Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

338/2014

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1213/2013, um stjórn veiða íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2014. - Brottfallin

1. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Leyfi, sbr. 1. gr., tekur til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í lögsögu Íslands, Færeyja, Noregs, Jan Mayen, á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs og í lögsögu Svalbarða. Við veiðar í lögsögu Færeyja, Noregs og Jan Mayen skal farið að reglum sem stjórnvöld í Noregi setja um veiðarnar. Um veiðar í lögsögu Noregs gilda og ákvæði 2. mgr. 3. gr. Í lögsögu Svalbarða skal farið að reglum sem norsk stjórnvöld setja um veiðarnar, enda séu þær settar á grundvelli samningsins um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 og í samræmi við ákvæði hans.

2. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætist ný 3. mgr. svohljóðandi:

Við veiðar á norsk-íslenskri síld í færeyskri lögsögu er einungis heimilt að veiða makríl sem meðafla. Heildarmakrílafli íslenskra skipa í færeyskri lögsögu skal ekki fara yfir 1.300 lestir. Fiskistofa fylgist með afla þessum og tilkynnir ráðuneytinu hvenær líklegt megi telja að aflanum verði náð og tilkynnir ráðuneytið frá hvaða tíma óheimilt er að veiða makríl sem meðafla.

3. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Um tilkynningar varðandi síldveiðar skv þessari reglugerð, bæði innan íslenskrar lögsögu og á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 285/2014, um veiðieftirlit á samn­ingssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), með síðari breytingum. Um tilkynningar varðandi veiðar innan lögsögu Noregs fer samkvæmt reglum norskra stjórnvalda. Auk þess skal senda aflatilkynningu daglega til eftirlitsstöðvar Landhelgis­gæsl­unnar og Fiskistofu, stundi skip veiðar í færeyskri lögsögu.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 7. apríl 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica