Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

240/2013

Reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski (hér nefndur túnfiskur) á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og innan lögsögu þar sem íslensk skip hafa rétt til veiða samkvæmt samningum eða sérstökum veiðileyfum.

2. gr.

Leyfi til veiða.

Allar veiðar á túnfiski eru óheimilar nema að fengnu leyfi Fiskistofu skv. 3. og 5. gr.

Ráðherra ákveður leyfilegan heildarafla og fjölda leyfa á grundvelli veiði- og verndar­áætl­unar ICCAT. Aflamagni skal skipt til: i) línuveiða, ii) sjóstangaveiða og iii) áætlaðs með­afla.

Leyfishöfum er heimilt að stunda línuveiðar á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember og sjó­stangaveiði á tímabilinu frá 16. júní til 14. október ár hvert. Veiðar eru einungis heimilar á veiðisvæði norðan 42°00,00´ N milli 10°00,00´ V og 45°00,00´ V.

Heimilt er að fela Fiskistofu að fella úr gildi leyfi til veiða á túnfiski sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar frekar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

3. gr.

Úthlutun leyfa til línuveiða.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til línuveiða á túnfiski, í atvinnuskyni, til allt að þriggja ára í senn. Við veitingu leyfa koma einungis til greina skip sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og eru útbúin til veiðanna.

Í umsókn skal tilfæra áætlun um veiðarnar, hvernig fiskiskipið verður útbúið til veiðanna, áætlaðar löndunarhafnir og ráðstöfun afla.

Heimilt er að varpa hlutkesti milli umsókna um leyfi samkvæmt þessari grein.

4. gr.

Skilyrði leyfa til línuveiða.

Eftir að leyfi skv. 3. gr. er veitt er óheimilt að endurúthluta því eftir 1. júlí, ár hvert, til annars skips, nema skip hafi farist, vélarbilun valdi því að það geti ekki haldið til veiða eða af force majure ástæðum.

Veiðiheimildir má ekki flytja milli ára.

Veiðigjald vegna veiðiheimilda sem úthlutað er til túnfiskveiða gjaldfellur við úthlutun heimild­anna. Um greiðslu eftirlitskostnaðar vegna veru eftirlitsmanns um borð fer samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.

Heimilt er að setja nánari skilyrði við veiðarnar í leyfisbréf, þ.m.t. um lágmarksfjölda sóknar­daga að viðurlagðri afturköllun leyfis.

5. gr.

Úthlutun leyfa til sjóstangaveiði.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til sjóstangaveiða á túnfiski, samkvæmt tillögu þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál, til allt að þriggja ára í senn.

Við veitingu leyfa samkvæmt þessari grein koma aðeins til greina skip sem hafa haf­færis­skírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofn­unar­innar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skil­yrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfest­ingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiði­landhelgi Íslands.

Heimilt er að varpa hlutkesti milli jafngildra umsókna um leyfi samkvæmt þessari grein.

6. gr.

Skilyrði leyfa til sjóstangaveiða.

Fiskiskipum sem hafa leyfi skv. 5. gr. er heimilt að veiða einungis einn fisk á dag.

Óheimilt er að fénýta túnfisk sem veiðist á sjóstöng.

Veiðar á túnfiski á sjóstöng skal tilkynna til Fiskistofu áður en afla er landað.

Veiðigjald vegna túnfisks sem veiðist á sjóstöng greiðist samkvæmt skýrslu um afla.

Heimilt er að setja nánari skilyrði við veiðarnar í leyfisbréf, þ.m.t. um afturköllun leyfis þegar hámarksafla er náð.

7. gr.

Skylda til sleppinga.

Skipum sem stunda veiðar á túnfiski er skylt að sleppa lifandi afla eftirfarandi tegunda: sjávarskjaldbökum, sleggjuháfum (latína: Spyrnidae), hvítuggaháfum (latína: Carcharihinus longimanus), glyrnuskottháfum (latína: Alopia supercilliosus) og silkiháfum (latína: Carcharhinus falciformis). Sé þess engin kostur að sleppa aflanum lifandi er skylt að koma með hann að landi. Halda skal aflanum aðskildum frá öðrum afla og skal skila honum til Hafrannsóknastofnunar þegar við löndun. Bannað er að selja eða fénýta á annan hátt afla þessara tegunda.

8. gr.

Færsla í afladagbók.

Skrá skal í afladagbók allan afla, einnig þótt honum sé sleppt lifandi eða skilað til Haf­rannsókna­stofnunar. Skipum sem fá meðafla af túnfiski er skylt að tilkynna hann til Fiski­stofu áður en honum er landað.

9. gr.

Eftirlitsbúnaður og tilkynningar.

Fiskiskip sem hafa leyfi til að stunda línuveiðar á túnfiski í atvinnuskyni skulu vera búin fjar­skipta­búnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlits­stöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd eftirlitsstöðin, um staðsetn­ingu viðkomandi skips á klukkustundar fresti.

Skipi er óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

Skip sem stunda línuveiðar í atvinnuskyni á túnfiski skulu tilkynna Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu með 3 vikna fyrirvara um ætlað upphaf veiða.

15 dögum fyrir upphaf veiða á túnfiski skal eftirlitsstöð framsenda til skrifstofu ICCAT upp­lýsingar um staðsetningu skipsins, skulu þær sendingar standa þar til 15 dögum eftir að skip hefur tilkynnt um að það hætti veiðum á túnfiski.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. mgr., bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um stað­setningu skipsins á 6 klukkustunda fresti til eftirlitsstöðvarinnar. Einnig skulu tilkynningar skv. 10. gr. innihalda upplýsingar um staðsetningu skipsins.

10. gr.

Tilkynningar til eftirlitsstöðvar.

Skip sem stunda línuveiðar á túnfiski í atvinnuskyni skulu senda eftirgreindar tilkynningar til eftirlitsstöðvarinnar:

Komutilkynning:

Skylt er skipstjóra skips að tilkynna til eftirlitsstöðvarinnar með ekki meira en 12 klukku­stunda og að minnsta kosti 6 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á viðkomandi samn­ings­svæði til túnfiskveiða. Á þetta við um veiðar innan íslenskrar lögsögu sem og utan. Í tilkynn­ingunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COE" sem komutilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
  6. Áætlað aflamagn um borð miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
  7. Dagsetning og tími.

Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt eftirlitsstöðinni á sama hátt.

Aflatilkynning:

Dag hvern sem skip er við túnfiskveiðar, skal skipstjóri tilkynna eftirlitsstöðinni um heildar­afla síðasta sólarhrings, miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum. Í tilkynn­ing­unni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "CAT" sem aflatilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Afli frá síðustu aflatilkynningu í kg, miðað við afla upp úr sjó, sundurliðaður eftir tegundum.
  6. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða, en frá síðustu aflatilkynningu hafi hún verið send.
  7. Dagsetning og tími.

Lokatilkynning:

Þegar veiðiskip hættir veiðum skal það tilkynnt eftirlitsstöðinni. Jafnframt skal í tilkynningu tilgreina afla frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla úr sjó, aðgreindan eftir tegundum og einnig löndunarhöfn eða löndunarstað.Lokatilkynningin skal send eigi síðar en 6 klukku­stundum fyrir áætlaðan tíma í löndunarhöfn. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýs­ingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COX" sem lokatilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Dagsetning og tími.
  6. Afli frá síðustu aflatilkynningu í kg, miðað við afla upp úr sjó, sundurliðaður eftir tegundum.
  7. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða, en frá síðustu aflatilkynningu hafi hún verið send.
  8. Löndunarhöfn (áætlaður tími og dagsetning þar).
  9. Dagsetning og tími.

Tilkynningar til Eftirlitsstöðvarinnar er hægt að senda með eftirfarandi sambandsleiðum: Tölvupóstfang sar@lhg.is, fax nr. 545 2001, Inmarsat C nr. 581 425101519 eða gegnum strandstöðvar á Íslandi.

11. gr.

Leit úr lofti.

Óheimilt er að styðjast við leit úr lofti við veiðar á bláuggatúnfiski.

12. gr.

Löndunarhafnir.

Skip skulu landa afla á Íslandi í fyrirfram ákveðnum höfnum, sem Fiskistofa ákveður í sam­ráði við leyfishafa.

13. gr.

Undirmál.

Skylt er að sleppa lifandi túnfiski sem er undir 30 kg að þyngd.

14. gr.

Eftirlit um borð.

Fiskiskipi sem hefur leyfi til línuveiða á túnfiski í atvinnuskyni er óheimilt að stunda veiðar nema eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu sé um borð. Þó er Fiskistofu heimilt að veita undanþágu frá þessu ef eftirlitsmenn eru um borð a.m.k. 20% þess tíma sem skip stundar túnfiskveiðar. Skipstjóra er óheimilt að halda skipinu til túnfiskveiða án eftirlitsmanns um borð, án skriflegrar heimildar Fiskistofu.

Fyrir hverja veiðiferð, eftir að upphaflega hefur verið tilkynnt um upphaf veiða á árinu, sbr. 3. mgr. 9. gr., skal útgerð skips tilkynna Fiskistofu með a.m.k. 7 daga fyrirvara að fyrir­hugað sé að halda til veiða.

15. gr.

Merkingar.

Merkja skal hvern einstakan túnfisk sem veiddur er af íslenskum skipum samkvæmt nánari fyrirmælum Fiskistofu og í samræmi við reglur ICCAT þar að lútandi.

Öllum túnfiski sem veiddur er af íslenskum skipum sem og öllum túnfiski sem fluttur er inn til Íslands eða seldur er á íslenskum markaði skal fylgja sérstakt rekjanleikavottorð (e. bluefin tuna catch document, BCD) sem Fiskistofa gefur út.

Öllum túnfiski sem endurútfluttur er frá Íslandi skal fylgja sérstakt endurútflutningsvottorð (e. bluefin tuna re-export certificate, BFTRC) sem Fiskistofa gefur út.

16. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Brot gegn þessari reglugerð geta varðað afturköllun leyfa til veiða á túnfiski.

17. gr.

Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fisk­veiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fisk­veiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Reglugerð þessi er sett til samræmis við skuldbindingar Íslands vegna aðildar að ICCAT og ber að túlka með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem fylgja aðildinni.

Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski árið 2012 nr. 400, 30. apríl 2012.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 14. mars 2013.

F. h. r.

Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica