Fjármálaráðuneyti

580/1991

Reglugerð um bifreiðamál ríkisins. - Brottfallin

1. gr.

Fjármálaráðuneytið hefur yfirumsjón með allri bifreiðaeign ríkisins og bifreiðanotkun þess eftir því sem segir nánar í reglugerð þessari. Tekur hún til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins annarra en ríkisbanka.


2. gr.

Reglur um bifreiðanotun á vegum ríkisins eru ferns konar, eftir því hvort um er að ræða bifreiðar í eigu ríkisins, sbr. 3.-4. gr., leigðar bifreiðar starfsmanna ríkisins, sbr. 5.-8. gr., bílaleigubíla, sbr. 9. gr. eða bifreiða sem ráðherrar hafa til afnota sbr. 10.-11. gr.


3. gr.

Þegar hagkvæmt er kaupir ríkið bifreiðar til að sinna vissum verkefnum stofnana ríkisins og rekur þær. Skulu ríkisbifreiðar greinilega auðkenndar og eru einkaafnot starfmanna af þeim óheimil. Að loknum starfsdegi skulu ríkisbifreiðar skildar eftir í vörslu stofnunar. Þó er forstöðumanna stofnunar heimilt, að fengnu samþykki fjármálaráðuneytis, að leyfa starfsmanni að hafa slíka bifreið í sinni vörslu utan vinnutíma þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Akstursbók skal fylgja hverri ríkisbifreið og færir ökumaður í hana hverja einstaka ferð þar sem kemur fram erindi, vegalengd og staðir sem ekið er til. Akstursbók færist í tvíriti og skal forstöðumanni eða þeim sem hann tilnefnir sent afrit eigi sjaldnar en mánaðarlega til staðfestingar.


4. gr.

Kaup á ríkisbifreiðum eru óheimil án samþykkis fjármálaráðuneytis. Kaup og sala ríkisbifreiða skal fara fram á vegum Innkaupastofnunar ríkisins. Verði ágreiningur um val á tegundum ríkisbifreiða milli forstöðumanns ríkisstofnunar (kaupanda) og Innkaupstofnunar ríkisins, sker fjármálaráðherra úr. Innkaupastofnun ríkisins skal að öllu jöfnu kaupa bifreiðar að undangengnu útboði. Sala ríkisbifreiða skal fara fram með almennu útboði. Innkaupastofnunin annast afsöl og nauðsynlegar tilkynningar vegna slíkra viðskipta svo og afhendingu bifreiða og innheimtu söluandvirðis.


5. gr.

Heimilt er að leigja bifreiðar í eigu starfsmanna til notkunar í þágu ríkisins. Umsókn um slíka leigu skal senda fjármálaráðuneytinu, sem metur þörf á samningi við einstaka starfsmenn og að höfðu samráði við forstöðumenn viðkomandi ríkisstofnunar og ráðuneytis.


6. gr.

Að fengnu samþykki fjármálaráðuneytis, gerir hlutaðeigandi ríkisstofnun skriflegan samning við einstaka starfsmenn, sbr. 5. gr., á sérstöku samningsformi sem til þess er ætlað. Samningurinn er því aðeins gildur að hann sé samþykktur með áritun fjármálaráðuneytis, sem einnig er heimilt að fella aksturssamning úr gildi með uppsögn.


7. gr.

Fari ríkisstarfsmaður einstakar ferðir á eigin bíl að beiðni yfirmanns skal greiða fyrir þær með akstursgjaldi skv. 8. gr., enda fylgi akstursskýrsla reikningi starfsmanns, sbr. 8. gr. Að öðru leyti er ríkisstofnun óheimilt að greiða starfsmanni fyrir akstur nema skv. samningi, sbr. 6. gr. Forstöðumaður hlutaðeigandi ríkisstofnunar skal fylgjast með framkvæmd samnings og bera ábyrgð á að eftir honum sé farið. Sé gerður aksturssamningur sem bundinn er við ákveðna tölu kílómetra, við forstöðumenn ríkisstofnana eða aðra starfsmenn skal áætla þá vegalengd er starfsmaðurinn þarf að aka starfs síns vegna á hverju ári. Í samningi skal taka fram þær takmarkanir er leiga á einkabifreið kann að hafa á not leigubifreiða í þágu embættisins.


8. gr.

Leigugjald fyrir bifreiðaafnot skal greitt samkvæmt þar til gerðri akstursskýrslu og kílómetragjaldi sem ferðakostnaðarnefnd, samkvæmt kjarasamningum fjármálaráðuneytis BSRB og BHM, ákveður hverju sinni. Ökumaður bifreiðar skal sjá um að færa akstursskýrslu þegar að loknum akstri. Ökumaður undirritar akstursskýrsluna, en forstöðumaður stofnunar eða umboðsmaður hans staðfestir aksturinn og nauðsyn hans.


9. gr.

Innkaupastofnun ríkisins annast samninga fyrir hönd ríkisstofnana við bílaleigur um leigu á bílaleigubílum. Eftir því sem við verður komið skal það gert að undangengnu útboði. Á reikningi frá bílaleigum sem skilað er til greiðslu, skulu koma fram, auk dagsetningar og undirskriftar, upplýsingar um aksturserindi, vegalengdir og ákvörðunarstaði, annað hvort skráðar á reikninginn sjálfan eða sérstakt fylgiskjal með honum.


10. gr.

Hver ráðherra getur fengið bifreið í eigu og rekstri ríkisins til afnota í þágu embættis síns og takmarkaða einkanota, svo sem aksturs milli vinnustaðar og heimilis og annarra einstakra ferða. Ákvæði 3. gr. gilda ekki um þessar bifreiðar en þær skulu auðkenndar sérstaklega. Innkaupastofnun ríkisins sér um innkaup og endurnýjun á bifreiðum þessum samkvæmt nánari reglum sem fjármálaráðuneytið setur.


11. gr.

Ráðherra, er eigi kýs að fá ríkisbifreið til umráða sbr. 10. gr., á þess kost að nýta eigin bifreið til embættisstarfa, enda sé bifreiðin í góðu ásigkomulagi þegar notkun í þágu ríkisins hefst. Ríkissjóður ber allan kostnað af rekstri slíkrar bifreiðar og greiðir eiganda hennar fyrningarfé er sé ár hvert 20% af endurnýjunarverði bifreiðarinnar þó eigi hærra en af bifreiðum sem ráðherrar fá til afnota skv. 10. gr. Ríkissjóður greiðir eigi fyrningarfé af eldri bifreiðum en fimm ára. Í þessu sambandi telst aldur bifreiðar frá þeim degi sem hún er skráð ný, ella frá upphafi smíðaárs bifreiðar.


12. gr.

Bílanefnd, sem fjármálaráðherra skipar, er fjármálaráðuneytinu til aðstoðar um framkvæmd þessarar reglugerðar. Nefndin skal hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar hjá einstökum stofnunum og úrskurða um greiðslu fyrir bifreiðaafnot svo og önnur atriði þegar ástæða er til og tilefni gefst. Ágreiningi milli nefndarinnar og stofnunar má skjóta til fjármálaráðuneytis til úrskurðar.


13. gr.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við 5. gr. III 4. tl. auglýsingar nr. 96 31. desember 1969 um Stjórnarráð Íslands og öðlast þegar gildi. Kemur hún í stað reglugerðar nr. 190/1985, sbr. reglugerð nr. 435/1985, um sama efni. Ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar skulu þó ekki hafa áhrif vegna bifreiða sem teknar voru í notkun fyrir gildistöku hennar.

Fjármálaráðuneytið, 4. desember 1991.

Friðrik Sophusson.
Magnús Pétursson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica