Umhverfisráðuneyti

619/1998

Reglugerð um akstur í óbyggðum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um akstur í óbyggðum.

1. gr.

Öllum er skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll á náttúru landsins, sem framin eru með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.

2. gr.

Allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta af hlotist er bannaður.

Með náttúruspjöllum er meðal annars átt við spjöll á gróðri, jarðvegi og jarðmyndunum, myndun nýrra slóða, hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu og skiptir ekki máli hvort líkur eru á varanlegum skaða eða tímabundnum.

Á friðlýstum svæðum gilda auk þess sérákvæði um akstur, sbr. friðlýsingarákvæði.

3. gr.

Nauðsynlegum akstri utan vega í óbyggðum skal jafnan hagað svo að engin náttúruspjöll eða lýti á landi hljótist af.

Með nauðsynlegum akstri utan vega er átt við akstur vegna rannsókna, björgunarstarfa og þess háttar. Við undirbúning ferðaáætlunar skal haft samráð við Náttúruvernd ríkisins sem getur sett skilyrði varðandi tækjabúnað og leiðaval.

Tilkynna skal fyrirfram um akstur til viðkomandi sýslumanns eða lögreglustjóra. Um nauðsynlegan fyrirvaralausan akstur utan vega skal tilkynna til viðkomandi sýslumanns við fyrsta tækifæri.

4. gr.

Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni takmarkað umferð tímabundið eða lokað svæðum í óbyggðum enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu til umhverfisráðherra. Slíkar reglur skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.

5. gr.

Náttúruvernd ríkisins og vegamálastjóri gefa út kort, m.a. á vorin, með upplýsingum um ófærð á vegum og hvar óheimilt er að aka og á hvaða tímabili.

6. gr.

Brot gegn reglum þessum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 16. gr. laga nr. 93/1996 um náttúruvernd, að fenginni tillögu Náttúrverndar ríkisins, og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 1. október 1998.

Guðmundur Bjarnason.

___________________

Ingimar Sigurðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica