fram- og afturhófa.
• Hámarksþykkt skeifna er 8 mm og hámarksbreidd 23 mm og skal sama breidd vera á fram- og afturfótaskeifum. Skeifurnar skulu vera samstæðar og úr samskonar efni. Efni skeifnanna hafi ekki meiri eðlisþyngd en hefðbundið skeifnajárn. Skeifurnar séu af hæfilegri stærð miðað við hófa og ekki má muna meiru í þykkt en 2 mm á fram- og afturfótaskeifum.
• Leyfilegt er að nota skafla, þeir skulu þá vera tveir í hverri skeifu og þeir séu að hámarki (lengd * breidd * hæð) 15 mm * 15 mm * 12 mm.
• Afbrigðileg járning, s.s. uppsteyptir hófar, er óheimil.
• Pottun skeifna er óheimil.
• Járningar, þ.e. breytingar á tálgun hófa eða skeifum, frá fordómi til yfirlitssýningar eru bannaðar, nema með sérstöku leyfi sýningarstjóra í kjölfar óhapps.
Reiðtygi og annar búnaður:
Hnakkar: Heimilt er að nota alla hnakka og hnakkígildi sem ekki valda hrossinu óþægindum eða særindum og hæfa íslenskum hrossum.
Beislabúnaður: Hann skal fara vel, vera rétt stilltur og ekki valda hestinum eymslum eða særindum. Heimilt er að nota öll mél, nema mél með tunguboga og vogarafli samanber reglugerð nr. 910/2014 um velferð hrossa.
• Dómnefnd getur veitt undanþágu á reglum þessum til notkunar á mélalausum beislabúnaði ef ástæða þykir til.
Reiðmúlar: Með hringamélum er heimilt að nota enskan múl (með eða án skáreimar), þýskan múl, mexíkóskan múl og spangamúl. Með mélum með vogarafli (t.d. íslenskum stöngum) er heimilt að nota enskan múl án skáreimar.
Keyri: Leyfilegt er að nota písk, hámarkslengd 120 sm.
Fótahlífar: Þær séu að hámarki 120 g (samanlagður þungi á hvern fót þ.e. legghlífar og hófhlífar) og í dökkum lit, svartar eða dökkbrúnar. Ef hlífar eru notaðar í hæfileikadómi þá skal sami búnaður notaður út alla sýninguna. Ef hlíf dettur af þá skal henni komið fyrir aftur áður en lengra er haldið.
Um knapa og umráðamenn:
• Sami knapi sýni hrossin í einni og sömu sýningunni. Knapar skulu vera allsgáðir og sýni prúðmannlega reiðmennsku og þeir ásamt umráðamönnum hrossins sýni einnig kurteisi og háttvísi í framkomu. Að öðrum kosti getur dómnefnd áminnt viðkomandi eða vísað frá sýningu.
• Verði knapi í kynbótasýningu uppvís af því að hestur hans greinist með ólögleg lyf, sbr. lyfjareglugerð (nr. 635/1996), hlýtur hann dóm samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðareglum þar um. Hafi knapi gerst brotlegur samkvæmt lyfjareglugerð Landssambands hestamannafélaga (LH) eða FEIF gildir sá dómur sem hann hlýtur einnig í kynbótasýningum.
• Knöpum er skylt að nota reiðhjálm í reiðdómi og í reiðsýningum og skal hjálmurinn vera fastspenntur.
Viðurlög við ólöglegum búnaði eða járningum: | |
Fyrsta brot á viðkomandi sýningu: | Opinber áminning, hrossi vísað af sýningu og dómur ógiltur. |
Annað brot á viðkomandi sýningu: | Brottvísun knapa af sýningu, hrossi vísað af sýningu og dómur ógiltur. |
Viðurlög við grófri reiðmennsku: | |
Fyrsta brot á viðkomandi sýningu: | Opinber áminning. |
Annað brot á viðkomandi sýningu: | Brottvísun knapa af viðkomandi sýningu og dómur á viðkomandi hrossi ógiltur. |
3. Reglur um afkvæmasýningar.
Sömu reglur gilda almennt um búnað og annað við afkvæmasýningar og þær sem gilda um almennar kynbótasýningar og gert hefur verið grein fyrir hér að framan. Hvað varðar járningar er þó heimilt að veita undanþágu frá þessum reglum þegar um er að ræða sýningahross í afkvæmahópi sem skráð er til þátttöku í gæðinga- eða íþróttakeppni á sama móti. Í slíkum tilvikum er heimilt að fara eftir reglum LH/FEIF um járningu. Þetta á þó eingöngu við um þátttöku hrossins í afkvæmasýningunni sjálfri en ekki ef um er að ræða sýningu þess til kynbótadóms. Hryssur koma ekki til sýningar með afkvæmum, heldur eru þeim hryssum sem ná heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi veittar viðurkenningar á öðrum vettvangi.
• Lágmörk til verðlauna fyrir afkvæmi eru sem hér segir:
Stóðhestar, 1. verðlauna fyrir afkvæmi:
118 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 15 dæmd afkvæmi.
Stóðhestar, heiðursverðlaun:
118 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 50 dæmd afkvæmi.
Hryssur, heiðursverðlaun:
116 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 5 dæmd afkvæmi.
• Fjöldi afkvæma sem fylgja skal stóðhestum í afkvæmasýningu skal vera sem hér segir: stóðhestar til heiðursverðlauna 12; stóðhestar til 1. verðlauna 6.
• Um útfærslu á sýningu skal samráð haft við sýningarstjórn og mótshaldara á hverjum stað.
• Öll afkvæmi sem koma fram í afkvæmasýningu skulu hafa hlotið kynbótadóm.
• Afkvæmahestar geta einungis komið einu sinni til þátttöku í hvert verðlaunastig á land- og fjórðungsmótum þ.e. til 1. verðlauna og heiðursverðlauna og þeir þurfa að vera á lífi og staðsettir á Íslandi. Eignarhald skiptir engu um þátttöku né verðlaunun.
• Dómnefnd skal semja dómsorð er lýsi þeim meginþáttum sem einkenna afkvæmahópinn.
4. Skrokkmál.
Stóðhestar, hryssur og geldingar skulu mæld á eftirtalinn hátt:
Stangarmál:
M1: Hæð á hæstar herðar.
M2: Hæð á lægst bak.
M3: Hæð á hæsta lend.
M4: Brjóstdýpt mæld frá hæsta punkti herðakambs á bringubein aftan við armlegg. M5: Bollengd mæld frá bóghnútu og aftur á aftasta punkt vöðva aftan við setbein.
Bogmál:
M6: Brjóstbreidd um bóghnútur.
M7: Mjaðmarbreidd um mjaðmarhorn.
M8: Mjaðmarbreidd um lærleggstoppa.
Bandmál:
M10: Ummál um sverast framhné.
M11: Ummál um grennstan framfótarlegg.
Skíðmál:
M9: Breidd leggs og sina á fótlegg neðan framhnés.
Hóflengd:
Framhófur frá hófhvarfi og fram á tá.
Afturhófur frá hófhvarfi og fram á tá.
5. Stigunarkvarði einstaklingsdóma.
Sköpulag.
Í sköpulagsdómi á hesturinn að standa jafnt í alla fætur og yfir hæfilega mikilli jörð, vakandi og einbeittur en jafnframt kyrr og spennulaus. Framfætur eiga vera lóðréttir, afturfætur séu jafnir (má muna u.þ.b. hóflengd á hægri og vinstri afturfæti) og leggir séu í lóðréttri stöðu. Uppstillingin á ekki að vera þvinguð, hesturinn er sýndur á slökum taum og í eðlilegri reisingu. Hesturinn á að teymast vel við hendi svo hægt sé að teyma hann beinan og á jöfnum hraða á feti og brokki fyrir mat á réttleika.
Höfuð.
Í þessum eiginleika er gerð, lögun og hlutfallsleg stærð höfuðsins metin, þ.m.t. neflínan og dýpt/þykkt kjálkanna og hversu skarpt höfuðið er. Þá er svipur hestsins, stærð og umgjörð augna, eyrnastaða og gerð eyrnanna metin. Einnig stærð nasanna og lengd munnvika.
9,5 – 10
Mjög frítt og fínlegt höfuð, svipgott og skarpt. Eyrun eru þunn og fínleg, hæfilega lokuð og vel sett. Stórt, opið og fjörlegt auga og létt augnaumgjörð. Kjálkarnir eru fínlegir og góð gleidd er á milli þeirra. Neflína bein, nasir flenntar og löng munnvik.
9,0
Lögun höfuðs er nánast gallalaus og kjálkar eru þunnir og hæfilega grunnir. Eyrun eru vel sett og fremur fínleg.
Afar frítt og fínlegt höfuð.
Höfuð er afar skarpt og augun eru vel opin með fínlega og létta augnaumgjörð.
8,5
Lögun höfuðs, eyru og setning þeirra eru laus við eiginlega galla, frávik frá beinni neflínu eru einungis smávægileg.
Mjög myndarlegt, svipmikið höfuð.
Bein neflína og stórt/opið auga, eyrun eru vel sett en höfuðið mætti vera skarpara.
Mjög frítt og skarpt höfuð, stórt og opið auga, eyru fínleg og vel sett en smávægilegt frávik frá beinni neflínu.
Frítt, fínlegt höfuð, vel opið auga en eyrun mættu vera betur sett og heldur fínlegri eða styttri.
8,0
Vel lagað höfuð, eyru og setning þeirra er gallalítil en höfuð er fremur sviplítið.
Svipgott höfuð, gallalítið.
Myndarlegt höfuð, svipmikið má vera um nokkurt frávik frá beinni neflínu að ræða ef það er að öðru leyti gallalítið.
Neflína er bein og kjálkar eru þunnir og hæfilega grunnir en höfuð er ívið of langt.
Mjög frítt eða svipmikið höfuð með stórt auga en með einhvern galla í talsverðum mæli.
7,5
Þokkalegt gallalítið höfuð, hvergi gott.
Myndarlegt höfuð, svipmikið má vera nokkuð gróft eða hlutfallslega stórt ef það er að öðru leyti gallalítið.
Góðir þættir í höfuðgerðinni geta vegið upp nokkur lýti; t.d. afar vel sett, fínleg eyru og stórt auga en talsverð merarskál.
7,0
Hámarkseinkunn ef um einhvern af eftirfarandi galla er að ræða og fátt er til að prýða höfuðið á móti:
Ófríðleiki.
Svipdauft og holdugt höfuð.
Djúpir, þykkir kjálkar.
Smá augu sem sitja djúpt.
Áberandi stórt/langt höfuð.
Slæm eyrnastaða.
Gróf eyru.
Töluvert frávik frá beinni neflínu (s.s. merarskál, kónganef, krummanef). Mjög stutt munnvik.
6,5 og lægra
Einkunnin 6,5 eða lægri er gefin ef einn eftirtalinna galla lýta höfuðið í afar ríkum mæli en mjög fátt prýðir. Einnig gæti einkunn á þessu bili komið til séu gallarnir fleiri en einn og fátt prýðir.
Gróft og hlutfallslega stórt höfuð.
Slæm eyrnastaða og illa gerð eyru.
Mikið frávik frá beinni neflínu.
Afar holdugt höfuð. Mikill ófríðleiki.
Háls, herðar og bógar.
Í þessum eiginleika er lögun, reising, setning og lengd hálsins metin. Þá er einnig lagt mat á hæð og lengd herðanna sem og lengd og halla bóganna. Lögð er áhersla á að frambyggingin nýtist í reið og þar er skoðuð reising, höfuðburður og/eða bóghreyfing.
9,5 – 10
Afar vel lagaður háls sem er mjúkur, reistur og hátt settur. Yfirlína hálsins er löng og hvelfd, hálsinn er vel aðskilinn frá bógum, grynnist vel upp í kverk og samtenging höfuðs og háls skapar úrvalsgóða hnakkabeygju. Herðar eru háar og langar og bógar eru langir og vel skásettir.
Fyrir einkunnina 9,5 eða 10 fyrir háls, herðar og bóga skal sannreyna að frambyggingin nýtist hrossinu í reið.
9,0
Hálsinn er rétt lagaður með langa og sterka yfirlínu og er reistur, hátt settur og að minnsta kosti í meðallagi að lengd. Lengd og halli bóga er í meðallagi hið minnsta og herðar eru háar.
Afar reistur, fíngerður háls með góða hnakkabeygju, yfir meðallagi langur.
Afar mjúkur og hátt settur háls, greinist frá bógum, lengd í meðallagi.
Afar hátt settur háls og fíngerður; vel aðskilinn frá bógum og grynnist vel upp í kverk.
Afar hátt settur og grannur háls, langur og vel reistur við háar herðar. Yfirlínan mætti vera hvelfdari en hrossið er vel reist, í góðum höfuðburði og með frjálsar bóghreyfingar í reið.
Yfirlínan er löng og hvelfd, hálsinn er hátt settur og reistur við háar herðar, skásettir bógar en hálsinn er ekki fíngerður. Hrossið nýtir frambygginguna afar vel í reið.
8,5
Hálsinn er rétt lagaður og vel settur, reising og herðar eru ekki undir meðallagi. Hámarkseinkunn ef hálsinn er fylltur í kverk svo fremi sem hesturinn hefur góðan höfuðburð í reið.
Vel reistur og afar mjúkur, a.m.k. meðallangur en full þykkur háls, háar og langar herðar, skásettir bógar.
Afar hátt settur og mjúkur háls við háar herðar og skásetta bóga en í meðallagi reistur.
Vel reistur, fíngerður og mjúkur háls, háar og langar herðar, en full beinir bógar.
Langur, vel reistur, fíngerður háls, vel skásettir bógar en herðar einungis í meðallagi háar.
Afar mjúkur og hátt settur, fíngerður háls sem greinist vel frá skásettum bógum, herðar eru háar en hálsinn mætti vera lengri.
Afar hátt settur og grannur háls, langur og vel reistur við háar herðar, yfirlínan er full bein.
8,0
Hálsinn er a.m.k. meðalreistur og ekki er um galla að ræða í yfirlínu eða lögun. Hámarkseinkunn ef um undirháls er að ræða.
Reistur og mjúkur, þokkalega langur en full þykkur háls og fylltur í kverk, herðar háar, bógar skásettir.
Langur og mjúkur, vel settur og grannur háls, bógalega í lagi en herðar full lágar.
Langur og mjúkur háls við háar herðar, bógalega í lagi en hálssetning og reising er einungis í meðallagi.
Hátt settur, langur og grannur háls, meðalreistur við háar herðar, yfirlínan er full bein.
Reistur og langur háls, með sterka yfirlínu og háar herðar, grynnist upp í kverk en er lágt settur.
Reistur, hátt settur og mjúkur háls, við háar herðar og skásetta bóga en greinilegur undirháls. Vel reistur háls en frambygging að öðru leyti í meðallagi.
7,5
Hámarkseinkunn ef það ber á hjartarhálsi eða öfugri sveigju í hálsinum eða ef herðar eru lágar, einnig ef hálsinn er bæði lágt settur og fylltur í kverk.
Frambygging er að öllu leyti í meðallagi.
Reising er í meðallagi og hálsinn er hátt settur en það vantar styrk í yfirlínuna, herðar og bógar eru í meðallagi.
Hátt settur, grannur og langur háls, herðar eru háar en um hjartarháls er að ræða.
Herðar eru háar og langar og bógar vel skásettir en hálsinn er stuttur og full djúpur og reising er í meðallagi.
Hálsinn er reistur og mjúkur við háar herðar og skásetta bóga en bæði lágt settur og fylltur í kverk. Hálsinn er mjúkur og vel settur, a.m.k. meðalreistur en herðar eru lágar og bógar beinir.
7,0
Hálsinn er fremur fíngerður og langur en það ber á hjartarhálsi og bógar eru beinir, herðar eru í meðallagi.
Hálsinn er langur með þokkalega yfirlínu en er lágt settur, herðar lágar og bógar beinir.
Reistur hjartarháls, frambygging að öðru leyti í meðallagi.
Hálsinn er mjúkur, reising og setning eru í meðallagi en frambyggingin er að öðru leyti afar þung. Mikið taumaslöður og aðrir þættir eru í meðallagi.
6,5 og lægra
Einkunnin 6,5 eða lægri er gefin ef einhverjir eftirfarandi gallar lýta frambygginguna í afar ríkum mæli en mjög fátt prýðir. Einnig gæti einkunn á þessu bili komið til þótt gallarnir séu ekki í afar ríkum mæli hver og einn, séu þeir margir og fátt prýði.
Háls er öfugt sveigður/mikill hjartarháls.
Háls er mjög lágt settur.
Afar mikill undirháls.
Afar þung frambygging.
Háls er mjög stuttur.
Herðar eru mjög lágar og flatar.
Bógar eru mjög beinir.
Bógar eru mjög fast bundnir.
Bak og lend.
Í þessum eiginleika er yfirlínan í baki og lend metin; stefnan og sveigjan í bakinu og lengd og halli lendarinnar. Einnig er lagt mat á breidd og vöðvafyllingu baksins, lengd og breidd spjaldhryggjar og lögun og vöðvafyllingu lendarinnar. Horft er til þess að munur á neðsta punkti í baki og hæsta punkt á lend sé ekki of mikill (viðmið: 4-6 sm). Til að fá rétta mynd af þessum eiginleika er afar mikilvægt að um rétta uppstillingu hrossins sé að ræða (sjá að ofan). Lögð er áhersla á að eiginleikinn nýtist í reið. Ef vafi leikur á stefnu og/eða sveigju í baki hvað varðar burð eða mýkt skal skoða hvernig hrossinu nýtist eiginleikinn í reið.
9,5 – 10
Bakið er afar burðarmikið; frambakið er hátt og neðsti punktur er fyrir miðju baksins, það er breitt og afar vöðvafyllt. Spjaldhryggurinn er stuttur, breiður og vel vöðvafylltur og samtenging spjaldhryggs og krossbeins er mjúk. Lendin er löng, hæfilega brött, jafnvaxin og vöðvafyllt, lærin hafa mikla og djúpa vöðvafyllingu.
9,0
Bakið er burðarmikið, frambakið er hátt og neðsti punktur baks er fyrir miðju. Lendin er löng og hæfilega brött. Sérlega vel skapað bak eða lend getur vegið upp fremur gott sköpulag hins líkamshlutans en ávallt er gerð krafa um vel skapaðan spjaldhrygg.
Bakið er breitt og vöðvafyllt og lendin er öflug en smávægilegir gallar í sköpulagi hennar. Lendin er öflug, djúp og jafnvaxin, bakið er nokkuð breitt og vöðvafyllt.
8,5
Bakið er hvorki mjótt né vöðvarýrt, frambakið er hátt og neðsti punktur baks er fyrir miðju. Vel gerður spjaldhryggur og ekki er um stórvægilega galla á sköpulagi lendar að ræða.
Bakið er vöðvafyllt og breitt, neðsti punktur er fyrir miðju en línan mætti vera hærri, lendin er öflug. Hrossið hefur burð í baki í reið.
Bakið er vöðvafyllt og breitt, lendin er vel gerð. Baklínan er full bein en hesturinn býr yfir mýkt í ganglagi.
Frambakið er afar hátt, bakið er vöðvafyllt, samtenging baks og lendar er mjúk og lendin er hæfilega brött en ekki nægilega vöðvafyllt; t.d. grunn eða gróf.
Sérlega góð baklína og vel sköpuð lend en breidd baks og/eða vöðvafylling er í meðallagi.
8,0
Baklínan er í jafnvægi og sköpulag spjaldhryggjar er viðunandi.
Lendin er jafnvaxin en einungis meðal vöðvafylling og breidd er í baki.
Bakið er vöðvafyllt og breitt, neðsti punktur er fyrir miðju en línan mætti vera hærri, lendin er öflug.
Bakið er vöðvafyllt og breitt, lendin er vel gerð. Baklínan er full bein.
Vel skapað bak; breitt og vel vöðvað, sem og vel gerður spjaldhryggur. Lendin er þokkalega gerð en hvergi góð eða full kröpp.
Vel sköpuð lend; löng, hæfilega brött, jafnvaxin og fyllt. Sköpulag baksins er viðunandi.
Bakið er í jafnvægi, breitt og vöðvafyllt en lendin er stutt og vantar vöðvafyllingu, áslaga eða afturdregin.
7,5
Hámarkseinkunn ef til staðar er áberandi galli í yfirlínu hestsins: framhalli, stífni eða svagleiki í baki, stífleiki eða of mikil lengd í spjaldhrygg eða lendin er flöt.
Allir þættir yfirlínunnar eru í meðallagi og bakið er í jafnvægi.
Bakið er afar breitt og vöðvafyllt og lendin er löng og öflug en nokkur framhalli eða svagleiki er í bakinu.
Bakið er í jafnvægi, breitt eða vöðvafyllt en lendin er stutt og vantar vöðvafyllingu, áslaga eða áberandi afturdregin.
Bakið er í jafnvægi en er full mjótt, lendin er afar öflug og jafnvaxinn.
Gott sköpulag baks getur unnið upp nokkur lýti á sköpulagi lendar og öfugt.
7,0
Framhalli eða svagleiki er í bakinu, bak og lend í meðallagi gert að öðru leyti.
Bakið er í jafnvægi en mjótt og bak og lend er vöðvarýrt.
Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra
Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda lýta og hversu stórfelld þau eru, sbr. fyrr.
Kryppa í baki eða spjaldhrygg.
Mjög mikið söðulbak.
Mjög framhallandi bak.
Mjög gallað sköpulag spjaldhryggjar (stífur, full langur, vöðvarýr/mjór).
Mjög mjótt og stíft bak, illa vöðvað.
Mjög afturdregin lend.
Afar grófgerð lend.
Mjög stutt, flöt, þúfulaga eða áslaga lend.
Samræmi.
Í þessum eiginleika er heildarútlit hestsins metið hvað varðar jafnvægi, lögun á bol og hlutföll í sköpulaginu. Einnig er lagt mat á fótahæð hrossins, léttleika byggingarinnar og vöðvafyllingu. Í vafatilfellum má taka mið af því við dóminn hvernig hesturinn kemur fyrir í reið, hvað varðar fótahæð, framhæð og jafnvægi.
9,5 – 10
Glæst heildarmynd. Hrossið er jafnvægisgott og sterklega byggt; algerlega hlutfallarétt, afar framhátt, vel vöðvafyllt og nægilega breitt um brjóst. Hrossið er fótahátt og hefur sívalan, jafnan og fremur léttan bol. Lengd hrossins skapast af löngum bógum, hæfilega löngu baki og langri lend, lengd þess er meiri en hæð á lend (viðmið: 4-6 sm munur).
9,0
Mjög falleg heildarmynd. Hrossið er fótahátt og framhátt með fremur léttan og alveg jafnan bol, það er langvaxið, vöðvafyllt og nægilega breitt um brjóst.
Hrossið er afar framhátt og hefur mikla fótahæð, einungis um smávægilega galla er að ræða á hlutföllum eða lögun bols, þó ekki miðlengd.
Sterkleg heildarmynd, hrossið er afar jafnvægisgott og hlutfallarétt.
8,5
Falleg heildarmynd. Hrossið er a.m.k meðal fótahátt með fremur jafnan bol. Minniháttar gallar á hlutföllum mega vera til staðar en þó ekki miðlengd.
Til að hljóta 8,5 eða hærra fyrir samræmi þurfa stóðhestar að hafa að lágmarki 35 sm í breidd um brjóst og hryssur 34 sm.
Hrossið er fótahátt og hlutfallarétt, bolurinn er jafn og fremur léttur.
Hrossið er fótahátt, hlutfallarétt og framhátt en í meðallagi hvað varðar léttleika á bol.
Hrossið er fótahátt, með jafnan og fremur léttan, sívalan bol en fremur stuttvaxið eða afturstutt. Hrossið er hlutfallarétt og afar framhátt, með sívalan, jafnan og fremur léttan bol, fótahæð er í meðallagi.
8,0
Fremur falleg heildarmynd. Fóta- og/eða framhæð geta vegið upp veikari þætti í samræminu.
Hámarkseinkunn ef hrossið er undir 138 sm á hæð á herðar.
Hrossið er hlutfallarétt og með jafnan bol en í meðallagi fótahátt.
Hrossið er fótahátt og léttbyggt en afturrýrt eða framhæð er ábótavant.
Hrossið er fótahátt, með jafnan og léttan, sívalan bol en stuttvaxið.
Hrossið er hlutfallarétt og afar fótahátt en síður eru flatar.
Hrossið er framhátt, algerlega hlutfallarétt og nægilega fótahátt og langvaxið en um smávægilega brjóstdýpt er að ræða.
7,5
Hámarkseinkunn ef hrossið er áberandi miðlangt, framlágt eða ósamræmi er milli fram- og afturhluta (dýpt, breidd). Góðir þættir í samræminu geta vegið upp nokkur lýti.
Hrossið er hlutfallarétt en aðrir þættir samræmisins eru í meðallagi.
Hrossið er léttbyggt, í meðallagi fótahátt en miðlangt.
Hrossið er jafnvægisgott, sterklegt og hlutfallarétt en fótalágt eða brjóstdjúpt.
Hrossið er nokkuð hlutfallarétt og a.m.k. í meðallagi fótahátt en síður eru flatar.
7,0
Hrossið hefur einn af eftirfarandi göllum en aðrir þættir samræmis eru í meðallagi: miðlangt, framlágt, fótalágt eða brjóstdjúpt.
Hrossið er hlutfallarétt en þungt á bolinn.
Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra
Einkunnin 6,5 eða lægri er gefin ef einhverjir eftirfarandi gallar lýta samræmið í afar ríkum mæli en mjög fátt prýðir. Einnig gæti einkunn á þessu bili komið til þótt gallarnir séu ekki í afar ríkum mæli hver og einn, séu þeir margir og fátt prýði.
Hrossið er mjög framlágt.
Hrossið er mjög djúpbyggt; mjög djúpt um brjóst, bolmikið (miklar útlögur, flatar síður). Hrossið er mjög fótalágt.
Hrossið er mjög stuttvaxið og/eða það er mikið ósamræmi í lengd framhluta, miðhluta og afturhluta.
Hrossið hefur mikið ósamræmi í fram- og afturhluta (breidd, dýpt) þar með talið að brjóstið sé of þunnt (samfallið).
Fótagerð.
Dómur á fótagerð skiptist í mat á útliti fótanna þar sem staða fram- og afturfóta er metin, sverleiki liða, lengdarhlutföll beina, vöðvafylling og prúðleiki þeirra; einnig er átak á fótum metið en þar er skoðuð þykkt sina, aðgreining þeirra frá leggjum og hversu þurrar sinar eru. Útlit fótanna vegur þyngra við einkunnagjöfina en átakið.
9,5 – 10
Rétt staða séð frá hlið á fram- og afturfótum; framfætur eru staðsettir framarlega við bóginn, eru beinir frá olnboga að kjúkum sem eru hæfilega langar og hallandi, afturfætur eru staðsettir undir hestinum þannig að setbein, hækill og afturleggur eru í lóðréttri línu og horn beina í mjaðmalið, hnjálið og hækli eru hæfilega kröpp. Þurrar, mjög sterklegar sinar og mjög góð skil sina og leggja. Liðir eru traustlegir, framfætur eru vöðvaðir og fætur eru prúðir.
9,0
Fótstaða er í lagi bæði að framan og aftan. Þurrir fætur, greinileg sinaskil og viðunandi prúðleiki fóta.
Sverleiki liða á framfótum er ekki undir meðaltali.
Þurrar, mjög sterklegar sinar og góð skil sina og leggja, traustlegir liðir og hæfilega langar kjúkur. Frábær fótstaða að framan og aftan, þurrar og sterklegar sinar og mjög góð sinaskil, prúðir fætur.
8,5
Engir áberandi gallar á fótstöðu fram- og afturfóta, né sverleika sina eða sinaskilum. Sverleiki liða og prúðleiki fóta eru viðunandi. Hlutföll innan framfóta eru í lagi og fætur eru vöðvaðir.
Þokkaleg fótstaða, liðir og kjúkur. Þurrar, sterklegar sinar og góð skil sina og leggja (mjög gott átak). Mjög gott útlit, sinar eru þurrar en sverleiki sina og sinaskil eru einungis í meðallagi.
8,0
Hámarkseinkunn ef gallar eru á fótstöðu fram- eða afturfóta.
Mjög gott átak á fótum en greinilegir gallar á fótstöðu fram- eða afturfóta.
Gott átak og fótstaða en fætur eru grannir og/eða vöðvarýrir.
Mjög gott útlit en sinar eru ekki alveg þurrar eða sverleiki þeirra er í tæpu meðallagi. Mjög góðir þættir í fótagerðinni geta vegið upp nokkra minniháttar galla.
7,5
Hámarkseinkunn ef um mikla galla er að ræða á fótstöðu fram- og/eða afturfóta.
Gallalaus fótagerð en fátt sem prýðir.
Mjög gott átak á fótum en greinilegir gallar á fótstöðu bæði fram- og afturfóta.
Gott átak á fótum en greinilegir gallar á fótstöðu fram- eða afturfóta.
Þokkalegt átak og fótstaða en fætur eru grannir og vöðvarýrir. Góðir þættir í fótagerðinni geta vegið upp nokkra galla.
7,0
Hámarkseinkunn ef hesturinn er áberandi sverð- eða hafurfættur, sinar eru afar votar eða sinaskil áberandi lítil.
Viðunandi átak á fótum en greinilegir gallar á fótstöðu fram- og/eða afturfóta.
Góð fótstaða en mjög votar sinar eða afar lítil sinaskil.
Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 eða lægra
Mjög votar sinar á fram- og/eða afturfótum.
Mjög lítil skil sina og leggja á framfótum.
Mjög grannir liðir á aftur- og/eða framfótum (einkum skal litið á hækil og framhné).
Mjög svög eða hörð fótstaða að framan eða aftan.
Mikið frávik frá réttri fótstöðu, þ.e. sverðfætt eða hafurfætt að framan, framfætur eru staðsettir mjög aftarlega við bóginn eða mjög afturstæðir afturfætur.
Réttleiki.
Réttleiki fótanna metinn séð framan og aftan frá; er hann metinn fyrst í kyrrstöðu en einnig þegar hesturinn er teymdur á feti og brokki. Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda galla og hversu miklir þeir eru. Við dóma á réttleika skal taka tillit til hvort hross grípi á sig eða einkenni um óeðlilegt álag komi fram.
9,5 – 10
Frábær réttleiki: Framfætur eru algerlega réttir í kyrrstöðu, hreyfast eftir beinum ferli og hæfileg gleidd er á milli framfóta. Afturfætur eru algerlega réttir, vísa lítillega út og hreyfast eftir beinum ferli; hæfileg gleidd er á milli afturfóta á feti sem eykst á ferðinni.
9,0
Mjög góður réttleiki. Ekki er um neina eiginlega galla að ræða.
8,5
Góður réttleiki. Einungis er um smávægilegan galla að ræða, þó séu engar eiginlegar skekkjur í liðum né vindingur í hæklum.
8,0
Fremur góður réttleiki fóta. Ekki um verulega galla að ræða.
Framfætur eru fremur réttir en mættu vera gleiðari, afturfætur eru réttir og gleikka á ferð. Smávægilegur fléttingur á framfótum en eru nokkuð réttir þegar þeir lenda.
7,5
Hámarkseinkunn ef sýning á réttleikanum er ekki viðunandi eða hrossið brokkar ekki í teymingu. Þokkalegur réttleiki. Ekki eru áberandi liðaskekkjur en fætur mega þó vera aðeins snúnir ef hrossið er algerlega óágripið og engin einkenni um óeðlilegt álag kemur fram í fótum. Skekkjur í liðum má greina í kyrrstöðu en fætur hreyfast eftir beinum ferli.
7,0
Hámarkseinkunn ef um áberandi snúninga eða skekkjur er að ræða á fram- eða afturfótum eða einkenni um óeðlilegt álag kemur fram í fótum.
Áberandi skekkjur í kjúkum.
Hrossið er afar nágengt og útskeift að framan, gallalítið að aftan.
Hrossið er gallalítið að framan en afar nágengt að aftan.
Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra
Mjög illa snúnir liðir fram- og/eða afurfóta.
Mjög mikill vindingur í hæklum.
Mjög mikil nágengni.
Mjög skæld fótstaða á fram- og/eða afturfótum; kiðfætt/kýrfætt, hjólbeinótt.
Hófar.
Við mat á hófum er skoðuð lögun hófanna og útlit bæði að framan og frá hlið sem og hvernig þeir er að neðanverðu, þ.e. hvelfing hófbotns, þykkt hæla og lögun hóftungu. Til þess að sem réttust mynd fáist af upplagi hófa er mikilvægt að þeir séu eðlilegir að vexti og vel hirtir. Rétt lagaðir hófar eru samhverfir, jafnir að lögun frá hófhvarfi og niður að neðri brún hófs en þó er tekið tillit til eðlilegs fráviks á milli innri og ytri hluta hófsins þar sem innri hlið má vera lítið eitt brattari en sú ytri. U.þ.b. sami halli er á tá og hæl og bæði fram- og afturhófar víkka lítillega frá hófhvarfi og niður. Halli á tá og hæl skal endurspeglast af halla kjúku og æskileg lengd hæls er 30-50% af lengd táar. Aftasti hluti hæla skal vera því sem næst samsíða breiðasta hluta hóftungu.
9,5 – 10
Afar öflugir, rétt lagaðir og heilbrigðir hófar. Hófveggur er þykkur og burðarmikill, sléttur og jafn. Hófhvarfið er breitt og hófurinn breikkar hæfilega niður að neðstu brún. Hælar eru þykkir, burðarmiklir og hæfilega langir með traustum hælstoðum og halli þeirra er hæfilegur. Þófar eru jafnir og breiðir, hófbotn er þykkur, hvelfdur og samhverfur og hóftunga er jafnvaxin og heilbrigð.
9,0
Rétt lagaðir, efnismiklir og hlutfallaréttir hófar. Hælar eru þykkir og sterklegir, með hæfilega lengd og halla. Hófbotn er hvelfdur og samhverfur.
Afar vel lagaðir og efnisgóðir hófar. Aðeins fremur smávægileg frávik hvað varðar önnur atriði hófgerðar sbr. 9,5-10.
8,5
Sterklegir og þokkalega samhverfir hófar með hvelfdan hófbotn. Hælar eru þykkir og traustir.
Aðeins eru fremur smávægileg frávik hvað varðar önnur atriði hófgerðar.
Efnismiklir hófar með jafna hvelfingu á hófbotni en ekki alveg samhverfir að lögun.
Afar vel lagaðir, hlutfallaréttir og á allan hátt góðir hófar hvað varðar útlit og lögun en efnisþykkt er í meðallagi.
Vel lagaðir, hlutfallaréttir og efnisgóðir hófar en smávægilegt frávik er á lögun hægri og vinstri hófs.
8,0
Heilbrigðir og traustir hófar. Hámarkseinkunn ef mikið ósamræmi er innan eða á milli hófa hvað varðar form og/eða hlutföll: t.d. greinilegt ósamræmi á milli lengdar og/eða halla táar og hæls eða áberandi munur er á halla hófs og kjúku.
Heilir og vel lagaðir hófar en aðrir þættir eru í meðallagi.
Efnismiklir og vel lagaðir hófar með jafna hvelfingu á hófbotni en hælar eru of langir/stuttir eða of brattir/slútandi.
Efnisþykkir hófar með þykka hæla en full þröngir.
Vel lagaðir hófar með þokkalega hvelfingu á hófbotni og efnisþykkt er í meðallagi. Afar vel lagaðir og efnismiklir hófar en hvelfingu á hófbotni er ábótavant.
7,5
Hámarkseinkunn ef hófar eru áberandi þröngir, efnisþunnir eða aflagaðir.
Samhverfir og ágætlega lagaðir hófar, efnisþykkt er í meðallagi en hóftunga er rýr í samanburði við hófstærð.
Sterklegir hófar en þröngir og hælar of langir.
Efnismiklir hófar með þokkalega hvelfdan hófbotn en hælar eru of víðir, lágir eða burðarlitlir. Afar vel lagaðir hófar með hvelfdan hófbotn en hófveggur er ekki sterkur (hófar eru brotnir/ sprungnir).
Afar vel lagaðir og efnismiklir hófar en flatbotna.
Heilir og þokkalega efnismiklir hófar en burðarlitlir og/eða útflenntir.
7,0
Hámarkseinkunn ef hófar eru mjög flatir, úr sýnilega lélegu efni eða mikil frávik frá réttu hóflagi. Efnisgóðir hófar með viðunandi hvelfingu á hófbotni en áberandi vandamál er varðar hóflag, t.d. mikið slútandi vaxtarlag eða bjarnarhófur.
Ágætlega lagaðir hófar en með þunna og lága hæla og sýnilega efnisþunnir og/eða brotnir.
Hófar úr ágætu efni en hælar eru greinilega annaðhvort út- eða innfallnir.
Heilir hófar en burðarlitlir og/eða útflenntir.
Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra
Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda galla og hversu miklir þeir eru.
Mikið misræmi milli hófa hvað varðar stærð og/eða lögun.
Afar smáir og efnislitlir hófar miðað við stærð hestsins.
Mjög lélegt efni í hófum (þ.m.t. afar ljótt yfirborð).
Mikið ósamræmi í lögun hófsins, hóflag fylgir ekki formi hófhvarfs og/eða misræmi í vexti.
Afar flatur og/eða siginn hófbotn.
Áberandi út- eða innfallnir hælar.
Mjög þunnir hælar.
Mikið slútandi hælar (mikið ósamræmi í halla hæls og táar).
Afar þröngir hófar.
Afar efnisþunnir og/eða aflagaðir hófar.
Hóftunga afar lítil eða í miklu ósamræmi við stærð hófsins. Mikið ósamræmi í lengd hæla miðað við lengd á tá.
Prúðleiki á fax og tagl.
Við einkunnagjöf fyrir prúðleika er metin sídd og þykkt á ennistoppi, faxi og tagli hestsins. Almennt eru gerðar minni kröfur til hryssna en stóðhesta. Sá dómaleiðari sem á eftir kemur miðast við stóðhesta en hryssur fá almennt hálfum hærra fyrir sambærilegan prúðleika.
9,5 – 10
Afar ræktarlegur prúðleiki. Góð þykkt er á ennistoppi, faxi og tagli. Ennistoppur nái vel niður fyrir augu, fax er sítt beggja vegna og taglið nær niður á kjúkur. Jafn vöxtur er á faxi frá hnakka og niður á herðar. 9,0
Mjög ræktarlegur prúðleiki. Ætíð skal gerð mikil krafa um síðan og nægilega þykkan ennistopp. Samfelldur vöxtur er á faxi frá hnakka að herðum.
Afar góð sídd á ennistoppi og faxi. Þykkt á ennistoppi og faxi er góð og sídd og þykkt á tagli er í rúmu meðallagi.
8,5
Góður og ræktarlegur prúðleiki. Ennistoppur nær niður fyrir augu, fax niður fyrir miðjan háls og góð sídd er á tagli. Hámarkseinkunn ef þykkt á ennistoppi, faxi eða tagli er ábótavant.
Allsítt fax sem má auðveldlega skipta, góður vöxtur á ennistoppi. Taglið þokkalegt.
Góð sídd á ennistoppi, faxi og tagli en þykkt þeirra er einungis viðunandi.
Afar mikill prúðleiki á fax, ennistoppur er viðunandi og tagl er sítt en þunnt.
8,0
Hárvöxtur prýðir hestinn.
Lengd á ennistoppi og faxi er í rúmu meðallagi en hárvöxtur er ekki þykkur.
Prýðileg sídd og þykkt á ennistoppi en ójafn vöxtur á faxi.
Afar góður ennistoppur en prúðleiki á fax og tagl er í meðallagi.
Afar þykkt og mikið tagl, prúðleiki á fax og ennistopp er í meðallagi.
Afar mikill prúðleiki á fax og tagl en vöxtur ennistopps er í meðallagi.
7,5
Meðal prúðleiki. Hámarkseinkunn ef sídd á ennistoppi, faxi eða tagli er ábótavant.
Allir þættir prúðleikans eru í meðallagi.
Góður ennistoppur en prúðleiki á fax og tagl er í tæpu meðallagi.
Góður prúðleiki á fax en ennistoppur og tagl eru í tæpu meðallagi.
Afar þykkt og mikið tagl, prúðleiki á fax og ennistopp er í tæpu meðallagi. Ágæt sídd á öllum þáttum prúðleikans en þykkt er ábótavant.
7,0
Hámarkseinkunn ef skortur á hárvexti í einhverjum þætti lýtir hestinn.
Allir þættir prúðleikans eru í tæpu meðallagi.
Góður ennistoppur en fax og tagl er stutt og rýrt.
Góður prúðleiki á fax og tagl en ennistoppur er afar stuttur.
Sjá einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlegan galla að ræða.
6,5 og lægra
Stuttur og ullarkenndur hárvöxtur. Mjög snoðið á fax og tagl.
Reiðhestskostir.
Tölt.
Töltið er dæmt á öllum þeim hraðastigum sem hesturinn býr yfir, þ.e. á hægri ferð, milliferð og greiðri ferð. Til þess að hljóta einkunn upp á 9,0 eða hærra er gerð krafa um að sýndar séu hraðabreytingar (þ.e. greinileg uppkeyrsla og/eða niðurhæging) og að sýnt sé fram á að hesturinn haldi jafnvægi á gangtegundinni þegar greinilega losað er um tauminn (losað sé alveg um taumsamband að lágmarki í 3 sekúndur). Þessi verkefni, séu þau vel framkvæmd, geta að auki vegið til hækkunar á einkunnum neðar í skalanum.
9,5 – 10
Töltið hefur hreinan fjórtakt, er afar ásetugott, mjúkt og skrefmikið, með glæstri lyftu og framgripi framfóta og jafnri hrynjandi hreyfinga. Hesturinn gengur í jafnvægi og hefur léttar hreyfingar sem einkennast af gegnumflæði og fjaðurmagni, taglburður er frjáls og óþvingaður. Hesturinn er reisnarmikill með langa yfirlínu; bakið er burðarmikið og fjaðrandi, afturhlutinn virkur og stífnislaus. Hesturinn heldur gæðum töltsins á öllum hraðastigum; frá hægri ferð að vel greiðri ferð.
Til að einkunnin 9,5 eða 10 náist þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 9,0. Fjögurra vetra hross geta fengið 9,5 fyrir tölt með 8,5 fyrir hægt tölt.
9,0
Takthreint, mjúkt og skrefmikið tölt. Hesturinn hefur háar og léttar hreyfingar, gott jafnvægi á öllum hraðastigum, er sjálfberandi og beitir sér rétt; framhár og hefur langa og sterka yfirlínu.
Mikið fjaðurmagn og gegnumflæði er í hreyfingum, hægt tölt er afar gott og hesturinn heldur gæðum töltsins upp á dágóða ferð.
Fjaðurmagn er í hreyfingum, hægt tölt er jafnvægis- og burðargott og hesturinn nær greiðri ferð. Töltið er rúmt og afar mikill léttleiki er í hreyfingum.
Til að einkunnin 9,0 náist þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 8,0 hjá fjögurra vetra hrossum en 8,5 hjá fimm vetra eða eldri hrossum.
8,5
Töltið er takthreint, ekki er um stirðleika að ræða í gangtegundinni og engir augljósir gallar eru á líkamsbeitingu hestsins. Hesturinn á auðvelt með að tölta og getur gengið af stað á hreinu og jafnvægisgóðu tölti án mikils undirbúnings, þ.e. hesturinn heldur hreinum takti og jöfnum hrynjanda með léttum framhluta án mikillar aðstoðar frá knapa.
Hreyfingar eru háar og léttar og hesturinn nær rúmri milliferð. Skreflengd er a.m.k. í meðallagi. Skrefmikið og rúmt tölt með góðri fótlyftu, taktöruggt og jafnvægisgott en skortir fjaðurmagn og/eða léttleika hreyfinga.
Skrefmikið, rúmt og afar mjúkt tölt með meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta.
Skrefmikið og mjúkt tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta, hesturinn nær rúmri milliferð. Afar skrefmikið, mjúkt og lyftingarmikið tölt með fjaðurmagni og gegnumflæði í hreyfingum, rými í meðallagi.
Mjúkt, rúmt og afar jafnvægisgott tölt með léttum og háum hreyfingum en skrefstærð er ábótavant. Til að einkunnin 8,5 náist þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 7,5.
8,0
Takthreint tölt, hesturinn er oftast í jafnvægi og ekki er um alvarlega galla á líkamsbeitingu hestsins að ræða.
Jafnvægisgott tölt með meðalgóðri fótlyftu og hesturinn nær rúmri milliferð.
Skrefmikið tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en rými og mýkt er í meðallagi.
Skrefmikið, rúmt og lyftingargott tölt en mýkt er ábótavant.
Skrefstutt tölt en lyfta framfóta er mikil og hrossið nær góðri töltferð.
Mjúkt og skrefmikið tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en jafnvægi er nokkuð ábótavant.
Tölt með háum og léttum hreyfingum framfóta en afturfótaskref er full hátt og stutt.
Mjúkt, afar rúmt og jafnvægisgott tölt en hreyfingar eru undir meðallagi.
Til að einkunnin 8,0 náist þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 7,0.
7,5
Takthreint tölt en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Takthreint og rúmt tölt en fótaburður er undir meðallagi.
Takthreint tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en um töluverða galla er að ræða í líkamsbeitingu og/eða höfuðburði (t.d. yfirlínan er mjög stutt/fött).
Skrefmikið, rúmt og lyftingargott tölt en stirt.
Rúmt og lyftingargott tölt en jafnvægi og taktöryggi er ábótavant.
Skrefstutt tölt með tíðar hreyfingar en lyfting framfóta er góð og allgóð ferð næst.
Hámarkseinkunn ef ekki er sýnt hægt tölt.
Hámarkseinkunn ef eingöngu er sýnt hægt tölt.
7,0
Hámarkseinkunn ef töltið er skeiðborið eða um brokkívaf er að ræða.
Skrefstærð og fótlyfta er yfir meðallagi en um viðvarandi jafnvægisleysi er að ræða.
Takthreint tölt en yfirlínan er fött og hesturinn er afar framþungur.
Rýmislítið tölt eða mjög skrefstutt en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Brokkívaf en þokkaleg ferð og fótlyfta.
Afar skeiðborið tölt en þokkaleg ferð og fótlyfta.
Takthreint tölt, milliferð næst en gangurinn er afskaplega lítilfjörlegur (mikil lággengni, stuttstígni).
6,5 og lægra
Mjög tregt tölt (klárgengni).
Mjög bundið tölt (skeiðbindingur).
Afar ferðlítið tölt.
Mjög víxlað tölt.
Tipl eða mikið hopp upp á fótinn. Töltir ekki (5,0).
Hægt tölt.
Hægt tölt skal sýnt á 100 metra kafla fyrir miðju brautar. Gæði hæga töltsins er hluti af einkunn fyrir tölt; einkunn fyrir hægt tölt reiknast ekki sérstaklega inn í heildareinkunn heldur er hugsuð til að auka upplýsingagildi dómsins. Hraði á hægu tölti er almennt um 3-4 m/sek en meira frávik er leyft hjá fjögurra og fimm vetra hrossum. Fyrir hinar hærri einkunnir (9,0 eða hærra) þarf hesturinn að geta gengið upp í jafnvægisgott hægt tölt af feti án þess að þurfa til þess langan aðdraganda. Gangskiptingar fet-hægt tölt sem og hægt tölt-fet geta einnig vegið til hækkunar á einkunnum neðar í skalanum.
9,5 – 10
Töltið hefur hreinan fjórtakt, er afar mjúkt og skrefmikið, með glæstri lyftu og framgripi framfóta og jöfnum hrynjanda hreyfinga. Hesturinn gengur í jafnvægi og er sjálfberandi, með afar léttar hreyfingar sem einkennast af gegnumflæði og fjaðurmagni, taglburður er frjáls og óþvingaður. Hesturinn gengur upp í herðar, er reisnarmikill með langa yfirlínu og hvelfingu í hálsi. Bakið er burðarmikið og fjaðrandi og afturhlutinn virkur og stífnislaus.
9,0
Takthreint, mjúkt og skrefmikið tölt. Hesturinn hefur háar og léttar hreyfingar, gott jafnvægi og beitir sér rétt; gengur í burði og hefur langa og sterka yfirlínu. Fjaðurmagn og gegnumflæði er í hreyfingum.
8,5
Takthreint, jafnvægisgott tölt og hesturinn er sjálfberandi, ekki er um stirðleika að ræða í gangtegundinni og engir augljósir gallar er á líkamsbeitingu hestsins.
Skrefmikið tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en framhæð og/eða fjaðurmagn er einungis viðunandi.
Hrossið er ekki skrefmikið en hreyfingar framfóta eru afar lyftingar- og framgripsmiklar.
Skrefmikið, jafnvægisgott og afar mjúkt tölt með meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta.
Mjúkt tölt með fjaðurmagni og gegnumflæði í hreyfingum, hreyfingar eru ekki undir meðallagi.
8,0
Takthreint tölt; hesturinn er oftast í jafnvægi og ekki er um alvarlega galla á líkamsbeitingu hestsins að ræða. Hámarkseinkunn ef hraði og/eða skreftíðni á hægu tölti er í efstu mörkum.
Tölt í góðu jafnvægi með meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta.
Tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en framhæð og/eða fjaðurmagn er einungis viðunandi.
Hraði og/eða skreftíðni er í efstu mörkum.
Takthreint tölt með góðri fótlyftu en léttleika, burði eða framhæð er ábótavant. Skrefmikið og lyftingargott tölt en mýkt er ábótavant.
Fremur skrefstutt tölt en lyfta og framgrip framfóta er yfir meðallagi.
Mjúkt tölt með meðal skreflengd og hreyfingum.
Tölt með háum og léttum hreyfingum framfóta en afturfótaskref er full hátt og stutt.
Mjúkt og skrefmikið tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en jafnvægi er nokkuð ábótavant.
7,5
Takthreint tölt en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Skrefmikið og lyftingargott tölt en um frávik frá hreinum fjórtakti er að ræða.
Takthreint og mjúkt tölt með góðri líkamsbeitingu en fótaburði er ábótavant.
Takthreint tölt með góðri lyftu og framgripi framfóta en áberandi gallar eru á líkamsbeitingu og/eða höfuðburði.
7,0
Hámarkseinkunn ef um áberandi binding eða brokkívaf er að ræða.
Takthreint tölt en hreyfingar eru afar stirðar.
Takthreint tölt, hreyfingar eru yfir meðallagi en um töluvert jafnvægisleysi er að ræða.
Takthreint tölt en hreyfingu og líkamsbeitingu er ábótavant (hreyfingar eru undir meðallagi, yfirlínan er stutt/fött og hrossið er framþungt).
Takthreint tölt, en gangurinn er afskaplega lítilfjörlegur (mikil lággengni, stuttstígni).
Töltið er skref- og hreyfingarmikið en um áberandi binding eða brokkívaf er að ræða.
6,5 og lægra
Miklir gallar á líkamsbeitingu og/eða höfuðburði samhliða óhreinum takti, þó svo að nokkur fótlyfta og skreflengd sé til staðar.
Mjög tregt tölt (klárgengni).
Mjög bundið tölt (skeiðbindingur).
Mjög víxlað tölt.
Tipl eða mikið hopp upp á fótinn. Sýnir ekki hægt tölt (5,0) Brokk.
Brokkið er dæmt á öllum þeim hraðastigum sem hesturinn býr yfir, þ.e. frá hægri ferð/milliferð að greiðri ferð. Til þess að hljóta einkunnina 9,0 eða hærra er gerð krafa um að hesturinn sé sýndur á öllum hraðastigum. Hraðabreytingar í góðu jafnvægi geta vegið til hækkunar á einkunnum.
9,5 – 10
Brokkið er tvítakta, afar jafnvægisgott og öruggt með jöfnum hrynjanda hreyfinga. Hesturinn er skrefmikill, með háar og afar léttar, fjaðurmagnaðar hreyfingar og góðu svifi. Hesturinn er framhár, yfirlínan er löng, bakið er burðarmikið og hreyfingin gengur í gegnum bol hestsins. Hesturinn heldur gæðum brokksins á mismunandi hraðastigum; frá hægri að vel greiðri ferð.
9,0
Takthreint, skrefmikið og öruggt brokk. Hesturinn hefur gott jafnvægi, léttar, fjaðurmagnaðar hreyfingar og beitir sér rétt; bakið er burðarmikið, hesturinn er framhár og hefur langa og hvelfda yfirlínu. Hesturinn heldur jafnvægi, takti og léttleika á mismunandi hraðastigum.
Brokk með háum, afar fjaðurmögnuðum hreyfingum og miklu svifi. Hesturinn heldur gæðum brokksins frá hægri ferð að rúmri milliferð.
Brokk með háum, fjaðurmögnuðum hreyfingum og góðu svifi. Hesturinn heldur gæðum brokksins frá hægri milliferð að greiðri ferð.
8,5
Takthreint og öruggt brokk með burðarmikið bak og ekki er um teljandi galla að ræða í líkamsbeitingu hestsins. Hámarkseinkunn ef um samslátt er að ræða í gangtegundinni.
Skrefmikið og hreyfingafallegt brokk með góðu fjaðurmagni og svifi, hesturinn hefur langa og hvelfda yfirlínu, gengur vel inn undir sig en nær einungis tæpri milliferð.
Rúmt brokk með léttum hreyfingum og góðri líkamsbeitingu, lyfta og framgrip framfóta er í meðallagi.
Skrefmikið, rúmt og öruggt brokk með góðri fótlyftu en hvelfingu yfirlínunnar er ábótavant.
Skrefmikið og afar hreyfingamikið brokk, ferðgott og svifmikið en vantar skrokkmýkt.
Skrefmikið brokk með góðri fótlyftu, hesturinn nær rúmri milliferð en svif er í meðallagi.
Skrefmikið, rúmt og hreyfingarmikið brokk, yfirlínan er löng og mjúk en hesturinn gengur ekki inn undir sig að aftan og er ekki framhár. Hreinn taktur og gott jafnvægi á hægri milliferð.
Afar taktöruggt og rúmt brokk sem heldur jafnvægi og fótlyftu á öllum hraðastigum en skreflengd er ábótavant.
8,0
Takthreint brokk þar sem engir alvarlegir gallar eru á jafnvægi eða líkamsbeitingu hestsins. Hámarkseinkunn ef um verulegan samslátt er að ræða.
Öruggt brokk með meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta, skreflengd er ekki undir meðallagi og hesturinn nær milliferð.
Skrefmikið brokk með fjaðurmagni og háum hreyfingum en ferðlítið.
Skrefmikið brokk með góðri lyftu og framgripi framfóta en ójafnt á köflum.
Öruggt og rúmt brokk en svif og skreflengd er í meðallagi.
Skrefmikið, rúmt og hreyfingarmikið brokk, yfirlínan er löng og mjúk en hesturinn gengur ekki inn undir sig að aftan og er ekki framhár.
Svifmikið og öruggt brokk, fótaburður og rými er í meðallagi en skortir fjaðurmagn.
7,5
Takthreint og öruggt brokk en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Skref- og hreyfingamikið brokk en jafnvægi er ábótavant.
Öruggt og skrefmikið brokk með háum hreyfingum en fjórtaktað.
Rúmt og hreyfingafallegt brokk en taktöryggi og/eða svifi er ábótavant.
Takthreint og öruggt brokk, fótlyfta og rými er í meðallagi en skrefstutt.
Takthreint brokk með góðri lyftu og framgripi framfóta en um töluverða galla er að ræða í líkamsbeitingu og/eða höfuðburði (t.d. yfirlínan er mjög stutt/fött).
7,0
Afar óöruggt brokk en sýnir á köflum gott brokk.
Brokkar örugglega en fjórtaktað og/eða ferðlítið, hreyfingar eru ekki undir meðallagi.
Takthreint brokk en yfirlínan er fött og hesturinn er framþungur.
Hreyfingamikið en afar fjórtaktað brokk, öryggi eða rými er ábótavant.
Öruggt brokk en burðar- og sviflítið.
Takthreint brokk, milliferð næst en gangurinn er afskaplega lítilfjörlegur (mikil lággengni, stuttstígni).
6,5
Mjög fjórtaktað, ójafn taktur eða óöruggt brokk.
Afar gölluð líkamsbeiting, þó taktur og skreflengd sé viðunandi. Öruggt tipl.
5,5-6,0
Rétt aðeins tæpt á tilþrifalausu brokki.
5,0
Sýnir ekki brokk.
Skeið.
Skeið skal sýnt á þeim mesta hraða þar sem hesturinn ræður við að ganga í jafnvægi heila ferð. Full sprettlengd er 150 metrar (75 metrar hjá fjögurra vetra hrossum). Auðveld niðurtaka á skeið af stökki á greiðri ferð, létt taumsamband á sprettinum sem og mjúkleg niðurhæging í jafnvægi eru verkefni sem geta vegið til hækkunar á einkunnum enda sýna þau fram á jafnvægi hestsins og öryggi á sprettinum. Að sama skapi skal einkunn lækka um 0,5 hið minnsta séu miklir erfiðleikar í upphafi spretts, hesturinn þarf mikla hjálp frá knapa til að halda jafnvægi á sprettinum eða ef hesturinn styttir sig í niðurhægingu.
Skeiðið telst takthreint ef svif er greinilegt og einungis er um lítilsháttar frávik frá niðurkomu hliðstæðra fóta að ræða.
9,5 – 10
Taktgott, skrefmikið og öruggt skeið með afar fallegu fótataki, skeiðferðin frábær. Skeiðið býr yfir miklu jafnvægi, svifi og léttleika og hesturinn beitir sér rétt. Yfirlínan er löng og sterk og það er burður í baki; hesturinn lengir yfirlínuna, teygir hálsinn fram og opnar kverk. (Viðmið: Hesturinn fer 100 m á minna en 8 sek.).
9,0
Taktgott, skrefmikið og öruggt skeið, hesturinn beitir sér rétt; það er burður í baki og hesturinn hefur langa og sterka yfirlínu, svif er greinilegt og hesturinn er í jafnvægi. (Viðmið: Hesturinn fer 100 m á minna en 9 sek.).
Glæsilegt skeið, afar góð skeiðferð.
Skeiðið er afar rúmt og öruggt en ekki glæsilegt.
Frábært skeiðsnið og afar gott jafnvægi, léttleiki og svif, ferðin er góð.
8,5
Taktgott og rúmt skeið, líkamsbeiting er viðunandi. Til að hljóta einkunnir 8,5 og hærra þarf að hleypa hestinum greinilega til skeiðs.
Öruggt, skrefmikið og svifmikið skeið, allgóð skeiðferð.
Öruggt og afar ferðmikið skeið en hreyfingar og skreflengd eru í meðallagi.
Glæsilegt, skrefmikið og flugrúmt skeið, svif er einungis í meðallagi.
Afar skref- og ferðmikið skeið en minniháttar óstöðugleiki er á sprettinum.
8,0
Hesturinn leggst á skeið og beitir sér greinilega fram í viðunandi jafnvægi.
Öruggt og fallegt skeið, taktgott, skeiðferð í meðallagi.
Öruggt og allrúmt skeið en hreyfingar í tæpu meðallagi.
Ferðmikið og skrefmikið skeið, svif er í meðallagi og líkamsbeitingu er ábótavant (hrossið er t.d. með veika/fatta yfirlínu).
Fallegt og ferðmikið skeið en ekki full sprettlengd, fimm vetra og eldri hross ná þó 80 – 100 m. Fallegt og mjög rúmt skeið en lítillega fjórtaktað eða sviflítið á köflum.
7,5
Hámarkseinkunn ef fjórtaktur er áberandi. Einnig ef um jafnvægisleysi er að ræða þannig að mikilla leiðréttinga er þörf frá knapa þó hrossið haldi sprettinn út.
Öruggt og þokkalega fallegt skeið, taktgott en ekki ferðmikið.
Öruggt, ekki fallegt skeið en ágæt ferð.
Ferðmikið og skrefmikið skeið, svif er í meðallagi og líkamsbeiting er áberandi gölluð (hrossið er t.d. með veika/fatta yfirlínu).
Fallegt og rúmt skeið en stuttir sprettir, – nær þó 60 til 80 m. Fallegt og rúmt skeið en sviflítið eða fjórtaktað á köflum.
7,0
Snerpu skeiðhrifsur en lítið skeiðöryggi.
Afar ferðmikið og skrefmikið skeið en sviflítið og fjórtaktað.
Snerpu- og fegurðarlítið en öruggt skeið.
Skrefmikið og öruggt skeið í réttri líkamsbeitingu, taktgott en ferðlítið Ójafn taktur þó að nokkur ferð náist.
6,5 eða lægra
Stuttir snerpulitlir sprettir.
Snerpulaust skeið þótt hrossið haldi sprettinn út. Skeiðhrifsur.
Skeið með verulegum taktgöllum; flandur, fjórtaktur eða víxl. Engin vekurð (5,0).
Greitt stökk.
Stökk skal sýnt á þeim mesta hraða þar sem hesturinn ræður við að ganga í jafnvægi, þar sem hraðaaukning frá hægu upp í mestu ferð er sýnd. Greinileg hraðaaukning í góðu jafnvægi getur vegið til hækkunar á einkunn og eins ef sýnd er jafnvægisgóð niðurhæging. Full sprettlengd er 150 metrar (75 metrar hjá fjögurra vetra hrossum).
9,5 – 10
Taktgott, skrefmikið, afar mjúkt stökk með góðu svifi og miklu gegnumflæði og fjaðurmagni í hreyfingum. Hesturinn hreyfir sig í jafnvægi með háum, léttum hreyfingum og nær mikilli ferð. Hann lyftir sér vel að framan, kreppir afturhlutann og stígur langt inn undir sig. Hesturinn hefur burð í baki og langa og mjúka yfirlínu.
9,0
Taktgott, mjúkt og skrefmikið stökk. Hesturinn hefur léttar og svifmiklar hreyfingar, gott jafnvægi og beitir sér rétt; hesturinn hefur burð í baki, er framhár og hefur langa yfirlínu.
Hrossið lyftir sér vel að framan og teygir vel á sér í mjúkum bogum, mikið fjaðurmagn og gegnumflæði er í hreyfingum, ferðgott.
Hrossið lyftir sér vel að framan og teygir vel á sér í mjúkum bogum, fjaðurmagn og gegnumflæði er í hreyfingum, hesturinn nær mikilli ferð.
Hrossið lyftir sér vel að framan og teygir vel á sér, stökkið er rúmt og afar mikill léttleiki er í hreyfingum.
8,5
Taktgott stökk með réttri líkamsbeitingu, viðunandi mýkt, léttleika og jafnvægi.
Mjúkt og teygjugott stökk, yfirlínan er löng og mjúk, hrossið er fremur framhátt og svif er um meðallag, nær greiðri ferð.
Svifmikið stökk, yfirlínan er löng og hrossið er framhátt en mýkt er í meðallagi, hrossið nær greiðri ferð.
Teygjugott og afar svif- og ferðmikið stökk, framhæð og mýkt í meðallagi.
Mjúkt, svifmikið og afar jafnvægisgott stökk, yfirlínan er löng og mjúk og hrossið er framhátt, dágóð ferð.
8,0
Taktgott stökk í viðunandi jafnvægi. Ekki er um áberandi galla að ræða í líkamsbeitingu hestsins.
Teygjugott og rúmt stökk, svif og framhæð er í meðallagi. Skrefmikið stökk með góðu svifi en léttleika er ábótavant.
Hreyfingamikið og rúmt stökk en skrefstærð eða mýkt er ábótavant.
Mjúkt og jafnvægisgott stökk, yfirlínan er löng og mjúk, svif og rými er í meðallagi.
Svifmikið stökk, yfirlínan er löng og hrossið er framhátt en mýkt er ábótavant, hrossið nær greiðri ferð.
Mjúkt, svifmikið og jafnvægisgott stökk, yfirlínan er löng og mjúk og hrossið er framhátt en rými er einungis í meðallagi.
7,5
Taktgott stökk en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Mjúkt, rúmt og teygjugott stökk en sviflítið, yfirlínan er full fött.
Ferðmikið stökk en líkamsbeitingu og svifi er ábótavant, lyftir sér lítið upp að framan.
Svifmikið stökk en líkamsbeitingu er ábótavant, t.d. há lendarhreyfing eða stirðar hreyfingar. Stökkferð og líkamsbeiting (svif, framhæð og mýkt) geta vegið upp vankanta hvort á öðru.
7,0
Nær einungis milliferð og aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Víxlar en nær þó 80-100 metrum á góðu stökki.
Ferðmikið en afar stirt stökk.
Ferðmikið stökk en sviflaust og framþungt.
6,5 eða lægra
Hesturinn nær ekki 80 metrum án þess að víxla
Sviflítið og hesturinn kemst ekki fullt sprettfæri án þess að víxla.
Mjög sviflítið, flatt og ferðlítið stökk.
Mjög mikið ósamræmi í stökkhreyfingu, t.d. mjög há lendarhreyfing og stökkferð ábótavant.
Afar mikil þyngsli (svifleysi) þó nokkur ferð náist. Einvörðungu kýrstökk (5,0).
Hægt stökk.
Hægt stökk skal sýnt á 100 metra kafla fyrir miðju brautar. Hraði á hægu stökki er um 7 m/sek. Fyrir hinar hærri einkunnir (9,0 eða hærra) þarf hesturinn að geta lyft sér upp í jafnvægisgott hægt stökk af feti eða milliferðar tölti/brokki. Sýning á bæði hægra og vinstra stökki sem og að hesturinn haldi jafnvægi og burði þegar slakað er á taum eru verkefni sem vegið geta til hækkunar á einkunn séu þau vel framkvæmd af hestinum.
9,5 – 10
Þrítakta, skrefmikið stökk með góðu svifi, gegnumflæði og miklu fjaðurmagni í hreyfingum. Hesturinn hreyfir sig í jafnvægi með léttum, mjúkum hreyfingum og spyrnir sér vel upp og fram – áreynslulaust en tilkomumikið. Hesturinn hefur hvelfda yfirlínu og mikinn burð; kreppir lend og ber þyngd með afturfótum þannig að hreyfingar framhluta eru háar og léttar.
9,0
Takthreint, skrefmikið og mjúkt stökk með greinilegu svifi. Hesturinn hefur léttar hreyfingar, gott jafnvægi og beitir sér rétt; hefur hvelfda yfirlínu og lyftir sér vel upp að framan.
Afar mjúkt stökk með miklu gegnumflæði og fjaðurmagni í hreyfingum.
Afar svifmikið stökk með góðu gegnumflæði og fjaðurmagni í hreyfingum.
8,5
Takthreint og jafnvægisgott stökk með léttum hreyfingum og góðri líkamsbeitingu.
Mjúkt og skrefmikið stökk, yfirlínan er löng, hrossið er fremur framhátt og svif er viðunandi.
Svifmikið stökk, yfirlínan er löng og hrossið er framhátt, skrokkmýkt er viðunandi.
Jafnvægisgott og mjúkt stökk með háum og svifmiklum hreyfingum framfóta og góðri reisingu, svif afturfóta er lítið.
8,0
Takthreint stökk í viðunandi jafnvægi þar sem ekki eru áberandi gallar á líkamsbeitingu. Hámarkseinkunn ef hraði og/eða skreftíðni á hægu stökki er í efstu mörkum.
Jafnvægisgott stökk en hreyfingar eru í meðallagi.
Mjúkt stökk, yfirlínan er löng og mjúk, svif og hreyfingar eru viðunandi.
Skref- og hreyfingamikið stökk með greinilegu svifi en léttleika og/eða framhæð er ábótavant. Svifmikið stökk, yfirlínan er löng og hrossið er framhátt en skrokkmýkt er ábótavant.
7,5
Takthreint stökk en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Mjúkt stökk með léttum hreyfingum framhluta en afar sviflítið.
Svifmikið stökk en líkamsbeitingu er ábótavant, t.d. há lendarhreyfing eða áberandi gallar á reisingu/yfirlínu (lágreistur, ofreistur eða skekkir sig).
Taktur, svif, framhæð og mýkt geta vegið upp vankanta hvort á öðru.
7,0
Takthreint stökk með greinilegu svifi en þungt eða stirt, hesturinn er á framhlutanum.
Takthreint stökk en þungt, yfirlínan er full fött/stutt.
Skrefmikið og hreyfingagott stökk en fjórtaktað og sviflítið, yfirlínan er fött. Góðar hreyfingar framfóta en fjórtaktað, burðar- og sviflítið.
6,5 eða lægra
Allir þættir gangtegundarinnar eru undir meðallagi.
Mikill stirðleiki.
Kýrstökk, víxl.
Mjög mikið ósamræmi í stökkhreyfingu, t.d. mjög há lendarhreyfing.
Afar sundurslitið og fjórtaktað stökk.
Afar mikil þyngsli (svifleysi). Einvörðungu kýrstökk (5,0).
Samstarfsvilji.
Samstarfvilji er mat á framhugsun, þjálni og taugastyrk hestsins í gegnum alla sýninguna, þ.e. hversu fús hesturinn er til að leggja sig fram og bregðast við ábendingum knapans. Fyrir einkunnir 9,0 eða hærra skal það sýnt að hægt sé að hægja hrossið niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Hraðabreytingar á gangtegundum, losað um taum, slöngulínur og annað sem sýnir þjálni og samstarfsvilja getur vegið til hækkunar á einkunn sé það vel framkvæmt af hestinum.
9,5 – 10
Hesturinn sýnir frábæra þjálni, léttleika og samstarfsvilja í hvívetna. Hann er viljugur og vakandi fyrir ábendingum, kjarkaður og algjörlega spennulaus á öllum gangtegundum. Hesturinn er ávallt í léttu taumsambandi og yfirlínan er afar mjúk. Hesturinn er í andlegu jafnvægi og sýnir afköst á gangtegundum með lágmarks ábendingum frá knapa.
9,0
Hesturinn er afar þjáll og samstarfsfús og svarar öllum ábendingum frá knapa af léttleika. Höfuðburður og/eða líkamsbeiting er stöðug. Spenna, mótþrói eða stirðleiki háir ekki sýningu á neinni gangtegund. Hesturinn er auðveldur í niðurhægingum og viðsnúningum á brautarendum.
Afar framsækinn í vilja, yfirvegun er í góðu meðallagi.
Framsækinn í vilja og hesturinn er afar vakandi fyrir ábendingum knapa.
Yfirvegun og mýkt einkennir hestinn og hann sýnir frábæran og hnökralausan samstarfsvilja í hvívetna, framsækni í góðu meðallagi.
8,5
Hesturinn virðist hafa trausta lund og sýnir ekki teljandi mótþróa gegn ábendingum. Vilji er ekki undir meðallagi.
Mjög þjáll og yfirvegaður, framsækni er í rúmu meðallagi.
Framsækinn í vilja og hesturinn er frekar þjáll og samstarfsfús.
Hesturinn er oftast þjáll og samstarfsfús með góða framhugsun en er spenntur á feti eða minniháttar mótþróa má greina í svörun.
8,0
Hesturinn leggur sig fram og sýnir ekki áberandi mótþróa gegn ábendingum. Höfuðburður og/eða líkamsbeiting er að mestu stöðug. Hámarkseinkunn ef ekki er unnt, af tölti og brokki, að hægja hrossið niður og snúa við innan afmörkunar brautar.
Fremur þjáll og framsækni í vilja er í meðallagi.
Framsækinn í vilja og fremur samstarfsfús en léttleiki í taumsambandi og næmni í svörun við ábendingum mætti vera meiri.
Afar þjáll og traustur í lund en framsækni í vilja mætti vera meiri.
Framsækinn og afar þjáll í svörun en lítilsháttar viðkvæmni og/eða sjónhræðsla.
7,5
Hámarkseinkunn ef óþjálni, viðkvæmni eða spenna er áberandi. Einnig ef um framtaksleysi er að ræða en þá aðeins ef hesturinn sýnir mikla þjálni og trausta lund.
Framsækni í vilja og þjálni er í meðallagi.
Þægð en framtaksleysi.
Framsækni í vilja og yfirvegun en hesturinn er áberandi þungur á taum.
Framsækni í vilja og yfirvegun en ítrekaður mótþrói gegn ábendingum.
Framsækni í vilja og a.m.k. meðalþjáll en örgeðja, spenna hefur neikvæð áhrif á gangtegundir.
7,0
Hámarkseinkunn ef hesturinn hverfur úr sjónsviði dómara eða sýnir mikla óþjálni.
Viljaleysi.
Hesturinn er ásækinn í vilja en verulega óþjáll, svarar ábendingum af miklum mótþróa.
Hesturinn er í meðallagi framsækinn og er áberandi þungur á taum og sýnir mikla stífni.
Hesturinn sýnir vott af kergju eða eða lætur illa að stjórn. Hesturinn er greinilega viðkvæmur og/eða sjónhræddur.
6,5 og lægra
Hesturinn sýnir ofríki, kergju, rokur eða hrekki.
Uppnám í sýningunni eða hesturinn lýkur ekki sýningu sökum afgerandi galla í þjálni eða samstarfsvilja.
Framtaksleysi háir sýningu hestsins verulega. Mikil leti og deyfð.
Fegurð í reið.
Fegurð í reið er mat á heildar útgeislun hestsins í gegnum alla sýninguna. Tekið er mið af líkamsbeitingu hestsins, reisingu, höfuðburði, skrokkmýkt, taglburði og fótahreyfingum á öllum gangtegundum.
9,5 – 10
Hrossið er glæsilegt og afar fasmikið í framgöngu; hrossið sýnir fjölhæfni og beitir sér rétt á hverri gangtegund; yfirlínan er löng og mjúk og hrossið er framhátt. Hrossið er frjálst í fasi, afar þjált í beisli og hefur mikla skrokkmýkt og gegnumflæði í hreyfingum. Hrossið býr yfir léttleika og hefur mikið fjaðurmagn í hreyfingum sem eru háar og framgripsmiklar.
9,0
Hrossið fer mjög fallega í reið, hefur mikla útgeislun og er reisnarmikið og jafnvægisgott á hverri gangtegund. Hrossið er frjálst í fasi, þjált í beisli og skrokkmjúkt. Hreyfingar eru léttar, háar og fjaðurmagnaðar. Mjög góðir þættir geta vegið upp nokkru síðri þætti í fegurð hrossins í reið en ætíð eru gerðar miklar kröfur til réttrar líkamsbeitingar á gangtegundunum. Hrossið er stöðugt í höfuðburði og líkamsbeitingu.
8,5
Hrossið fer fallega í reið og beitir sér yfirleitt rétt á gangtegundunum; er að minnsta kosti meðalreist og hefur léttan framhluta á tölti. Góðir þættir geta vegið upp minniháttar galla í fegurð hrossa í reið. Hrossið er að jafnaði stöðugt í höfuðburði og líkamsbeitingu miðað við aldur.
Hrossið hefur háar hreyfingar og er framhátt á gangtegundum en fjaðurmagn mætti vera meira.
Mikil skrefstærð og fótlyfta framfóta ásamt fallegri reisingu en nokkur stirðleiki er í afturhluta. Hrossið beitir sér rétt á gangtegundum og er skrefmikið og mjúkt, vel reist á tölti með langa yfirlínu, léttleiki er í hreyfingum en fótaburður er í meðallagi.
Hrossið hefur afar háar og aðsópsmiklar hreyfingar en mætti hafa meiri reisingu, réttari höfuðburð (t.d. undir bita) eða líkamsbeitingu á sumum gangtegundum.
8,0
Hrossið fer vel í reið. Hámarkseinkunn ef um áberandi galla er að ræða í líkamsbeitingu hestsins en þá aðeins ef aðrir þættir eru vel yfir meðallagi.
Hrossið er hæfilega reist, fótaburður er í rúmu meðallagi og heildarmynd þess í reið er laus við öll eiginleg lýti.
Hrossið er reist og hefur góðan höfuðburð en mýkt og fótlyfta er í meðallagi.
Hrossið hefur háar og aðsópsmiklar hreyfingar en er lágreist, með stutta yfirlínu í hálsi, skekkir sig eða er óstöðugt í höfuðburði/líkamsbeitingu.
7,5
Almennt eru engir afgerandi gallar á heildamynd hrossins í reið; þó geta góðir þættir vegið upp síðri þætti.
Ekki eru áberandi gallar á höfuðburði eða reisingu og hreyfingar eru í meðallagi.
Hreyfingar eru yfir meðallagi en hrossið er gallað eða óstöðugt í höfuðburði/reisingu (t.d. framsett, með afar stutta yfirlínu, lágreist eða skekkir sig).
Hrossið er reist og/eða hefur góðan höfuðburð en hreyfingar eru undir meðallagi.
7,0
Ekki eru áberandi gallar á höfuðburði eða reisingu en hrossið er afar lággengt.
Hreyfingar eru í meðallagi en hrossið er afar framþungt og gallað í höfuðburði og reisingu, s.s. mikið framsett, ganandi eða lágreist.
Hrossið er reist og/eða hefur góðan höfuðburð en hreyfingar eru stirðar og þungar.
6,5 og lægra
Mikil lággengni og stutt skref ásamt göllum í líkamsbeitingu.
Mikið mýktarleysi og þung hreyfing.
Hreyfingar eru undir meðallagi og hrossið er afar framþungt og gallað í höfuðburði og reisingu, s.s. mikið framsett, ganandi eða lágreist.
Miklir gallar á líkamsbeitingu sem há hrossinu í allri framgöngu.
Fet.
Fetið er sýnt á 100 metra kaflanum fyrir miðju brautar. Gerðar eru minni kröfur um stöðugleika sýningarinnar hjá ungum hrossum.
9,5 – 10
Fet í jöfnum og hreinum fjórtakti, jafnvægisgott og stöðugt. Hesturinn tekur löng skref, hreyfingar eru fasmiklar og rösklegar en um leið er hvíld í hverju skrefi. Hesturinn er meðalreistur, hefur burð í baki og yfirlínan er löng og hvelfd. Háls og hryggsúla er fjaðrandi og spennulaus, hesturinn er virkur í afturfótum og taglið er frjálst og óþvingað.
9,0
Takthreint, mjúkt og skrefmikið fet, jafnvægisgott og stöðugt. Hesturinn hefur langa yfirlínu og burð í baki.
Fetið er rösklegt og hesturinn gengur í gegnum sig með rúmum og frjálsum hreyfingum. Afar skrefmikið fet með fasmiklum og yfirveguðum hreyfingum.
8,5
Takthreint fet í réttri líkamsbeitingu með viðunandi skrokkmýkt og jafnvægi.
Skrefmikið og rösklegt fet, góð hvíld í skrefi en hreyfingar og skrokkmýkt eru í meðallagi. Mjúkt fet, hesturinn beitir sér rétt og gengur vel í gegnum sig, skreflengd er í rúmu meðallagi; afturfótur nær framfótarspori.
8,0
Takthreint fet með viðunandi líkamsbeitingu og jafnvægi, afturfótur nær framfótarspori. Hámarkseinkunn ef hesturinn er greinilega á bak við bita.
Fetið er skrefmikið en skortir röskleika.
Fetið er mjúkt og hesturinn gengur vel í gegnum sig, skreflengd og röskleiki er viðunandi. Óstöðugt fet en sýnir afar gott fet á köflum; skrefmikið og mjúkt.
7,5
Hámarkseinkunn ef fetið er áberandi ójafnt (t.d. skrefstærð að aftan er áberandi misjöfn). Takthreint fet en aðrir þættir gangtegundarinnar eru í meðallagi.
Takthreint fet, skreflengd er í rúmu meðallagi og hrossið mætti hvíla betur í hverju skrefi.
Takhreint fet, skreflengd er í rúmu meðallagi en fetið mætti vera framtaksmeira.
Takthreint og skrefmikið fet en stirðleiki er í hreyfingum.
Takthreint og skrefmikið fet en hesturinn er framþungur og/eða of lágreistur. Óstöðugt fet en nær þó köflum með góðri skreflengd og jafnvægi.
7,0
Hámarkseinkunn ef fetið er skeiðborið eða um brokkívaf er að ræða.
Takthreint fet en yfirlínan er fött og hesturinn er afar framþungur.
Takthreint fet en vantar framtak eða skrefstærð.
Mjúkt og virkjamikið fet en mikið ósamræmi í skreflengd hægri og vinstri hliðar.
Óhreinn taktur (skeiðborið eða brokkívaf) en rösklegar og jafnar hreyfingar með hvíld í hverju skrefi.
Stuttir kaflar á meðalgóðu feti.
6,5
Óhreinn taktur.
Ójafn eða óhreinn taktur, afar framtakslítið eða stutt skref. Skrefstutt fet og hrossið hvílir ekki í spori.
5,5 – 6,0
Fetið er mjög skrefstutt, tiplandi, mikil hliðstæð hreyfing eða áberandi brokkívaf.
5,0
Hrossið fetar ekki.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.