Prentað þann 14. apríl 2025
913/2004
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 260/2003, um upplýsingaskyldu seljenda nýrra fólksbifreiða varðandi eldsneytisnotkun og losun koldíoxíðs.
1. gr.
5. gr. orðist svo:
Veggspjald/sjónvarpsskjár.
Fyrir hverja bifreiðategund sem er sýnd eða boðin til sölu á sölustað eða í umboði sölustaðar skal komið fyrir veggspjöldum eða sjónvarpsskjá með lista yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs allra nýrra fólksbifreiða.
Veggspjald eða sjónvarpsskjár skal a.m.k. vera 70 cm x 50 cm að stærð og skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði, sbr. 4. gr. og III. viðauka tilskipunar 1999/94/EB, svo sem honum var breytt með tilskipun 2003/73/EB:
1. | flokkun undirtegunda eftir eldsneytistegund. Undir hverri eldsneytistegund eru undirtegundir flokkaðar eftir aukinni losun koldíoxíðs og er sú undirtegund sem hefur lægstu eldsneytiseyðslu höfð efst á listanum; |
2. | fyrir hverja undirtegund skal tilgreina talnagildi eldsneytiseyðslu og losunar koldíoxíðs, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eldsneytiseyðsla skal annað hvort gefin upp í lítrum á hverja 100 km (l/100 km), kílómetrum á hvern lítra (km/l) eða viðeigandi samsetningu af þessu, gefin upp með einum aukastaf. Losun koldíoxíðs skal tiltekin í grömmum á hvern kílómetra (g/km), námunduð við næstu heilu tölu; |
3. | innihalda eftirfarandi texta: ,,Yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs með upplýsingum um allar nýjar tegundir fólksbifreiða fæst án endurgjalds á öllum sölustöðum." og ,,Auk eldsneytisnýtni bifreiðar hafa aksturslag og aðrir þættir almenns eðlis áhrif á eldsneytiseyðslu bifreiðar og losun koldíoxíðs frá henni. Koldíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem stuðlar einna helst að hnattrænni hlýnun." |
Upplýsingar á veggspjaldi eða sjónvarpsskjá skulu uppfærðar a.m.k. á sex mánaða fresti. Milli uppfærslna skal nýjum bifreiðum bætt neðst á listann.
Veggspjaldi eða sjónvarpsskjá skal komið fyrir á áberandi stað og skal vera auðvelt aflestrar. Aðrar merkingar, tákn eða áletranir í tengslum við eldsneytiseyðslu eða losun koldíoxíðs sem samræmast ekki ákvæðum greinarinnar og hætta er á að villi um fyrir hugsanlegum kaupendum nýrra fólksbifreiða eru bannaðar.
Heimilt er að nota rafrænan skjá með flettitækni í stað veggspjalds eða sjónvarpsskjás, enda uppfylli hann eftirfarandi skilyrði:
1. | skjárinn sé a.m.k. 25 cm x 32 cm (17 tommur) og jafn áberandi og veggspjald eða sjónvarpsskjár; |
2. | birti þær upplýsingar sem kveðið er á um í 1. og 2. tölul. 2. mgr. og birti stöðugt þá texta sem kveðið er á um í 3. tölul. 2. mgr.; |
3. | upplýsingar um eldsneytisnotkun og losun koldíoxíðs skulu a.m.k. uppfærðar á þriggja mánaða fresti. |
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. og með hliðsjón af tilskipun 2003/73/EB. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Iðnaðarráðuneytinu, 15. nóvember 2004.
Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.