Sjávarútvegsráðuneyti

1016/2003

Reglugerð um veiðar á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, 2004. - Brottfallin

1016/2003

REGLUGERÐ
um veiðar á samningssvæði Norðvestur-
Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, 2004.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Reglugerð þessi tekur til veiða íslenskra skipa á svæði sem nefnt er "samningssvæðið" í samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar í Norðvestur-Atlantshafi, sbr. auglýsingu nr. 17 í C-deild Stjórnartíðinda 29. desember 1978. Vísað er til viðauka III við þann samning um skiptingu þess svæðis í vísindaleg og tölfræðileg undirsvæði (tilgreind með tölustöfum), deilisvæði (hlutar undirsvæðis tilgreindir með tölustaf og stórum bókstaf) og undirdeilisvæði (hlutar deilisvæðis tilgreindir með litlum bókstaf). Veiðar á samningssvæðinu eru óheimilar íslenskum skipum, án sérstaks leyfis Fiskistofu. Skulu þau leyfi bundin þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að fullnægja skuldbindingum Íslands á grundvelli framangreinds samnings.


2. gr.

Þeim íslenskum fiskiskipum er einum heimilt að stunda veiðar á samningssvæðinu sem búin eru fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegarar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.


3. gr.

Heimilt er að framselja úthlutaða aflahlutdeild og aflamark milli fiskiskipa, samkvæmt þeim reglum sem almennt gilda um framsal aflahlutdeildar og aflamarks samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Ákvæði 10. gr. og 5. og 7. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, gilda ekki um aflamark sem úthlutað er samkvæmt þessari reglugerð.

Heimilt er Fiskistofu að afturkalla fyrirvaralaust leyfi skipa til veiða, stundi þau veiðar úr öðrum stofnum en leyfið miðast við.


4. gr.

Skipstjóri skips skal tilkynna til Eftirlitsstöðvarinnar með a.m.k. 6 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á samningssvæðið. Í tilkynningu skal tilgreina tíma, dagsetningu og staðsetningu skipsins, áætlaða komu þess inn á svæðið svo og afla um borð. Afli skal tilgreindur í hundruðum kílóa miðað við afla upp úr sjó og skal hann aðgreindur eftir tegundum.

Á meðan skip er á samningssvæðinu skal skipstjóri tilkynna Eftirlitsstöðinni daglega um afla, tilgreindan í hundruðum kílóa miðað við afla upp úr sjó og skal hann aðgreindur eftir tegundum.

Þegar skip yfirgefur samningssvæðið skal skipstjóri þess tilkynna Eftirlitsstöðinni það með a.m.k. 6 klukkustunda fyrirvara. Skal í tilkynningu tilgreina tíma, dagsetningu og staðsetningu skipsins svo og afla um borð í skipinu sem veiddur hefur verið á samningssvæðinu. Enn fremur skal koma fram væntanleg löndunarhöfn og áætlaður komutími til hafnar. Afli skal tilgreindur í hundruðum kílóa miðað við afla upp úr sjó og skal hann aðgreindur eftir tegundum.

Ef afla skips skal umskipað á meðan það er statt á samningssvæðinu skal skipstjóri þess tilkynna það Eftirlitsstöðinni með a.m.k. 24 klukkustunda fyrirvara. Skal í tilkynningu greina tíma, dagsetningu og staðsetningu skipsins svo og afla þann sem umskipa skal. Afli skal tilgreindur í hundruðum kílóa miðað við afla upp úr sjó og skal hann aðgreindur eftir tegundum. Óheimilt er að skipa um borð í íslensk fiskiskip hvers konar afla af samningssvæðinu sem veiddur er af skipum er sigla undir fána ríkis sem ekki er aðili að NAFO.

Ofangreindar upplýsingar skal skrá á rafrænt eyðublað sem Eftirlitsstöðin leggur til og senda í gegnum fjarskiptabúnað skipsins.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. málslið 2. gr., bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á 6 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar og tilkynna áður en skip fer af einu deilisvæði til annars.


5. gr.

Skylt er þeim er veiða á samningssvæðinu eða hafa stundað veiðar á því að veita aðstoð sína til þess að eftirlitsmenn samningsríkja NAFO, sem sýnt geta fram á með skilríkjum að þeir séu til þess bærir, geti komist um borð eftir að skip eða þyrla sem þeir eru um borð í hefur gefið viðeigandi merki á alþjóðlegu merkjamáli um að þeir æski þess að koma um borð.

Um borð í hverju skipi skal vera stigi sem uppfyllir kröfur NAFO og önnur áhöld sem gera eftirlitsmönnum kleift að komast um borð með skjótum og öruggum hætti. Þrep stigans skulu gerð úr harðviði eða öðru sambærilegu efni. Þau skulu vera a.m.k. 480 mm breið, 115 mm djúp og 25 mm þykk og vera með jöfnu millibil sem ekki má vera minna en 300 mm og ekki meira en 380 mm.

Skipstjórum er skylt að veita eftirlitsmönnum endurgjaldslaust alla þá starfsaðstöðu og aðstoð sem þeim er nauðsynleg í starfi sínu, m.a. greiðan aðgang að fjarskiptatækjum, staðsetningartækjum og kortum.

Eftirlitsmönnum skal leyft að skoða og mæla veiðarfæri skipsins og afla til að ganga úr skugga um að reglur NAFO séu ekki brotnar. Þá skal eftirlitsmönnum gert kleift að skoða skjöl skipsins, skrifa í þau athugasemdir sínar um meint brot og gera skýrslu um skoðunina.


6. gr.

Hverju skipi er óheimilt að stunda veiðar á samningssvæðinu, nema eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu sé um borð. Þó er Fiskistofu heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 1. ml. enda séu eftirlitsmenn um borð í a.m.k. 50% íslenskra skipa sem stunda veiðar á samningssvæðinu. Skipstjóra er óheimilt að halda skipinu til veiða á samningssvæðinu án eftirlitsmanns um borð án skriflegrar heimildar Fiskistofu þar að lútandi.

Útgerð skips skal greiða eftirlitskostnað sem nemur 50% af fjárhæð gjalds skv. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 33, 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, fyrir hvern dag sem skipið stundar veiðar á samningssvæðinu, án tillits til hvort eftirlitsmaður sé um borð eða ekki. Útgerð skips með eftirlitsmann á vegum Fiskistofu um borð skal sjá honum fyrir fæði og aðstöðu án endurgjalds.

Fyrir hverja veiðiferð skal útgerð skips tilkynna Fiskistofu ósk sína um að veiðieftirlitsmaður verði um borð í skipinu a.m.k. 7 dögum fyrir brottför þess frá Íslandi en a.m.k. 10 dögum fyrir brottför sé um að ræða brottför frá höfn utan Íslands.


7. gr.

Skipstjórar skulu skrá í afladagbækur sem Fiskistofa leggur til, nákvæmar skýrslur um veiðarnar. Einnig skulu skipstjórar skrá upplýsingar í Veiðidagbók NAFO og skal að lokinni veiðiferð afhenda Fiskistofu afrit af færslum fyrir viðkomandi veiðiferð (eyðublað b).


8. gr.

Gerð og búnaður veiðarfæra skal vera skv. reglum þeim er NAFO hefur sett.


II. KAFLI
Rækjuveiðar á Flæmingjagrunni.
9. gr.

Þeim íslenskum fiskiskipum er einum heimilt að stunda rækjuveiðar á Flæmingjagrunni, sem hafa fengið úthlutað aflamarki í rækju á því svæði. Í reglugerð þessari kallast eftirfarandi hafsvæði Flæmingjagrunn: Allt deilisvæði 3M ásamt þeim hluta deilisvæðis 3L sem er austan 46°40'V og sunnan 47°20'N.

Á árinu 2004 er íslenskum skipum sem veiðileyfi fá á Flæmingjagrunni, sbr. 2. gr., heimilt að veiða samtals 13.500 lestir af rækju á því hafsvæði. Af umræddu heildarmagni skal Fiskistofa úthluta hverju skipi aflamarki í rækju á Flæmingjagrunni á grundvelli aflahlutdeildar þess í þessum stofni.

Þegar rækja veidd á Flæmingjagrunni er reiknuð til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,82.


10. gr.

Skipstjóri skips sem heldur til rækjuveiða á Flæmingjagrunni skal tilkynna það Eftirlitsstöðinni við upphaf hverrar veiðiferðar. Einnig skal skipstjóri tilkynna Eftirlitsstöðinni þegar rækjuveiðum á Flæmingjagrunni lýkur. Að öðru leyti fer um tilkynningar samkvæmt 4. gr.


11. gr.

Ef samanlagður aukaafli allra tegunda sem eru undir stjórn NAFO verður meiri en 5% af þunga í hali er skylt að yfirgefa veiðistað. Ekki er heimilt að hefja veiðar innan 5 sjómílna frá þeim stað.


12. gr.

Við ákvörðun aflamagns af rækju, sem veidd er á Flæmingjagrunni, til aflamarks skal fara samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

Skipstjóri skal tryggja að a.m.k. tvisvar á sólarhring þá daga sem skip er að veiðum, sé valið af handahófi og vigtað úrtak hverrar afurðar þannig að það gefi sem réttasta mynd af magni afurða. Skal meðalþyngd úrtaka ásamt fjölda eininga lögð til grundvallar ákvörðunar til aflamarks. Skal fjöldi eininga í úrtaki vera samtals 20 af fjölda unninna eininga hverrar afurðar sem unnin er á sólarhring en þó þarf fjöldi eininga í úrtaki aldrei að vera meiri en 5% af fjölda eininga í hverri afurð á sólarhring.

Við vigtun á forsoðinni rækju sem fryst er í öskjur er heimilt að draga þunga umbúða frá vigtuðu magni.

Við vigtun á hrárækju sem fryst er í öskjur er heimilt að draga þunga umbúða auk 10% vegna vatns í afla frá vigtuðu magni.

Við vigtun á iðnaðarrækju sem lausfryst er í pokum eða fryst í blokkir, er heimilt að draga þunga umbúða auk 9% vegna vatns í afla frá vigtuðu magni.

Í veiðidagbók skal daglega skrá heildarmagn hverrar afurðar að frádregnum þunga umbúða og vatns. Þegar að lokinni veiðiferð og vigtun aflans skal senda Eftirlitsstöðinni upplýsingar um aflamagn í veiðiferðinni á því formi sem Fiskistofa leggur til. Útreikningum og öllum öðrum gögnum sem notuð eru til að ákvarða aflamagnið skal haldið til haga og afhent Fiskistofu óski hún eftir gögnunum.

Landi fiskiskip eigin afla á Íslandi skal hann endanlega veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 522, 18. ágúst 1998, um vigtun sjávarafla sbr. 22. og 23. gr. Sé rækjuafli fluttur til vinnslu á Íslandi með flutningaskipi eða öðrum hætti skal hann á sama hátt endurvigtaður á ákvörðunarstað og Fiskistofu sendar endurvigtunarnótur strax að vigtun lokinni.


13. gr.

Við útreikning á afla til aflamarks fyrir rækju á Flæmingjagrunni fer eftir reglugerð þessari, hvort sem landað er úr veiðiskipi á Íslandi eða erlendis.


14. gr.

Rækjusýni skulu tekin úr afla og skal Hafrannsóknastofnunin segja til um magn sýnanna og hversu oft þau skuli tekin. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt og send Hafrannsóknastofnuninni í Reykjavík að lokinni veiðiferð.


15. gr.

Óheimilt er að nota vörpu með minni möskva en 40 mm, mælt með tveggja mm þykkri stiku með 5 kg átaki á þann hátt sem reglur NAFO kveða á um. Þá er óheimilt að hafa um borð slík veiðarfæri án leyfis Fiskistofu. Gerð og búnaður veiðarfæra skal að öðru leyti vera skv. reglum þeim er NAFO hefur sett.


16. gr.

Skylt er að nota seiðaskilju við veiðarnar og má bil milli rimla ekki vera meira en 22 mm.


III. KAFLI
Rækjuveiðar á deilisvæði 3L.
17. gr.

Rækjuveiðar eru heimilar á þeim hluta deilisvæðis 3L sem er austan línu sem liggur milli 46°00N/47°53V, 46°40N/47°20V og 47°19N/47°43V á tímabilunum 1. janúar - 31. mars, 1. júlí - 14. september og 1. desember - 31. desember 2004. Veiðar á svæðinu mega aðeins fara fram á meira en 200 metra dýpi. Veiðar á svæðinu eru aðeins heimilar þeim íslensku skipum sem hafa aflamark í rækju á svæðinu. Einungis eitt íslenskt fiskiskip má vera á veiðum á svæðinu hverju sinni. Hafi íslenskt skip tilkynnt sig inn á svæðið, sbr. 19. gr., er öðru íslensku skipi óheimilt að hefja veiðar á svæðinu án samþykkis Eftirlitsstöðvarinnar.


18. gr.

Á árinu 2004 er íslenskum skipum sem fá veiðileyfi á deilisvæði 3L, sbr. 17. gr., heimilt að veiða 144 lestir af rækju á því hafsvæði. Fiskistofa skal úthluta aflamarki vegna ársins 2004 milli skipa í samræmi við aflahlutdeild þeirra í rækju á Flæmingjagrunni.

Þegar rækja veidd á deilisvæði 3L er reiknuð til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,82.


19. gr.

Skip sem hyggst stunda veiðar á deilisvæði 3L, sbr. 17. gr., skal tilkynna Eftirlitsstöðinni með a.m.k. 24 klukkustunda og í mesta lagi 48 klukkustunda fyrirvara um siglingu inn á svæðið og með sama fyrirvara tilkynna Eftirlitsstöðinni þegar siglt er út af svæðinu eftir veiðar á því. Í tilkynningu skal tilgreina tíma, dagsetningu og staðsetningu skipsins, áætlaða komu þess eða brottför af svæðinu og magn rækjuafla um borð. Tilkynna skal Eftirlitsstöðinni þegar veiðum er lokið á deilisvæði 3L, sbr. 17. gr. Að öðru leyti fer um tilkynningar samkvæmt 4. gr.


20. gr.

Ef samanlagður aukaafli, í veiðum á rækju á deilisvæði 3L, allra tegunda sem eru undir stjórn NAFO verður meiri en 2,5% af þunga í hali er skylt að yfirgefa veiðistað. Ekki er heimilt að hefja veiðar innan 5 sjómílna frá þeim stað.


21. gr.

Allur rækjuafli sem veiddur er á deilisvæði 3L, sbr. 17. gr., skal greinilega auðkenndur.


22. gr.

Við veiðar á deilisvæði 3L, sbr. 17. gr., skal lengd keðju sem festir bobbinga eða sambærilegan búnað við troll vera a.m.k. 72 cm.


IV. KAFLI
Karfaveiðar á svæðum 1F, 2G, 2H, 2J og 3K.
23. gr.

Reglugerðin tekur til veiða á úthafskarfa sem veiddur er á svæðum 1F, 2G, 2H, 2J og 3K og reiknast aflinn til aflamarks viðkomandi skips sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 69, 4. febrúar 2003 um veiðar úr úthafskarfastofninum 2003. Fiskistofu er heimilt að stöðva veiðar íslenskra skipa á ofangreindum svæðum þegar heildarafli skipa frá aðildarríkjum NEAFC nær 25.000 lestum.


Ýmis ákvæði.
24. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út á grundvelli hennar, skulu varða viðurlögum samkvæmt III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.


25. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands til þess að öðlast gildi 1. janúar 2004. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 36 frá 15. janúar 2003, um veiðar á samningssvæði Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, 2003, með síðari breytingum.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 30. desember 2003.

F. h. r.
Þorsteinn Geirsson.
Þórir Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica