Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

939/2003

Reglugerð um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til útreiknings, endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta skv. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 14. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Þá tekur reglugerðin einnig til útreiknings, endurreiknings og uppgjörs vistunarframlags skv. 26. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, eftir því sem við á.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem eigin tekjur og/eða tekjur maka hafa áhrif á fjárhæð bóta.

Bótagreiðsluár: Almanaksár.


3. gr.
Upplýsingar til Tryggingastofnunar ríkisins skv. 47. gr. almannatryggingalaga.

Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er á þennan hátt skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Telji umsækjandi, bótaþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári.

Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda eða bótaþega er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur og skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar. Ef um er að ræða skort á upplýsingum sem rekja má til maka umsækjanda eða bótaþega er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu þeirra bóta sem háðar eru tekjum makans.

Ef umsækjandi eða bótaþegi og maki gefa Tryggingastofnun ríkisins rangar upplýsingar getur stofnunin endurkrafið bætur, dregið ofgreiðslu frá öðrum bótum, fellt vexti niður af vangreiðslum eða innheimt dráttarvexti af ofgreiðslum í samræmi við 50. gr. almannatryggingalaga.


II. KAFLI
Útreikningur bóta.
4. gr.
Grundvöllur bótaútreiknings.

Um almenn skilyrði og útreikning bótagreiðslna fer samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim.

Tryggingastofnun ríkisins skal áætla væntanlegar tekjur umsækjanda eða bótaþega og maka hans á bótagreiðsluári. Tekjuáætlun skal byggjast á nýjustu upplýsingum um tekjur sem fengnar eru frá þeim aðilum sem greinir í 1. mgr. 3. gr. Til grundvallar útreikningi á tekjutengdum bótum hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins samkvæmt tekjuáætlun.


5. gr.
Breytingar innan bótagreiðsluársins.

Verði veruleg breyting á aðstæðum bótaþega eða maka hans innan bótagreiðsluárs og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna er heimilt að breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði eftir að aðstæður breytast. Með verulegum breytingum er t.d. átt við breytingar á tekjum, hjúskaparstöðu, heimilisaðstæðum og búsetu viðkomandi.

Nú liggur fyrir nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr. Skal þá jafna áætluðum heildargreiðslum ársins, að frádregnum þeim greiðslum sem þegar hafa verið inntar af hendi, á þá mánuði sem eftir eru af árinu.


6. gr.
Frádráttur innan bótagreiðsluárs.

Ef sýnt er að bótaþegi hefur fengið svo verulega ofgreiddar bætur að hann hefur að fullu nýtt allan mögulegan bótarétt innan bótagreiðsluárs er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., að hefja frádrátt af greiðslum áður en endurreikningur bótafjárhæða hefur farið fram.


III. KAFLI
Endurreikningur bóta.
7. gr.
Grundvöllur endurreiknings.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.

Við endurreikning skulu lagðar til grundvallar þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma innan bótagreiðsluársins sem lögum samkvæmt hafa áhrif á greiðslurétt. Í þessu sambandi skal m.a. litið til hjúskaparstöðu, heimilisaðstöðu og búsetu viðkomandi samkvæmt opinberum upplýsingum, s.s. þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Endurreikningur skal fara fram í fyrsta sinn við álagningu opinberra gjalda árið 2004. Við þennan endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.


8. gr.
Endurreikningur bóta sem greiddar voru hluta úr ári.

Við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári gildir eftirfarandi:

a) Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.
b) Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið skulu hafa áhrif á endurreikning bótafjárhæða í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta var fyrir hendi í.


IV. KAFLI
Uppgjör bóta.
9. gr.
Vangreiddar bætur.

Komi í ljós við endurreikning samkvæmt III. kafla að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar.

Greiða skal 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var enda stafi vangreiðslan ekki af skorti á upplýsingum frá bótaþega eða maka hans, sbr. 2. gr.

Hafi bæði myndast vangreiðsla og ofgreiðsla bóta vegna mismunandi tímabila innan bótagreiðsluárs skal draga fjárhæð ofgreiðslu frá vangreiðslunni áður en vextir skv. 2. mgr. eru reiknaðir.


10. gr.
Ofgreiddar bætur.

Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi eða maki hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.


11. gr.
Tilhögun frádráttar af bótum.

Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum bótaþega uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.
Þegar frádrætti er beitt skal Tryggingastofnunin tilkynna bótaþega um frádráttinn og hvenær hann hefst með a.m.k. 14 daga fyrirvara.


12. gr.
Undanþága frá endurkröfu.

Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Nemi ofgreiðsla tekjutengdra bóta lægri fjárhæð en 3.000 kr. og ekki reynist unnt að draga hana frá öðrum tekjutengdum greiðslum er heimilt að falla frá endurkröfu.


V. KAFLI
Sérreglur um vistunarframlag frá Tryggingastofnun ríkisins.
13. gr.
Greiðsla og útreikningur vistunarframlags.

Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar falla niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar lífeyrisþega á dvalarheimili sem ekki er á föstum fjárlögum. Greiðsla lífeyris og tengdra bóta skal hefjast að nýju fyrsta dag næsta mánaðar eftir að dvöl vistmanns lýkur.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða, sem ekki er á föstum fjárlögum, vistunarframlag allt að því sem á vantar dvalarkostnað í samræmi við lög um málefni aldraðra og ákvæði reglugerðar nr. 47/1990 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, með síðari breytingum. Vistunarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur dvalarkostnaði vistmanns á dvalarheimili aldraðra eins og hann er ákveðinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hverju sinni.

Vistunarframlag er heimilt að greiða frá því að lífeyrisgreiðslur falla niður eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.

Við andlát vistmanns eða þegar vistmaður flytur af dvalarheimili falla greiðslur vistunarframlags niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir lok dvalar. Nú flyst vistmaður af dvalarrými yfir á hjúkrunarrými og skal þá vistunarframlag sem þegar hefur verið greitt til dvalarheimilis fyrir sama tíma dragast frá daggjaldi sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt fyrir hjúkrunarrýmið samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum.

Nú fer vistmaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar og er þá heimilt að greiða áframhaldandi vistunarframlag út næsta mánuð eftir að innlögnin á sér stað.


14. gr.
Endurreikningur og uppgjör vistunarframlags.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur vistmanns á bótagreiðsluári liggja fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna kostnaðarþátttöku hans á árinu á grundvelli þeirra upplýsinga.

Í kjölfar endurreiknings á kostnaðarþátttöku vistmanns fer fram uppgjör vistunarframlags á milli Tryggingastofnunar og viðkomandi dvalarheimilis. Hafi vistunarframlag verið vangreitt greiðir Tryggingastofnun dvalarheimili það sem á vantar. Hafi vistunarframlag verið ofgreitt skal Tryggingastofnun draga það sem ofgreitt var frá greiðslum til dvalarheimilis. Of- og vangreiðslur skulu gerðar upp í næsta mánuði eftir að uppvíst verður um þær.

Um útreikning, endurreikning og uppgjör vistunarframlags gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar þessarar, m.a. um áætlun tekna vistmanna, breytingar á aðstæðum þeirra og endurreikning við álagningu opinberra gjalda og dvöl hluta úr mánuði.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ekki greiddir vextir á vangreitt vistunarframlag til stofnana.


15. gr.
Innheimta dvalarkostnaðar á dvalarheimilum fyrir aldraða.

Dvalarheimili fyrir aldraða skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Þess skal ætíð gætt að vistmaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé. Dvalarheimili skal gera Tryggingastofnun ríkisins grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar.


VI. KAFLI
Gildistaka.
16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. gr., sbr. 66. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2004.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 10. desember 2003.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica