Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fyrri útgáfa

Prentað þann 12. jan. 2025

Reglugerð með breytingum síðast breytt 28. júní 2014

433/2013

Reglugerð um stjórn veiða á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) utan lögsögu ríkja.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til karfaveiða íslenskra skipa í Síldarsmugunni (ICES svæði I+II) austan 22°V og rækjuveiða í Barentshafi (ICES svæði Ia), utan lögsögu ríkja.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að stunda veiðar skv. 1. gr. án sérstakra leyfa frá Fiskistofu.

3. gr.

Við veiðar skv. 1. gr. skulu fiskiskip búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu skipsins á klukkustundar fresti.

Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að eftirlitsbúnaðurinn starfi eðlilega.

Ef eftirlitsbúnaðurinn bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á 6 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar.

4. gr.

Um tilkynningar vegna veiða skv. þessari reglugerð gilda ákvæði reglugerðar nr. 285/2014, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), með síðari breytingum.

5. gr.

Stundi skip veiðar samkvæmt þessari reglugerð og almennar togveiðar í lögsögu Íslands í sömu veiðiferð skal halda afla sem þannig fæst aðgreindum frá öðrum afla um borð í veiðiskipi og skal hann veginn og skráður sérstaklega við löndun. Um vigtun afla fer eftir ákvæðum gildandi reglugerðar um vigtun sjávarafla.

II. KAFLI Karfaveiðar í Síldarsmugunni (ICES svæði I+II).

6. gr.

Veiðar á karfa (S.Mentella) í Síldarsmugunni (ICES svæði I + II), austan 22°V eru heimilar frá og með 1. júlí til og með 31. desember 2014. Sameiginlegar aflaheimildir aðildarríkja NEAFC fyrir árið 2014 eru 19.500 lestir. Þennan afla skal skrá sem "RED" í tilkynningarkerfinu.

Fiskistofa tilkynnir leyfishöfum þegar 80% magnsins er náð. Þegar sameiginlegar aflaheimildir aðildarríkja NEAFC fyrir árið 2014 eru uppurnar skal Fiskistofa afturkalla öll útgefin veiðileyfi.

Við uppreikning á hausuðum og slægðum karfa í afla upp úr sjó skal miða við stuðulinn 1,70.

7. gr.

Karfasýni skulu tekin úr afla, a.m.k. eitt úr hverri veiðiferð og skal hvert sýni innihalda 50-100 fiska sem valdir eru af handahófi. Skrá skal sýnatöku í afladagbók. Sýnin skulu fryst um borð, vera vandlega merkt stað, dagsetningu og dýpi og send Hafrannsóknastofnun að lokinni veiðiferð.

8. gr.

Lágmarksmöskvastærð er 100 mm.

III. KAFLI Rækjuveiðar í Barentshafi (ICES svæði Ia).

9. gr.

Lágmarksmöskvastærð er 35 mm.

10. gr.

Skylt er við rækjuveiðar á Barentshafi (ICES svæði Ia), utan lögsögu ríkja, að nota seiðaskilju við veiðarnar.

Seiðaskilja skal þannig gerð að bil milli rimla skal mest vera 22 mm. Skiljunni skal komið fyrir í belg vörpunnar með u.þ.b. 45-50 gráðu halla þannig að neðri kantur skiljunnar nái lengra fram. Skiljan skal fylla út í belginn og skulu allir jaðrar hennar festir við netið í belgnum. Á efra byrði vörpunnar fyrir framan skiljuna skal vera gat þar sem fiskur skilst út. Þá aðeins er heimilt að nota yfirpoka á seiðaskilju við rækjuveiðar í Barentshafi (ICES svæði Ia), að hlutaðeigandi skip hafi leyfi skv. reglugerð um stjórn veiða á djúpsjávartegundum á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

11. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út á grundvelli hennar, skulu varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, lögum nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.