Mennta- og menningarmálaráðuneyti

584/2010

Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. - Brottfallin

II. KAFLI

Skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu.

3. gr.

Hlutverk sveitarfélaga og framkvæmd sérfræðiþjónustu.

Fræðsluyfirvöld í hverju sveitarfélagi skulu fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu.

Sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi sérfræðiþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla. Sveitarfélög bera ábyrgð á að þjónustan sé veitt og kostnaði við hana. Sveitarfélög skulu mæla fyrir um það í skólastefnu sinni hvernig markmiðum þessarar reglugerðar verði náð. Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á:

a. forvarnarstarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda,

b. snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar,

c. að sérfræðiþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna,

d. að styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti í leik- og grunnskólum og starfsfólk þeirra,

e. stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu,

f. viðeigandi túlkaþjónustu til að tryggja að upplýsingar/ráðgjöf nýtist foreldrum og nemendum,

g. góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu og heildarsýn í skólastarfi að leiðarljósi.

Við gerð símenntunaráætlana skv. 7. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla skal lögð áhersla á að efla þekkingu starfsfólks leik- og grunnskóla á því að leysa viðfangsefni samkvæmt reglugerð þessari innan skólanna.

4. gr.

Skipulag sérfræðiþjónustu.

Sveitarstjórn í samráði við skólastjórnendur skipuleggur sérfræðiþjónustu. Um ráðningu sérhæfðs starfsfólks sem henni sinnir fer eftir því sem við á samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykktum sveitarfélags.

Sveitarfélög geta rekið sérfræðiþjónustu á eigin vegum sem sjálfstæða einingu, innan eða utan skóla, sameinast um slíkan rekstur með öðrum sveitarfélögum eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög, stofnanir eða aðila sem veita þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni. Þegar um slík þjónustukaup er að ræða skal sveitarstjórn fylgjast með því að sérfræðiþjónusta uppfylli fyrirmæli laga og reglugerða.

Gera skal sérstaklega ráð fyrir rými í leik- og grunnskólum til að veita sérfræðiþjónustu þegar á þarf að halda vegna nemenda með sérþarfir, stuðnings og þjálfunar, óháð því hver veitir þjónustuna.

Heimilt er að reka sameiginlega sérfræðiþjónustu fyrir leikskóla og grunnskóla.

Nánar skal kveðið á um skipulag sérfræðiþjónustu í skólanámskrá leik- og grunnskóla.

5. gr.

Samhæfing sérfræðiþjónustu.

Sveitarfélög skulu hafa frumkvæði að samstarfi sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga við aðila sem annast sérhæfð greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins vegna einstakra nemenda. Einnig skulu sveitarfélög tryggja gagnkvæma upplýsingamiðlun milli aðila á mismunandi þjónustustigum eftir því sem við á í samráði við foreldra og geta sett viðmið um hvernig slík þjónusta er nýtt.

Skólastjórar skulu hafa frumkvæði að samstarfi við sérfræðiþjónustu sveitarfélags, félagsþjónustu, barnaverndaryfirvöld og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins vegna málefna einstakra nemenda með sérþarfir og langvinn veikindi.

Til að stuðla að sem mestri samfellu í þjónustu við nemendur með sérþarfir skal samkvæmt gildandi reglugerð um nemendur með sérþarfir veita viðkomandi framhaldsskóla upplýsingar um stöðu einstakra nemenda eftir því sem við verður komið. Samráð skal haft við nemendur í samræmi við stöðu þeirra, að fengnu samþykki foreldra. Fylgja skal málinu eftir til framhaldsskóla.

6. gr.

Aðgangur foreldra að upplýsingum í vörslu sérfræðiþjónustu.

Foreldrar geta kynnt sér gögn eða fengið afrit af gögnum í vörslu sérfræðiþjónustu með persónulegum upplýsingum um eigin börn. Skólar og sérfræðiþjónusta sveitarfélaga skulu fara með allar slíkar upplýsingar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd.

Um miðlun upplýsinga milli skólastiga og skóla innan sama skólastigs fer samkvæmt reglugerðum við 16. gr. laga um leikskóla og 18. gr. laga um grunnskóla.

Um rétt foreldra sem ekki fara með forsjá barns til upplýsinga samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga nr. 76/2003.

7. gr.

Samningar um aukið hlutverk sérfræðiþjónustu.

Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga getur á grundvelli samþykktar sveitarstjórnar tekið að sér aukið hlutverk umfram skilgreiningar í lögum um leik- og grunnskóla um tiltekin verkefni og verklag, t.d. hvað varðar ítarlega greiningu og meðferð á grundvelli þjónustusamninga við greiningarstofnanir og þjónustustofnanir á landsvísu.

Sveitarfélög geta gert samning við þjónustustofnanir um að þær annist sérfræðiþjónustu vegna tiltekinna nemendahópa þar sem sérfræðiþekking er ekki til staðar hjá sérfræðiþjónustu sveitarfélaga.

Sveitarfélög geta tekið að sér sérfræðiþjónustu í framhaldsskólum með þjónustu­samningum við framhaldsskóla eða mennta- og menningarmálaráðuneyti.

III. KAFLI

Starfshættir sérfræðiþjónustu.

8. gr.

Starfsfólk sérfræðiþjónustu.

Starfsfólk sem sinnir sérfræðiþjónustu sveitarfélaga skal hafa sérfræðimenntun á sviði kennslu-, uppeldis- eða félagsmála. Starfsfólk skólaheilsugæslu getur einnig talist til sérfræðiþjónustu sveitarfélags hvað varðar athugun, greiningu og ráðgjöf og einnig eftir atvikum fagfólk á vegum ung- og smábarnaverndar. Starfsfólk sérfræðiþjónustu vinnur störf sín samkvæmt því fyrirkomulagi sem sveitarstjórn ákveður í samræmi við VII. kafla laga nr. 90/2008 um leikskóla og IX. kafla laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

Óheimilt er að ráða starfsmann til að sinna sérfræðiþjónustu sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við afgreiðslu umsóknar um starf sérfræðings skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild sveitarstjórnar til þess að afla upplýsinga úr sakaskrá sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um leikskóla og 3. mgr. 11. gr. laga um grunnskóla.

Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt.

9. gr.

Stuðningur við starfsfólk.

Í stuðningi við starfsfólk skóla felst m.a. ráðgjöf vegna kennslu og umönnunar nemenda og ráðgjöf vegna náms nemenda með sérþarfir. Stuðningur við starfsfólk felst einnig í ráðgjöf vegna starfshátta skóla, nýbreytni- og þróunarstarfa og starfsumhverfis.

10. gr.

Stuðningur við forvarnarstarf.

Í forvarnarstarfi leik- og grunnskóla felst m.a. fræðsla, mat og verkefni fyrir nemendur, starfsfólk skóla og foreldra með það að markmiði að skólaganga nemenda gangi sem best og að skólabragurinn verði sem jákvæðastur. Nemendur sem kunna að eiga í líkamlegum, sálrænum eða félagslegum vanda fái viðeigandi stuðning og námsaðstoð við hæfi til að þeir geti tekið virkan þátt í skólastarfi.

Í leik- og grunnskólum skal starfsfólk skóla meta hvaða nemendur kunna að eiga í erfiðleikum með lestrarnám eða lestur, eða aðra námsörðugleika, með viðeigandi matstækjum, bregðast við því með kerfisbundnum hætti og sjá til þess að allir nemendur fái nauðsynlega aðstoð. Fylgst skal reglulega með framförum og brugðist við jafnóðum.

Sé þörf á nánari athugun og greiningu á grundvelli mats, skv. 2. mgr., skal skólastjóri eða fulltrúi hans óska eftir sérfræðiaðstoð. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða starfsfólk leik- og grunnskóla við greiningu á nemendum sem kunna að eiga í líkamlegum, sálrænum eða félagslegum vanda sem geta haft áhrif á námsframvindu. Einnig skal sérfræðiþjónusta aðstoða starfsfólk leik- og grunnskóla við greiningu á námsaðstæðum, veita ráðgjöf um hvernig brugðist skuli við og vísa á viðeigandi úrræði.

Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal fylgjast með að viðeigandi matstæki séu tiltæk, útvega slík matstæki eftir því sem þörf krefur og aðstoða við framkvæmd og eftirfylgni í samstarfi við fræðsluyfirvöld.

Allar athuganir á vegum sérfræðiþjónustu sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með formlegu samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir.

11. gr.

Beiðni um athugun, greiningu og ráðgjöf.

Foreldrar nemenda í leik- og grunnskóla geta óskað eftir athugun, greiningu og ráðgjöf fyrir börn sín. Auk þess geta skólastjórnendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar, eða eftir atvikum annað starfsfólk skólans eða skólaheilsugæslu, lagt fram ósk um slíka sérfræðiaðstoð í samráði við og með samþykki foreldra. Beina skal beiðnum til skólastjóra.

Allar greiningar á nemendum og námsaðstæðum þeirra skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og skulu þeir upplýstir um niðurstöðuna.

Sveitarstjórn skal á grundvelli umsagnar fræðsluyfirvalda sveitarfélaga setja verklagsreglur um meðferð beiðna samkvæmt þessari grein.

Verkferlar skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga vegna sérfræðiaðstoðar við nemendur skulu vera aðgengilegir.

12. gr.

Ráðgjöf, eftirfylgni og mat á árangri.

Að fenginni athugun eða greiningu gerir starfsfólk sérfræðiþjónustu sveitarfélags tillögu um viðeigandi úrræði með starfsfólki skóla, svo sem ráðgjöf og fræðslu til kennara og foreldra og viðeigandi stuðning við nemendur eða nemendahópa. Eftirfylgni og mat á árangri er í höndum sérfræðiþjónustu í samstarfi við viðkomandi skóla.

13. gr.

Stuðningur sérfræðiþjónustu við foreldra.

Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga skal eftir því sem aðstæður leyfa gefa foreldrum kost á almennri ráðgjöf og fræðslu, svo sem vegna skólagöngu barna þeirra, samstarfs heimila og skóla og hegðunar barna þeirra.

Jafnframt skal sérfræðiþjónusta sveitarfélaga veita foreldrafélögum, foreldraráðum leikskóla og skólaráðum grunnskóla ráðgjöf og stuðning vegna lögbundinnar starfsemi þeirra.

14. gr.

Sérstök aðstoð og þjálfun.

Telji skólastjóri og foreldrar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóla- eða grunnskólagöngu sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan skólans og/eða hvort leitað skuli til sérfræðiþjónustu sveitarfélags eða annarra sérfræðinga. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu hlutast skólastjóri til um að sú þjónusta sé veitt. Skólastjóri ábyrgist að gerð sé áætlun sem byggir á markmiðum aðalnámskrár í samræmi við metnar sérþarfir.

Sveitarfélög skulu stuðla að því að þjálfun sem nemendur þurfa reglulega fari sem mest fram innan leik- og grunnskóla hjá viðeigandi sérfræðingum þótt aðrir aðilar en sveitarfélög veiti þjónustuna. Sveitarstjórn gerir sérstakan samning um þjónustuna.

IV. KAFLI

Samræmingarhlutverk leikskóla.

15. gr.

Samræmingarhlutverk skólastjóra leikskóla.

Skólastjóri leikskóla skal samræma innan hvers leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna er lúta að sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla.

Jafnframt skal skólastjóri leikskóla stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra barna eftir því sem þurfa þykir.

Sveitarstjórn er heimilt að stofna ráð eða teymi í leikskólum vegna þessarar samræmingar og ákveða hlutverk, skipan, samsetningu og starfshætti þess.

V. KAFLI

Starfsemi nemendaverndarráða grunnskóla.

16. gr.

Samræmingarhlutverk skólastjóra grunnskóla.

Skólastjóri grunnskóla skal samræma innan hvers grunnskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

Jafnframt skal skólastjóri grunnskóla stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eða nemendahópa eftir því sem þurfa þykir.

17. gr.

Hlutverk nemendaverndarráðs.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.

18. gr.

Skipan nemendaverndarráðs.

Skólastjóri skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjóri eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs.

Í nemendaverndarráði grunnskóla eiga sæti skólastjóri og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir, umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til.

19. gr.

Vísun mála til nemendaverndarráðs.

Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.

Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.

Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.

Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.

20. gr.

Starfshættir nemendaverndarráðs.

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.

Fara skal með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli um þagnarskyldu og gildandi lög um persónuvernd. Þeir sem sitja í nemendaverndarráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem þeir fá vitneskju um og leynt eiga að fara. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.

Nemendaverndarráð setur sér starfs- og verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um tíðni funda ráðsins. Halda skal fund í nemendaverndarráði ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundir skulu færðir til bókar.

VI. KAFLI

Önnur ákvæði.

21. gr.

Kæruheimildir.

Ákvarðanir um rétt einstakra nemenda í leikskóla, sem teknar eru á grundvelli 22. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar, eru kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt fyrirmælum 30. gr. sömu laga.

Synjun skólastjóra á beiðni foreldra um greiningu á grunnskólastigi skv. 3. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er kæranleg til ráðherra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. sömu laga. Ráðuneytið getur í úrskurði mælt fyrir um að tilteknum nemanda skuli veitt greining.

Ákvarðanir sem teknar eru af hálfu sveitarfélags í samráði við foreldra, í framhaldi af niðurstöðu greiningar, eru ekki kæranlegar til ráðherra, þ.e. ákvarðanir um úrræði og aðra eftirfylgni greiningar.

22. gr.

Sérfræðiþjónusta í sjálfstætt reknum skólum.

Leik- og grunnskólar eiga rétt á sérfræðiþjónustu sveitarfélags óháð rekstrarformi skóla.

Um sérfræðiþjónustu í sjálfstætt reknum grunnskólum fer að öðru leyti samkvæmt samningi sem gerður er milli sveitarfélags og viðkomandi skóla sem hlotið hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytis skv. 43. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

23.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 21. gr. og 22. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir um sérfræðiþjónustu skóla nr. 386/1996, reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 388/1996 og reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 25. júní 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica