1. gr.
Við 1. mgr. 8. gr., sbr. reglugerð nr. 476/1992, bætist: og á námubifreið skal litur á brúnum, stöfum og tígullaga fletinum vera grænn.
2. gr.
Á eftir 14. gr. komi tvær nýjar greinar, 14. gr. a og b, svohljóðandi:
(a) 14. gr. a.
Að ósk eiganda bifreiðar eða bifhjóls er heimilt að láta í té sérstök skráningarmerki (einkamerki) er komi í stað skráningarmerkis samkv. 7. - 9. gr., þó ekki á bifreið sem lýtur reglum um innskatt vegna virðisaukaskatts eða námubifreið.
Áletrun á einkamerki bifreiðar skal vera 2 - 6 bókstafir og/eða tölustafir að vali eiganda hennar, en 2 - 5 á einkamerki bifhjóls. Einkamerki má þó ekki bera áletrun sem er tveir bókstafir og þrír tölustafir, né heldur sömu áletrun og er á skráningarmerki af eldri gerð sem er í notkun. Áletrun á einkamerki má ekki brjóta í bága við íslenskt málfar, né vera fallin til að valda hneykslun eða geta haft í för með sér óþægindi fyrir aðra. Bifreiðaskoðun setur nánari reglur um áletrun á einkamerkjum.
Umsókn um einkamerki skal leggja fram á þar til gerðu eyðublaði. Við úthlutun einkamerkja skal farið eftir röð, þannig að sá sem fyrst sækir um tiltekna áletrun hlýtur réttinn. Ákvörðun Bifreiðaskoðunar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Einkamerki skulu vera eins og skráningarmerki af gerð A, B eða D samkv. 7. gr., en án upplyfts flatar fyrir skjaldarmerki. Auk verksmiðjunúmers ökutækisins skal fastanúmerið greypt efst á skráningarmerkið.
Réttur til að nota einkamerki er háður því að kaupandi réttarins sé skráður eigandi að hlutaðeigandi bifreið eða bifhjóli og að eldri skráningarmerki skráðs ökutækis verði afhent Bifreiðaskoðun um leið og einkamerkin eru látin í té. Réttur til að hafa einkamerki á ökutæki gildir í átta ár. Réttinn má ekki framselja. Réttinn má framlengja enda sé sótt um það áður en gildistíminn rennur út, en þó ekki fyrr en þremur mánuðum áður en hann rennur út. Heimilt er að ósk eiganda að flytja einkamerki á annað ökutæki í hans eigu.
(b) 14. gr. b.
Þegar eigendaskipti verða að ökutæki með einkamerki, eða bifreið með einkamerki er tekin í notkun sem virðisaukaskattsbifreið, skal það þegar tilkynnt Bifreiðaskoðun. Skal rétthafi merkjanna þá afhenda þau Bifreiðaskoðun og fellur réttur hans til þeirra niður þegar ár er liðið frá innlagnardegi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. eru eigendaskipti ökutækja með einkamerki heimil án þess að skipt sé um skráningarmerki:
a. við eigendaskipti milli hjóna,
b. þegar maki við andlát hins makans eða við lögskilnað eða skilnað að borði og sæng yfirtekur ökutæki sem skráð er á nafn hins makans,
c. þegar einstaklingur yfirtekur ökutæki sem er skráð á nafn sambúðarmanns eða konu, enda hafi sambúð þeirra verið skráð síðustu fimm árin,
d. þegar einstaklingur við andlát yfirtekur ökutæki sem er skráð á nafn hins látna, enda hafi hlutaðeigandi haldið saman heimili síðustu tvö árin fyrir andlátið, eða
e. þegar einstaklingur við slit á skráðri sambúð yfirtekur ökutæki sem skráð er á nafn sambúðarmanns eða konu, enda hafi sambúðin varað síðustu fimm árin áður en sambúðarslit urðu.
3. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 64. gr. og 64. gr. a. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 37 10. maí 1996, öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. júní 1996.
Þorsteinn Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.