Landbúnaðarráðuneyti

5/1996

Reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum og beingreiðslur 1996-2000. - Brottfallin

1. gr.

Beingreiðslumark og greiðslumark lögbýla.

Frá og með 1. janúar 1996 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða 1.480 millj. kr. á almanaksári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og heildargreiðslumark sauðfjár verðlagsárið 1995/1996.

Framleiðsluráð landbúnaðarins reiknar út greiðslumark lögbýla til framleiðslu sauðfjárafurða í ærgildum og heldur skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslna, að teknu tilliti til aðilaskipta, úthlutana og geymds greiðslumarks.

2. gr. 

 Tilkynningar.

Framleiðsluráð landbúnaðarins skal tilkynna framleiðendum eigi síðar en 1. febúar 1996 um greiðslumark lögbýlisins árið 1996 og síðan 15. september ár hvert um greiðslumark næsta almanaksárs. Skriflegar athugasemdir skulu hafa borist Framleiðsluráði landbúnaðarins innan 20 daga frá dagsetningu tilkynningar um greiðslumark, ella gildir það fyrir almanaksárið. Framleiðsluráð landbúnaðarins endurskoðar útreikninga, sem athugasemdir eru gerðar við og tilkynnir framleiðanda niðurstöðu sína.

Berist Framleiðsluráði ekki skriflegar athugasemdir við þá niðurstöðu innan 25 daga frá dagsetningu ákvörðunar, gildir hún fyrir hlutaðeigandi almanaksár.

Uni viðkomandi framleiðandi ekki niðurstöðu Framleiðsluráðs, hefur hann rétt til þess að skjóta ágreiningnum með rökstuddri kæru til úrskurðarnefndar, sem starfar samkvæmt 42. gr. laga nr. 99/1993, með síðari breytingum.

3. gr. 

 Búskaparhlé.

Lögbýli heldur greiðlumarki sínu óskertu þótt réttur til beingreiðslu falli niður vegna búskaparhlés án þess að samið sé um búskaparlok og greiddar bætur fyrir.

Tilkynna skal Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir 1. september ef framleiðandi hyggst hefja framleiðslu á ný á næsta almanaksári.

4. gr. 

 Aðilaskipti og flutningur.

Fram til 25. janúar 1996 eru heimil aðilaskipti að greiðslumarki milli lögbýla vegna almanaksársins 1996 og fram til 1. júlí 1996 eru heimil aðilaskipti vegna almanaksársins 1997. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir því að afsala greiðslumarki frá lögbýli. Ákvæði þessi eiga þó ekki við um sérskráð greiðslumark.

Aðilaskipti greiðslumarks skulu tilkynnt á þar til gerðum eyðublöðum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins lætur í té og liggja frammi á skrifstofum búnaðarsambanda. Með tilkynningu um aðilaskipti að greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli. Aðilaskiptin taka fyrst gildi þegar staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir.

Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla við eftirfarandi aðsæður:

a. Við sameiningu lögbýla skal skrá greiðslumark á það lögbýli sem verður til við sameininguna.

b. Flytjist eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár á lögbýlinu, á annað lögbýli, er heimilt að sameina greiðslumark lögbýlanna.

c. Ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli.

Tilkynningu um flutning greiðslumarks skal senda Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir 1. febrúar á því ári sem flutningur tekur gildi.

5. gr. 

 Beingreiðsla.

Beingreiðsla greiðist úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlisins eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðsla skal vera kr. 3.734 á hvert ærgildi á ári.

Til að fá fulla beingreiðslu þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur, ásettar haustið 1995, fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 1996. Síðan skal landbúnaðarráðherra ákveða árlega ásetningshlutfall að fengunum tillögum Framkvæmdanefndar búvörusamninga. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðist beingreiðsla hlutfallslega. Ásetningshlutfall skal auglýst fyrir 15. september vegna næsta almanaksárs, í fyrsta sinn fyrir 15. september 1996.

Ásetningshlutfall hjá framleiðendum sem hafa skorið niður sauðfé til útrýmingar bótaskyldum sjúkdómum skal þó á fyrsta almanaksári eftir fjártöku aðeins nema 1/3 af því sem ákveðið er samkvæmt 2. mgr. og á öðru ári 2/3, til að þeir haldi fullum beingreiðslum.

6. gr. 

 Lækkun ásetningshlutfalls.

Á lögbýlum, þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, er landbúnaðarráðherra heimilt að semja um lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins án þess að beingreiðslur skerðist.

Ráðherra er heimilt að semja við bændur um lækkun ásetingshlutfalls án lækkunar beingreiðslu ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum. Gerð samninga um lækkað ásetninshlutfall vegna of mikils beitarálags, náms og þjálfunar eða sérstakra verkefna skal lokið fyrir 15. september vegna næsta almanaksárs. Samningum fyrir árið 1996 skal þó lokið fyrir 1. júlí 1996.

Þá getur landbúnaðarráðherra samið um lækkun ásetningshlutfalls árin 1996 og 1997, sem nær einungis til þess hluta af greiðslumarki lögbýlis, sem hefur komið eða kemur sem viðbót vegna samninga eða flutnings á greiðslumarki milli lögbýla, á tímabilinu 1. maí 1995 til 1. júlí 1996.

7. gr. 

 Handhafi beingreiðslu.

Beingreiðsla greiðist ábúanda á lögbýlinu. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör. Séu handhafar tveir eða fleiri, skal gefa upp hlutfallslega skiptingu beinna greiðslna. Jafnframt skulu viðtakendur beinna greiðslna tilgreina sérstakan reikninga í banka eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.

Réttur til breingreiðlu flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða. Tilkynna skal Framleiðsluráði landbúnaðarins allar breytingar á því hver eigi að vera handhafi beinna greiðslna.

Beingreiðsla greiðist til handhafa og skulu 80 % af heildargreiðslum greiðast með jöfnum mánaðarlegum greiðslum 1. hvers mánaðar frá mars til otkóber. Eftirstöðvar skulu greiðast 15. desember ár hvert.

8. gr. 

 Skerðing eða niðurfelling beingreiðslu.

Heimilt er að skerða eða fella niður beingreiðslu ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundinn ákvæði um afsetningu afurða.

9. gr.

 Fjármunir til markaðsfærslu.

Beingreiðslum sem sparast vegna skerðingarákvæða í 2. mgr. 5. gr. og í 8. gr. skal varið til sameiginlegra markaðsaðgerða.

Landbúnaðarráðherra staðfestir ráðstöfun á fjármunum til markaðsfærslu að fengnum tillögum Framkvæmdanefndar búvörusamninga.

10. gr.

 Viðurlög og gildistaka.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlög samkvæmt lögum nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld Reglugerð 541 11. september 1994 um greiðslumark sauðfjárafurða á lögbýlum og beinar greiðslur verðlagsárið 1995-1996, með síðari breytingum.

Landbúnaðarráðuneytið, 11. janúar 1996.

Guðmundur Bjarnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica