Viðskiptaráðuneyti

37/2009

Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fruminnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Með fruminnheimtu er átt við innheimtuviðvörun skv. 7. gr. inn­heimtu­laga nr. 95/2008.

Reglugerðin gildir einnig um milliinnheimtu en með henni er átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið innheimtuviðvörun skv. 7. gr. laganna og áður en löginnheimta hefst.

Reglugerðin tekur ekki til löginnheimtu en með henni er átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga. Reglugerðin tekur heldur ekki til innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum.

2. gr.

Innheimta krafna fyrir aðra.

Þegar innheimta er stunduð fyrir aðra tekur reglugerðin til þeirra innheimtuaðila sem þurfa sérstakt leyfi til að stunda innheimtu, sbr. 3. - 5. gr. innheimtulaga, svo og þeirra sem stunda mega innheimtu án sérstaks innheimtuleyfis, þ.e. lögmanna, opinberra aðila, viðskiptabanka og sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.

Með innheimtu fyrir aðra er átt við innheimtu fyrir annan sjálfstæðan lögaðila jafnvel þótt innheimt sé fyrir lögaðila innan sömu fyrirtækjasamsteypu.

3. gr.

Góðir innheimtuhættir.

Innheimta krafna skal vera í samræmi við góða innheimtuhætti, sbr. 6. gr. inn­heimtu­laga. Samkvæmt þeirri grein telst það m.a. brjóta í bága við góða inn­heimtu­hætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum.

4. gr.

Ákvörðun hámarksfjárhæðar innheimtukostnaðar.

Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. innheimtuþóknun, sem viðskiptaráðherra ákveður í reglugerð þessari, tekur mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist, sbr. 12. gr. innheimtulaga. Heimilt er að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf, sbr. sömu grein laganna.

5. gr.

Fruminnheimta o.fl.

Innheimtuviðvörun skal send skv. 1. - 2. mgr. 7. gr. innheimtulaga.

Heimilt er þó með samningi milli kröfuhafa og skuldara í atvinnurekstri að víkja frá ákvæðum 7. gr. laganna um sendingu innheimtuviðvörunar, sbr. 2. gr. laganna.

Að undanskildum lögmönnum, opinberum aðilum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, öðrum lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, sem stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga, geta þeir sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi sameinað greiðsluseðil og innheimtuviðvörun skv. 1. - 2. mgr. 7. gr. laganna og sent fyrir gjalddaga. Í þeim tilvikum verður eigi krafist innheimtuþóknunar eða kostnaðar vegna viðvörunarinnar, sbr. 3. mgr. 7. gr. og 11. gr. laganna, enda sé krafan greidd í síðasta lagi tíu dögum eftir gjalddaga.

6. gr.

Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl.

Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar vegna innheimtu gjaldfallinna peningakrafna er ákveðin sem hér segir ef sá kostnaður er innheimtur hjá skuldara:

 

Innheimtuviðvörun

   
 

Innheimtuviðvörun (ein skyldubundin viðvörun skv. 7. gr. inn­heimtu­laga, send frá kröfuhafa eða hvers konar innheimtuaðila, m.a. lögmanni, eftir gjalddaga kröfu (eftir eindaga sé hann til­greindur), sbr. þó 3. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar um sam­einingu greiðsluseðils og viðvörunar)

kr.

900

       
 

Milliinnheimtubréf

 

2.
2 a
2 b
2 c
2 d

Milliinnheimtubréf kröfuaðila eða innheimtuaðila, m.a. lögmanna:
Höfuðstóll kröfu til og með 2.999 kr.
Höfuðstóll kröfu 3.000 til og með 9.999 kr.
Höfuðstóll kröfu 10.000 til og með 79.999 kr.
Höfuðstóll kröfu 80.000 kr. og yfir


kr.
kr.
kr.
kr.


1.250
2.000
3.500
5.500

3.

Fyrsta ítrekun milliinnheimtubréfs (sama gjald og í 2 a-d)

   

4.

Önnur ítrekun milliinnheimtubréfs (sama gjald og í 2 a-d)

   

5.

Eitt símtal í milliinnheimtu

kr.

500

       
 

Samkomulag

   

6.

Gerð skriflegs samkomulags um greiðslu kröfu

kr.

2.500

Framangreindar fjárhæðir eru án virðisaukaskatts. Skuldari skal einungis greiða fyrir eina skyldubundna innheimtuviðvörun, valfrjálst milliinnheimtubréf og tvær valfrjálsar ítrekanir á þeim og eitt símtal í milliinnheimtu þar sem samband næst. Óheimilt er að leggja á prósentugjöld miðað við skuld, vanskilagjöld eða önnur samsvarandi gjöld.

Um dráttarvexti er vísað til c-liðar 2. mgr. 7. gr. innheimtulaga en þar segir að sundurliða skuli höfuðstól og viðbótarkröfur, svo sem dráttarvexti og innheimtuþóknun.

Ef brotið hefur verið gegn 7. gr. innheimtulaga þannig að innheimtuviðvörun þjóni ekki tilgangi sínum verður skuldari aðeins krafinn um framangreindan kostnað vegna við­vörunar, sbr. 3. málsl. 11. gr. laganna.

Minnst tíu dagar skulu líða milli viðvörunar og bréfs eða milli bréfa. Í viðvörun og bréfum skal gerð grein fyrir því ef innheimta mun í kjölfar tilkynningarinnar færast á næsta innheimtustig með auknum kostnaði.

7. gr.

Eftirlit.

Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins, svo og úrskurðarnefnd lögmanna, vísast til 15. - 16. gr. innheimtulaga. Erindum vegna innheimtu fyrir eigin starfsemi skal beina til Neytenda­stofu.

8. gr.

Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr., sbr. 21. gr., innheimtulaga nr. 95/2008.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. febrúar 2009.

10. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Verði teljandi vandkvæði á því að aðlaga tölvukerfi í einstökum fyrirtækjum reglugerð þessari fyrir gildistöku hennar má viðhalda núverandi gjaldtöku til loka febrúar 2009.

Hafi innheimtuaðili gert bindandi samning við viðskiptavin um innheimtu krafna fyrir ákveðnar fjárhæðir má víkja frá ákvæðum reglugerðar enda sé samningurinn í gildi við útgáfu reglugerðarinnar og uppsagnarákvæða verður ekki neytt eða þau eru ekki virk. Þessi undanþága gildir þó ekki lengur en eitt ár frá gildistöku reglugerðarinnar.

Viðskiptaráðuneytinu, 21. janúar 2009.

Björgvin G. Sigurðsson.

Jónína S. Lárusdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica