REGLUGERÐ
um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga
og útreikning lágmarksgjaldþols.
I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Reglugerð þessi skilgreinir nánar þá liði sem telja má til gjaldþols vátryggingafélags skv. 29. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með síðari breytingum. Jafnframt er kveðið á um útreikning á lágmarksgjaldþoli vátryggingafélaga til fyllingar 30. og 31. gr. sömu laga.
II. KAFLI
Gjaldþolsliðir.
2. gr.
Gjaldþol vátryggingafélags er eigið fé þess með frávikum sem tilgreind eru hér á eftir. Gjaldþol félags fæst með því að leggja saman töluliði 1 - 10 og draga frá töluliði 11- 13:
1. Innborgað hlutafé eða stofnfé. Undir 1. tölulið 29. gr. laga um vátryggingastarfsemi fellur eingöngu innborgað hlutafé sem ekki er forgangshlutafé eða innborgað stofnfé sem ekki fellur undir aðra töluliði.
2. Helmingur óinnborgaðs hlutafjár eða stofnfjár. Undir 2. tölul. 29. gr. laganna fellur eingöngu óinnborgað hlutafé sem ekki er forgangshlutafé, enda sé minnst fjórðungur hlutafjár innborgaður. Sömu ákvæði gilda um óinnborgað stofnfé að teknu tilliti til 5. töluliðs.
3. Varasjóðir sem ekki eru til að mæta skuldbindingum félagsins. Undir 3. tölul. 29. gr. laganna falla yfirverðsreikningur hlutafjár eða stofnfjár, lögbundinn varasjóður, endurmatsreikningur og aðrir varasjóðir sem ekki eiga að mæta vátryggingaskuldbindingum eða öðrum sérstökum skuldbindingum félagsins. Geymslufé útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 72. gr. laganna fellur undir þennan tölulið.
4. Óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi. Undir 4. tölul. 29. gr. laganna fellur óráðstafað eigið fé.
5. Framlög eigenda gagnkvæmra vátryggingafélaga. Til gjaldþols gagnkvæms vátryggingafélags skv. 5. tölul. 29. gr. laganna má telja:
a. Skuldir við eigendur, enda sé í stofnsamningi eða samþykktum kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða eigendum þessar skuldir, ef það hefði í för með sér að gjaldþol færi niður fyrir tilskilið lágmark, og einnig að við félagsslit skuli fyrst gera upp allar aðrar skuldir félagsins. Enn fremur skal í stofnsamningi eða samþykktum kveðið á um að Vátryggingaeftirlitinu skuli tilkynnt um greiðslur slíkra skulda, nema þær tengist lokum aðildar einstakra félagsmanna að félaginu, með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara og að Vátryggingaeftirlitið geti lagt bann við útborgun innan þess frests. Umrædd ákvæði og breytingar á þeim öðlast ekki gildi nema með samþykki Vátryggingaeftirlitsins.
b. Kröfur um viðbótarframlög eða aukaiðgjöld sem gagnkvæm vátryggingafélög önnur en líftryggingafélög, eða félög hliðstæðrar gerðar með breytilegum framlögum, mega gera á hendur félagsmönnum á reikningsárinu, allt að helming mismunar á hámarki þess sem krefjast má og þess sem þegar hefur verið krafist. Þessar kröfur mega samanlagt ekki vera meira en helmingur gjaldþols.
6. Duldir sjóðir vegna ofmats eða vanmats efnahagsliða. Því aðeins má beita ákvæði 6. tölul. 29. gr. laganna að tilvist hinna duldu sjóða sé rökstudd og sýnt sé fram á að þeir séu af varanlegum toga. Vátryggingaeftirlitið leggur mat á greinargerð félags um þessa liði. Vátryggingaskuld, þar með talin útjöfnunarskuld, og líftryggingaskuld, þar með talin ágóðaskuld samkvæmt reiknigrundvelli líftryggingafélags, telst ekki til gjaldþols. Þó getur Vátryggingaeftirlitið við sérstakar aðstæður heimilað að óráðstöfuð ágóðajöfnunarskuld líftryggingafélags sem ekki er ákveðin samkvæmt reiknigrundvelli eða óráðstöfuð ágóðaskuld annars vátryggingafélags en líftryggingafélags verði reiknuð sem hluti af gjaldþoli félagsins.
7. Forgangshlutafé og víkjandi lán. Forgangshlutafé og víkjandi lán má telja til gjaldþols skv. 7. tölul. 29. gr. laganna ef bindandi samkomulag er um að það víki fyrir öllum skuldum sem ekki eru víkjandi og að það verði ekki endurgreitt fyrr en þær skuldir hafa verið greiddar við gjaldþrot eða slit vátryggingafélags. Víkjandi lán skal einnig uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. Aðeins er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.
b. Upphaflegur lánstími lána með föstum lánstíma skal ekki vera skemmri en fimm ár. Eigi síðar en einu ári áður en kemur að endurgreiðslu skal vátryggingafélagið leggja áætlun fyrir Vátryggingaeftirlitið til samþykktar er sýni fram á fullnægjandi gjaldþol félagsins á gjalddaga nema vægi eftirstöðva lánsins hafi smám saman minnkað í hlutfalli við gjaldþol félagsins á minnst fimm ára tímabili fyrir umsaminn gjalddaga. Sæki vátryggingafélagið um að flýta endurgreiðslu slíkra lána getur Vátryggingaeftirlitið heimilað það að því tilskildu að gjaldþol fari ekki niður fyrir tilskilið lágmark.
c. Lán sem eru ekki með föstum lánstíma skulu vera með a.m.k. fimm ára uppsagnarfresti, nema þau séu ekki lengur talin til gjaldþols félagsins eða að endurgreiðslur fyrir gjalddaga séu háðar samþykki Vátryggingaeftirlitsins. Verður vátryggingafélagið þá að óska eftir slíku samþykki að minnsta kosti sex mánuðum fyrir áætlaðan greiðsludag, og tilgreina áætlað gjaldþol og lágmarksgjaldþol bæði fyrir og eftir endurgreiðslu. Því aðeins skal heimila endurgreiðslu að gjaldþol vátryggingafélagsins fari ekki niður fyrir lágmarksgjaldþol.
d. Lánssamningurinn má ekki fela í sér ákvæði sem gera ráð fyrir endurgreiðslu fyrr en á gjalddaga, nema vátryggingafélaginu verði slitið.
e. Samþykki Vátryggingaeftirlitsins þarf til að breyta lánssamningum.
Gjaldþolsliðir samkvæmt þessum tölulið mega ekki fara yfir 50% af heildargjaldþoli og þar af mega víkjandi lán með fastan lánstíma og heildarfjárhæð forgangshlutafjár með fastan innlausnartíma ekki fara yfir 25% gjaldþols samtals.
8. Skuldabréf án tiltekins lánstíma og aðrir fjármálasamningar. Til gjaldþols vátryggingafélags skv. 8. tölul. 29. gr. laganna má telja innborgaðar fjárhæðir samkvæmt skuldabréfum án tiltekins lánstíma og öðrum fjármálasamningum, svo sem forgangshlutafé sem ekki fellur undir 7. tölul., ef samningarnir uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. Ekki megi endurgreiða þau að frumkvæði handhafa og ekki án samþykkis Vátryggingaeftirlitsins.
b. Samið er um að vátryggingafélagið megi fresta greiðslu á vöxtum.
c. Kröfur á hendur vátryggingafélaginu samkvæmt þessum tölulið skuli víkja fyrir öllum öðrum kröfum sem ekki eru víkjandi.
d. Skjalfest sé við útgáfu skuldabréfanna að eftirstöðvar og ógreidda vexti megi nota til að mæta tapi þannig að vátryggingafélagi sé kleift að halda áfram starfsemi sinni.
Gjaldþolsliðir samkvæmt þessum tölulið að viðbættum gjaldþolsliðum skv. 7. tölul. mega samanlagt ekki fara yfir 50% af gjaldþoli.
9. Framtíðarhagnaður af líftryggingum. 50% áætlaðs framtíðarhagnaðar að fenginni heimild Vátryggingaeftirlitsins. Líftryggingafélag sem óskar eftir slíkri heimild skal senda Vátryggingaeftirlitinu umsókn þess efnis fyrirfram ásamt rökstuddri greinargerð. Framtíðarhagnað skal þá áætla með því að margfalda árlegan hagnað með stuðli sem svarar til gildistíma líftrygginganna sem eftir er í árum talið, þó ekki með hærri stuðli en 10. Með árlegum hagnaði er átt við meðaltal hagnaðar á líftryggingarekstri samkvæmt rekstrarreikningi fimm undangengin ár í viðkomandi greinum líftrygginga.
10. Hluti iðgjaldaskuldar í líftryggingum með eða án Zillmer-aðferðar. Þegar Zillmer-aðferð er ekki beitt eða henni er beitt og kostnaðarálag vegna öflunar líftrygginga er lægra en álagið sem fólgið er í iðgjöldum vegna öflunar líftrygginganna, skal reikna til gjaldþols mismuninn á iðgjaldaskuld án Zillmer-aðferðar eða iðgjaldaskuld með Zillmer-aðferð að hluta og iðgjaldaskuld þar sem reiknað er samkvæmt Zillmer-aðferð með öflunarkostnaði að fullu eins og í reiknigrundvelli iðgjalda. Fjárhæðin sem færð er til gjaldþols samkvæmt þessum tölulið má þó aldrei vera hærri en 3,5% af mismun líftryggingafjárhæða og iðgjaldaskuldar samanlagt vegna líftryggingasamninga þar sem unnt er að beita Zillmer-aðferð. Frá þessum mismun skal draga allan óafskrifaðan eignfærðan öflunarkostnað.
11. Óefnislegar eignir. Óefnislegar eignir í efnahagsreikningi skulu koma til frádráttar eiginfjárliðum efnahagsreiknings.
12. Nauðsynlegar afskriftir og niðurfærslur. Sé nauðsynlegt að afskrifa eða niðurfæra eignaliði umfram það sem gert er í efnahagsreikningi skal það koma til lækkunar gjaldþoli. Meðal annars skal hafa hliðsjón af atriðum utan efnahags.
13. Ef horfur eru á að gjaldþol verði einhvern tímann á næstu þremur árum lægra en gjaldþol reiknað skv. 1.- 12. tölul. skal til viðbótar færa gjaldþolið niður um muninn á ofantöldum liðum og áætluðu lægsta gjaldþoli á næstu þremur árum.
III. KAFLI
Útreikningur lágmarksgjaldþols o.fl.
Bókfærð iðgjöld.
3. gr.
Þegar lágmarksgjaldþol er metið skv. 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal leggja við bókfærð iðgjöld félagsins samkvæmt rekstrarreikningi bókfærð viðbótarframlög og aukaiðgjöld sem eru ígildi iðgjalda, þótt þau hafi verið færð undir aðra liði í rekstrarreikningi.
Tjónsfjárhæðir.
4. gr.
Við ákvörðun meðaltjónsfjárhæðar félags skv. 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal fyrst færa tjónsfjárhæð hvers árs til verðlags í lok síðasta reikningsárs ef eitthvert eftirtalinna skilyrða er uppfyllt:
1. Verðlag hækkaði meira en 5% á síðasta reikningsári.
2. Verðlag hækkaði meira en 10% á síðustu þremur reikningsárum.
3. Verðlag hækkaði meira en 20% á síðustu sjö reikningsárum og félagið rekur aðallega starfsemi í óveðurs-, hagl- eða frostskaðatryggingum eða í greiðsluvátryggingum.
Miða skal við vísitölu neysluverðs nema félagið reki aðallega starfsemi í vátryggingum fasteigna, þá skal miða við vísitölu byggingarkostnaðar. Við mat á verðlagsbreytingum skal nota vísitölur sem mæla verðlag í desembermánuði.
Reki vátryggingafélag starfsemi í ferðamannaaðstoð skv. 18. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal leggja við tjónsfjárhæðir í þeirri grein allan kostnað sem félagið hefur borið vegna veittrar aðstoðar, jafnvel þótt hann kunni að falla undir aðra liði í rekstrarreikningi.
Sjúkratryggingar samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli.
5. gr.
Þegar lágmarksgjaldþol vátryggingafélags er reiknað samkvæmt 1. og 2. tölul. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal í sjúkratryggingum sem reknar eru samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli miða við 6% eða 5,33% bókfærðra iðgjalda í stað 18% eða 16%, og 8,67% eða 7,67% meðaltjónsfjárhæðar á síðustu þremur árum í stað 26% eða 23%, þ.e. stuðlarnir sem margfaldað er með verða 1/3 þess sem þar segir.
Sjúkratryggingar teljast reknar samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli þegar eftirfarandi skilyrðum er öllum fullnægt:
1. Iðgjöld eru reiknuð samkvæmt tryggingastærðfræðilegum aðferðum út frá sjúkratöflum.
2. Vátryggingaskuld tekur mið af hækkandi aldri.
3. Kveðið er á um greiðslu viðbótariðgjalda til að koma upp hæfilegu öryggisálagi.
4. Vátryggingafélagið má segja vátryggingasamningum upp fyrir lok 3. vátryggingaárs í síðasta lagi.
5. Vátryggingasamningar kveða á um að hækka megi iðgjöld eða lækka bætur á vátryggingatímabilinu.
Lágmark gjaldþols líftryggingafélaga.
6. gr.
Líftryggingafjárhæð skv. 2. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi svarar til þeirrar fjárhæðar sem líftryggingafélagið ber áhættu af gagnvart hinum líftryggða í lok reikningsárs, þ.e. frá líftryggingafjárhæð sem við andlát yrði greidd vegna hvers líftryggingasamnings skal draga iðgjaldaskuld sem félagið hefur lagt til hliðar vegna þess samnings. Sé mismunurinn neikvæður skal ekki taka viðkomandi samning með þegar lagt er saman.
Stuðullinn í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal vera 1% í stað 4% fyrir þann hluta líftryggingasamnings þar sem líftryggingataki ber alla fjárfestingaráhættuna og samningurinn er til að minnsta kosti fimm ára og kostnaðarhluti iðgjalda er jafnframt bundinn í að minnsta kosti fimm ár. Beri líftryggingafélagið einhverja fjárfestingaráhættu er stuðullinn 4%. Til viðbótar komi líftryggingafjárhæð skv. 1. mgr. þessarar greinar margfölduð með stuðli skv. 2. tölul. 1. mgr. 31. gr. og á þann hátt sem þar segir, að svo miklu leyti sem dánaráhætta er fyrir hendi á líftryggingasamningum þar sem líftryggingatakinn ber alla fjárfestingaráhættuna.
Til lágmarksgjaldþols skal reikna 1% samanlagðra eigna söfnunarsjóða sem líftryggingafélag hefur til ávöxtunar fyrir hönd sjóðfélaga þegar hlutverk sjóðsins er dreifing sjóðsinneignar til þeirra.
Gildistökuákvæði.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 98. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með síðari breytingum og skv. 29., 30. og 31. gr. sömu laga til að ljúka lögfestingu ákvæða 16. gr. tilskipunar 73/239/ESB og 18. og 19. gr. tilskipunar 79/267/ESB, svo og til þess að ákvarða hvernig taka skuli tillit til verðlagsbreytinga við útreikning gjaldþols.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 22. júlí 1997.
F. h. r.
Halldór J. Kristjánsson.
Kjartan Gunnarsson.