1. gr.
Yfirstjórn.
Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn þróunarsamvinnumála, sbr. 15. tölul. 14. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969.
2. gr.
Hlutverk og markmið ÞSSÍ.
Þróunarsamvinnustofnun Íslands heyrir undir utanríkisráðuneytið og starfar í tengslum við það. Hlutverk hennar er að vinna að samstarfi Íslands við þróunarlöndin. Markmið þessa samstarfs eru skilgreind í 2. gr. laga nr. 43/1981. Til þess að ná þessum markmiðum skal hún stuðla að þeim atriðum sem talin eru upp í 3. gr. laganna.
3. gr.
Stjórn.
Stjórn ÞSSÍ er skipuð sjö mönnum. Sex menn eru kjörnir hlutfallskosningu af Alþingi en einn er skipaður af utanríkisráðherra. Kjörtímabil stjórnarinnar er fjögur ár. Utanríkisráðherra skipar formann úr hópi stjórnarmanna. Varamenn eru valdir á sama hátt, sbr. 6. gr. laga nr. 43/1981.
4. gr.
Hlutverk stjórnar.
Stjórn Þróunarsamvinnustofnunar er utanríkisráðherra til ráðgjafar um stefnu Íslands í þróunarsamvinnumálum. Stjórnin fer með yfirumsjón málefna stofnunarinnar í umboði ráðherra og sér um að skipulag og starfsemi stofnunarinnar sé jafnan í samræmi við starfsáætlanir hennar.
5. gr.
Starfsmenn.
Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar starfar undir stjórn stofnunarinnar og undir yfirstjórn utanríkisráðherra.
Utanríkisráðherra skipar framkvæmdastjóra ÞSSÍ, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjórinn ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar. Framkvæmdastjórinn skal hafa staðgengil sem utanríkisráðherra velur úr hópi annarra starfsmanna.
Hlutverk framkvæmdastjóra er að annast daglegan rekstur stofnunarinnar.
6. gr.
Starfsáætlanir.
Framkvæmdastjóri ÞSSÍ undirbýr drög að langtímaáætlun í þróunarsamvinnumálum til fimm ára í senn og leggur fyrir stjórnina fyrir 1. október annað hvert ár. Stjórnin sendir utanríkisráðuneytinu tillögurnar fyrir 1. nóvember. Í þeirri áætlun er stefnumótun fyrir stofnunina og verkefni hennar nánar útfærð og skilgreind.
Framkvæmdastjórinn leggur fyrir stjórnina drög að starfs- og rekstraráætlun næsta árs fyrir 15. febrúar ár hvert. Þar skal einnig gerð grein fyrir hvernig helstu starfsmarkmiðum og áherslumálum yfirstandandi árs verður náð. Stjórnin sendir áætlunina ráðuneytinu fyrir 15. mars. Ráðuneytið tekur afstöðu til áætlunarinnar fyrir 15. apríl.
7. gr.
Varðveisla upplýsinga.
Framkvæmdastjóri ÞSSÍ heldur til haga upplýsingum um þróunaraðstoðarverkefni á vegum stofnunarinnar og öðrum upplýsingum sem skipta máli við að meta árangur af starfi hennar. Utanríkisráðuneytið skal ætíð geta kynnt sér málsmeðferð einstakra mála.
8. gr.
Fjármál.
Framkvæmdastjóri ÞSSÍ ber ábyrgð á að rekstur stofnunarinnar og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög. Honum ber að gæta þess í hvívetna að fjármunir hennar séu nýttir á sem árangursríkastan hátt. Hann skal leggja fram ársskýrslu fyrir 15. apríl sem m.a. birtir rekstrar- og efnahagsreikning liðins árs og greinargerð um starfsemina.
9. gr.
Stjórnarfundir.
Formaður stjórnar ÞSSÍ boðar til stjórnarfunda sem skulu að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Fundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara, nema sérstök ástæða sé til annars. Fund skal einnig halda ef tveir stjórnarmanna óska þess skriflega. Framkvæmdastjórinn situr stjórnarfundi án atkvæðisréttar.
Halda skal fundargerð yfir stjórnarfundi. Afrit skal jafnóðum sent utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra getur tilnefnt starfsmann ráðuneytisins til þess að sækja stjórnarfundi án atkvæðisréttar.
10. gr.
Afgreiðslur milli stjórnarfunda.
Framkvæmdastjóra er óheimilt að ráðast í verkefni utan starfsáætlunar stofnunarinnar án samþykkis utanríkisráðuneytisins. Hann skal hafa samráð við stjórn stofnunarinnar áður en hann gerir ráðstafanir sem teljast óvenjulegar eða hafa í för með sér veruleg útgjöld. Ef brýnt er að grípa til slíkra ráðstafana milli stjórnarfunda ber honum að eiga samráð við stjórnarformanninn, sem metur hvort þörf sé á að boða til fundar.
11. gr.
Nánari ákvæði.
Stjórn ÞSSÍ getur sett nánari starfsreglur um stjórnarfundi og starfshætti stofnunarinnar, sem utanríkisráðherra samþykkir.
12. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 9. gr. laga nr. 43/1981 um Þróunarsamvinnustofnun Íslands og öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 9. janúar 1998.
Halldór Ásgrímsson.
Helgi Ágústsson.