Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. jan. 2025

Reglugerð með breytingum síðast breytt 22. nóv. 2018

560/2010

Reglugerð um innflutning á djúpfrystu svínasæði.

I. KAFLI

1. gr. Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um innflutning á djúpfrystu svínasæði til Íslands. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að smitsjúkdómar berist til landsins með slíkum innflutningi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglugerð.

Matvælastofnun fer með framkvæmd þessarar reglugerðar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð þá merkingu sem hér segir:

  1. Djúpfryst svínasæði: Sæði úr göltum sem fryst er í fljótandi köfnunarefni til geymslu og flutnings.
  2. Smitsjúkdómur: Sjúkdómur eða smit sem beint eða óbeint getur borist frá einu dýri til annars eða milli manna og dýra.
  3. Sæðisgjafi: Göltur sem sæði er tekið úr til sæðingar.
  4. Vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð: Aðstaða þar sem djúpfryst svínasæði er þýtt upp og gert hæft til sæðingar.

II. KAFLI

3. gr. Leyfi til innflutnings.

Óheimilt er að flytja djúpfryst svínasæði til landsins nema með leyfi Matvælastofnunar, að fenginni umsögn fagráðs í svínarækt.

Matvælastofnun er heimilt að afturkalla útgefið leyfi ef skilyrðum innflutnings er ekki fullnægt eða ef talið er að smitsjúkdómahætta stafi af innflutningi.

4. gr. Heilsufar sæðisgjafa.

Aðeins er heimilt að flytja til landsins djúpfryst sæði úr heilbrigðum göltum, sem skoðaðir hafa verið af embættisdýralækni, frá viðurkenndum sæðingarstöðvum í Noregi.

Við heilbrigðisskoðun við sæðistöku skal sæðisgjafi hafa verið í 30 daga í einangrun og ekki sýnt nein einkenni smitsjúkdóms. Sæðisgjafi skal vera einstaklingsmerktur fyrir sæðistöku, bólusetningar og blóðpróf.

5. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð.

Með innfluttu djúpfrystu svínasæði skal fylgja opinbert heilbrigðis- og upprunavottorð sæðisgjafans þar sem eftirgreint skal m.a. koma fram:

a) Yfirlýsing um að enginn dýr á sæðingarstöð hafi verið bólusett við eftirfarandi sjúkdómum:
Gin- og klaufaveiki Foot and Mouth Disease - Picornaviridae
Aujeszkys-veiki Aujeszky´s disease - Pseudorabies - Herpesviridae
b) Yfirlýsing um að sæðisgjafi hafi verið prófaður við eftirfarandi sjúkdómum:
Svínapest Classical swine fever - Hog cholera - Flaviviridae
Smitandi fósturlát/Brúsellósa Brucellosis - Brucella abortus/B. suis/B. melitensis
Aujeszkys-veiki Aujeszky´s disease - Pseudorabies - Herpesviridae
PRRS-veiki Porcine respiratory and reproductive syndrome (PRRS)
c) Yfirlýsing um að í útflutningslandinu séu ekki til staðar eftirfarandi sjúkdómar:
Gin- og klaufaveiki Foot and Mouth Disease - Picornaviridae
Munnblöðrubólga Vesicular stomatitis - Rhabdoviridae
Afríkönsk svínapest African swine fever (ASF) - ASF-like virus
Illkynja grísalömun Teschen disease - Picornaviridae
Svínapest Classical swine fever - Hog cholera - Flaviviridae
Smitandi fósturlát/Brúsellósa Brucellosis - Brucella abortus/B. suis/B. melitensis
Aujeszkys-veiki Aujeszky´s disease - Pseudorabies - Herpesviridae
PRRS-veiki Porcine respiratory and reproductive syndrome (PRRS)
Svínafár Swine vesicular disease (SVD) - Picornaviridae
Smitandi maga- og garnabólga Transmissible gastroenteritis (TGE) - Coronaviridae
PRCV-veiki Porcine Respiratory Coronavirus (PRCV)
d) Yfirlýsing um að engin dýr á sæðingarstöð hafi sýnt klínísk einkenni síðustu 30 daga vegna eftirfarandi sjúkdóma:
Hundaæði Rabies - Rhabdoviridae
Berklum Tuberculosis - Mycobacterium bovis/tuberculosis
Aujeszkys-veiki Aujeszky´s disease - Pseudorabies - Herpesviridae
Svínainflúensu Swine influenza - Hog flue - Orthomyxoviridae
e) Yfirlýsing um að sæðisgjafi og allir geltir á sæðingarstöð hafi verið bólusettir við sjúkdómnum smitandi fósturdauði (Porcine parvovirus (PPV) - Parvoviridae) áður en þeir komu á stöðina og reglulega á meðan þeir eru á stöðinni.
f) Yfirlýsing um að sæðið hafi verið blandað með fúkkalyfjum sem virka gegn Leptóspírósa/Gulusótt (Leptospirosis - Leptospira spp) og berfrymingi (mykoplasma).

Yfirdýralækni er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði c-liðar undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því. Hann setur jafnframt skilyrði fyrir innflutningnum sem byggja á áhættumati fyrir viðkomandi sjúkdóm og aðstæður.

6. gr. Umsjón og ráðstöfun á sæði.

Matvælastofnun fer með umsjón og eftirlit með djúpfrystu svínasæði frá því að það kemur til landsins. Stofnunin afhendir viðkomandi svínabúi sæðið, á stað sem stofnunin ákveður.

Aðeins þau svínabú sem hafa gilt starfsleyfi frá Matvælastofnun, eru laus við smitsjúkdóma og hafa vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð geta fengið afhent djúpfryst svínasæði.

Líða skulu hið minnsta 30 dagar frá töku sæðis til notkunar þess.

7. gr. Heilbrigðiseftirlit.

Aðeins er heimilt að nota heilbrigðar gyltur til sæðinga. Veikist gylta eftir sæðingu með djúpfrystu svínasæði skal tafarlaust hafa samband við héraðsdýralækni.

8. gr. Útbúnaður og umgengni.

Vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð skal vera bjart og rúmgott. Allar innréttingar, veggir, gólf, dyra- og gluggabúnaður skal vera þannig að þrif og sótthreinsun séu auðveld. Þar skal vera heitt og kalt vatn og nauðsynleg hreinlætisaðstaða. Herbergið skal vera hæfilega upphitað. Í því skal vera tæki til sótthreinsunar og smásjá, handlaug og annar búnaður sem nauðsynlegur er. Til að koma í veg fyrir að smit berist inn í vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð er óheimilt að ganga beint inn í herbergið nema samgangur sé rofinn á milli ytra og innra umhverfis. Óheimilt er að nota herbergið fyrir annað en sæðismeðferð.

Ávallt skal þvo og sótthreinsa hendur áður en unnið er með sæði í vinnuherbergi fyrir sæðismeðferð. Þeir sem sæða gyltur skulu klæðast sérstökum hreinum hlífðarfatnaði og skófatnaði sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Þeir skulu vinna störf sín eins hreinlega og kostur er og halda áhöldum og útbúnaði ávallt hreinum. Hlífðarfatnað sem notaður er við sæðingar með djúpfrystu sæði má ekki nota utan búsins. Öll áhöld sem notuð eru til sæðinga og blöndunar skulu vera af vandaðri gerð, þannig að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa.

9. gr. Sæðingar.

Sæðingar skulu framkvæmdar af starfsmanni viðkomandi svínabús, enda hafi hann aflað sér þekkingar á meðferð á svínasæði og sæðingum á námskeiði sem Matvælastofnun viðurkennir. Hann skal halda dagbók um sæðingar og afdrif allra sæðisskammta, hvort sem þeir eru notaðir til sæðinga eða er eytt.

Svínabú skal halda skrá um hvaða gyltur eru sæddar. Þess skal gætt að sæði sé merkt númeri sæðisgjafa og fram komi hvar og hvenær sæðið var tekið. Upplýsingar skulu koma fram um fang, þ.e. hvernig heldur við sæði úr hverjum gelti.

10. gr. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit o.fl.

Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er, fylgi sæðinu við innflutning og ber hann allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. nauðsynlegum sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem Matvælastofnun telur nauðsynlegar.

III. KAFLI

11. gr. Viðurlög og gildistaka.

Um brot á þessari reglugerð fer skv. 18. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra og 30. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 19. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra og 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.