Heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði er heimilt að veita þeim sem fengið hefur leyfi til að selja tóbak í smásölu skv. 9. mgr. 8. gr. laga nr. 74/1984 um tóbaksvarnir, með síðari breytingum, tímabundnar undanþágur frá ákvæði um aldurstakmark, sbr. 7. mgr. 8. gr. sömu laga, enda liggi fyrir að mati nefndarinnar að ekki sé unnt að ráða einstakling til starfans sem orðinn er 18 ára.
Slíkar undanþágur skal einungis veita í undantekningartilvikum og aldrei lengur en til sex mánaða í senn. Óheimilt er að veita undanþágu vegna ungmenna yngri en 16 ára.
Umsóknum um undanþágur skulu fylgja upplýsingar um að umsækjandi hafi auglýst eftir starfsmönnum 18 ára eða eldri en engar umsóknir borist eða staðfesting vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar á svæðinu um að atvinnuástand á svæðinu sé þannig að erfitt sé að fá starfsmenn 18 ára eða eldri til verslunarstarfa.
Að öðru leyti skal höfð hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 426/1999, um vinnu barna og unglinga, vegna vinnu ungmenna undir 18 ára aldri.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum og að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið hvað varðar hlutverk heilbrigðisnefnda. Reglugerðin öðlast gildi 1. ágúst 2001.