1. gr.
Gildissvið og skilgreiningar.
Þessi reglugerð varðar notkun merkisins, Skráargatið, við merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.
2. gr.
Skráargatið er valkvætt merki sem leggur áherslu á hollustugildi matvæla innan þeirra flokka sem eru taldir upp í viðauka 2 og byggir á næringarviðmiðum um innihald fitu og sykurs, salts og trefja í matvælum.
3. gr.
Hönnun Skráargatsins.
Grafísk hönnun Skráargatsins er sýnd í viðauka 1. Skráargatinu skal fylgja táknið ® og má nota merkið annaðhvort í grænum lit eða svörtum.
4. gr.
Takmarkanir fyrir notkun.
Sætuefni (aukefni) og ný innihaldsefni eða samþykkt nýfæði á Evrópska efnahagssvæðinu með sætueiginleikum má ekki nota í matvælum sem merkt eru með Skráargatinu.
Matvæli, sem merkt eru með Skráargatinu, mega ekki innihalda meira en 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni, sbr. reglugerð nr. 1045/2010.
Matvæli, sem eru sérstaklega ætluð börnum undir þriggja ára aldri, sbr. reglugerð nr. 708/2009, má ekki merkja með Skráargatinu.
5. gr.
Skilyrði fyrir markaðssetningu.
Skráargatið má aðeins nota við markaðssetningu forpakkaðra matvæla sem falla undir matvælaflokka í viðauka 2 og eru í samræmi við þau skilyrði sem eiga við um öll næringarefnin sem tengjast viðeigandi matvælaflokki.
Skráargatið má aðeins nota í markaðssetningu matvæla sem eru ekki forpökkuð ef þau falla undir matvælaflokka 12, 18 og 19 í viðauka 2 og eru í samræmi við viðeigandi skilyrði í viðaukanum.
6. gr.
Öll notkun Skráargatsins við markaðssetningu verður að vera skýr og hún má ekki vera villandi eða blekkjandi fyrir neytendur.
Ef nota á Skráargatið í annars konar markaðssetningu forpakkaðrar vöru en með merkingu á umbúðunum sjálfum (s.s. auglýsingu eða kynningu) skal varan einnig bera merkið á umbúðunum.
7. gr.
Ábyrgð og gjaldtaka.
Matvælafyrirtæki, sem nota Skráargatið við markaðssetningu matvæla, skulu tryggja að notkun þess sé í samræmi við reglugerð þessa.
Ef eftirlitsaðili, sbr. 8. gr., óskar eftir, skal stjórnandi matvælafyrirtækisins leggja fram niðurstöður úr faggiltum prófunum sem staðfesta að notkun merkisins sé í samræmi við viðkomandi skilyrði í viðauka 2.
Matvælafyrirtæki skal greiða fyrir eftirlit samkvæmt reglugerð þessari í samræmi við 25. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Það sama á við um prófun opinberra eftirlitssýna.
8. gr.
Eftirlit.
Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. gr. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
9. gr.
Þvingunarúrræði og viðurlög.
Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a-e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
10. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. gr. b og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
Reglugerðin tekur þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. nóvember 2013.
Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Baldur P. Erlingsson.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)