Prentað þann 14. apríl 2025
708/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 48/2012 um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.
1. gr.
Við 9. gr. reglugerðarinnar bætist stafliður e sem orðast svo:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/696 frá 25. maí 2020 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1008/2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu með tilliti til heimsfaraldursins af völdum COVID-19, eins og hún er tekin upp í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2020 frá 18. júní 2020.
2. gr.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/696, sem nefnd er í 1. gr., er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 3. gr., 57. gr. b., 80. gr., 85. gr. a., 7. mgr. 125. gr. og 146. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 15. júlí 2020.
F. h. r.
Hermann Sæmundsson.
Ólafur Kr. Hjörleifsson.
REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) 2020/696 frá 25. maí 2020 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1008/2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu með tilliti til heimsfaraldursins af völdum COVID-19
EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin, að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefndina, að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ([1]), og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins hefur orðið verulegur samdráttur í flugumferð vegna þess að eftirspurn hefur minnkað til muna og aðildarríkin og þriðju lönd hafa samþykkt beinar ráðstafanir, s.s. lokun landamæra og bann við flugumferð, til að halda faraldrinum í skefjum.
2) Tölur sem hafa verið birtar hjá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, sýna u.þ.b. 90% samdrátt í flugumferð innan Evrópusvæðisins fyrir fyrri hluta marsmánaðar 2020 samanborið við mars 2019. Flugrekendur boða mikinn samdrátt í bókunum fram í tímann sökum COVID-19 heimsfaraldursins og hafa aflýst flugferðum á áætlunartímabilinu fyrir veturinn 2019-2020 og sumarið 2020.
Skyndilegur samdráttur í eftirspurn og fordæmalaus fjöldi aflýstra flugferða hefur leitt til alvarlegs lausafjárvanda fyrir flugrekendur. Þessi lausafjárvandi tengist COVID-19 heimsfaraldrinum með beinum hætti.
3) Flugrekendur í Sambandinu, sem stóðu vel fjárhagslega fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn, sjá nú fram á lausafjárvanda sem gæti leitt til þess að flugrekstrarleyfi þeirra verði tímabundið fellt niður eða afturkallað eða að því verði skipt út fyrir tímabundið leyfi, án þess að á því sé kerfislæg efnahagsleg þörf. Útgáfa tímabundins leyfis, skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 ([2]), gæti sent markaðnum neikvæð merki um getu flugrekanda til að halda velli sem myndi á sama hátt gera tímabundinn fjárhagsvanda enn verri. Á grundvelli matsins, sem fer fram á tímabilinu frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020, er því viðeigandi, að því tilskildu að öryggi sé ekki teflt í tvísýnu og að það séu raunhæfar líkur á því að fjárhagsleg endurreisn takist innan 12 mánaða, að flugrekstrarleyfi slíkra flugrekenda verði hvorki fellt tímabundið niður né afturkallað. Við lok þessa 12 mánaða tímabils ætti flugrekandi í Sambandinu að falla undir málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1008/2008. Sú skuldbinding um upplýsingagjöf til framkvæmdastjórnarinnar, sem kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1008/2008, ætti einnig að gilda um ákvarðanir um að fella hvorki tímabundið niður né afturkalla flugrekstrarleyfið.
4) Til viðbótar við neyðarráðstafanir sem unnt væri að beita ef um er að ræða bráðan, tímabundinn vanda sem stafar af ófyrirséðum og óhjákvæmilegum aðstæðum, skv. 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 1008/2008, ættu aðildarríkin að geta synjað, takmarkað eða sett skilyrði um nýtingu flugréttinda til að bregðast við þeim vandamálum sem eru til komin vegna COVID-19 heimsfaraldursins, sem gæti varað mun lengur. Slíkar neyðarráðstafanir, sem gerðar eru í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn, ættu að virða meginreglurnar um meðalhóf og gagnsæi og byggjast á viðmiðunum sem eru hlutlægar og án mismununar sem gilda í samræmi við 21. gr. reglugerðar (EB) nr. 1008/2008.
5) Á flugvöllum þar sem fjöldi veitenda flugafgreiðslu er takmarkaður, skv. 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. tilskipunar ráðsins 96/67/EB ([3]), er heimilt að velja veitendur flugafgreiðsluþjónustu til að hámarki sjö ára. Veitendur flugafgreiðsluþjónustu, sem eru að ljúka sínu tímabili, gætu þar af leiðandi átt í erfiðleikum með að öðlast aðgang að fjármögnun. Því ætti að framlengja þetta hámarkstímabil.
6) Á flugvöllum, þar sem fjöldi veitenda flugafgreiðsluþjónustu er takmarkaður, gæti einn eða fleiri veitendur flugafgreiðsluþjónustu hætt að veita þjónustu sína á tilteknum flugvelli vegna COVID-19 heimsfaraldursins áður en hægt er að velja nýjan veitanda á grundvelli aðferðarinnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 96/67/EB. Við slíkar aðstæður er viðeigandi að framkvæmdastjórn flugvallarins geti valið beint veitanda flugafgreiðsluþjónustu sem á að veita þessa þjónustu í að hámarki sex mánuði. Rétt er að minna á að ef framkvæmdastjórn flugvallar þarf að útvega flugafgreiðsluþjónustu vegna COVID-19 heimsfaraldursins og ef hún er samningsstofnun í skilningi 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB ([4]) þá gildir sú tilskipun.
7) Framkvæma ætti fullnægjandi fjárhagslega endurskipulagningu með áætlun sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir uppsagnir og tryggir að fjárhagsleg endurskipulagning muni ekki skerða réttindi launafólks. Rýmkun heimilda fyrir veitendur flugafgreiðsluþjónustu ætti að hafa það að markmiði að varðveita störf og réttindi launafólks.
8) Erfitt er að spá fyrir um frekari þróun COVID-19 heimsfaraldursins og áhrif hans á fluggeirann. Framkvæmdastjórnin ætti að greina að staðaldri áhrifin af völdum COVID-19 heimsfaraldursins á fluggeirann og Sambandið ætti að vera í aðstöðu til að framlengja, án ástæðulausrar tafar, gildistíma ráðstafananna, sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þessari reglugerð, ef þessar erfiðu aðstæður verða viðvarandi.
9) Í því skyni að framlengja, ef nauðsyn krefur og það telst réttlætanlegt, tímabilið þegar lögbærum leyfisyfirvöldum er heimilt að ákveða að flugrekstrarleyfi verði hvorki felld tímabundið niður né afturkölluð, tímabilið þegar aðildarríkjunum er heimilt að synja, takmarka eða setja skilyrði um nýtingu flugréttinda, tímabilið þegar heimilt er að framlengja samninga við veitendur flugafgreiðsluþjónustu og tímabilið þegar framkvæmdastjórn flugvallar er heimilt að velja veitanda flugafgreiðsluþjónustu beint, ætti að fela framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins að því er varðar breytingu á reglugerð (EB) nr. 1008/2008. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga, og að þetta samráð fari fram í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningnum milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016 ([5]). Til að tryggja jafna þátttöku við undirbúning framseldra gerða fá Evrópuþingið og ráðið í hendur öll skjöl á sama tíma og sérfræðingar aðildarríkjanna og hafa sérfræðingar þeirra kerfisbundinn aðgang að fundum sérfræðingahópa framkvæmdastjórnarinnar sem hafa umsjón með undirbúningi framseldra gerða.
10) Í ljósi hinna brýnu, sérstöku aðstæðna, sem hafa skapast af völdum COVID-19 heimsfaraldursins, sem réttlætir fyrirhugaðar ráðstafanir, einkum í því skyni að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir hraðar til að bregðast við þeim alvarlegu og áríðandi vandamálum sem geirinn stendur frammi fyrir, var talið viðeigandi að veita undanþágu frá átta vikna frestinum, sem um getur í 4. gr. bókunar 1, um hlutverk þjóðþinga í Evrópusambandinu sem fylgir sáttmálanum um Evrópusambandið, sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
11) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að breyta reglugerð (EB) nr. 1008/2008 í ljósi COVID-19 heimsfaraldursins, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna umfangs þess eða áhrifa, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná því markmiði.
12) Hin ófyrirsjáanlega og skyndilega útbreiðsla COVID-19 heimsfaraldursins og lagasetningarmeðferðin, sem krafist er til að samþykkja viðeigandi ráðstafanir, gerði það að verkum að ógerlegt var að samþykkja slíkar ráðstafanir í tæka tíð. Af þessum sökum ættu ákvæði þessarar reglugerðar einnig að taka til tímabils áður en reglugerðin öðlast gildi. Í ljósi þess hvers eðlis þessi ákvæði eru ætti slík nálgun ekki að leiða til brots á lögmætum væntingum viðkomandi aðila.
13) Því ætti að breyta reglugerð (EB) nr. 1008/2008 til samræmis við það.
14) Í ljósi hinna brýnu, sérstöku aðstæðna sem réttlæta þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið ætti þessi reglugerð að öðlast gildi sem fyrst eftir þann dag sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Reglugerð (EB) nr. 1008/2008 er breytt sem hér segir:
1) Í stað 1. mgr. 1. gr. kemur eftirfarandi:
„1. Með þessari reglugerð eru settar reglur um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugrekendum í Bandalaginu, rétt flugrekenda í Bandalaginu til að reka flugþjónustu innan Bandalagsins og verðlagningu flugþjónustu innan Bandalagsins. Í reglugerðinni er einnig mælt fyrir um tímabundnar reglur um veitingu flugafgreiðsluþjónustu á flugvöllum í Sambandinu.“ 2) Eftirfarandi málsgreinar bætast við í 9. gr.:
„1a. Lögbæra leyfisyfirvaldinu er heimilt, á grundvelli matsins sem um getur í 1. mgr. og fer fram frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020, að ákveða, áður en það tímabil er liðið, að fella hvorki tímabundið niður né afturkalla flugrekstrarleyfi flugrekanda í Sambandinu, að því tilskildu að öryggi sé ekki teflt í tvísýnu og að það séu raunhæfar líkur á því að fjárhagsleg endurreisn takist með fullnægjandi hætti innan 12 mánaða. Yfirvaldið skal endurskoða frammistöðu þessa flugrekanda í Sambandinu við lok þessa 12 mánaða tímabils og ákveða hvort fella eigi flugrekstrarleyfið tímabundið niður eða afturkalla það og gefa út tímabundið leyfi á grundvelli 1. mgr.
1b. Ef framkvæmdastjórnin telur, á grundvelli gagna frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, sem er netstjórnandi fyrir netstarfsemi flugumferðar innan samevrópska loftrýmisins, að samdrátturinn í flugumferð sé viðvarandi í samanburði við samsvarandi tímabil árið 2019 og að líklegt sé að svo verði áfram og telji hún einnig, á grundvelli bestu, fyrirliggjandi vísindagagna, t.d. gagna frá Sóttvarnastofnun Evrópu, að þetta ástand sé vegna áhrifa af völdum COVID-19 heimsfaraldursins skal hún samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 25. gr. a, til að breyta þessari reglugerð með því að framlengja tímabilið frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020, sem um getur í 1. mgr. a í þessari grein, til samræmis við það.
1c. Framkvæmdastjórnin skal vakta að staðaldri ástandið með því að nota viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1. mgr. b. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem framkvæmdastjórnin hefur aðgang að skal hún, eigi síðar en 15. nóvember 2020, leggja yfirlitsskýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef farið er að viðmiðunum, sem um getur í 1. mgr. b., skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, samþykkja framseldu gerðina sem kveðið er á um í 1. mgr. b.
1d. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum COVID-19 heimsfaraldursins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 25. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.“
3) Eftirfarandi grein er bætt við:
„21. gr. a
Neyðarráðstafanir í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn
1. Að því er varðar tímabilið frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020 er aðildarríkjunum heimilt, þrátt fyrir 21. gr. og án þess að hafa samþykki framkvæmdastjórnarinnar, sem um getur í 1. mgr. 21. gr., að synja, takmarka eða setja skilyrði um nýtingu flugréttinda ef slík ráðstöfun er nauðsynleg til að bregðast við COVID-19 heimsfaraldrinum. Slík ráðstöfun skal virða meginreglurnar um meðalhóf og gagnsæi og byggjast á viðmiðunum sem eru hlutlægar og án mismununar.
2. Hlutaðeigandi aðildarríki skal tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um slíka ráðstöfun, eins og um getur í 1. mgr., og um tímalengd hennar ásamt því að láta þeim í té nægilega rökstuddar ástæður sem réttlæta þörfina á slíkri ráðstöfun. Ef aðildarríkið breytir, fellir tímabundið niður eða afturkallar slíka ráðstöfun eftir að þessi reglugerð hefur öðlast gildi skal aðildarríkið tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um það.
3. Framkvæmdastjórninni er heimilt, samkvæmt beiðni einhvers annars aðildarríkis eða annarra aðildarríkja sem eiga í hlut eða að eigin frumkvæði, að fella tímabundið niður ráðstöfunina, sem um getur í 2. mgr., ef hún uppfyllir ekki kröfurnar, sem um getur í 1. mgr., eða stríðir á einhvern annan hátt gegn lögum Sambandsins.
4. Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli bestu vísindaþekkingar, rannsóknarniðurstaðna og vísindagagna, t.d. gagna frá Sóttvarnastofnun Evrópu, sem staðfesta að COVID-19 heimsfaraldurinn sé viðvarandi, að líklega sé nauðsynlegt að synja, takmarka eða setja skilyrði um nýtingu flugréttinda í aðildarríkjunum um lengra tímabil en það sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar skal framkvæmdastjórnin samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 25. gr. a, til að breyta þessari reglugerð með því að framlengja þetta tímabil til samræmis við það.
5. Framkvæmdastjórnin skal vakta að staðaldri ástandið með því að nota viðmiðanirnar sem um getur í 4. mgr. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem framkvæmdastjórnin hefur aðgang að skal hún, eigi síðar en 15. nóvember 2020, leggja yfirlitsskýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, samþykkja framseldu gerðina sem um getur í 4. mgr.
6. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum COVID-19 heimsfaraldursins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 25. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.“
4) Eftirfarandi kafla er bætt við:
„KAFLI IVa
TÍMABUNDNAR REGLUR UM FLUGAFGREIÐSLUÞJÓNUSTU
24. gr. a
1. Þrátt fyrir d-lið 1. mgr. 11. gr. tilskipunar ráðsins 96/67/EB ([6]) er heimilt að framlengja samninga eða leyfi sem veitt eru veitendum flugafgreiðsluþjónustu sem eru valdir á grundvelli aðferðarinnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 11. gr. þeirrar tilskipunar og sem falla úr gildi á tímabilinu frá 28. maí 2020 til 31. desember 2021, til 31. desember 2022.
2. Ef veitandi flugafgreiðsluþjónustu hættir starfsemi sinni fyrir lok tímabilsins, sem hann var valinn til, er framkvæmdastjórn flugvallarins eða lögbæru yfirvaldi aðildarríkisins heimilt, þrátt fyrir e-lið 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 96/67/EB, á tímabilinu frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020, að velja beint veitanda flugafgreiðsluþjónustu, sem skal veita flugafgreiðsluþjónustu í að hámarki sex mánuði eða til 31. desember 2020, hvort heldur er lengra.
3. Ef framkvæmdastjórnin telur, á grundvelli gagna frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, að samdrátturinn í flugumferð sé viðvarandi í samanburði við samsvarandi tímabil árið 2019 og að líklegt sé að svo verði áfram, og telji hún að þetta ástand sé vegna áhrifa af völdum COVID-19 heimsfaraldursins og að það leiði til röskunar á veitingu flugafgreiðsluþjónustu eða geri veitendum flugafgreiðsluþjónustu á flugvöllum í Sambandinu erfitt fyrir að fá aðgang að fjármögnun, skal framkvæmdastjórnin samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 25. gr. a, til að breyta þessari reglugerð með því að framlengja tímabilin, sem um getur í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, til samræmis við það.
4. Framkvæmdastjórnin skal vakta að staðaldri ástandið með því að nota viðmiðanirnar sem settar eru fram í 3. mgr. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem framkvæmdastjórnin hefur aðgang að skal hún, eigi síðar en 15. nóvember 2020, leggja yfirlitsskýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin, eins fljótt og auðið er, samþykkja framseldu gerðina sem kveðið er á um í 3. mgr.
5. Ef brýna nauðsyn ber til, að því er varðar langtímaáhrif af völdum COVID-19 heimsfaraldursins á fluggeirann í Sambandinu, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 25. gr. b, gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.
5) Eftirfarandi greinum er bætt við:
„25. gr. a
Beiting framsals
1. Framkvæmdastjórninni er falið vald til að samþykkja framseldar gerðir að uppfylltum þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2. Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldu gerðirnar, sem um getur í 9. gr. (1. mgr. b), 21. gr. a (4. mgr.) og 24. gr. a (3. mgr.), í eitt ár frá 28. maí 2020.
3. Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla valdaframsalið sem um getur í 9. gr. (1. mgr. b), 21. gr. a (4. mgr.) og 24. gr. a (3. mgr.). Með ákvörðun um afturköllun skal binda enda á valdaframsalið sem um getur í þeirri ákvörðun. Ákvörðunin öðlast gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða síðar, eftir því sem tilgreint er í henni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi neinna framseldra gerða sem þegar eru í gildi.
4. Áður en framseld gerð er samþykkt skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við sérfræðinga sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í samstarfssamningnum milli stofnana um betri lagasetningu frá 13. apríl 2016.
5. Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
6. Framseld gerð, sem er samþykkt skv. 9. gr. (1. mgr. b), 21. gr. a (4. mgr.) og 24. gr. a (3. mgr.), skal því aðeins öðlast gildi að Evrópuþingið eða ráðið hafi ekki haft uppi nein andmæli innan tveggja mánaða frá tilkynningu um gerðina til Evópuþingsins og ráðsins eða ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina, áður en fresturinn er liðinn, um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum. Þessi frestur skal framlengdur um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
25. gr. b
Flýtimeðferð
1. Framseldar gerðir, sem samþykktar eru samkvæmt þessari grein, skulu öðlast gildi án tafar og gilda svo lengi sem engin andmæli eru lögð fram í samræmi við 2. mgr. Í tilkynningu til Evrópuþingsins og ráðsins um framselda gerð skal taka fram ástæður þess að flýtimeðferðinni er beitt.
2. Evrópuþingið eða ráðið getur andmælt framseldri gerð í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 25. gr. a. Í slíku tilviki skal framkvæmdastjórnin fella gerðina tafarlaust úr gildi í kjölfar tilkynningar um ákvörðun Evrópuþingsins eða ráðsins um andmæli.“
2. gr.
Gildistaka
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 25. maí 2020.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
D.M. SASSOLI A. METELKO-ZGOMBIĆ
forseti. forseti.
[1] Afstaða Evrópuþingsins frá 15. maí 2020 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 25. maí 2020.
[2] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 frá 24. september 2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu (Stjtíð. ESB L 293, 31.10.2008, bls. 3).
[3] Tilskipun ráðsins 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum Bandalagsins (Stjtíð. EB L 272, 25.10.1996, bls. 36).
[4] Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB frá 26. febrúar 2014 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og um niðurfellingu tilskipunar 2004/17/EB (Stjtíð. ESB L 94, 28.3.2014, bls. 243).
[5] Stjtíð. ESB L 123, 12.5.2016, bls. 1.
[6] Tilskipun ráðsins 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum Bandalagsins (Stjtíð. EB L 272, 25.10.1996, bls. 36).“
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.